Áður en ég áhugi minn á fluguveiði færðist yfir í þráhyggju, komu alltaf ákveðnar flugur upp í huga mér þegar veiðiflugur bar á góma. Þið getið ímyndað ykkur hvað mér brá síðan þegar ég fór að stunda og spá í fluguveiði fyrir alvöru og sá t.d. Prince Nymph, Pheasant Tail og Nobbler. Þetta voru bara ekkert flugur eins og þær sem ég hafði alltaf í huga; Teal and Black, Watson‘s Fancy og Dunkeld. Undrun mín varð síðan ekkert minni þegar sölumaðurinn sem seldi mér fyrstu flugustöngina valdi 20 silungaflugur í box fyrir mig. Það var ekki ein einasta votfluga í boxinu; Hva, eru þessar flugur ekkert að virka hér á Íslandi? hugsaði ég með mér, þakkaði fyrir mig og lagði af stað í mína fyrstu fluguveiðiferð með úrval af púpum og kúpum og hvað þær nú hétu allar. Engin þurrfluga, engin votfluga, engin straumfluga.
Þegar ég síðan lagði leið mína í verslunina til að fá smá leiðsögn með þetta taumadót og framlengingar sem voru í pakkanum, þá skáskaut ég augun yfir flugubarinn og leitaði að svona flugu eins og þær sem ég sá alltaf í hyllingum. Nei, það bólaði bara ekki á þeim. Ég sá að vísu nokkrar straumflugur, en þær voru rosalega stórar í mínum augum, þannig að ég hélt áfram að baða púpur það sem eftir lifði sumars.

Næstu jól dró ég undan jólatrénu þetta líka fína byrjendasett fyrir fluguhnýtara. Já, einmitt, þarna gaf að líta slatta af efni; öngla #10 og #12, einhverjar fjaðrir, flos og hnýtingarþráð. Í minningunni var fyrsta flugan mín frábær; vængurinn fullkominn, hausinn nettur og skottið eggjandi; Watson‘s Fancy votfluga. Ég gat ekki beðið eftir því að vorið kæmi og ég gæti prófað þessa listasmíð mína.
Grínlaust, þá geymdi ég þessa flugu langt fram á sumarið án þess að hreyfa við henni. Kannski var ég einfaldlega hræddur við að eyðileggja hana, svona viðkvæm og nett, en á endanum lét ég verða að því að setja hana undir og viti menn, rúmlega 2 punda urriði var mér hjartanlega sammála; Þetta er flott fluga og smellti sér á hana.
Nú er febrúar á næsta leiti og ég er að hugsa um að tileinka hann votflugum eins og mér finnast þær fallegastar. Nokkrar þeirra má finna hér á síðunni undir Gamlar myndir. Já, Febrúarflugur eru á næsta leiti.