Black and Orange Marabou

Þessa flugu þekkja margir, en ekki endilega undir upprunalegu heiti sínu. Í dag sést þessi fluga gjarnan í boxum veiðimanna og aðspurðir segja þeir hana vera Orange Dentist. Þegar vel er að gáð er þetta skiljanlegur misskilningur, flugunum svipar glettilega mikið saman, þó Dentist sé að vísu rauður og með hárvæng. Black and Orange Marabou er hugarfóstur Taff Price og ef mig misminnir ekki, þá kom hún fyrst fram í þeirri góðu bók Fly Patterns: An International Guide sem kom út árið 1986. Íslenskir hnýtarar hafa eflaust séð þessari flugu bregða fyrir í kjöreigninni Straumflugur sem Sigurður Pálsson og Lárus Karl Ingason unnu að í sameiningu að árið 2008.

Fyrst hnýtti ég þessa flugu einmitt sem afbrigði af Dentist og hef gert ágæta veiði með hana í þessum búningi, en þykir rétt að koma henni formlega á framfæri undir réttu nafni. Sjálfur hef ég hana gjarnan í smærri stærðum, en hún er svo sem til hjá mér á #6 eins og Taff mælti með. Þótt Jim Misiura hnýti hana þyngda hér að neðan, þá hef ég ekki lagt það í vana minn hingað til.

Höfundur: Taff Price
Öngull: straumfluguöngull 6 – 12
Þráður: svartur 8/0 eða 70
Skott: appelsínugular fanir
Vöf: gyllt ávalt tinsel
Búkur: gyllt flatt tinsel
Vængur: svart marabou
Skegg: appelsínugular fanir
Kinnar: frumskógarhani
Haus: svartur

 

Cats Wisker

Veiðihár kattarins hefur verið í hópi vinsælustu vatnaveiðiflugna Bretlandseyja frá því hún kom fram árið 1985. Upphaflega notaði höfundur hennar, David Train, veiðihár af heimiliskettinum til að stífa marabou vænginn þannig að hann vefðist ekki um legginn. Grínverjar hafa síðan komið með þá sögu að nær allir kettir á Bretlandi hafi verið orðnir sköllóttir í framan og því hafi David hafi neyðst til að breyta uppskriftinni lítillega, slíkar voru vinsældir flugunnar.

Upphafalega voru hvorki vaskakeðja né önnur augu á þessari flugu, en fljótlega bættust þau við og nú er svo komið að flugan er til með öllum mögulegum útfærslum höfuðskrauts.

Þessi fluga hefur gefist mér vel í vatnaveiði hér heima snemmsumars og síðla sumars þegar skyggja tekur. Á drungalegum sumardögum hefur hún gert skemmtilega hluti og ekki er hún síðri þegar urriðinn liggur djúpt og chartreuse liturinn nýtir sín best.

Höfundur: David Train
Öngull: straumfluguöngull 6 – 12
Þráður: hvítur
Skott: hvítt marabou (UV marabou ef vill)
Búkur: ljómandi lime grænt Fritz eða sambærilegt chartreuse litað efni
Vængur: hvítt marabou (UV marabou ef vill)
Haus: kúla, vaskakeðja, dumbbell eða einfaldlega úr hnýtingarþræði

Fréttir af Febrúarflugum

Í gærkvöldi fóru flugurnar / myndirnar yfir 700 sem eru komnar inn á Febrúarflugur, bæði á Facebook og hér á síðunni. Meðlimir hópsins eru orðnir 865 og fjölgar dag, frá degi. Að gamni kíktum við á heimsóknartölurnar inn á myndasafnið hér á síðunni og svo skemmtilega vildi til að þær voru einmitt 2021 það sem af er og það eru u.þ.b. 8000 heimsóknir komnar inn á flugubankann okkar hérna á síðunni í febrúar.

FOS.IS gerði smá tilraun á mánudagskvöldið og opnaði Hnýtingaherbergi á Facebook frá kl.19 og fram til kl.22. Um og yfir 20 meðlimir Febrúarflugna litu við, hnýttu flugur eða voru bara að forvitnast hvað væri í gangi. Væntanlega gerum við þetta aftur innan skamms, enda létt og lipurt að stilla vefmyndavélinni upp og leyfa henni að rúlla á meðan við bætum í boxið fyrir næsta sumar.

Bjargvætturinn

Hér er á ferðinni fluga sem ekki hefur farið mjög hátt um, en hún á sér samt marga, dygga aðdáendur sem segja hana sérlega skæða í Hlíðarvatni í Selvogi, Þingvöllum og víðar. Flugan er íslensk að ætt og uppruna, Birgir Thorlacius er höfundur hennar og ég sá þessa flugu fyrst í boxi veiðimanns í Selvoginum og skömmu síðar birti Árni Árnason uppskrift hennar á vef Árvíkur og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér efnið sem þar er að finna.

Þegar ég hnýti þessa flugu, þá hef ég stolist til að nota hvítt UV garn í stað Árórugarns og stundum skipt ullargarninu í búkinum út fyrir sléttara Árórugarn og ef eitthvað er, þá finnst mér hún meira fyrir augað þannig.

Höfundur: Birgir Thorlacius
Öngull: grubber 12 & 14
Þráður: svartur 8/0 eða 70
Vöf: silfurvír
Búkur: svört ull
Vængstubbar: hvítt Árórugarn eða hvítt UV
Kragi: rautt GloBright
Haus: silfurkúla

Fréttir af Febrúarflugum

Hver hefði trúað því að það séu slétt 70 ár á milli hnýtaranna sem standa á bak við þessar tvær flugur sem komu inn á Febrúarflugur í dag, en það er nú samt svo.

Þessa flugu hnýtti Hilmar Þór 11 ára og setti inn á Febrúarflugur í dag. Hilmar hefur hrifið meðlimi Febrúarflugna þetta árið með flottum flugum. Sannanlega efnilegur hnýtari hér á ferðinni.

Góðvinur FOS.IS og Febrúarflugna, Stefán Bjarni Hjaltested fangar 81 árs afmælisdegi sínum í dag, en það kom ekki í veg fyrir að hann setti þessa flugu inn í dag.

Annars er það að frétta af Febrúarflugum að fimmhundraðasta innleggið kemur að öllum líkindum inn í kvöld (fimmtudagskvöld). Meðlimum hópsins fjölgar sífellt og telja nú 821 og nýir meðlimir eru ótrúlega duglegir að setja inn myndir, það er gróska í fluguhnýtingum.

FOS.IS stendur fyrir tilraun n.k. mánudag þegar við ætlum að prófa að opna Hnýtingaherbergi með Facebook Room í hópinum. Tilgangurinn er að skapa vettvang þar sem hnýtarar geta án mikillar fyrirhafnar hitt aðra hnýtara á netinu, mögulega sett í nokkrar flugur, kastað fram fyrirspurnum eða hverju því sem þeim dettur í hug. Ef vel tekst til, þá gæti þetta orðið að reglulegum viðburði í hópi Febrúarflugna.

 

Vertu í lit

Síðan 1975 hefur Sjónvarpið sent út í lit og á svipuðum tíma komu fram UV efni til hagnýtra nota, s.s. tannlækninga. Ef við sláum þessu hvoru tveggja saman, þá getum við sagt mjög ákveðið að nú sé löngu tímabært að fluguhnýtarar taki upp litað UV lím.

Sjálfur var ég heldur seinn að tileinka mér þetta lím, aðeins örfá ár síðan og fyrstu mánuðirnir og misserin fór ég alveg hamförum í að hnýta hinar og þessar flugur og notaði UV lím í nánast allt sem líma þurfti niður. Þegar nýjabrumið fór aðeins af UV líminu tók ég aftur fram gamla góða lakkið og Zap-A-Gap, en nota nú UV límið einkum til að gefa flugunum aukið líf og þá sérstaklega púpum.

Eitt er það þó ekki sem ég hef enn tamið mér að nota UV litin í og það er að merkja flugurnar eftir þyngd með mismunandi lit af UV lími. Mér skilst að þetta sé einföld og góð leið til að aðgreina flugur í boxinu eftir því hvort þær hafi verið þyngdar sérstaklega eða ekkert. Stundum er nefnilega ekki gott að gera sér grein fyrir auka þyngdinni þegar maður handleikur fluguna með köldum fingrum. Einfaldasti litakóðinn sem ég las um í þessum tilgangi er að léttasta útgáfan er með gulum punkti, miðlungs orange og sú þyngsta rauðum.

Ég get ekki sagt að ég sé mjög litaglaður í UV líminu mínu, ég á glært, gult, rautt, brúnt og svar. Fleiri eru nú litirnir ekki, en ein not fann ég strax fyrir tvo af þessum litum mínum og það er að setja gula punkta sitt hvoru megin á kúluna á fluguna mína, herða þá og setja síðan minni rauða punkta í miðjuna á þeim gulu. Þá er ég kominn með endingargóð augu á straumfluguna og ég þarf ekkert að vesenast með skull-hausa og límmiða.

Helst nota ég reyndar UV límið til að loka vænghúsi púpa eða setja yfir bak á flugu. Ég nota þá gjarnan flúrljómandi útgáfu af UV, svona rétt aðeins til að kveikja aðeins betur í fiskinum. Jú, svo má ekki gleyma að ég nota UV lím í að útbúa eftirlíkingu af skötuorminum, flugunni sem loksins gaf mér fisk í sumar sem leið, en sú fluga verður endurhönnuð í vetur.

10.02.21 1.000.000

Undarleg fyrirsögn og ekki sú fyrsta hér á síðunni. Í dag er 10. febrúar 2021 og talan á bak við dagsetninguna er fjöldi heimsókna á vefinn frá því hann fór í loftið 21.05.2010

Aldrei hefði mig grunað að þetta pár mitt næði þessu flugi og nyti þess að vera með 873 áskrifendur á síðunni sjálfri, 673 fylgjendur á Facebook og 693 á Instagram.

Takk fyrir samfylgdina og þessar milljón heimsóknir á liðnum árum.
Kristján Friðriksson

Loch Ordie

Loch Ordie er eitt af fjölmörgum heiðarvötnum Skotlands og flest þeirra hafa eignast flugur sem skírðar eru í höfuðið á þeim. Loch Ordie er engin undantekning frá þessu og hér gefur að líta þá flugu. Upprunalega var þessi fluga hnýtt í afar einfaldri útgáfu, aðeins þrjár mislitar hænufjaðrir vafðar í hringvöfum fram eftir legg önguls og síðan svartur haus. Á síðari árum hafa sprottið fram ýmsar útgáfur og auknar af þessari flugu, sumar með búku undir hringvöfunum, jafnvel hreinræktaðar straumflugur með gylltum búk og skotti. Skemmtilegasta útfærslan sem ég hef séð er túpa sem sögð er hafa gefið ágætlega í ánni Tay sem rennur rétt vestan við Loch Ordie.

Til gamans má geta þess að skammt sunnan Loch Ordie er bærinn Dunkeld sem svo skemmtilega vill til að á sér nöfnu meðal flugna, falleg fluga og ein af frægari silungaflugum Skotlands, þó hún sé reyndar ensk að uppruna.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 8 – 12
Þráður: Svartur 8/0 eða 70
Aftasta hringvaf: dökkbrún hænufjöður
Miðvaf: ljósbrún hænufjöður
Fremsta hringvaf: hvít hænufjöður
Haus: svartur

Hér fer Davie McPhail fimum höndum um þessa frábæru flugu, gætið vel að mjög góður útskýringum Davie í þessu myndbandi

Hér tekur Andrew Herkes eina útfærslu af Loch Ordie með búk og aðeins tveimur fjöðrum í hringvafi.

Fréttir af Febrúarflugum

Nú er rétt tæp vika liðin af Febrúarflugum og flugurnar eru komnar vel yfir 300 og meðlimum hópsins hefur fjölgað úr 700 í 796. Af þessum 796 meðlimum hópsins á Facebook hafa rúmlega 90 sett inn myndir af flugum, þeir duglegustu á hverjum degi, aðrir eitthvað færri. Það er e.t.v. ekki fjöldinn sem skiptir máli, en vissulega alltaf gaman að sjá sem flestar flugur af öllum mögulegum gerðum.

Það er áberandi hve yngri meðlimum hefur hlutfallslega fjölgað mest það sem af er mánaðarins. Þetta gleður FOS.IS alveg sérstaklega því þetta er skýrt merki þess að það er bjart, ef ekki skjannabjart, framundan í fluguhnýtingum á Íslandi. Eina sem mætti mögulega setja út á í þessum tölum er rýr hlutur kvenna. Við þykjumst vita að mun fleiri konur hnýti flugur heldur en þessi 5% og það væri gaman að sjá fleiri í hópinum.

Viðbrögð þeirra sem fylgjast með framlagi hnýtara hafa heldur ekki látið á sér standa. Vinsælustu færslurnar hafa fengið allt að 120 þumla og yfir 20 ummæli, öll vinsamleg og uppbyggjandi.

Eins og endranær er flugunum bætt inn í myndasafn á FOS.IS nokkuð reglulega þannig að fleiri en Facebook notendur geti notið þeirra meistarastykkja sem koma fram í mánuðinum.

Indian Streamer

Ef eitthvað er að marka veraldarvefinn, þá kom þessi fluga fyrst fyrir almenningssjónir árið 1855 í vesturheimi. Hennar ku getið í bók Campbell Hardy Sporting Adventures in the New World þó mér hafi ekki tekist að finna það nákvæmlega í þeim tveimur bindum bókarinnar sem telja alls rúmlega 700 bls.

Það verður seint sagt um þessa flugu að hún sé falleg eða flókin, en hvorugt skiptir höfuðmáli svo lengi sem hún veiðir og að sögn gerir hún það.

Sagan segir að fyrstu kynslóðar innflytjandi í Nova Scotia hafi soðið hana saman, eða einhverja mjög svipaða, þegar hann sá sjógenginn lax og regnbogasilung elta sandsíli við ósa áa Nova Scotia. Eitthvað fannst honum útliti flugunnar víst svipa til hártísku frumbyggja Nova Scotia (Miꞌkmaq) á þessum tíma og gaf henni því nafnið Indian Streamer.

Höfundur: óþekktur
Öngull: legglangur straumfluguöngull #4 – #10
Þráður: Svartur 8/0 eða 70
Vöf: svartur vír
Búkur: hvítt ullargarn
Kambur: 4-5 peacock
Haus: svartur

Sjálfur hnýti ég þessa flugu úr UV ljómandi hvítu ullargarni og ég nota svart vinyl rip í stað vírs. Síðari tíma viðbót, eins og sjá má á myndbandinu hér að neðan, er að setja kvið á fluguna úr silfruðu tinsel.

Hólmfríður

Hólmfríður – Hnýtt af Stefáni Bjarna Hjaltested

Ein veiðnasta straumfluga hérlendis í urriða, staðbundinn og sjógenginn. Nú ber svo vel í veiði að hér þarf ekki að hafa mörg orð um fluguna, alla söguna af tilurð hennar og í kaupbætti hvernig höfundur hennar, Kolbeinn Grímsson hnýtir hana má sjá og heyra í myndbandinu hér að neðan.

Stefán Bjarni Hjaltested hnýtti allar flugurnar á þeim myndum sem koma fyrir sjónir sem er vel við hæfi því hann og Kolbeinn veiddu oft og mikið saman. Þess má geta að Kolbeinn Grímsson var fæddur 10. desember 1921 og á þessu ári eru því liðin 100 ár frá fæðingu hans.

Höfundur: Kolbeinn Grímsson
Öngull: Legglangur 2 – 10
Þráður: Svartur 6/0
Búkur: Rauð ull aftan við haus
Skegg: Silfrað perlu flashabou, rautt marabou
Vængur: 2/3 gult marabou, 1/3 brúnt marabou
Kinnar: frumskógarhani
Haus: svartur

Sagan öll og handbragðið má sjá í þessu myndbroti úr Sporðaköstum frá árinu 1993:

Fréttir af Febrúarflugum

Það var með ólíkindum hvernig fyrstu dagurinn í Febrúarflugum æddi áfram. Rétt fyrir miðnættið voru 52 flugur komnar inn í hópinn og þátttakendum fjölgaði snarlega úr 700 í 732. Frábærar undirtektir og greinilega mikil stemming í hnýturum.

Við munum uppfæra FOS.IS reglulega með myndum af Facebook og nú er fyrsti skammturinn kominn inn á myndasíðu Febrúarflugna 2021 hér á síðunni. Þannig gefst þeim sem ekki eru á Facebook einnig kostur á að fylgjast með framvindunni.

Svo má ekki gleyma Instagram þar sem hnýtarar merkja flugur sínar með #febrúarflugur og/eða #februarflugur

Endurbirting

Það er hverjum manni holt að þekkja sín takmörk. Ég á mér mörg takmörk og meðal þeirra er fluga sem heitir Rektor. Lengi vel var takmarkið að hnýta þessa flugu þannig að ég væri sáttur við útkomuna. Ég horfði endalaust á höfundinn hnýta hana og þóttist alltaf vera að ná henni, en þegar upp var staðið var ég aldrei nægjanlega sáttur við útkomuna.

Það eru einhver ár síðan ég setti uppskriftina að Rektor hér inn á síðuna með mynd og myndabroti af höfundi hennar, Kolbeini Grímssyni hnýta hana. Sjálfum fannst mér það alltaf ljóður á þessari færslu minni að myndin af flugunni var afleit, þannig að úr varð að ég leitaði til mér mikið færari hnýtara, Stefáns Bjarna Hjaltested og bað hann hnýta Rektor sem ég mætti nota sem módel í myndatöku. Mér fannst það liggja beinast við að fá Stefán til að hnýta þessa flugu, lærisvein og veiðifélaga Kolbeins Grímssonar.

Rektor Kolbeins Grímssonar – hnýtt af Stefáni Bjarna Hjaltested

Nú hef ég uppfært þessa færslu mína með myndum af handbragði Stefáns Bjarna og þykir mér við hæfi að geta þessa í dag, fyrsta dags Febrúarflugna 2021. Kolbeinn Grímsson hefði nefnilega orðið 100 ára á þessu ári, fæddur 10. desember 1921 á Austurbakka við Brunnstíg í Reykjavík. Kolbeinn lést í ársbyrjun 2006, en úr starfi mínu innan Stangaveiðifélagsins Ármanna, þá mætti telja að Kolbeinn væri enn í fullu fjöri, svo oft ber hann á góma þar.

Hólmfríður Kolbeins Grímssonar – hnýtt af Stefáni Bjarna Hjaltested

Þennan mánuð ætla ég að vanda að hnýta þær flugur sem Kolbeinn er einna þekktastur fyrir, meira að segja Rektor því ég veit að urriðinn er ekki nándar nærri eins kræsinn á útlit flugna eins og ég.

Fyrri Febrúarflugur

Í dag er föstudagurinn fyrir Febrúarflugur og eflaust er einhverja farið að klæja í að setja inn myndir á mánudaginn þegar Febrúarflugur 2021 hefjast. Það væri e.t.v. tilvalið að renna í gegnum Febrúarflugur fyrri ára, velja sér einhverja árennilega og æfa sig um helgina. Með því að smella á myndirnar hér að neðan má sjá allar flugurnar sem þátttakendur hafa lagt fram í átakinu frá byrjun, að fyrsta árinu undanskildu.

Styrktaraðilar átaksins hafa ekki látið sitt eftir liggja og brugðist einstaklega vel við þetta árið. Viðurkenningarnar sem verða dregnar út í lok febrúar hafa trúlega aldrei verið jafn rausnarlegar og nýir styrktaraðilar bæst í hóp þeirra sem stutt hafa við bakið á átakinu frá byrjun. FOS.IS mun kynna styrktaraðila ársins til leiks með hefðbundnum hætti strax eftir helgi, enn eiga nokkrir þeirra eftir að svara sníkjupóstinum okkar og því ekki tímabært að upplýsa um alla sem styðja við bakið á okkur og gera okkur kleift að sýna hnýturunum þakklætisvott fyrir þátttökuna.

Umfram allt er þetta þó átak / vettvangur / tækifæri fyrir einstaklinga að sýna handverkið sitt, sækja sér leiðbeiningar og álit annarra hnýtara á því sem hver og einn leggur fram í eigin nafni.

FOS.IS verður í snurfusi og ýmsu stússi um helgina til undirbúnings en vonandi gefst færi á að setja í nokkrar flugur, vaka til kl.00:01 á sunnudagskvöldið og sjá fyrstu flugurnar detta inn á Fésbókarsíðu átaksins.

Friskó

Friskó – hnýtt af höfundinum Jóni Helga Jónssyni

Ein af þeim klassísku hér á heimavellinum. Haft er eftir Jóni Helga að hann hafi upphaflega hnýtt Friskó bæði brúna og græna eins og sjá má hér á síðunni, enda eru flugurnar hér hnýttar af honum sjálfum. Sú græna virkar vel þar sem græn slikja er í vatninu, annars staðar sú brúna. Hugmyndinni að Friskó skaut eiginlega bara í kollinn á Jóni Helga því hann vissi sem var að bleikjan á Þingvöllum tekur eitthvað brúnt og fyrir þá bleikju var flugan upphaflega ætluð.

Þó flugan sé hönnuð fyrir Þingvallableikjuna, þá virkar hún prýðilega vel í frænkur hennar, hvort sem þær eiga heima í Hlíðarvatni í Selvogi, Elliðavatni eða á Skagaheiðinni, svo einhver dæmi séu nefnd. Nafn flugunnar varð þannig til að um þær mundir sem flugan varð til, var dægurflugan Diskó-Friskó hvað vinsælast og fannst Jóni Helga tilvalið að láta fluguna kallast á við Diskódrottningu veiðifélaga síns, Jóns Petersen, og fékk því nafni Friskó. Nánar má fræðast um fluguna og frænkur hennar í prýðilegri grein eftir Baldur Sigurðsson í maí hefti Áróðs, félagsrits Ármanna frá árinu 2013 sem nálgast má hérna.

Friskó græn – hnýtt af höfundinum Jóni Helga Jónssyni

Höfundur: Jón Helgi Jónsson
Öngull: hefðbundinn 10 – 14
Þráður: Svartur
Vöf: ávalt silfur
Búkur: brúnt flos eða grænt
Frambúkur: bronslitaðar fanir úr páfuglsfjöður
Skegg: svört hanahálsfjöður
Vængstubbur: fanir úr fasanafjöður
Haus: svartur með mjórri rönd af orange globrite

Hér að neðan má sjá hvernig Eiður Kristjánsson hnýtir sína útgáfu af Friskó sem er töluvert frábrugðin þeirri upprunalegu:

 

Þær stöllur saman á mynd

 

Bestur

Gefum okkur nú að þú, lesandi góður, sért algjör nýgræðingur í stangveiði á flugu en viljir einfaldlega verða besti fluguveiðimaður allra tíma. Byrjum smátt og segjum að þú viljir verða sá besti á Íslandi, algjör óþarfi að vera með heimsyfirráð eða dauði pælingar í fyrstu atrennu. Ég held að þú getir orðið það, ef þú nærð að tékka við öll þau atriði sem hér fara á eftir. Þetta eru atriði sem ég pikkaði upp á netinu og höfð eru eftir 10 heimsþekktum veiðimönnum:

S – stendur fyrir spurningar. Spurðu alltaf bestu spurninganna, ekki endilega þeirra flóknustu, heldur þeirra sem koma þér að bestu gagni. Það er enginn spurning heimskuleg, aðeins sú sem aldrei kemur fram.

J – stendur fyrir járnvilja. Það þarf járnvilja til að skara framúr. Sýndu einlægan ásetning þinn í að verða bestur og farðu alltaf eftir viljanum, ekki slaka á. Ef þú hefur ekki þennan járnvilja, þá nærðu ekki einu sinni að klára að lesa þessa grein.

Á – stendur fyrir ástríðu. Hafðu ótæmandi ástríðu fyrir fluguveiði. Án ástríðunnar, þá er fluguveiði aðeins kvöð og þú endist ekki lengi.

L – stendur fyrir leiksvið. Vötnin, árnar og lækirnir þurfa að vera þitt leiksvið í lífinu. Þarna þarft þú að vinna þína stærstu sigra og þar færðu verðlaunin.

F – stendur fyrir frábær. Þú þarft að vera hreint út sagt frábær á þurrflugu, straumflugu eða með púpu til að verða bestur. Ef eitthvað af þessu vantar, þá nærðu ekki í mark.

– stendur fyrir spámaður. Þú þarft að vera slíkur spámaður að þú getir sagt fyrir um hvað fiskurinn gerir, hvað hann borðar og hvar hann liggur. Ekkert gisk, bara hreinn og klár spámaður, rétt eins og Móses.

B – stendur fyrir bakkann. Þú þarft að vera tilbúinn til þess að eyða óteljandi klukkustundum á bakkanum án þess að gera nokkurn skapaðan hlut annan en fylgjast með.

L – stendur fyrir leit. Þú þarft endalaust að vera að leita að því rétta, hvort sem það er flugan, línan, stöngin eða hjólið. Ef þú hættir að leita, þá ertu fastur í sama farinu.

E – stendur fyrir endalausan tíma. Þegar þú eyðir 20 x 10 klukkustundum í stangveiði, þá áttu séns í að vera sá besti. 10 x 10 klukkustundir nægja þér aðeins til að halda í horfinu, allt þar undir er merki um hrörnun.

K – stendur fyrir kastið. Þú þarft að vera búinn að mastera kastið, gera það óaðfinnanlegt, létt og lipurt en með nægum krafti til að ná lengra en allir hinir.

K – stendur líka fyrir kapphlaup. Vertu viss um að þú hafir nægt úthald, þetta verður kapphlaup út í hið óendanlega því það verður alltaf einhver á hælunum á þér, tilbúinn að taka sætið þitt sem sá besti.

I – stendur fyrir að innbirgða. Þú verður að innbirgða allt sem sagt er við þig um fluguveiði og það sem meira er, þú þarft að skilja það og meðtaka.

N – stendur fyrir nákvæmni. Þú verður að ná slíkri nákvæmni í köstin að þú náir að skjóta annan vænginn af fiskiflugu á 20 metra færi án þess að hún fatti það og fljúgi aðeins í hringi þaðan í frá.

G – stendur fyrir græjur. Þú verður að eiga allar flottustu græjurnar; stöng, línu og hjól.

U – stendur fyrir undraverður. Þú verður að vera undraverður hnýtari, annars ertu ekki með flestar og bestu flugurnar. Það er flugan sem veiðir, ekki þú.

Ef þú telur þig geta merkt við alla þessa bókastafi, þá veistu hverju hausinn á þér er fullur af og þá veit ég að þú kannt ekki að telja. Þetta eru nefnilega 11 atriði, ekki 10. Eitt þeirra kemur frá mér sjálfum þó ég sé hreint ekki nálægt því að vera einn af þeim bestu. Mér nægir að vera ég í dag og stefni á að vera örlítið betra eintak af sjálfum mér á morgun. Þér til sárabóta, þá hefðir þú náð 37 stigum í skrafli fyrir að leggja þessa bókstafi saman og mynda orðið.

Soldier Palmer

Í öllum þeim bókum og greinum sem ég hef viðað að mér, þá finn ég ekki einn einasta staf um það hver sé höfundur þessarar flugu. Flugan er gömul, mjög gömul því hennar er getið, með einum eða öðrum hætti í bók Izaak Walton, The Complet Angler frá árinu 1653, þá undir nafninu Red Palmer. Þegar þessi fluga færði sig upp á skaftið í Skotlandi í upphafi 19. aldar var lítið um glys og glamúr í henni og þannig hnýttu menn hana langt fram á okkar daga.

Hver þessi Palmer var veit ég ekki, en skemmtilega sögu hef ég lesið um að flugan hafi verið nefnd eftir hermanni, Palmer nokkrum í Enska fótgönguliðinu og frá þessari flugu sé dreginn frasinn að Palmera búk á flugu með fjöður. Hvað er satt í þessu kýs ég að láta liggja á milli hluta, sagan er í það minnsta skemmtileg en kannski hafa litirnir í flugunni einfaldlega kveikt þessa sögu því fljótt á litið svipar henni til rauðklæddra hermanna Breska heimsveldisins og því gæti Soldier Palmer einfaldlega verið uppspuni eða jafnvel uppnefni Skota á þeim Bresku.

Hin síðari ár skaut flugunni eða öllu heldur afbrigði hennar aftur upp á sjónarssviðið og þá var hún kominn í glitrandi búning sem Dave McPhail klæddi hana í ásamt mörgum öðrum klassískum votflugum sem voru við það að gleymast. Eftir þessa yfirhalningu fékk þessi fluga, sem oft var talinn til ofur-flugna í vatnaveiði, heldur betur nýtt líf og nú má finna hana í s.k. Sparkler útgáfu í nær öllum veiðibúðum á Bretlandseyjum og víðar.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 10 – 14
Þráður: Rauður 8/0 eða 70
Broddur: Rauður hnýtingarþráður eða rautt flos
Vöf: koparvír eða ávalt gult tinsel
Búkur: rauð ull (selshár)
Hringvaf (búkur): brún, gul eða rauðleit hænufjöður
Hringvaf (fremra): bekkjótt hanafjöður (indian cock) sem er trúlega síðari tíma viðbót
Haus: samlitur þræði

Hér að neðan má sjá Dave McPhail hnýta sem næst upprunalegu útgáfuna en þó með glitrandi ívafi í væng:

Eins og hundur

Það eru ótrúlega mörg orðasambönd sem tengjast hundum; að vera eins og snúið roð í hundi, að vera nasvís eins og hundur, það er hundur í honum, það er ekki hundi út sigandi og lykta eins og hundur af sundi. Það síðasta er eiginlega það sem ég var að leita eftir. Að lykta eins og hundur af sundi er ekki neitt sérstaklega eftirsóknarvert, í það minnsta finnst mér það ekki.

Það kemur þó fyrir að kvöldi að maður lyktar eins og hundur af sundi þegar maður fer úr vöðlunum eftir langan dag í veiði. Það er vissulega misslæmur þefurinn af manni, stundum er maður einfaldlega ekki í húsum hæfur, stundum er manni skipað að fara úr sokkum og öðrum plöggum sem þefja, en trúlega er versta útgáfan af þessu sú þegar maður er vinsamlegast beðinn að yfirgefa veiðisvæðið og ekki láta sjá sig þar aftur.

Oft kemur nú fyrir að maður svitnar í venjulegum fötum og þá er það sjaldnast tiltökumál, maður þrífur sig og skiptir um föt og málið er dautt. En maður skiptir ekki svo glatt um vöðlur í miðjum veiðitúr. En það eru nokkur einföld ráð sem duga ágætlega til að teygja á tímanum sem það tekur vöðlunar að gerast brotlegar við banni við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna.

Þegar þú tekur þér pásu frá veiði, farðu þá úr vöðlunum (það dugar ekki að bretta þær bara niður). Snúðu vöðlunum á rönguna og leyfðu að lofta um þær á meðan þú nýtur nestisins og kaffibollans. Bakteríur eru náttúrulegur fylgifiskur alls lífs, við kjöraðstæður eins og í raka og stöðnuðu lofti eins og í vöðlunum, þá fjölgar þeim ansi hressilega með tilheyrandi óþef. Þegar svo er komið að vöðlurnar anga bæði þurrar og rakar, þá er örugglega tími til kominn að þvo þær.

Cormorant

Cormorant, eða Skarfurinn er ekki flókin fluga og oft verið vísað til hennar sem ágætis fluga fyrir byrjendur (eða örlítið lengra komna) í hnýtingum. Það kemur ekki oft fyrir að ég rambi á þessa flugu í boxum veiðimanna hér á landi, en kemur þó fyrir. Raunar er það nú svo að heiti flugunnar er notað í dag sem nokkurs konar tegundaheiti á flugum, líkt og Buzzer sem nær yfir ótilgreindan fjölda flugna.

Lengi vel var þessi fluga eignuð Graham nokkrum Pearson, en hið rétta er víst að hann gaf henni bara nafnið eftir að hafa séð hana í boxi ónefnds þátttakanda í unglingariðli Alþjóðlegu ensku fluguveiðikeppninnar. Nafni höfundar hefur aldrei verið uppljóstrað, en að sögn hnýtti handhafi flugunnar hana sjálfur og Graham fannst mikið til einfaldleika hennar koma og ekki síst hve veiðin hún var. Upphaflega útgáfa flugunnar var eingöngu úr tveimur hráefnum; peacock og marabou fjöðrum en eins og margar aðrar flugur í gegnum tíðina hafa afbrigði hennar orðið óteljandi með tíð og tíma.

Sjálfur eignaðist ég minn fyrsta Skarf fyrir mörgum árum síðan og þá einfaldlega fyrir mistök. Ég gleymdi nefnilega að setja skegg á ótilgreinda flugu sem ég var að prófa og úr varð Cormorant, flóknara var það nú ekki. En eftir þetta hef ég notað og hnýtt nokkrar svona flugur og reynt að hafa þær í einfaldari kantinum og þannig hafa þær gefið mér einhverjar fiska.

Cormorant flugur má veiða á ýmsan máta og á öllu dýpi. Flugan sjálf er yfirleitt óþyngd, en það má vitaskuld veiða hana á flot-, hálfsökkvandi- eða sökklínu og þannig ná mismunandi dýpi. Ekki er óalgengt að hún sé veidd sem afleggjari og þá gjarnan með enn léttari efri flugu.

Höfundur: óþekktur
Öngull: Hefðbundin votfluguöngull 10 – 14
Þráður: Sami litur og ætlaður haus flugunnar
Broddur: gyllt kristal flash (seinni tíma viðbót)
Vöf: flatt tinsel, gjarnan holographic
Búkur: peacock
Vængur: yfirleitt svört marabou fjöður

Sú útgáfa flugunnar sem sjá má í þessu myndbroti kemur frá Mak: