Löðmundarvatn 27. júní 2020

Landmannaleið (F225) frá Landvegi (26) inn að Landmannalaugum opnaði kl.17:00 á föstudaginn. Það er ekki laust við að maður hafi verið að fylgjast töluvert grannt með því hvenær vegurinn opnaði og það verður að segjast að þetta er aðeins með seinni skipunum þetta árið, en á móti kemur að vel hefur tekist til, vegurinn góður og sérlega vel heflaður, sannkallað rennifæri frá Landvegi og alveg inn að gatnamótum F208 við Frostastaðavatn.

Dómadalur, nýr vegur til vinstri

Eftir hrellingar Dómadalsvatns á undanförnum árum, þá ætti Nýipollur í Dómadal ekki lengur að verða farartálmi að vori. Þetta vorið er hann öllu minni heldur en undanfarin ár og engin sjáanlegur samgangur á milli hans og Dómadalsvatns. Þar að auki hefur verið sett slaufa á Landmannaleið í Dómadal, vegurinn færður nær hlíðinni að sunnan og aðkoma að brekkunni upp á Dómadalshraun breytt. Þetta er einföld og snjöll leið til að halda veginum opnum og ætti að duga þótt Nýipollur taki upp á því að breiði aðeins úr sér.

Við veiðifélagarnir áttum mjög ákveðið erindi inn að Landmannahelli og þangað vorum við komin á föstudaginn rétt fyrir miðnættið. Jú, við fengum grænt ljós frá skálavörðum á mætingu, værum velkominn um leið og vegurinn opnaði. Smá viðvörun; það er mikil bráðnun í gangi að Fjallabaki um þessar mundir og bæði Rauðfosskvísl og Helliskvísl geta verið í ham þegar líða fer á daginn og því eins gott að fara varlega við vöðin undir Sauðleysu. Þetta á bæði við um vaðið til austurs í átt að Landmannalaugum og vöðin inn að Landmannahelli. Það örlar á sandbleytu við vaðið inn að Landmannahelli og því eins gott að skima það vel áður en lagt er í það.

Skafl og bleyta á tjaldsvæðinu

Það fór ekkert á milli mála á ferð okkar um Landmannaleið að það er allt svolítið með seinni skipunum þetta vorið. Töluverður snjór er enn í fjöllum og gróður víða brunninn undan klaka sem þegar hefur bráðnað. Við Landmannahelli var sama sagan, töluverður snjór í hlíðum Sátu og það er líka nokkur snjór við Landmannahelli, öllu meiri en við höfum séð í fyrstu ferðum okkar í gegnum árin. Tjaldsvæðið framan við hellinn er lokað og verður það einhverja viku(r) í viðbót. Þar er svo blautt undir og ofaná að ekki verður tjaldað eða farið inn á það með vagna alveg í bráð. Annað tjaldsvæði hefur verið tekið í gagnið og er það framan við skálann Gil. Það stæði er þó tæplega fyrir vagna og því rétt að ráðfæra sig við skálaverði áður en vagnar eru settir niður. Við t.d. settum okkar niður austan við skemmuna og ekki væsti um okkur þar á mölinni, þó í alfaraleið værum.

Skaflinn skammt austan Landmannahellis

Ég byrjaði laugardaginn á embættiserindum, tók stöðu á búnaði Ármanna sem er á staðnum en sá búnaður verður vonandi vel nýttur í sumar í Fiskirækt að Fjallabaki, m.ö.o. grisjun Löðmundarvatns. Eftir að hafa tekið vörutalningu og framkvæmt ástandsskoðun kíktum við á veginn austan Landmannahellis. Þar hefur einn vetrarskaflinn ekki enn gefið eftir, en vonandi verður þess ekki langt að bíða að hann hverfi og bílfært verður að Löðmundarvatni og þaðan niður á Landmannaleið við Kringlu.

Hér kemur svolítill kafli um akstur og ferðalög á þessum slóðum. Skafl eins og þessi við Landmannahelli er eflaust fær stærri bílum, en til að komast yfir hann þarf að fara upp og aftur niður. Þar mætir harðfennið mjög gljúpum jarðvegi og oft grónu landi. Það er blautt undir og þessi jarðvegur, hvernig sem hann er, skerst auðveldlega og tætist upp. Sumarið er sérstaklega stutt uppi á hálendi Íslands og ein ógætileg bílför geta skilið eftir sig ör til áratuga ef ekki er varlega farið. Ég skil vel óþreyju ferðalanga eftir því að komast um hálendið, en það ætti að vera einhverra daga virði að bíða þannig að umhverfið beri óþolinmæðinni ekki merki í áratugi. Meira að segja það sem virðist  við fyrstu sýn vera grófur melur getur verið þunn skán og undir gljúpur sandur eða leir þannig að hann skerst í sundur og bílar festa sig með tilheyrandi veseni og miklum skemmdum. Vinsamlegast virðið tilmæli land- og skálavarða á hálendinu og hlífið gróðri og torfærum slóðum rétt á meðan sumarið nær yfirhöndinni í þennan skamma tíma sem það varir. Þó ekki séu alltaf skýrar lokanir í gangi þá ætti skynsamleg hugsun að nægja til að hverfa frá ef fyrirséð er að skemmdir verða á gróðri eða slóðar of blautir.

Nýipollur í Dómadal

Eftir vettvangsskoðun við Landmannahelli, tókum við á okkur krók niður fyrir Sauðleysu og héldum um Kringlu inn að Dómadal. Vatnið í Dómadalsvatni var grænt af leysingavatni en vatnshæð vel innan marka og Nýipollur með minnsta móti. Vegurinn inn að Ljótapolli og Blautaveri var enn lokaður á laugardaginn, en fært var inn að vötnunum um línuveg frá F208 ofan við Hnausa. Töluverður krókur að fara, en vel þess virði fyrir veiðiþyrsta.

Lokað inn að Ljótapolli og Blautaveri

Það stendur vissulega hátt í Frostastaðavatni þetta vorið, en við höfum nú séð það verra. Nokkrir veiðimenn lögðu Veiðifélagi Landmanna lið og stunduðu grisjun í vatninu þegar við sáum til, en frítt er að veiða í Frostastaðavatni í sumar. Skila ber þó veiðiskýrslu til skálavarða í Landmannahelli eða í þar til ætlaða póstkassa við gatnamót F225 og F208 norðan vatnsins.

Frostastaðavatn – smellið fyrir stærri mynd

Eftir stutt stopp á Frostastaðahálsi lögðum við af stað til baka um Dómadalshraun, Dómadal og fyrir Kringlu inn að Landmannahelli. Þar sem við vorum beðin um að hlífa slóðanum inn að Herbjarnarfellsvatni varð ekkert úr heimsókn þangað að þessu sinni en ég græjaði mig upp og lagði land undir fót og labbaði inn í Löðmundarvatn á meðan veiðifélagi minn sagði pass og lagði hausinn á koddann.

Löðmundarvatn – smellið fyrir stærri mynd

Vatnið tók vel á móti mér að vanda, smá gára en ekkert til að kvarta yfir og ég ýtti varlega frá mér öllu ætinu sem flögraði þar um og setti toppflugupúpu undir. Þar sem mig bar fyrst að vatninu var lítið líf að sjá en þegar nær Löðmundi dró færðist líf í tuskurnar og fjör í leikana sem fóru þannig að ég landaði 24 vel höldnum bleikjum á stuttum tíma. Stórar voru þær e.t.v. ekki, nema þá þessi sem ég missti við háfinn, en allar fóru þær með mér til byggða og flestar þeirra eru nú að kæla sig í frystinum og bíða harðfiskgerðar í haust.

Löðmundarvatn – smellið fyrir stærri mynd

Þar sem við veiðifélagarnir höfðum öðrum hnöppum að hneppa, m.a. að gera og græja fyrir væntanlega Veiðivatnaferð, létum við gott heita upp úr kaffi á laugardaginn, pökkuðum saman og héldum í rólegheitunum aftur á malbikið. Það bíða okkar margir góðir dagar á hálendinu, vonandi verður þar ekkert sem sker í augu eftir þetta kalda og blauta vor.

Bleikjur í ferð
0 / 24
Bleikjur alls
3 / 32
Urriðar í ferð
0 / 0
Urriðar alls
3 / 7
Veiðiferðir
13 / 14

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com