Daginn sem þetta kemur fyrir þínar sjónir hér á FOS er hátíðisdagur vatnaveiðinnar á Íslandi: Veiðikort næsta sumar er komið út. Þessi dagur markar þáttaskil hjá mér, nú hætti ég að velta mér upp úr fiskunum sem veiddust síðasta sumar og fer að dreyma um fiskan sem eiga (vonandi) eftir að veiðast næsta sumar.
Í síðasta bæklingi var mér hugleikin sú staðreynd að öll vötn renna til sjávar, sem náttúrulega þýðir að ný vötn bíða okkar næsta sumar. Hvað FOS.IS hefur til málanna að leggja í nýjasta bæklingi Veiðikortsins má finna með því að renna í gegnum hann, á pappír eða rafrænt með því að smella hérna.

Það er sagt að öll vötn renni til sjávar og því geti enginn dottið í sama vatnið tvisvar. Vötnin endurnýja sig í sífellu og þess vegna erum við aldrei að heimsækja sama vatnið, hversu oft sem við mætum á bakka þeirra með kortin okkar.
Þegar við eignumst eftirlætis veiðivatn erum við í raun að taka ástfóstri við umgjörð, umhverfi eða fiskana í vatninu, frekar en vatnið sjálft. Hvað af þessu ræður mestu um ástfóstur okkar er afar misjafnt, jafnvel breytilegt milli veiðiferða.
Sumir veiðimenn taka ástfóstri við ákveðið vatn vegna þess að þar geta þeir verið einir með sjálfum sér í ró og næði. Aðrir veiðimenn sækja í ákveðin vötn á ákveðnum tíma árs eða jafnvel dags vegna þess að þar hitta þeir kunningja og vini, rétt eins og aðrir hittast á kaffihúsi niðri í bæ.
Aldur veiðimanna skiptir líka miklu máli þegar spurt er um skemmtilegasta vatnið. Yngstu veiðimennirnir okkar þurfa stundum eitthvað aðeins meira en bara vatnið og íbúa þess þegar þeir tilnefna besta vatnið. Veiðivon er mikilvæg, en það getur líka verið kostur að geta leikið lausum hala án þess að vera með stöng í hönd. Stundum þarf að skerpa á gleðinni í leik á vatnsbakkanum eða könnunarferð um náttúruna í grennd þegar lítill áhugi er á agninu.
Sjálfur er ég tiltölulega fast heldinn á mín uppáhalds vötn, en það er ekki þar með sagt að ég heimsæki þau sífellt eða ítrekað. Eftir nokkur ár eða ákveðinn fjölda veiðiferða finnst mér gott að hvíla ákveðið vatn. Það þýðir ekki endilega að það falli um sæti á vinsældalistanum, stundum vaknar bara löngun til að prófa eitthvað nýtt vatn, fara nokkrar ferðir og kynnast því, aðstæðum og umhverfi. Oftar en ekki er þetta nýtt vatn á Veiðikortinu eða eitthvert þeirra sem hefur verið gripin óviðráðanlegri heimþrá og er komið aftur á kortið.
Það er nefnilega með þessi vötn sem bregða sér stundum frá Veiðikortinu í stutta stund, renna til sjávar, þau eiga vanda til að koma aftur á kortið og við fáum notið þeirra enn á ný.
Það er því alltaf með smá eftirvæntingu að maður rennir yfir vötnin sem verða innan vébanda Veiðikortsins á komandi sumri. Kom eitthvað nýtt inn þetta árið eða er gamall kunningi sem maður saknaði að dúkka upp aftur?
Beri svo við að gamall kunningi birtist á ný fer ég ósjálfrátt að rifja upp; hvaða fluga gaf aftur þarna í byrjun tímabils, hvernig var morgunveiðin, miðdagurinn eða kvöldið? Var það í þessari vík sem ég setti í stóru bleikjuna, ætli hún sé þarna ennþá?
Fyrir mér er tilhlökkun sumarsins ekki minna um verð heldur en sumarið sjálft og hún á það til að tvöfaldast ef ég beini sjónum að vatni sem ég hef leyft að renna óhindrað til sjávar í einhvern tíma.
Jú, jú, þau renna öll til sjávar með einum eða öðrum hætti, en örvæntið ekki, þá skila sér aftur og við fáum notið þeirra næsta sumar.
Með veiðikveðju, Kristján Friðriksson / FOS.IS






