FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Öll vötn renna til sjávar

    7. desember 2023
    Greinaskrif

    Upp

    Forsíða

    Daginn sem þetta kemur fyrir þínar sjónir hér á FOS er hátíðisdagur vatnaveiðinnar á Íslandi: Veiðikort næsta sumar er komið út. Þessi dagur markar þáttaskil hjá mér, nú hætti ég að velta mér upp úr fiskunum sem veiddust síðasta sumar og fer að dreyma um fiskan sem eiga (vonandi) eftir að veiðast næsta sumar.

    Í síðasta bæklingi var mér hugleikin sú staðreynd að öll vötn renna til sjávar, sem náttúrulega þýðir að ný vötn bíða okkar næsta sumar. Hvað FOS.IS hefur til málanna að leggja í nýjasta bæklingi Veiðikortsins má finna með því að renna í gegnum hann, á pappír eða rafrænt með því að smella hérna.

    Það er sagt að öll vötn renni til sjávar og því geti enginn dottið í sama vatnið tvisvar. Vötnin endurnýja sig í sífellu og þess vegna erum við aldrei að heimsækja sama vatnið, hversu oft sem við mætum á bakka þeirra með kortin okkar.

    Þegar við eignumst eftirlætis veiðivatn erum við í raun að taka ástfóstri við umgjörð, umhverfi eða fiskana í vatninu, frekar en vatnið sjálft. Hvað af þessu ræður mestu um ástfóstur okkar er afar misjafnt, jafnvel breytilegt milli veiðiferða.

    Sumir veiðimenn taka ástfóstri við ákveðið vatn vegna þess að þar geta þeir verið einir með sjálfum sér í ró og næði. Aðrir veiðimenn sækja í ákveðin vötn á ákveðnum tíma árs eða jafnvel dags vegna þess að þar hitta þeir kunningja og vini, rétt eins og aðrir hittast á kaffihúsi niðri í bæ.

    Aldur veiðimanna skiptir líka miklu máli þegar spurt er um skemmtilegasta vatnið. Yngstu veiðimennirnir okkar þurfa stundum eitthvað aðeins meira en bara vatnið og íbúa þess þegar þeir tilnefna besta vatnið. Veiðivon er mikilvæg, en það getur líka verið kostur að geta leikið lausum hala án þess að vera með stöng í hönd. Stundum þarf að skerpa á gleðinni í leik á vatnsbakkanum eða könnunarferð um náttúruna í grennd þegar lítill áhugi er á agninu.

    Sjálfur er ég tiltölulega fast heldinn á mín uppáhalds vötn, en það er ekki þar með sagt að ég heimsæki þau sífellt eða ítrekað. Eftir nokkur ár eða ákveðinn fjölda veiðiferða finnst mér gott að hvíla ákveðið vatn. Það þýðir ekki endilega að það falli um sæti á vinsældalistanum, stundum vaknar bara löngun til að prófa eitthvað nýtt vatn, fara nokkrar ferðir og kynnast því, aðstæðum og umhverfi. Oftar en ekki er þetta nýtt vatn á Veiðikortinu eða eitthvert þeirra sem hefur verið gripin óviðráðanlegri heimþrá og er komið aftur á kortið.

    Það er nefnilega með þessi vötn sem bregða sér stundum frá Veiðikortinu í stutta stund, renna til sjávar, þau eiga vanda til að koma aftur á kortið og við fáum notið þeirra enn á ný.

    Það er því alltaf með smá eftirvæntingu að maður rennir yfir vötnin sem verða innan vébanda Veiðikortsins á komandi sumri. Kom eitthvað nýtt inn þetta árið eða er gamall kunningi sem maður saknaði að dúkka upp aftur?

    Beri svo við að gamall kunningi birtist á ný fer ég ósjálfrátt að rifja upp; hvaða fluga gaf aftur þarna í byrjun tímabils, hvernig var morgunveiðin, miðdagurinn eða kvöldið? Var það í þessari vík sem ég setti í stóru bleikjuna, ætli hún sé þarna ennþá?

    Fyrir mér er tilhlökkun sumarsins ekki minna um verð heldur en sumarið sjálft og hún á það til að tvöfaldast ef ég beini sjónum að vatni sem ég hef leyft að renna óhindrað til sjávar í einhvern tíma.

    Jú, jú, þau renna öll til sjávar með einum eða öðrum hætti, en örvæntið ekki, þá skila sér aftur og við fáum notið þeirra næsta sumar.

    Með veiðikveðju, Kristján Friðriksson / FOS.IS

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Í vitlausu veðri

    20. júlí 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það hefur alveg komið fyrir að ég hef upplifað algjöra uppgjöf veiðimanna þegar íslenska sumarveðrið tekur sig til og leikur á básúnu með tilheyrandi blæstri og frussi. Ég er ekki svo skyni skroppinn að ég telji alla eins og mig, mér finnst nefnilega alltaf einhver sjarmi yfir því að berjast við vind og rigningu, en ég skil bara ekki þegar menn hrynja í geðvonskukast af sama styrkleika og vindhviðurnar bara vegna þess að hann blæs svolítið, jafnvel með rigningu.

    Mín reynsla er sú að þegar veiðimaður missir kúlið og hættir að hafa gaman að því að veiða, þá getur hann alveg eins dregið inn, klippt fluguna af og pakkað stönginni niður. Ég held að kastið og inndrátturinn breytist hjá veiðimönnum sem hafa misst sig og ég held að fiskurinn verði var við geðvonsku og leiða og hættir að taka flugu sem dreginn er áhugalaust eða ólundarlega.

    Vissulega getur hvass vindur og rigning breytt aðstæðum svo mikið að veiðimenn verði að bregða út af vananum. Hætta að veiða eins og þeir hafa alltaf gert á ákveðnum stað og prófa eitthvað nýtt. Stundum er alveg nóg að færa fluguna aðeins neðar í vatninu, færa sig úr flotlínu yfir í intermediate eða intermediate yfir í sökklínu. Fiskurinn nefnilega færir sig gjarnan aðeins niður fyrir ölduna í vitlausu veðri og þá þarf að elta hann. Ef þú þarft að elta fiskinn alveg niður undir botn, prófaðu þá hraðsökkvandi línu, stuttan taum og létta flugu. Slík samsetning er vel til þess fallin að komast niður án þess að þú eigir á hættu að vera sífellt að festa í grjóti eða gróðri.

    Hafðu samt eitt í huga við setningarnar hér að ofan, þær hljóma svolítið eins og regla um atferli fiska, en eins og kunnugt er þá er engin regla til í stangveiði. Ég hef alveg verið að veiða í vitlausu veðri þar sem bæði urriði og bleikja nánast syntu á öldutoppunum, því þar var ætið á ferð. Þú ætti því ekki að taka umhugsunarlaust mark á þessu og færa fluguna niður fyrr en þú hefur prófað flotlínuna út í ölduna, jafnvel með óþyngda flugu og draga inn eins og geðsjúklingur.

    Svo er alltaf gott að hafa í huga að þótt á móti blási og erfitt sé að koma flugunni út, þá færist fiskurinn oft nær bakkanum þegar gefur á bátinn og löng köst eru óþarfi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Áður en hendi sé veifað

    13. júlí 2023
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Tíminn flýgur hratt á … og svo framvegis. Áður en maður veit af, þá eru nokkur ár liðin hjá í sviphendingu. Ég var í smá brasi um daginn með taumaefnið mitt, hnútar héldu illa og stundum var alveg sama hvað ég hnýtti taumaenda varlega við tauminn, taumaendinn einfaldlega hrukku í sundur. Auðvitað vissi ég alveg hvað var að, taumaefnið sem ég greip var orðið stökkt og lélegt þannig að ég greip aðra spólu og reyndi það efni. Allt fór á sama veg og ég greip því til þriðju spólunnar. Sama sagan og ég brá því á það ráð að færa mig niður um styrkleika og prófa það efni. Jú, það gekk en ég var fyrir bragðið með lífið í lúkunum að nú tæki örugglega sá stóri og færi burt með taum og flugu.

    Það eitt að ég væri með þrjár spólur með sama taumaefni í töskunni er náttúrulega vísbending um að eitthvað er að í birgðabókhaldinu. Ég hef aldrei keypt tvær spólur á sama tíma af sama efni, þannig að í það minnsta tvær af þessum spólum voru komnar af léttasta skeiði, þ.e. orðnar eitthvað gamlar og trúlega var líka farið að súrna aðeins í þeirri yngstu. Nú ætla ég að láta verða að því að kaupa mér heftiplástur, líma á nýja taumaefnið mitt og skrifa á plásturinn með penna árið sem ég keypti taumaefnið.

    Það er alveg sama hvað maður passar upp á taumaefnið, það einfaldlega mattast og þornar með árunum, missir styrk og verður stökkt. Sumu efni er hægt að redda með því að leggja það í bleyti, en á endanum kemur að því að ekki verður meira gert til endurheimta styrk þess og sveigju. Það er annars grátlegt að efnið verður ónothæft á 2-3 árum, það tekur nefnilega venjulegt taumaefni u.þ.b. 600 ár að brotna niður í náttúrunni og þau ár duga því alveg til að gera einhvern óskunda af sér. Taktu taumastubbana með þér og komdu þeim í ruslið eða endurvinnslu (flokkast með plasti).

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fram eða aftur?

    4. júlí 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Það eru skiptar skoðanir á öllu mögulegu, það vita flestir sem hafa opnað munninn og tjáð sig um eitt eða annað sem tengist stangveiði. Ég opna oft munninn, meira að segja stundum án þess að segja nokkurn skapaðan hlut. Það gerðist einmitt um daginn þegar ég sá veiðimann úti í vatni draga inn, húkka spúninum í neðstu lykkju og snúa sé hvatlega við og stefna í land. Þetta eitt og sér varð ekki til þess að ég opnaði muninn án hljóða, heldur það sem á eftir fór.

    Ég sem samt opnaði munninn án þess að gefast tækifæri til að segja nokkurn skapaðan hlut áður en viðkomandi varð fótaskortur eða rák tána í grjót og steyptist fram fyrir sig. Ég hafi svo sem ekki neinar áhyggjur af því að veiðimaðurinn mundi drukkna, slíkt var dýpið ekki. Nei, ég hafði meiri áhyggjur af stönginni sem hann hélt á og lét vísa beint af augum. Við fallið vísaði stangartoppurinn skyndilega niður á við og ekki munaði ekki nema hársbreidd að hann rækist í bakkann og brotnaði. Það fór nú reyndar betur en á horfðist, veiðimaðurinn stóð ólaskaður upp en rennandi blautur. Sömu sögu var að segja um stöngina, hún slapp þótt litlu hefðu mátt muna.

    Maður veit aldrei hvenær manni verður fótaskortur, sumir eru með svo kallaða flækjufætur og detta hreint út af engu, aðrir taka bara út sinn eðlilega skammt í lífinu af fótaskorti. Hvort heldur sem er, ef þú ert á labbi með veiðistöng, láttu hana vísa aftur og haltu bara laust um hana. Ef þér verður fótaskortur, þá einfaldlega sleppir þú stönginni og þú hefur tvær hendur lausar til að bera fyrir þig. Það eru líka mun minni líkur á að stöngin verði fyrir skakkaföll við það að falla óhindrað til jarðar heldur en ef hún rekur toppinn í fyrirstöðu eða þú haldir fast um hana og látir allan þunga þinn lenda á henni í fallinu.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ryð

    29. júní 2023
    Græjur

    Upp

    Forsíða

    Ekki er allt gull sem glóir og meira að segja gull getur látið á sjá. Gullið sem glóir oftast í höndum fluguveiðimanna er reyndar oftast meira í ætt við bronze eða nikkelhúðaðan málm. Það er misjafnt hve hratt krókarnir okkar láta á sjá, en jafnvel þeir bestu geta látið undan síga fyrir tímanns tönn. Bitið fer úr þeim, þeir geta bognað en algengast er þó að einhver partur þeirra fari að ryðga. Vissulega eiga margir ódýrari krókar það til að ryðga þegar minnst varir, ekki þó algilt, en meira að segja ryðfríir krókar geta orðið fyrir barðinu á nágrannaflugu í boxinu ef hún fer að ryðga. Almennt um flugur, á eiga þær það þó sameiginleg að endast betur ef við pössum upp á að leyfa þeim að þorna í lok veiðidags eða strax og heim er komið.

    Sjaldnast er lognið til trafala á Íslandi og yfirleitt nægir að hafa boxið opið í nokkrar mínútur úti við til að þurrka flugurnar, vindurinn gerir sitt. Já, og ef svo ólíklega vill til að það sé einhver smá rigning, þá má alveg smokra opnu boxinu undir bílinn í smá tíma, jafnvel í miðri matar- eða kaffipásu og leyfa því að þorna þar. Bara muna eftir því áður en ekið er af stað.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvað ræður taumurinn þinn við?

    27. júní 2023
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Á flestum spólum taumaefnis eru skráðar ýmsar upplýsingar um eiginleika efnisins, s.s. úr hvaða plastefni taumurinn er gerður, hve mikið er á spólunni (yds / metrar), sverleiki efnisins (in / mm) og síðast, en ekki síst; slitstyrkur efnisins (lb / kg). Svo er þarna stundum eða oftast að finna einhverja tölu með X fyrir aftan sem ég styðst oftast við þegar ég ákveð hvaða taumaenda ég viljið hafa fyrir ákveðna flugu. Þumalputtareglan með X töluna er að deila í stærð flugunnar með þremur (3) og þá fær maður út c.a. X stærð taums. Dæmi: þar sem ég á ekki von á kröftugum fiski (sjóbirtingi eða urriða af stærri stærðinni) og er með flugu #12 í höndunum þá veldi ég taum 4X eða öllu heldur 3X (12/3=4).

    Það eru til ýmsar töflur um samspil taumaenda og stærðir flugna, þar á meðal hér á FOS. Öllum þessum töflum ætti að taka með fyrirvara þegar kemur að vali taumaefnis og þá sérstaklega hvað varðar slitstyrkt efnis. Fyrir það fyrsta er slitstyrkur tauma afar mismunandi eftir hráefninu í þeim, framleiðendum og gerðum frá sama framleiðanda. Það er alltaf öruggast að lesa á spóluna sjálfa ef þú ert að velta fyrir þér vali á taum eða taumaenda miðað við fiskinn sem þú ert að eltast við. En þó þú veltir fyrir þér og lesir á spóluna, þá er ekki allt sagt sem skiptir máli, ekki heldur í einhverri töflu sem þú finnur á vefnum.

    Ég á kunningja sem ferðast vítt og breytt um veraldarvefinn og hann á sér uppáhalds lendingarsíðu. Þar finnur hann allt sem hann þarf að vita um fluguveiði. Eini gallinn á síðunni er að hún er Bresk og allt sem rökstutt er á henni í orðum eða með huglægu mati, miðast við Bretland. Hann þóttist himinn hafa höndum tekið þegar hann fann samanburðartöflu þar sem mælt var með 4X taum, 0.18mm sverum taum í miðlungs urriða. Miðlungs urriði á Bretlandi er tittur á Íslandi og það kom mér því ekkert á óvart að hann lenti ítrekað í að slíta tauminn þegar hann setti í fisk sem var 5lb (pund). Auðvitað er alveg hægt að landa urriða sem er 5 pund á 4X taum en þá verður fiskurinn líka að vera dasaður eða veiðimaðurinn að taka afskaplega mjúkt á móti og vera með tilheyrandi mjúkar græjur. Það leiðinlega er að þá gæti viðureignin orðið löng og skemmtileg fyrir veiðimanninn, en hreint ekki skemmtileg fyrir fiskinn og ekki heppileg ef sleppa skal fiskinum, en það er önnur saga.

    En gefum okkur að þessi kunningi minn hafi lesið á spóluna og valið taumaefni eftir því hver uppgefinn slitstyrkur efnisins væri. Segjum sem svo að hann sé á veiðislóð þar sem vænta má bleikju sem er á bilinu 2 til 3 pund. Bætum því við að þetta er vatn, ekki lækur eða á. Hann gruflar í spólunum sínum og rekst á spólu sem merkt er með slitstyrk 3.5lb (pund). Til gamans skulum við taka fram að þetta var 6X taumaefni, 0.15mm. Hann kastar út, leyfir flugunni að damla eða dregur löturhægt inn, fær töku, glímir við bleikjuna og landar henni í háfinn. Málið er dautt og bleikjan væntanlega líka, þetta er of góður (mat) fiskur til að sleppa.

    Í næstu veiðiferð fer hann í allt annað vatn þar sem frændi bleikjunnar á heima og urriðinn er mögulega þekktur fyrir að vera fjörugur, vilja hasar og bregðast vel við. Svo skemmtilega vill til að í þessu vatni er helst að finna urriða í sömu stærð, 2 til 3 pund. Kunningi minn man alveg eftir flottu 3ja punda bleikjunni og velur sama taumaefni. Urriði tekur allt öðruvísi en flestar bleikjur gera og mér finnst líklegast að kunningi minn rjúki út í veiðibúð og kvarti yfir þessu rusl taumaefni sem honum var selt því þegar innar á spóluna kom, var það alónýtt og hrökk í sundur við hverja einustu töku eða í miðri viðureign.

    Ef við kryfjum þennan slitstyrk tauma, þá er hann mældur með jöfnu, hægt aukandi átaki í einhverri græju þar sem ákveðin lengd af taumaefni er fest í á milli tveggja arma sem færast í sundur. Græjan stendur alveg föst á gólfinu, er ekkert að vinda upp á sig, rykkja í efnið eða breyta átakinu frá einni hlið til annarrar. Slitstyrkur tauma hefur ekkert með þyngd fisks að gera, ekki tegund hans eða atferli. Þetta er einfaldlega mæling á því hvenær taumurinn slitnar í græjunni. Ef þið trúið mér ekki eða viljið fræðast meira um þetta, þá er ágæta lýsingu IGFA á prófunum að finna hérna. Alveg burtséð frá efasemdum mínum um taumastyggð fiska, þá nota ég alltaf umtalsvert sveran taumaenda þar sem ég á von á sjóbirtingi eða sprækum urriða. Sem viðmið þá nota ég minnst 16 punda taum í vötnum uppi á hálendi, helst 20 punda og í vissum vötnum fer ég ekki neðar en 25 punda. Eftir að ég tók upp þetta viðmið, þá heyrir það til undantekninga að ósærður taumur gefi sig, um hnútana mína gildir allt annað mál. Og í guðanna bænum, ekki rugla saman taum í lax eða urriða/sjóbirting. Urriði í sömu stærð og lax á alltaf vinninginn í atorku og dugnaði við að taka á móti.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar