Fréttir af Febrúarflugum

Einn dyggasti styrktaraðili Febrúarflugna í gegnum árin er Árvík. Fyrirtækið hefur skapað sér fastan sess í hugum stangaveiðimanna á undanförum áratugum, rótgróið og öflugt. Meðal vörumerkja Árvíkur má nefna flugustangir frá Scott, breiða vörulínu Loon, töskur og vesti frá Fishpond, hnýtingaráhöld frá Stonfo og Griffin að ógleymdum Kamasan önglunum sem allir fluguveiðimenn þekkja.

Það er vart til sá stangaveiðimaður á Íslandi sem ekki hefur snert á og reynt einhverjar af vörum Árvíkur í gegnum tíðina.

Fréttir af Febrúarflugum

Veiða.is er með stærstu söluvefjum veiðileyfa á Íslandi og kemur nú sterkur inn sem styrktaraðili Febrúarflugna í fyrsta skiptið. Á vefnum er hægt að nálgast upplýsingar um fjölmörg veiðisvæði en jafnframt kappkosta þeir að bjóða uppá fjölbreytt úrval veiðileyfa, bæði í lax og silung, hvort sem er í vötn eða ár.

Á Veiða.is er að finna fjöldann allan af veiðileyfum fyrir komandi sumar og sífellt bætast ný veiðileyfi við í viku hverri.

Fjórleikur mýflugunnar 1:4

Lífsferill mýflugunnar skiptist í fjögur stig; egg, lirfa (blóðormur), púpa og fullvaxta fluga. Þótt útilokað sé að veiðimönnum nýtist fyrsti lífsferill flugunnar, þá má samt segja að fluguveiðimenn geti átt fluguna í fórum sínum í fjórum mismunandi útgáfum og eiginlega nauðsynlegt ef þeir ætla að nýta sér þessa mjög svo vinsælu fæðu fisksins.

Fyrstan skal telja blóðorminn, lirfu mýflugunnar sem verður til úr eggi og grefur sig gjarnan í botn vatna eða festir sig við klappir og steina í ám og vötnum. Þetta er það stig lífsferils mýflugunnar sem varir lengst, þó misjafnlega langt hjá hverri tegund, allt frá örfáum vikum og upp í 1 – 2 ár. Blóðormurinn er orkurík fæða sem silungurinn sækir í hvar sem hann nær til hennar. Þar sem skilyrði eru heppileg getur fjöldi lirfa verið um 200.000 pr.m2 jafnvel meiri. Það er því af nógu að taka fyrir fiskinn og við liggur að manni hrís hugur við að keppa með einn blóðorm við alla þessa mergð. Það getur því borgað sig að leggja smá vinnu í fluguna þannig að hún skeri sig úr, standi framan öllum hinum og gangi í augu fisksins til átu. Raunar er það víst svo að fiskurinn eltir sjaldnast staka blóðorma, veislan fellst í því að úða sem flestum í sig með minnstri fyrirhöfn og því nánast ryksugar hann botninn á ákveðnum stöðum og tekur fjölda upp í sig í einu, aðeins seiði fiska eltast við stakar lirfur.

Fréttir af Febrúarflugum

Í gærkvöldi var fyrsta hnýtingarkvöld Febrúarflugna þetta árið haldið í Árósum. Eitthvað á þriðja tug gesta mætti á staðinn og stemmingin var létt og leikandi. Töluverður fjöldi mætti með eigin hnýtingargræjur og FOS.IS til óblandinnar ánægju voru uppsett hnýtingarsett ekki látin standa ónotuð og töluvert skrafað um hinar og þessar flugur. Nokkrir þeirra sem þegar hafa sett inn flugur mættu, aðrir sem enn eiga eftir að leyfa okkur hinum að njóta voru líka meðal gesta, greinilega að vega og meta hvaða flugur þeir ættu að setja inn á hópinn í vikunni.

Vesturröst hefur verið dyggur styrktaraðili Febrúarflugna frá fyrstu tíð. Í Vesturröst fást allar stangaveiðivörur og þar er að finna mikið úrval hnýtingaefnis og einmitt á þessum tíma árs berst þeim hver sendingin á fætur annarri af nýju og hefðbundnu efni til fluguhnýtinga.

Það er því vel þess virði fyrir áhugamenn um fluguhnýtingar að kíkja reglulega við í Vesturröst á Laugaveginum.

Fréttir af Febrúarflugum

Febrúarflugur eru nú á sínum fjórða degi þetta árið og undirtektirnar hafa verið hreint út sagt frábærar. Fjöldinn allur af flugum hafa komið inn á Fésbókarhópinn og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá mörg ný nöfn meðal hnýtara. Við reynum eftir föngum að uppfæra síðuna okkar hér á FOS.IS þar sem við söfnum öllum flugunum þannig að þeir sem ekki eru á Fésbókinni geti líka fylgst með. Flugurnar má sjá með því að smella hérna.

Og það eru ekki aðeins flugurnar sem streyma inn. Nýir félagar í hópnum eru nú orðnir 30 á þessum fjórum dögum og fylgjendur átaksins því að renna í 300 auk þeirra ríflega 800 sem fylgjast með á Fésbókarsíðu FOS.IS og hér á síðunni.

Rétt eins og endranær næði FOS.IS ekki langt með að veita heppnum þátttakendum viðurkenningar ef ekki væri fyrir ómetanlegan stuðning styrktaraðila átaksins. Þetta árið eru það 9 aðilar sem styðja við átakið með ýmsum hætti og meðal þeirra er Flugubúllan í Hlíðarsmára. Flugubúllan hefur stutt dyggilega við átakið á undanförnum árum og það gera þeir ennþá. Við þökkum Flugubúllunni kærlega fyrir stuðninginn.

 

Að lokum langar okkur að vekja athygli á því að í kvöld, mánudagskvöldið 4. febrúar er fyrsta hnýtingarkvöld Febrúarflugna í samstarfi við Ármenn. Félagsheimili Ármanna, Árósar opnar kl. 20:00 og það eru allri velkomnir, reyndir sem óreyndir. Of það sem meira er, gestir þurfa ekki að eiga hnýtingargræjur því það hafa verið settir upp þrír hnýtingarbásar með helstu verkfærum og efni ef áhugasamir vilja prófa. Við mælum með einföldum og gjöfulum flugum fyrir byrjendur; Peacock og Pheasant Tail, en vilji menn spreyta sig á einhverju öðru þá má alltaf fletta í hnýtingabókum Ármanna í hugmyndaleit og láta reyna á færnina.

Samheitið Nobbler

Það ber í bakkafullan lækinn að ég kvarti yfir offramboði á flugum og að ég fyllist stundum valkvíða þegar kemur að því að velja flugu, sérstaklega þegar haft er í huga að á þessari síðu eru upplýsingar og uppskriftir að tæplega 100 tegundum og þær er flestar að finna í geymsluboxunum mínum. Einhverjum kann að detta sjálfskaparvíti í hug og það má til nokkurs sannsvegar færa.

Sú fluga sem fer einna oftast undir hjá mér er trúlega Nobbler. Þetta kvikindi er til í einstaklega mörgum útgáfum og stærðum í mínum boxum og alls ekki alveg ljóst hvert þeirra getur talist til alvöru Nobblers og hvert ekki. Eflaust firrist einhver við mig núna, en ég hef leyft mér að nálgast Nobbler á svipaðan máta og margir aðrir nálgast Woolly Bugger eða Damsel, ég nota Nobbler sem samheiti yfir nær allar marabou flugur sem ég hnýti. Ég hnýti fluguna úr því efni sem mér finnst laða það fram sem ég sækist eftir og hvort ég set vaskakeðju á hann, eina kúlu, keilu eða jafnvel hauskúpu (e: skull head) rænir mig ekki svefni. Búkefnið er eins misjafnt og útgáfurnar mínar eru margar, stundum nota ég chenille, stundum bara venjulegt ullarband eða bara marabou í þá ör-mjóu. Hin síðari ár hef ég líka verið að leika mér að UV chenille, bústnu efni og sleppi meira að segja hringvafinni fjöður um búkinn, en eftir sem áður kalla ég fluguna Nobbler.

Orange Nobbler með UV ívafi

Á stuttum, litlum krók er Nobbler ekkert frábrugðinn hverri annarri gyðlu (e: nymph) og þegar ég leik mér að litum og efnisvali, þá getur hann auðveldlega komið í stað fjölda flugna sem fall í þann flokk. Á hefðbundnum votflugukrók #8, sem ég tel Stefán Hjaltested Nobbler fóstra nota, er hann skæður þar sem hornsíli eru á ferð, þ.e. Nobblerinn.

Í vötnum þar sem stærri fiskur heldur til og hefur vanist á að éta nánast allt sem syndir kringum hann leyfi ég mér að skipta hefðbundnu chenille alfarið út og nota tinsel chenille í staðinn. Strangt til tekið skiptir Nobbler þá um nafn og heitir Humungus upp á útlensku eða Veiðivatnagull eða þá eitthvað enn annað upp á Íslensku. Fyrir mér er þetta nú eftir sem áður Nobbler, hvort sem hann er gylltur, koparlitaður eða silfraður.