Klikkaður kragi

Það hefur færst í aukana að hnýtarar setji gúmmílappir á allar mögulegar flugur til að gera þær líflegri og þar með meira áberandi í vatninu. Ég hef séð marabou flugur eins og Nobbler og Damsel með gúmmílöppum, nokkrar þekktar púpur eins og Prince Nymph og Copper John og meira að segja klassískar straumflugur eins og Black Ghoast. Kunnugir segja mér að þessa lappir virki og fiskurinn sé hreint og klárt brjálaður í þetta.

Í svipuðum anda hafa margir hnýtarar tekið hefðbundnar púpur og yfirkeyrt kraga á þær til að gera þær meira áberandir í vatni. Upp á ensku hafa menn kallað þessa kraga Crazy Collar og liggur þá beinast við að þýða þetta sem klikkaða kraga á íslensku.

Red Tag

Upphaflega byrjuðu menn að hnýta þessa bústnu kraga eingöngu úr hnakkafjöðrum þannig að þegar þeir blotnuðu og lögðust aftur með búk flugunnar, þá líktu þeir t.d. eftir húsi vorflugunnar eða þá vængjum hennar þegar hún hafði brotist út úr því. Það má eiginlega segja að þessi öfgafullu kragar eigi rætur að rekja til flugu sem kom fram á sjónarsviðið um 1850 og nefnist Red Tag, flugu sem enn það dag í dag er með þeim vinsælli og hefur eignast fjölda óskilgetinna afkvæma.

Á síðari árum hafa menn farið að bæta glitþráðum og ýmiskonar dub efnum í kragana og þannig aukið enn við klikkunina og þeir sem reynt hafa sverja að þessar púpur gefi enn betur en upprunalegu flugurnar.

Fréttir af Febrúarflugum

Þegar kemur að föstum póstum í styrktaraðilum Febrúarflugna, þá kemur JOAKIM‘S einna fyrst upp í hugann. Í gegnum árin hefur verslunin stutt dyggilega við átakið, meira að segja fyrsta árið sem hugmyndin varð að veruleika.

Hjá JOAKIM‘S fá finna allt frá smæstu krókum, kúluhausum og ormalöppum upp í stangveiðigræjur fyrir stórlaxa sem ekkert gefa eftir.

Hnýtingarkvöld Febrúarflugna

Annað hnýtingarkvöld Febrúarflugna og Ármanna verður haldið á morgun, mánudagskvöldið 11. febrúar kl. 20:00 í Árósum, Dugguvogi 13. Síðasta mánudag mætti eitthvað á þriðja tug gesta og nú er bara stóra spurningin hvort það verða á fjórða tug eða þann fimmta sem mæta í kvöld.

Ármenn

Ármenn bjóða hverjum þeim sem vilja prófa að hnýta flugur að setjast niður við einhvern af þeim þremur hnýtingarbásum sem settir hafa verið upp og eru boðnir og búnir að leiðbeina óreyndum í fyrstu skrefunum. Hvernig væri nú að láta langþráðan draum rætast, stíga fram og mæta á hnýtingarkvöld Febrúarflugna og láta reyna á að smella í eins og eina flugu, það er alltaf miklu skemmtilegra að veiða á flugu sem veiðimaðurinn hefur hnýtt sjálfur.

Fréttir af Febrúarflugum

Annar af nýjum styrktaraðilum Febrúarflugna þetta árið er Veiðihornið. Með stór aukinni áherslu á fluguhnýtingarvörur hefur Veiðihornið stimplað sig enn frekar inn inn hjá fluguhnýturum og ef að líkum lætur má ganga að góðum vörum vísum í Veiðihorninu.

Aukið úrval hnýtingarvara er til marks um það að fluguhnýtingar eru langt því frá á undanhaldi hér á landi og rétt eins og vöruúrvalið eykst, þá fjölgar ungum og upprennandi hnýturum enn frekar.

Fréttir af Febrúarflugum

Veiðikortið þarf ekki að kynna fyrir stangveiðimönnum á Íslandi, svo tryggilega hefur það fest sig í sessi sem kortið sem skila veiðimönnum hagnaði ár eftir ár. Og Febrúarflugur hafa notið stuðnings Veiðikortsins frá upphafi og þeir skipta nú tugum sem hafa hlotið viðurkenningu kortsins fyrir þátttökuna í Febrúarflugum.

Þetta árið eru það 34 vötn sem eru innan vébanda Veiðikortsins, sum rótgróin en önnur ný og fersk, en öll eiga þau það sameiginlega að vera spennandi kostur fyrir stangveiðimenn.