Festingar á flugu

Ekki þurfa allir listar að vera skráðir. Með tíð og tíma verða til listar í kollinum á hnýtaranum sem hann hefur í huga þegar hann hnýtir. Einn þessara lista sem ég hef myndað mér er hvar festa skuli tiltekna hluta flugunnar á öngulinn.

Hluti flugunnar Staðsetning Stærð Athugasemdir
Hnýtingarþráður festur Rétt aftar við auga flugunnar 4-5 vafningar Sumar flugur þarf að undirbyggja alveg aftur að bug og þá er það gert um leið og þráðurinn er festur
Broddur Við leggenda U.þ.b. jafn langur og haus flugunnar er áætlaður Hnýtt frá búk og aftur og til baka
Skott Festing ekki aftar en í flútti við odd önguls. 1 til 1,5 sinnum lengd leggjar. Flestar púpur eru með helmingi styttra skott
Rass Rétt framan við skott Einn eða tveir vafningar af efni
Vængstæði Frá skotti og fram að haus Á púpum er vængstæði gjarnan aðeins yfir frambúk
Vöf Vafið grysjótt yfir búkinn 4-6 vafningar með góðu bili á milli. Færri fyrir dubbaðan búk. Algengast er að hnýtarar vefji of oft yfir búk, gætið að því að undirliggjandi efni sjáist vel
Dubb Byrjar við skott og fram að haus. Byrja smátt, alltaf má bæta við Búkur púpu er yfirleitt afturmjókkandi
Skegg púpu Rétt aftan við haus U.þ.b. ¼ leggjar
Skegg votflugu Rétt aftan við haus Ætti að snerta odd öngluls
Skegg straumflugu Rétt aftan við haus Ætti að ná næstum að bug önguls
Vængur votflugu Fast við haus Örlítið lengri en leggurinn
Vængur staumflugu Rétt aftan við haus Allt að tvöföld legglengd

Tekið skal fram að þessi listi verður eflaust breytilegur eftir stíl hvers og eins hnýtara. Einhverjum gæti þótt þetta óþarfa listi, en hafa ber í huga að þessi atriði geta vafist fyrir byrjendum.

300 Febrúarflugur

Í kvöld er þriðja Febrúarflugukvöldið þetta árið í Árósum, Dugguvogi 13 kl. 20:00 og það má teljast skemmtileg tilviljun að seinni partinn í dag datt 300. flugan inn í átak ársins.

Í kvöld ætlar Kjartan Antonsson að leiða gesti um leyndardóma Zeldu, þ.e. flugunnar í Árósum og eflaust detta einhverjar flugur inn á hópinn á Facebook í lok kvöldsins því það verður örugglega hnýtt eitthvað á hliðarlínunni eins og venjulega.

Keilur í mm og tommum

Þótt stærðir keilna til fluguhnýtinga séu ekki jafn margar og kúlna, þá getur verið gott að hafa við hendina smá gátlista yfir stærðir þeirra og passandi króka.

X-Small 5/32” ~ 4.0mm 6,8 & 10
Small 3/16” ~ 4.8mm 4,6 & 8
Medium 7/32” ~ 5.5mm 2,4 & 6
Large 1/4” ~ 6.4mm 1,2 & 4

Einhverjar stærðir (mm) kunna að koma einkennilega fyrir sjónir, en það helgast af því sem ég hef fundið erlendis (US tommur) og ég paraði með námundum við þekktar evrópskar stærðir.

Febrúarflugukvöld 19. febrúar

Þriðja Febrúarflugukvöld ársins verður nú á mánudaginn í Árósum Ármanna að Dugguvogi 13. Að þessu sinni mun Kjartan Antonsson, höfundur Zeldu heimsækja okkur en sú fluga var trúlega mest á milli tanna bæði fiska og manna á liðnu ári. Saga Zeldu er nokkuð lengri en margir vilja halda, flugan var fyrst reynd árið 1999, en þá hafði Kjartan gengið með hugmyndina að henni í kollinum í einhver ár.

Kjartan Antonsson með vænan fisk sem auðvitað tók Zeldu

Þátttakendur í Febrúarflugum eru sérstaklega hvattir til að mæta með hnýtingagræjurnar með sér og smella í eins og eina eða fleiri flugur á milli þess sem þeir geta fylgst með Kjartani á skjánum. Auk þess eru allir áhugamenn um flugur og fluguhnýtingar ævinlega velkomnir til að fylgjast með því sem um er að vera á staðnum. Veðurútlitið ætti ekki að skemma fyrir, hitatölur í kortunum og skaplegt veður almennt.

Sem sagt; Mánudagskvöld kl.20 í Árósum, Dugguvogi 13.