
Höfundur Black Pennell er H.Cholmondely-Pennell, veiðimaður og náttúruvísindamaður. Flugan kom fyrst fram árið 1860 og varð strax gjöful í Skosku vötnunum. Skemmtilega einföld og góð fluga. Hnýtti hana sérstaklega fyrir Febrúarflugur 2016.
Höfundur Black Pennell er H.Cholmondely-Pennell, veiðimaður og náttúruvísindamaður. Flugan kom fyrst fram árið 1860 og varð strax gjöful í Skosku vötnunum. Skemmtilega einföld og góð fluga. Hnýtti hana sérstaklega fyrir Febrúarflugur 2016.
Áður en ég áhugi minn á fluguveiði færðist yfir í þráhyggju, komu alltaf ákveðnar flugur upp í huga mér þegar veiðiflugur bar á góma. Þið getið ímyndað ykkur hvað mér brá síðan þegar ég fór að stunda og spá í fluguveiði fyrir alvöru og sá t.d. Prince Nymph, Pheasant Tail og Nobbler. Þetta voru bara ekkert flugur eins og þær sem ég hafði alltaf í huga; Teal and Black, Watson‘s Fancy og Dunkeld. Undrun mín varð síðan ekkert minni þegar sölumaðurinn sem seldi mér fyrstu flugustöngina valdi 20 silungaflugur í box fyrir mig. Það var ekki ein einasta votfluga í boxinu; Hva, eru þessar flugur ekkert að virka hér á Íslandi? hugsaði ég með mér, þakkaði fyrir mig og lagði af stað í mína fyrstu fluguveiðiferð með úrval af púpum og kúpum og hvað þær nú hétu allar. Engin þurrfluga, engin votfluga, engin straumfluga.
Þegar ég síðan lagði leið mína í verslunina til að fá smá leiðsögn með þetta taumadót og framlengingar sem voru í pakkanum, þá skáskaut ég augun yfir flugubarinn og leitaði að svona flugu eins og þær sem ég sá alltaf í hyllingum. Nei, það bólaði bara ekki á þeim. Ég sá að vísu nokkrar straumflugur, en þær voru rosalega stórar í mínum augum, þannig að ég hélt áfram að baða púpur það sem eftir lifði sumars.
Næstu jól dró ég undan jólatrénu þetta líka fína byrjendasett fyrir fluguhnýtara. Já, einmitt, þarna gaf að líta slatta af efni; öngla #10 og #12, einhverjar fjaðrir, flos og hnýtingarþráð. Í minningunni var fyrsta flugan mín frábær; vængurinn fullkominn, hausinn nettur og skottið eggjandi; Watson‘s Fancy votfluga. Ég gat ekki beðið eftir því að vorið kæmi og ég gæti prófað þessa listasmíð mína.
Grínlaust, þá geymdi ég þessa flugu langt fram á sumarið án þess að hreyfa við henni. Kannski var ég einfaldlega hræddur við að eyðileggja hana, svona viðkvæm og nett, en á endanum lét ég verða að því að setja hana undir og viti menn, rúmlega 2 punda urriði var mér hjartanlega sammála; Þetta er flott fluga og smellti sér á hana.
Nú er febrúar á næsta leiti og ég er að hugsa um að tileinka hann votflugum eins og mér finnast þær fallegastar. Nokkrar þeirra má finna hér á síðunni undir Gamlar myndir. Já, Febrúarflugur eru á næsta leiti.
Þegar ég ákvað að stofna til þessa viðburðar á Facebook átti ég ekki von á þeim frábæru undirtektum sem orðið hafa við þessu uppátæki mínu. Núna, þegar viðburðurinn er tæplega hálfnaður, eru þáttakendur orðnir 59 og fjöldi flugna sem lagðar hafa verið fram 72. Viðburðurinn stendur til loka febrúar og sífellt bætast nýjir hnýtarar á áhugamenn um flugur í hópinn, það er því örugglega von á fleiri flugum.
Það er hreint ekki skilyrði fyrir þátttöku að leggja fram flugur, allir geta tekið þátt, lagt til ábendingar eða fyrirspurnir um þær flugur sem aðrir leggja fram.
Hér að neðan má sjá þær flugur sem ég hef sett inn á viðburðinn það sem af er.
Ég lét það alveg eiga sig seinni part vetrar að upplýsa um þurrfluguhnýtingar vetrarins. Kannski var ég ekkert of ánægður með útkomuna, baksaði lengi við ýmsar fjaðrir með mismunandi árangri, oftast lélegum. En, svo barst blogginu bréf frá Eiði Kristjánssyni sem færði mér kærkomin útgangspunkt til að tjá mig um þurrflugu(til)raunir mínar í vetur.
Sæll Kristján!
Ég hef nú áður sent þér póst og örugglega komið á framfæri þakklæti mínu fyrir bloggið þitt, en góð vísa er aldrei of oft kveðin og því færðu frá mér fleiri þakkir.
Ég er búinn að setja mér takmark fyrir veiðitímabilið. Ég ætla að fá fisk á þurrflugu. Ég er púpuveiðimaður í húð og hár. Lít helst ekki við „strímerum“, einstaka sinnum hendi ég votflugu undir og aðeins oftar þurrflugu. Oftast set ég þurrfluguna undir þegar ég sé að fiskur er að vaka, en með hjálp google hef ég komist að því að það er ekkert endilega besti tíminn til þess að reyna þurrfluguna. Gáran er víst ekki svo slæm þegar kemur að þessum málum og jafnvel betri, ef eitthvað er. Þá er ég nokkuð viss um að ég megi sýna aðeins meiri þolinmæði með þurrfluguna, en þar sem ég er afar hrifinn af púpunum þá hættir mér til að gefa þurrflugunni lítinn tíma á taumnum, ef nokkurn.
Nú, þar sem ég ætla að veiða meira með þurrflugu í sumar þá langar mig að sjálfsögðu að hnýta mínar eigin. En þar stendur hnífurinn í kúnni. Ég er búinn að vera vandræðast með efni í þurrflugur. Nú veit ég allt (kannski ekki allt en slatta) um undrafjaðrirnar CDC og virkni þeirra. Það sem ég er hinsvegar að spá í eru þessari „hackle“ fjaðrir sem svo oft er talað um. Ég á hanahnakka fjaðrir í nokkrum litum og hef verið að nota þær í þessa vafninga sem eru ýmist fremst á hefðbundnum þurrflugum s.s Royal Wulff eða í kringum „stilkinn“ á parachute þurrflugum.
Það sem ég er hinsvegar ekki að átta mig á er hvernig í ósköpunum ég á að ná fönunum stuttum og fallegum. Hjá mér eru þær allt of langar og ég enda á að þurfa klippa þær til sem leiðir til þess að flugan verður kjánaleg og eiginlega bara alls ekki eins og fyrirmyndin.
Ég hef lesið á blogginu þínu að konan þín sé hrifin af þurrfluguveiðum svo mér datt í hug að þú hefðir kannski hnýtt einhverjar fyrir hana. Geturðu mælt með einhverju efni fyrir mig, einhverri annarri tegund af fjöðrum eða einhverri annarri aðferð?
Bestu kveðjur, Eiður Kristjánsson
Og nú var komið að mér, ég sauð saman eitthvert svar til Eisa með morgunkaffinu og sendi honum með beiðni um að fá að setja bréfið og svörin mín hér á síðuna, sem auðvitað var auðsótt mál.
Mikið kannast ég við þessi ‚hackle‘ mál. Flestar fjaðrirnar sem ég dró upp úr venjulega ‚Short Cock Hackle‘ pokanum mínum frá Veniard voru annað hvort sveigðar og beygðar eða bara alls ekki ‚short‘ þegar ég var búinn að setja hringvöf á fluguna. Ég brá því á það ráð að tæma pokann á súpudisk og flokka þær niður í eftirfarandi; A. Beygðar og ólögulegar fjaðrir sem ég geymdi í t.d. skott á púpum o.s.frv. B. Langar og beinar nýttust í vængi á straumflugur og að síðustu C. Stuttar og beinar, fíngerðar með stuttum geislum út frá hryggnum sem ég gat nýtt í þurrflugur. Því miður náði síðast greindi flokkurinn ekki nema u.þ.b. 10% af innihaldi pokans, en þó það. Af þessum fjöðrum nýttust síðan 2/3 frá oddi í hringvaf einfaldlega vegna þess að því nær slíðrinu sem dregur lengjast geislarnir og verða í raun allt of langir fyrir litlar silungaþurrflugur. Flugurnar sem urðu til úr þessu voru t.d. Hexía, Black Gnat og Adams.
Annað sem ég kannaði í vetur voru s.k.‘Non-hackle- þurrflugur, en mér fannst einfaldlega ekkert sérstaklega varið í þær, kannski helst vegna þess að þær eru flestar ímyndir skordýra sem sjást nánast ekki hér á Íslandi, ennþá. Án þess að fara neitt nánar út í hvernig þessar flugur heppnuðust hjá mér, þá er hérna flýtileið á Google leit (myndir).
Það sem ég fann mig síðan best í og hafði mesta ánægju af í vetur, var að nýta efni sem ég keypti í einhverju brjálæði hérna um árið fyrir vildarpunktana mína í gegnum Amazon, heill hamur af Ringneck Pheasant. Ég hef svo sem verið að grípa í þennan ham annars slagið í votflugur og tók þá eftir því að þær flugur sem ég skreytti ríkulega með grófustu fjöðrunum, flutu eiginlega allt of vel þannig að ég fikraði mig áfram með þetta efni í vetur og úr urðu nokkrar flugur sem upphaflega voru hnýttar úr hjartarhárum eða CDC.
Allar þessar flugur (#12 og #14) eru úr fjöðrum sem ég tók af einum og sama fuglinum og þær fljóta alveg glettilega vel og eru afskaplega einfaldar í hnýtingu; þurrfluguöngull, flatur hnýtingarþráður aftur eftir önglinum og til baka. U.þ.b. 1/5 lengdar frá auga smellti ég síðan örlitlu fjallalambadöbbi (úr þeli) til að lyfta fjöðrunum sem ég hnýtti niður þétt fyrir framan döbbið. Frágangurinn er ekki flókinn, upp og í brúsk rétt fyrir aftan augað, snyrt í heppilega lengd og hnýtt vel fyrir. Nú er bara að sjá hvernig urriðanum og frúnni líkar þetta í sumar.
03.04.2013 – Hilmar: Góðar pælingar drengir. Hef verið í svipuðum vandræðum með efnið í þurrflugur, þ.e. hackle allt of langt sem maður á. Náði þó að láta einn félaga minn og ferðalang koma með Grizzly hnakka frá Whitingfarms heim fyrir mig og verð að segja að þá batnaði framleiðslan til muna. Og næst á dagskrá er að ná í 100 pack frá sama fyrirtæki. Maður þar víst að fjárfesta aðeins í þurrflugu efnivið ef maður ætlar að ná að gera þurrflugurnar sæmilegar. En ein besta þurrflugan er þó caddis og flestir eiga efnivið í það, þ.e. elk eða dear hair, og hnýtt á sama hátt og þú gerir úr ringneck hamnum hér að ofan Kristján. Hér er t.d. ein afar einföld caddis Winona Fly Factory.
mbk, Hilmar
03.04.2013 – Siggi Kr. (Svarti Zulu): Þurrfluguhnakkarnir frá Whiting eru klassaefni og reyndar er möguleiki minnir mig að fá nokkrar fjaðrir saman í pakka frá þeim en hver fjöður er mjög löng og getur dugað í margar flugur. Ég held að hann Viðar í gallerí flugum hafi verið með efni frá Whiting til sölu en rétt að benda á að þurrfluguhnakkar eru með því dýrara sem maður fjárfestir í við fluguhnýtingar. Ég myndi allavega byrja á því að kíkja í galleríið ef mig vantaði svona efni. En þess utan vil ég endilega hvetja hann Eið til að byrja að líta líka við strímerum því þeir eru ótrúlega skemmtileg veiðitól
Kv. Siggi Kr.
03.04.2013 – Urriði: Straumflugur FTW! Þar sem að alvöru þurrflugurnar mínar fljóta aldrei meira en 2-3 köst þá skilgreinist “þurrfluguveiðin” mín þannig að ég strippa straumflugur í yfirborðinu og sé urriðann koma upp og ráðast á þær…ekkert flottara en það!
Svar: Frábært að heyra hvað menn hafa sterkar skoðanir á þessu. Sjálfur byrjaði ég mest í vot- og straumflugum en síðar náðu púpurnar yfirhöndinni. Samt sem áður eiga straumflugurnar alltaf öruggt pláss í boxinu og nú í sumar ætla ég ekki að horfa upp á frúnna taka hvern fiskinn á fætur öðrum á þurrflugu án þess að geta veitt henni einhverja samkeppni.
04.04.2013 – Eiður Kristjánsson: Sælir! Ég fann einmitt svona hackle poka frá Whiting Farms í Vesturöst rétt eftir að ég sendi Kristjáni póstinn. Hann kostaði rétt tæplega 6.000 krónur!! Reyndar stór poki en alltof dýr. Ég eiginlega gafst upp á “vafnings” þurrflugunum í bili og skellti í nokkrar í ætt við þær sem Kristján birtir hér að ofan. Þær komu virkilega vel út, hlakka til að prófa þær. Notaði reyndar bara venjulegar fjaðrir í þær, hana og urtönd. En þær fljóta vel.
Þetta með straumflugurnar er svo náttúrulega bara persónubundið. Ég notaði straumflugur nokkuð mikið þegar ég var að byrja og fiskaði ekki mikið. Um leið og ég fór að halda mig meira í púpunum fór ég hinsvegar að fiska mun meira. Ég hef bara svo rosalega litla trú á straumflugum, sem er náttúrulega bara vitleysa
05.04.2013 – Urriði: Ég er náttúrlega langmest að veiða í straumvatni þar sem straumfluguveiði er auðveldari. Ég veiði alveg jafn vel á púpur og ef e-ð er þá eru þær öflugri og fjölbreyttari veiðitæki….það er bara svo ógeðslega gaman að sjá urriðann koma upp í yfirborðið og ráðast á fluguna (sjá 0:15 hérna)
og (2:17 og 5:40 hérna)
Í vatnaveiði eru púpur hinsvegar í sérflokki, plús það er bara ekki jafn gaman veiða á straumflugur í vatnaveiði og í straumvatni. Þess vegna nota ég púpur meira í vatnaveiði. Ég verð samt mættur með með straumflugu í ljósaskiptunum í maí og júní til að ná mér í 5kg+ urriða í stórurriðavatninu mínu!
Þurrflugur hafa hingað til bara pirrað mig þar sem að flugurnar fljóta aldrei og línan fælir alla fiska í 100 metra radíus…núna er ég hinsvegar kominn með nettan tvist svo vonandi gengur mér betur með þessa nettu yfirborðsveiði í sumar
Það er væntanlega við hæfi að óska veiðimönnum til hamingju með daginn í dag, 1.apríl. Fyrstu vötnin að opna eftir vetrarfrí sem vonandi flestir hafi notað vel til hnýtinga og lestur góðra veiðibóka.
Síðari hluta vetrar hef ég leyft mönnum að skyggnast í hnýtingarlistann minn fyrir vertíðina sem er að hefjast í dag með greinum undir heitinu ‘Af bekknum’. Nú eru flestar flugurnar komnar í geymsluboxin, sem eru auðvitað frá IcePete og klárar fyrir sumarið, þ.e.a.s. straum- og votflugur auk púpa. Þurrflugurnar eru örlítið færri eftir veturinn, geri þeim skil síðar. Eins og sjá má eru þetta nokkrar flugur, raunar nokkuð fleiri en þær sem ég hef talið til í þessum greinum mínum í vetur. Það eru ekki aðeins silungarnir sem gína við flugum, ég er ekkert skárri á ráfi mínu á veraldarvefnum, ef ég sé eitthvað spennandi verð ég bara að prófa og þannig bætast stundum nokkrar við sem ekki voru á upphaflegum hnýtingarlista vetrarins.
Með von um að veiðimenn láti nú sjá sig við vötnina í dag, í það minnsta til að óska hverjum öðrum til hamingju með daginn, þakka ég fyrir samfylgdina í vetur og vona að einhverjir hafa haft gaman og e.t.v. eitthvert gagn ‘Af bekknum‘.