Að verka væng – lokahnykkur

Síðasta hálfa mánuðinn hef ég rakið í nokkrum færslum ganginn í því að verka væng af rjúpu. Í síðustu færslu (á fimmta degi) var svo komið að ég hreinsaði vængina, skipti út grófu salti fyrir fínt og einsetti mér að leyfa þeim að þorna eins vel og mér var unnt. Kannski var ég bara heppinn eða íslenska rjúpan er svona þrifaleg, en ég varð á þessum hálfa mánuði ekki var við neina óværu í fiðrinu en til vonar og vara hef ég nú sett vængina í frystinn, ef ske kynni. Eftir einhverja daga í frystinum kem ég síðan til með að taka einn úr pokanum og hafa hjá mér við hnýtingarnar. Vel að merkja, ég rakst á ágætt ráð til að fyrirbyggja rakamyndun í þurrkuðum vængjum. Laumið eins og einum poka af rakakúlunum sem oft fylgja með raftækjum í pokann með fjöðrunum. Kannski einhver lumi á slíku núna eftir pakkaflóðið?

Niðurstaða: ég þori alveg að mæla með þessu fyrir þá sem tök hafa á. Það sem kom mér mest á óvart var hvað þetta tók stuttan tíma og hve einfalt mál þetta er. Næst væri ég alveg vís með að prófa eitthvað aðeins flóknara, t.d. að þurrka hnakka sem kallar á fláningu og aðeins meiri verkun á skinninu sjálfu.

Orðalisti

Ég hef verið að dunda mér við að setja saman orðalista með alfræðilegu ívafi fyrir stangveiði. Það er langt því frá að þessi listi sé alfarið minn, ég hef safnað saman upplýsingum víða að og náð innleggi frá ýmsum blokkurum héðan og þaðan, m.a. af veidi.is ásamt mjög góðum ábendingum Hilmars Jónssonar FFF flugukastkennara.

Nú er ég ekki að mælast til þess að veiðimenn temji sér öll íslensku heitin á aðferðum eða einstaka hlutum við veiðarnar, það gæti beinlínis hljómað hjákátlega. Eða eins og Zulu skaut að mér í svari á veidi.is:

…“Siggi! Tvíhalaðu þarna þvert á strauminn og vippaðu svo upp. Þegar túban kemur niður á breiðuna, strippaðu þá yfir hana svo að þú gárir vatnið.“ Hljómar spes 🙂 …

Orðalistinn er aðgengilegur hérna á síðunni og svo auðvitað úr valmyndinni hér að ofan sem Orðalisti. Miðað við fyrstu viðbrögð þessa lista geri ég mér vonir um að hann verði svolítið lifandi, í það minnsta á næstunni og menn haldi áfram að senda ábendingar um ný orð og/eða um það sem betur mætti fara í listanum.

Að verka væng – dagur fimm

Smellið á myndina fyrir stærri útgáfu

Á fimmta degi fannst mér tími til kominn að skoða aðeins betur undir saltið á vængjunum. Og viti menn, allir vöðvar voru svo þurrir að þau bein sem eftir voru stóðu vel út úr og auðvelt að fjarlægja þau. Eftir að þau voru farinn skóf ég afganginn af kjötinu burt og saltaði aftur í húðina með fínu salti í þetta skiptið. Þetta lofar virkilega góðu. Ætli ég láti þetta ekki vera svona í eina 4-5 daga í viðbót til að vera alveg öruggur um að fullri þurrkun sé náð.

Að verka væng – dagur tvö

Fyrst af öllu; mér urðu á mistök í gær þegar ég stakk vængjunum í rennilásapoka í stað þess að nota bréfpoka eða lítinn pappakassa. Þegar ég vitjaði vængjanna í morgun tók ég eftir því að töluverður raki hafði safnast innan í pokanum sem betur hefði sloppið út. Auðvitað fór ég á netið og fann þá einmitt svona tilfelli sem annar grúskari hafði lent í, hann skipti all snarlega um og setti vængina í bréfpoka þannig að betur loftaði um þá. Annars hefur þetta bara farið vel af stað, kjötið hefur nú þegar skroppið verulega saman. Spennan magnast…

Að verka væng – dagur eitt

Á netinu er hægt að nálgast upplýsingar um ýmsar leiðir sem menn hafa notað við að verka fuglsham eða væng til fluguhnýtinga. Næstu dagana, og vikurnar, ætla ég að lýsa ferli sem er í gangi hjá mér við að verka vængi af rjúpum sem góður félagi minn útvegaði mér. Ferlið er ekki mitt, aðeins lýsingin á því eins og það gengur fyrir sig hjá mér. Kosturinn við að verka væng frekar en ham í heilu lagi er að það er hlutfallslega mjög lítið kjöt sem þarf að þurrka í einum væng m.v. þann fjölda fjaðra sem maður ber úr bítum.

Smellið á myndina fyrir stærri útgáfu

Fyrst af öllu tók ég vængina og dáðist af þeim ótal mörgu flottu fjöðrum sem einn vængur af rjúpu gefur. Litlar, vel lagaðar á innanverðum vængnum sem eru tilvaldar t.d. í kynnar á Black Ghost eða vöf á ýmsar flugur.  Stórar og þéttar á utanverðum vængnum og allt þar á milli. Auðvitað passaði ég mig á því að gæta fyllsta hreinlætis því eins og við vitum þá getur ýmiss óværa fylgt fuglum. Vopnaður latexhönskum og beittum dúkahníf skar ég vel í vöðvann sem er að öllu jöfnu næst fuglinum og fjarlægði allt kjöt sem mér var unnt án þess þó að skemma fjarðrirnar eða húðina á vængnum.

Þar næst tók ég töluvert af grófu salti og nuddaði því vel í sárið. Ástæðan fyrir því að ég vil frekar nota salt heldur en t.d. Borax er einfaldlega sú að ég rakst á grein á netinu þar sem sagði að mönnum væri hættar við sárum fingrum við hnýtingar af fjöðrum sem kæmu af borax meðhöndluðum fugli. Saltþurrkun tekur þó lengri tíma.

Smellið á myndina fyrir stærri útgáfu

Að endingu tók ég vængina og stakk þeim með sárið niður í rennilásapoka (hér urðu mér á mistök, betra er að nota bréfpoka eða lítinn pappakassa, annars loftar ekki nógu vel um vænginn) og stráði vel af salti með. Sumir vilja meina að fyrst eigi að frysta vængina til að losna við mögulega óværu, en ég valdi þá leið að þurrka kjötið fyrst og frysta síðar, þ.e. þegar ég hefði náð sem mestu af kjötinu úr vængjunum. Mikilvægt er að loka pokanum vel þannig að óværan sleppi ekki út því ferlið við þurrkunina getur tekið nokkurn tíma. Hver sá tími er skýrist á næstu dögum, vonandi.

Umfram fjöðrum sem félagi minn lét mig fá stakk ég í annan poka og beint í frystinn þar sem hann fær að dúsa í 1-2 vikur, það á víst að duga fyrir stakar fjaðrir.

Ég leyfi ykkur svo að fylgjast með framvindunni.

Betri tíð með ….

Ég hef ekkert verið neitt rosalega duglegur að senda frá mér efni síðustu vikurnar, mikið að gera og spennandi hlutir á döfinni. Samt hef ég nú gefið mér tíma til að svipast um í ýmsum verslunum og þá helst í hnýtingarhornum þeirra, þ.e. að segja þar sem það finnst. Í stuttu máli; þetta er hálfgerð eyðimörk, í besta falli götótt. Úrvalið er afskaplega lítið og fátt um svör þegar spurt er hvenær menn hafi hugsað sér að taka inn nýjar vörur, nema á einum stað; Veiðiflugur.is  Hann Hilmar sagði mér skemmtilegar fréttir um daginn, von er á ‘alvöru’ búð eftir áramótin með stór-auknu úrvali og hnýtingarvörum. Auðvitað rúmar skúrinn á Kambsveginum ekki meira úrval þannig að ný staðsetning er á döfinni. Miðað við lýsingarnar á því sem hann ætlar að bjóða í nýju búðinni verður þetta algjört sælgætisland fyrir flugufíklana. Ég bíð spenntur…

Vikuskammtur af afsökunum

Fyrir viku smellti ég hér inn vikuskammti af ráðum til að brjóta stöngina sína. Nú er komið að því að gefa skammt af afsökunum sem hægt er að nota til að komast í veiði:

 

1. Viðskiptatengsl

Það er svo ótrúlega hvetjandi fyrir viðskiptinn að bjóða þeim í veiði“. Bankarnir og stórfyrirtæki hafa notað þessa afsökun með nokkuð góðum árangri síðustu árin. Ef þú ert ekki í bisness, snúðu henni þá bara við; „Þeir vildu endilega bjóða mér.

2. Fjölskyldutengsl

Sjáðu til, ég er kominn á þann aldur að ég finn hjá mér þörf til að styrkja tengslin við; krakkana, pabba, tengdapabba, stóra bróður“ Mundu bara að skipta reglulega um aðila þannig að þetta veki ekki óþarfa grunsemdir.

3. Gvuð, ég þarf svo að komast burt

Vinnan er alveg búinn að fara með mig þessar síðustu vikur, ég þarf bara að komast aðeins frá.“ Gættu þess aðeins að nota ekki þessa afsökun þegar þú ert í miðju sumarfríi, bættu þá Garð fremst í setninguna.

4. Þú mátt alveg koma með……

Eigum við ekki bara að fara saman, tvö ein?“ Hjá mörgum virkar þetta, semsagt öfugt. Henni dettur ekki í hug að fara með þér.  Hjá mér virkar þetta ekki, besti veiðifélagi minn er konan mín.

5. Njóttu tímans…

Elskan mín, ímyndaðu þér hvað það getur orðið rólegt og notalegt hjá þér svona ein heima (með krakkana)“.

6. Einstakt tækifæri

Strákarnir vildu ólmir bjóða mér, tækifæri sem býðst örugglega ekki aftur“. Borgaðu bara þinn hluta í kostnaðinum með öðru korti en hún fær yfirlit yfir.

7. Mér finnst þetta bara svo gaman

Heyrðu, mig langar svoooo að fara að veiða um helgina. Mér finnst þetta bara svo gaman“.  Þetta er væntanlega besta afsökunina og sú hreinskilnasta. Láttu reyna á hana, það kemur þér örugglega á óvart hversu vel verður tekið í hana.

Á allra færi

Nú fara línur að skýrast fyrir jólagjafalistann hjá veiðimönnum. The Source Ísland og nú bók Gunnars Bender, Auðar Ottesen og Páls Jökuls, Á allra færi. Eins og kynning ritsins segir, þá fjallar hún um mismunandi veiðiaðferðir, klæðnað veiðimanna, fjölskylduvæn veiðivötn og ár, flugur og hnýtingar þeirra o.s.frv.

Auðvitað blundar sú von í brjósti vatnaveiðimannsins að hér sé að ferðinni rit sem gerir vötnum og vatnaveiði aðeins betri skil en almennt hefur verið í veiðitengdri útgáfu og efni síðustu ár. Raunar hef ég aðeins rekist á eina góða bók um vatnaveiði á Íslandi, Vatnaveiði handbókin eftir Guðmund Guðjónsson frá 1989. Kannski væri ráð að endurskoða þá bók og gefa út aftur.

Vikuskammtur af ráðum

Það eru til ráð og leiðbeiningar fyrir öllu. Hér á eftir fara 7 örugg ráð til að brjóta veiðistöngina sína með einum eða öðrum hætti.

 

1. Skelltu bílhurðinni á hana

Það eru engin ný sannindi að bílar og veiðistangir eiga ekkert rosalega vel saman. Ef þú vilt vera nokkuð viss um að brjóta stöngina þína, leggðu hana frá þér í opna gátt á bíl, helst í roki eða sterkri gjólu. Ef þú ert ekki alveg eins öruggur um að vilja brjóta hana, lokaðu fram hurðunum og notaðu kverkina á milli spegils og hurðar í staðinn. Mundu bara hvar stöngin er þegar þú svo opnar hurðina.

2. Leggðu stöngina frá þér á jörðina

Stangir sem liggja flatar á jörð eru upplagðar til að stíga á og brjóta. Best er að hafa eitthvað hnökrótt undir, s.s. steina, möl eða stórgrýti.

3. Láttu stangarendann vísa fram á göngu

Ótrúlega einfalt ráð til að brjóta stangarendann. Notaðu tækifærið þegar þú ert að færa þig á milli veiðistaða og gerðu þitt ýtrasta til að halda stönginni í lágréttri stöðu, með stangarendann fram. Dreifðu svo athyglinni út um víðan völl, þá getur þú verið nokkuð öruggur um að þú hrasir og stingir endanum niður, krass.

4. Notaðu stöngina til að losa festur

Kastaðu naumt, helst í mikinn gróðurfláka eða gamla girðingu sem liggur hálf í kafi. Þegar þú ert svo búinn að festa vel og tryggilega, notaðu stöngina til að reyna að losa. Fyrst létt, síðar ákveðið og að lokum með miklu offorsi. Þú getur verið nokkuð viss um að eitthvað gefi eftir og ef þú ert heppinn þá er það stöngin, ekki hnúturinn. Ekki láta þér til hugar koma að taka í línuna/girnið til að reyna að losa, þá missir þú af upplögðu tækifæri til stangarbrots.

5. Ekki setja stöngina nógu vel saman

Ef þú setur stöngina þína saman með hálfum huga og aðeins að hálfu leiti þá átt þú ágætis möguleika á að brjóta hana með góðu kasti. Láttu helst skrölta aðeins í samsetningunni, þá hefst þetta miklu fyrr. Gott ráð er að að hunsa samsetningarnar algjörlega allan daginn, láttu eins og þær séu ekki til.

6. Notaðu MJÖG þungar flugur

Notaðu mjög þungar flugur fyrir léttu stöngina þína og kastaðu eins og þú byrjaðir að kasta. Leyfðu hvorki fram- né afturkasti að klárast, kastaðu með þröngum boga þannig að þú getir verið viss um að flugan sláist í stöngina og merji hana á viðkvæmum stað.

7. Ekki ganga frá henni, heldur á henni

Ekki vanda til geymslu að hausti. Ágætur staður er með garðverkfærunum og snjóskóflunni í skúrnum og blessaður/blessuð ekki vera að hafa fyrir því að taka hana sundur. Röð tilviljana klárar svo málið fyrir þig og stöngina.

Veiðikortið 2011 – viðbætur

Á næsta ári bætast ný svæði við á Veiðikortið.  Kærkomin viðbót fyrir okkur vatnaveiðifíklana. Fyrst skal telja nýjan skika í Þingvallavatni á milli Ölfusvatnsár og Villingavatnsár og svo Hraunsfjörðinn fyrir landi Berserkseyrar, sjóveiði. Að vísu telja þeir félagar einnig upp Geitabergs- og Eyrarvatn í Svínadal en þau komu í raun inn á kortið síðasta sumar. Nánar má lesa um þessa á heimasíðu Veiðikortsins.

Útgáfa The Source – Ísland

Tilkynning frá Stjána Ben.: Nú styttist í útgáfu mynddisks um fluguveiðar á Íslandi  en myndin mun koma út um miðjan nóvember.  Diskurinn ber heitið The Source – Ísland og er þriðja myndin í The Source  seríunni sem framleiddar eru af Gin-Clear Media, framleiðslufyrirtæki staðsettu á Nýja Sjálandi. Áður hefur fyrirtækið gefið út myndir um Tasmaníu og Nýja Sjáland en leikstjóri myndanna og eigandi fyrirtækisins, Nick Reygaert, hefur getið sér gott orð í heimi veiðikvikmynda-gerðar. Hann vann við tökur á myndum á borð við Trout Bum Diaries – Patagonia og Kiwi Camo ásamt því að vera aðal myndatökumaður myndarinnar The Search – Tahiti.  The Source  –  Ísland segir frá ferðalagi kvikmynda-gerðarmanna um fluguveiðilendur Íslands og sýnir landið með augum gestsins. Íslenskir veiðimenn slást í för með erlendum og færa þá í sannleikann um draumaland fluguveiðimanna – Ísland.  Öllum sportfiskum landsins  eru gerð góð skil. Kastað er á nýgengna laxa í kristaltærum ám, eyðifjörður kannaður í leit af sprækum og spriklandi sjóbleikjum og lindár Suðurlands þræddar með það í huga að freista risastórra urriða og sjóbirtinga.  Myndin hefur verið textuð með íslenskum texta ásamt því að bæði viðmót og kápa hafa verið færð yfir á íslensku en hægt er að velja um íslenskt eða enskt viðmót. Í tilefni útgáfu myndarinnar nú um miðjan nóvember verður boðið upp á sérstakan tilboðspakka með öllum þremur myndunum úr The Source seríunni. Pakkinn inniheldur því The Source  –  Ísland, The Source – Tasmanía og The Source – Nýja Sjáland en þær tvær síðastnefndu eru ekki með íslenskum texta.  The Source  –  Ísland verður dreift í búðir um miðjan nóvember en tilboðspakkann verður einungis hægt að kaupa af dreifingaraðila myndarinnar á Íslandi – I.A.T. slf.

Heimasíða I.A.T.

Allar nánari upplýsingar má finna á heimasíðu I.A.T. hjá Stjána Ben. í síma 867-5200 eða með tölvupósti.

Að breyta punktum í fjaðrir

Nei, ég er ekki alveg búinn að missa mig, en mig langar að benda mönnum á skemmtilega leið til að nota Vildarpunkta við innkaup á fluguhnýtingarefni. Hér fer á eftir smá lýsing á tilraun sem ég gerði.

Ég átti nokkra Vildarpunkta hjá Icelandair sem ég sá ekki framá að nota í ferðalög og ákvað því að breyta þeim í gjafabréf hjá Amazon. Ég byrjaði á því að stofna mér aðgang á síðunni www.points.com og tengja hann við vildarpunktana mína. Allt og sumt sem ég þurfti var vildarkortanúmer og lykilorð að Vildarklúbbi Icelandair. Eftir að Points.com hafði fengið upplýsingar um punktastöðuna mína, breytti ég þeim einfaldlega í gjafabréf hjá Amazon. Mjög einfalt ferli, fékk einkenni gjafakortsins sent í tölvupósti og gat því hafist handa að leita á Amazon. Auðvitað leitaði ég í veiðivörunum þeirra (þú getur prófað það hér) þar sem ég fann ham af Fasana á prýðilegu verði (12,95 USD). Annars fannst mér verðlagningin ekkert rosalega hagstæð, kannski óhagstætt gengi hafi þar einhver áhrif? Engu að síður, þá ákvað ég að prófa og staðfesti kaupin og notaði gjafabréfið mitt til greiðslu.  Þetta gerði ég 22.okt. og í dag, 9.nóv. var pakkinn minn kominn á pósthúsið og ég sótti hann, spenntur.

Upp úr pakkanum kom þessi fíni hamur, vel verkaður, þurr og fínn með óteljandi afbrigðum fjaðra. Þess má svo geta að ég þurfti ekki að borga nein aðflutningsgjöld eða VSK, en flutningskostnaðurinn frá USA var auðvitað nokkur.

Svona er nú hægt að breyta punktum í fjaðrir.

Haustverkin

Þegar veiðitímabilinu lýkur á haustinn er rétt að yfirfara búnaðinn og ganga frá honum til geymslu. Margir nota tækifærið til að lagfæra það sem látið hefur undan á vertíðinni og síðast en ekki síst, setja saman óskalistann fyrir jólinn. Hér á eftir fara nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga þegar vertíðinni lýkur. Vel að merkja, geymslan á að vera hæfilega köld og þurr „Store in cool and dry place“.

Byrjum á stöngunum. Áður en stangirnar fara í geymslu er vert að gefa gaum að lykkjunum. Lausar eða skaddaðar lykkjur skal lagfæra eða skipta um. Ójöfnur og brot í lykkjum skemma girni og línur á mjög skömmum tíma. Rétt er að þrífa stangirnar sjálfar með volgu sápuvatni, tannbursta úr lykkjunum og strjúka létt yfir þær með bóni. Fyrir nokkru fékk ég ábendingu frá eldri veiðimanni um að láta lönd og leið allar hugmyndir um að kaupa sérstakt bón; „Notaðu mælaborðahreinsi frá Sonax, bæði á stöngina og flugulínuna“. Ráð sem hefur reynst mér vel, viðnám stangar og línu minnkaði verulega, mun betra rennsli. Þegar þú ert búinn að bóna stöngina er eins víst að eitthvað af bóninu hefur lent á korkinum. Þá er einmitt tilvalið að þrýfa hann með svampi og volgu sápuvatni. Korkur er ekki viður, heldur börkur og þolir ekki mikla fitu eða viðarolíu þannig að forðast ætti slíka meðhöndlun. Ef korkur er orðinn verulega ljótur má strjúka lauslega yfir hann með blautum, fínum sandpappír og venjulegri handsápu.

Best er að geyma stangirnar í hólkum sem komið er fyrir á öruggum stað, helst inni í skáp eða föstum á vegg. Lausar stangir í geymslum eiga það til, eins og allt annað að detta á gólfið og þá er eins víst að stigið verði á þær og …… Sjálfur útbjó ég mér hólk úr 70mm svörtu plaströri sem geymir kaststangirnar okkar hjóna, hólkur sem nýtist mér á ferðalögum og sem geymsla á veturna.

Kasthjól þarf yfirleitt að annast meira en fluguhjól. Eðlilegt viðhald er einfaldlega að þrýfa þau og smyrja reglulega. Gættu þess vel að ná burt öllum sandi sem sækir sérstaklega í smurning. Vatn er ekki óvinur veiðihjóla, salt er það aftur á móti. Skolaðu vel af hjólinu í volgu vatni og leyfðu því að þorna áður en þú smyrð það upp á nýtt. Notkun plastefna í veiðihjólum hefur aukist mikið og því ætti að gæta þess að nota sýrulausa olíu og feiti (t.d. Vaseline). Minna er oft betra en meira, of mikil feiti dregur að sér sand og óhreinindi. Áður en þú gengur frá hjólinu, vertu viss um að taka bremsuna alveg af. Bremsa á hjóli getur skekkt legur og valdið því að allt sitji fast næsta vor.

Sumir ganga svo langt að henda öllu girni í lok veiðitímabilsins, segja að það lifi ekki veturinn, verði ónýtt að vori, stökkt og slitni við minnsta átak. Allt er þetta rétt og satt, upp að vissu marki. Gott girni geymist auðveldlega yfir veturinn sé það á annað borð ekki þegar orðið dapurt. Gættu þess aðeins að hlífa því fyrir sólarljósi og það sé ekki rakt þegar það fer í geymslu. Ég rak augun í grein þar sem veiðigúrú mælti með því að taka girnið af hjólinu, renna því í gegnum klút vættum í silicone hreinsiefni og setja það upp á lausa spólu og geyma það þannig yfir veturinn. Er að spá í að prófa þetta sjálfur í vetur. Silicone á víst að koma í veg fyrir að olíurnar gufi eins hratt upp úr girninu sem er ein helsta ástæða þess að það skemmist.

Fluguhjólin okkar eru yfirleitt betur varin en kasthjólin en auðvitað verðum við að sinna almennum þrifum á þeim eins og öðrum búnaði. Meira að segja dýrustu hjólin þurfa sitt viðhald, ekkert síður en þau ódýru. Gættu að smurningi og þurrkaðu vel öll óhreinindi utan af hjólinu. Þá kemur sér stundum vel að vera með tuskuna úr bóninu fyrir stangingar við höndina.

Hvort sem við erum að ganga frá flugulínunni okkar til geymslu yfir vetur eða aðeins fram að næstu veiðiferð, þá skal alltaf hugsa vel um hana. Haltu línunni hreinni með því að þvo hana reglulega upp úr volgu sápuvatni og bónaðu hana (sjá komment hér að ofan um Sonax). Það fyrsta sem ég skoða er samsetning lykkju við flugulínu. Ef minnsta brot er komið í samsetninguna þarf að lagfæra hana eða skipta um. Brot í samsetningu getur hleypt vatni að kjarnanum sem ruglar þyngd hennar. Og nú koma tiktúrurnar í mér (ykkur er frjálst að vera ósammála); Ekki nota tonnatak til að gera við línur, lykkjur eða tauma. Tonnatak verður stökkt þegar það þornar og brotnar á mjúku yfirborði. Sjálfur nota ég lím sem ætlað er fyrir tjarnardúka (Oase contact) sem harðnar ekki að fullu. Annað lím fyrir PVC hentar örugglega eins vel.

Hörðustu fluguveiðimenn segja að aldrei skuli geyma línur á kasthjólum vegna þess að allar línur „muna“ að meira eða minna leiti og vilja því hringa sig í köstum eftir einhverja geymslu. Það er minni hætta á svona hringamyndun á ‚Large Arbor‘ hjólum og þar sem rífleg undirlína er til staðar, en samt er best að hringa línuna út af hjólinu í viðráðanlega hönk u.þ.b. 20 sm víða og geyma hana þannig yfir vetrartímann. Og auðvitað gætum við þess að fluglínan fari aldrei rök í geymslu eða verði fyrir aðkasti sólar.

Vöðlurnar okkar eru oftast af tveimur gerðum; Neoprene eða öndunarvöðlur. Áður en öndunarvöðlurnar eru settar í geymslu er rétt að þvo þær skv. leiðbeiningum framleiðanda þ.e. ef það er í lagi yfir höfuð og rúlla þeim upp til geymslu. Ekki brjóta þær saman því brot geta framkallað leka.

Neoprene vöðlur eru þyngri viðfangs, ekki má setja þær í þvottavél, notið milda sápu og mjúkan bursta til að fjarlægja erfiðustu blettina og skolið vel af þeim með köldu vatni. Vöðlur með áföstum stígvélum er gott að hengja upp á hvolfi og þá gjarnan þar sem sól nær ekki til.

Í lok sumars hefur filtið á vöðluskónum okkar eyðst eitthvað og því er rétt að skoða það sérstaklega vel áður en gengið er frá þeim fyrir veturinn. Ýmsar skóvinnustofur geta verið okkur innan handar við sólun vöðluskóa og stígvéla.

Yfirleitt láta spúnarnir okkar aðeins á sjá yfir eftir sumarið. Ryð fer að gera vart við sig, krókar deigast eða jafnvel brotna. Skiptu um þríkrækjur og hringi sem eru ónýtir og strjúktu af spúnunum með klút vættum í maskínuolíu (saumavélaolíu). Ekki fjarlægja ryðbletti með vírbursta eða sandpappír, það kallar eins fram meira ryð næsta sumar.

Hér gefur að líta einn algengasta orsakavald myglu í veiðiboxinu. Ekki gleyma að yfirfara flotin, tæma þau sem hægt er af vatni og henda þeim sem eru brotin. Rakinn sem flot smita frá sér í geymslu getur skemmt ýmsa góða og verðmæta muni á einum vetri.

Það er ýmislegt annað sem fylgir okkur, s.s. háfurinn. Hvort sem hann er úr málmi eða timbri, þá þarfnast hann viðhalds og eftirlits. Háfar úr málmi eiga það til að fyllast af vatni sem menn ættu að reyna að tappa af áður en þeim er komið í geymslu. Tréháfa ætti að olíubera á hverju hausti með góðri viðarolíu (tekkolíu) og munið líka eftir að þrífa netið með mildum þvottalegi.

Og að lokum er hér eitt sem ekki á að setja í geymslu yfir veturinn. Sem mikill áhugamaður um fluguhnýtingar mæli ég ekki með að pakka fluguboxinu niður fyrir veturinn. Hafðu það á vísum stað, hnýttu þær sem vantar í safnið, prófaðu einhverjar nýjar og farðu reglulega yfir boxið því þig vantar örugglega alltaf einhverjar skemmtilegar í safnið.

Nú er það svo að svona samantekt getur verið eins manns verk, en efnið kemur víða að, úr bókum, af netinu eða beint frá einstaklingum. Of langt væri að telja upp alla viskubrunnana, en Tryggvi Hilmars. fær þakkir fyrir punkta og ábendingar um efni á bloggið.

Vatnaveiði – greinasafn

Nú þegar báðir hlutarnir af samantektinni minni um vatnaveiði eru klárir, ákvað ég að taka þá og klippa niður í hluta eftir viðfangsefni og setja undir Grúsk – Vatnaveiði:


 • VatnaveiðiSmá inngangur að samantektinni
 • Kort – Ábendingar um notkun á loftmyndum og kortum áður en lagt er af stað í veiðiferð
 • Þekktu fiskinn Stutt lýsing á þeim fiskum sem finnast í Íslenskum veiðivötnum
 • Hitastig og veðurfar – Hvaða áhrif þessir þættir hafa á veiðar í vötnum
 • Að spá fyrir fiski– Nokkrir þættir sem vert er að hafa í huga áður en veitt er
 • Dýpið – Hvar liggur fiskurinn í vatnsbolnum?
 • Bakkarnir – Nokkur atriði til að hafa í huga þegar byrjað er að veiða
 • Grasið er grænna … – Hvar er hægt að staðsetja sig í vegi flökkufisks
 • Lygnumörk – Örstutt um mörk logns og vinda
 • Lækir og ár – Örstutt um súrefnisfíkn fisksins
 • Köstin – Nei, ekki um bræðis- eða fýluköst, heldur mikilvægi góðra flugukasta
 • Að veiða fram í rauðan dauðann – Um gildi þess að breyta til og rækta þolinmæðina

Hver veit nema fleiri pistlar bætist við þegar fram líða stundir, það fer jú allt eftir eftirspurninni.

Skoðanakönnun

Það verður nú ekki sagt að gestir og gangandi hafi mikið til málanna að leggja, af 264 heimsóknum frá því ég setti skoðanakönnunina inn, tóku aðeins 11 þátt í henni. Bestu þakkir, þið 11.  Niðurstöðurnar eru varla marktækar en helstar voru þær að Greinar um vatnaveiði fengu 45,5% atkvæða, Lýsingar og upplýsingar um veiðistaði 27,27% en aðrir möguleikar minna.  Ég er að leggja lokahönd á samantekt ýmissa punkta um vatnaveiði sem munu koma inn á bloggið á næstu dögum.

The Source – Iceland

Loksins, loksins. Það er komið að því að þessi mynd verður gefin út á Íslandi með íslenskum texta og hvað eina. Það er Stjáni Ben. í Iceland Angling Travel sem gefur myndina út og hægt er að panta hana í forsölu hér. Klippan sem ég bloggaði fyrst um í maí 2010 er loksins að verða að raunverulegri mynd.

Vatnaveiði

Fluguveiði í vötnum á sér langa sögu, einna helst á Bretlandseyjum en það var ekki fyrr en upp úr miðri síðustu öld að menn fóru að kynna sér með markvissum hætti mismun fluguveiða í ám og vötnum. Hér á landi hefur orðið veruleg aukning í vatnaveiði síðustu ár. Engu að síður eru ennþá 80% veiðimanna sem hugsa mest um fluguveiði í ám. Af þeim er ríflega helmingur sem ekki formar að veiða í vötnum, aldrei.  Kannski ráða hér einhverju þau ummæli veiðimanna að vatnaveiði sé ekki allra því hún krefjist kunnáttu og innsýnar í atferli fisksins, eitthvað sem er ekki eins áríðandi í ám. Nú er ég lítið dómbær á þessar fullyrðingar, hef lítið sem ekkert stundað veiði í ám, en vissulega kannast ég við þá tilfinningu sem hreiðrar um sig innra með mér þegar ég kem að vatni í fyrsta skiptið og horfi yfir víðáttuna; Andsk…, hvar ætli hann haldi sig?

Þrátt fyrir áberandi skort á bókum um fluguveiði í vötnum er hægt að viða að sér ógrynni fróðleiks um vatnaveiði á ýmsum stöðum.  Hér á eftir ætla ég að leitast við að koma í orð einhverju af þeim ráðum og leiðbeiningum sem ég hef sankað að mér úr riti og ræðu síðan veiðibakterían greip mig. Mögulegar geta þessar leiðbeiningar orðið einhverjum stuðningur í að svara spurningunni hér að ofan. Munið aðeins eitt, þetta eru ekki reglur fyrir vatnaveiði, aðeins leiðbeiningar. Vel að merkja, það er aðeins til ein regla í veiði og hún er; Það er engin regla.

  Kort

  Áður en lagt er af stað er gott að nálgast allar tiltækar upplýsingar um vatnið. Ýmsar bloggsíður ásamt vefsíðum veiðifélaga luma á góðum ráðum um flugnaval og veiðistaði. Þessu til viðbótar höfum við núorðið nokkuð gott aðgengi að loftmyndum á netinu sem gefa okkur góða yfirsýn yfir dýpi og gróðurfar í vötnum. Má þar nefna Google Mapsja.is og Kortasjá Landmælinga

  Hér er ég búinn að útbúa kort af vatni og merkja inn á það staði sem ég vísa til í næstu greinum um vatnaveiði.

  Þekktu fiskinn

  Vatnaveiði á Íslandi bíður okkur yfirleitt upp á tvær tegundir vatnafisks; urriða og bleikju. Formsins vegna verð ég að nefna laxinn líka, en fæstir raunsæir veiðimenn leggjast í vatnaveiði til að fanga lax.

  Laxinn er kræsnastur allra laxfiska hvað varðar hitastig vatns og súrefnisinnihald, vill hlýtt og auðugt vatn en urriðinn sættir sig við aðeins kaldara vatn með minna súrefni.  Nægjusömust er bleikjan, sættir sig við kaldara vatn og mun lélegra fæði. Talið er að urriðinn gefi eftir þegar fæða er af skornum skammti og leitar hann þá oft nýrra heimkynna. Þetta virðist stangast á við þá staðreynd að urriðinn er svo kallaður óðalsfiskur, þ.e. hann helgar sér oft óðal í vatninu þaðan sem hann hreyfir sig eins lítið og unnt er. Bestu óðulin er eru oft setin af stærri fiskum sem verja þau með kjafti og klóm fyrir ungliðunum sem vilja tryggja sér sem mesta fæðu með sem minnstri fyrirhöfn. Þannig vill það til að ef við finnum gott óðal og krækjum í þann stóra, þarf ekki að líða langur tími þar til við náum öðrum urriða á sama stað. Oft er þá um aðeins minni fisk að ræða, m.ö.o. ungliði sem sætti færis að komast að góðu óðali þegar við höfðum krækt í fyrrum húsbóndann. Það er mín reynsla að innan við 1 klst. frá því að maður tók þann stóra er nýr aðili sestur að óðalinu. Innan þessa klukkutíma er oft hægt að egna fyrir ungliðana sem berjast um óðalið.

  Komi urriðinn ekki upp um sig með uppitökum getur verið ótrúlega erfitt að finna hann, jafnvel í litlum vötnum. Engar uppitökur geta gefið okkur vísbendingu um að hann sé í öðru æti en við yfirborðið og koma þá smáfiskar og síli til greina. Eitt verðum við þó að hafa í huga, óðal hvers urriða er oftast ekki stórt í sniðum, mögulega 15-20 m í þvermál, hugsanlega 50 m spilda meðfram vatnsbakkanum sem hann nýtir sér til fæðuöflunar (Kort – A).  Ekki er nú verra ef einhver gróður er á landareigninni þar sem hann getur falið sig að deginum til og skotist í veiðiferðir þegar skyggja tekur.

  Bleikjurnar á Íslandi skiptast í fjögur afbrigði; dvergbleikju, murtu, kuðungableikju og sílableikju. Það er óvíða sem öll afbrigðin fjögur koma saman í einu vatni, en eitt þeirra er þó Þingvallavatn. Síðast nefnda bleikja, sílableikjan er næstum eins mikill ránfiskur og urriðinn enda stærst allrar bleikju. Hún leggur sér til munns síli og seyði annarra tegunda, liggur almennt mjög djúpt í vötnum innan um gróður og sætir lagi að hrifsa smáfisk sem syndir hjá. Kuðungableikjan sækir meira í smádýr; bobba, krabbadýr, kornátu og vatnsfló auk flugna á öllum þroskastigum. Sumir ganga svo langt að segja að bleikjan éti nánast allt sem að kjafti kemur, sem er auðvitað bara skemmtilegt fyrir okkur fluguveiðimennina því þá höfum við úr nánast óendanlegum fyrirmyndum af flugum að velja.

  Þegar kemur að dvergbleikjunni er einfaldast að segja að hún heldur sig á minna dýpi en murtan, étur aðallega bobba og smágerð krabbadýr á meðan murtan heldur sig í öllum vatnsbolnum og telst til sviflægra fiska.

  ‚Sjaldan er ein bleikja stök‘ snéri einhver útúr málshættinum og þetta má alveg til sannsvegar færa.  Á meðan urriðinn heldur sig heima við, er bleikjan á sífelldu iði og flakkar um vatnið í torfum, einstaklega félagslynd og hefur orðið uppvís að töluverðum ferðalögum sé hún á eftir æti.  Þegar maður lendir í svona bleikjuskoti getur verið á í hverju kasti og svo, ekkert.  Ekki örvænta, það getur verið stutt í næstu torfu. Bleikjan á það einnig til að liggja á grynningunum og úða í sig smádýrum, svo fremi hún telji sig örugga. Oft þyngist í bleikjunni þegar kemur að hrygningu og hún leitar á meira dýpi.

  Fiskur verður seint talinn til skörpustu lífvera þessa heims.  Að nokkru leiti má líkja fiski við hvítvoðung.  Eðlishvötin ræður mestu um atferlið, hvíld tekur við af athöfn, svengd kallar á fæðu, áreiti er svarað með gagnárás og forvitninni er oft svalað með því að smakka á hlutunum.  Þetta getum við nýtt okkur í veiði.  Fiskur tekur flugu af þremur ástæðum; svengd, forvitni eða árás gegn einhverju sem hann telur ógna sér.