Rándýrið í undirdjúpunum

Þeir sem fylgjast með eða stunda veiðar á stórurriða þekkja vel hvaða agn urriðinn lætur glepjast af. Agnið annað hvort lyktar eða bragðast eins og pattaralegur smáfiskur eða þá líkist honum og hreyfir sig eins og smáfiskur. Þetta er vitaskuld sett fram með þeim fyrirvara að urriði, næstum sama hve stór hann er, étur auðvitað lirfur og púpur ef nóg er af þeim eða þær verða á vegi hans. Eina Þingvallaurriðann sem ég hef veitt tók ég t.d á Pheasant #14 þegar ég í raun var að egna fyrir bleikju og sá fiskur fúlsaði ekki við lítilli púpunni.

Tökur stórurriðans fara ekkert á milli mála, þær eru yfirleitt ofsafengnar og það er ekkert verið að tvínóna við þetta. Bleikjan getur verið töluverðan tíma að snuddast í flugunni, skoðar hana varfærnislega, smakkar kannski og tekur hana síðan heldur rólegar en urriðinn. Hann sér eitthvað sem líkist bráð, rennur á bragðið í vatninu og þar með er málið næstum dautt. Að því gefnu að flugan líkist nægjanlega þeirri bráð sem hann á að venjast, þá er eiginlega það eina sem getur komið í veg fyrir töku að hún hagar sér eitthvað einkennilega. Ef flugan fer allt of hratt, þá getur urriðinn einfaldlega misst af henni. Ef hún fer of hægt þá fer honum kannski að leiðast, hver veit.

Urriði á ferð

Ég er ekki neinn stórveiðimaður á urriða en mér hefur yfirleitt gefist ágætlega að draga straumflugur og nobblera inn á nokkuð hressilegum hraða, en alls ekki alltaf á þeim sama. Stuttar pásur á milli spretta geta viðhaldið áhuga urriðans eða það ímynda ég mér í það minnsta. Draga hressilega inn með rykkjum þannig að flugan taki stutta spretti með tilheyrandi sporðaköstum. Litlir fiskar sem flugan á að líkja eftir, þreytast auðveldlega og því er ágætt að hvíla fluguna inn á milli, draga hægar eða hreint ekki neitt. Þetta á sérstaklega við ef ég hef gert mig sekan um að draga allt of hratt, ég finn létt nart en það verður aldrei hrein taka. Kannski er ímyndunaraflið mitt að hlaupa með mig í gönur, en ég séð það þannig fyrir mér að flugan fer einfaldlega of hratt, urriðinn missir af henni og ef hún heldur áfram á þessum ógnarspretti út úr sjónsviði hans þá sleppir hann því einfaldlega að elta hana. Ef flugan fer aftur á móti aðeins of hratt fyrir hann en staldrar síðan við, þá gæti áhugi urriðans haldist lengur og líkurnar aukist á að hann taki.

Þessu til viðbótar þá er til aðferð sem menn hafa beitt með góðum árangri og það er að veiða særðan fisk. Þetta er eitthvað sem ég hef minnst hér á áður, en þetta er þokkaleg vísa og því má kveða hana aftur. Í raunheimum er því þannig farið að ef urriðinn glefsar í bráðina, þá getur hún særst þannig að hún hættir að synda og flýtur upp. Til að líkja eftir þessu þá þarf veiðimaðurinn að eiga flugur með þokkalegu flotmagni. Svo kallaðar brjóstaflugur (e: boobie fly) eru tilvaldar til þessa. Ef maður á ekki slíka flugu, þá má líka reyna flugur með hárvæng úr hirti, þær fljóta líka þokkalega. Kannski verða einhverjar svona flugur á hnýtingarlistanum þennan vetur.

Kippur

Endalaus leit mín að þurrflugu sem lifir groddaleg köstin mín af stendur yfir þennan vetur, rétt eins og alla undanfarna vetur. Á tímabili þóttist ég himinn höndum tekið þegar ég hnýtti nokkrar Ethel úr hjartarhárum hér um árið, sú fluga flaut og flaut þrátt fyrir mögulega of sveran taum hjá mér og einhverja fiska færði hún mér. Ókosturinn við Ethel er aftur á móti að hún er frekar einhliða, líkir ekkert eftir mörgum tegundum flugna og þá hreint ekki einhverjum smágerðum mýflugum sem maður hefur allt of oft ekki tekist að líkja eftir á vatninu.

Ethel

Mikið lagaðist nú framsetning þurrflugunnar hjá mér þegar ég tók upp á því að klína á þær flotefni, smurði þær vel og vandlega og leyfði þeim að þorna aðeins áður en ég lagði þær fram. Mér hefur tekist bærilega að koma þeim út og þær fljótar, flestar. Aftur á mót virðist fiskurinn hafa eitthvað stórkostlegt á móti því hvernig þær hreyfa sig eða ekki hjá mér. Ég festist nokkuð oft í þeirri kreddu að setja þurrfluguna aðeins undir í þessu margrómaða þurrfluguveðri, en læt þær liggja í boxinu mínu þess á milli. Nokkuð sem getur komið sér einstaklega illa í Íslensku sumri líkt og því sem var síðast. Sjálfur hef ég sagt að þurrfluguveður er ekki til, flugur eru á vatninu mun oftar en við gerum okkur grein fyrir, við einfaldlega greinum þær ekki og ekki heldur tökurnar. Hvað um það, mín upplifun af síðasta sumri var reyndar þannig að þurrflugur fóru afskaplega sjaldan undir, man í raun bara eftir einu tilfelli.

Frostastaðavatn, þar sem bleikjurnar vilja kipp

Í það skiptið hafði ég verið að egna fyrir bleikjur sem lágu í mestu makindum við botninn á vatni einu, þannig að ég hafði tekið fram hægsökkvandi línu og þyngdar púpur. Til skamms tíma bar þetta ríkulegan ávinning og hátt í 20 bleikjur voru komnar í netið mitt þegar þær hættu algjörlega að bregðast við púpunni minni. Ég var svo sem ekkert óvanur þessari hegðun bleikjunnar á þessum slóðum, þannig að ég setti örlítið litsterkari púpu undir og kom henni tryggilega niður til fisksins. Allt kom fyrir ekki, þær högguðust vart um hálfa borðlengd og heldur fór að síga í mig eftir þriðju fluguskipti. Þegar þarna var komið hafði örlítill úði lagst að bakkanum, hitastigið lækkaði raunar lítið þannig að ég hélt áfram að veiða, þ.e. prófa flugur. Kom svo að lokum að lítið annað var eftir í boxinu mínu heldur en þurrflugur. Jæja, af hverju ekki prófa eins og eina slíka? Ég var hvort hið er búinn að prófa flest annað, þannig að undir fór hefðbundinn svört mýfluga, eitthvað í líkingu við Black Gnat. Þar sem geðslag mitt var þegar orðið heldur þungt, kippti ég mér ekkert upp við viðtekið áhugaleysi bleikjunnar á flugunni þar sem hún hreyfðist í því sem mér fannst vera óþolandi rólegheit. Ég er ekki þolinmóður veiðimaður og það kemur iðulega fyrir að mér leiðist enginn eða mjög hægur inndráttur. Það fór svo að í þriðja eða fjórða kasti var mér nóg boðið, reisti stöngina snarlega og ætlaði að pakka saman. En þá gerðist það við það að ég reisti stöngina kom örlítill kippur á fluguna mína og upp frá botninum reis bleikja, uppfull af áhuga á þessu skordýri sem kipptist þarna til á yfirborðinu.

Eftir að hafa landað bleikjunni, lét ég vaða í næsta kast og lagði fluguna fram á svipaðar slóðir, beið augnablik og kippti síðan tvívegis í hana. Það var eins og við manninn mælt, upp frá botninum risu tvær bleikjur og önnur þeirra settir sig með látum á öngulinn. Eftir að hafa endurtekið leikin í örfá skipti, að mér fannst, þá taldi heildarfjöldann í netinu. Það höfðu þá 12 stykki bæst við og mig fór að kvíða fyrir göngunni til baka og pakkaði því saman og lagði af stað. Á röltinu til baka varð mér hugsað til allra þeirra skipta sem ég hafði ekki orðið var þegar ég lét þurrfluguna liggja, hvað ef ég hefði nú kippt í fluguna?

Reykt bleikja á melónu

Það er þekkt að vefja parmaskinku utan um melónu, en færri þekkja melónu með reyktri bleikju. Ég hef aðeins fikrað mig áfram með þetta og þeirrar útgáfu sem mér þótti skemmtilegust skal hér getið.

Ég hef notað gular- og hunangsmelónur sem ég sneiði í þunnar sneiðar sem ég þek síðan síðan ríflega með þunnt skorinni, taðreyktri bleikju. Ég hef reynt að forðast mjúkar og vatnsmiklar melónur þannig að þetta verði ekki of blautt og ókræsilegt. Til að toppa þetta og kitla bragðlaukana hef ég sett örlítinn dropa af tamarind jalapeno sósu frá Hrefnu Sætran ofan á hverja sneið. Það er ótrúleg barátta á milli bragðtegunda sem á sér stað í munninum við þessa blöndu, eitthvað sem kemur virkilega á óvart.

Reykt bleikja á melónu

Umfram allt mæli ég ekki með að útbúa þetta með löngum fyrirvara, þetta er réttur sem þarf að borða áður en melónurnar fara að tapa vökva og virðast taka sundsprett á diskinum.

Flugur geta dáið úr leiðindum

Ég hef átt ketti og þeir hafa kennt mér ýmislegt, meira að segja ýmislegt annað en það að eigandanum ber að stjana við þá hvenær sem þeir telja sig eiga það skilið. Kettirnir mínir hafa kennt mér að það sem er eftirsóknarvert, það hreyfir sig. Fluga á glugga sem trítlar í rólegheitum upp rúðuna er hreint ekki eins skemmtileg og fluga sem tekur rokur annað slagið, suðar og hamast með látum.

Flugurnar sem veiðimenn nota ættu að fylgja sömu reglu. Þær ættu að geta tekið rokur, lyfst annað slagið upp úr dýpinu og leitað upp að yfirborðinu. Vitanlega eru þær flugur til sem ber að draga inn með svo hægum drætti að þær hreyfist var úr stað, t.d. Blóðormur. En á einhverjum tímapunkti ættu allar flugur að taka kipp, hreyfast áberandi þannig að þær veki viðbrögð eða kveiki áhuga fisksins.

Pheasant Tail

Þegar við veiðum flugur eins og Pheasant Tail þá skiptir þetta mjög miklu máli. Pheasant Tail sem ekki hreyfir sig eins og skordýr, það er dautt skordýr í augum fisksins og þá er næsta víst að hann verður afhuga flugunni. Við lok hvers inndráttar, rétt í þá mund sem flugan er komin svo nærri stangarendanum að ekki verður lengra dregið inn, þá ættum við að lyfta flugunni upp að yfirborðinu, líkja eftir skordýrinu sem sækir upp að yfirborðinu til að klekjast út. Ef við drögum fluguna inn með sama hraða, í sama takti og með sömu hreyfingu frá því hún lendir í vatninu og þangað til við tökum hana upp í næsta kast, þá erum við að drepa hana úr leiðindum og fiskurinn hefur hreint ekki áhuga á dauðri fæðu.

Þetta hafa snillingar á borð við Ray Bergman, Frank Sawyer og Jim Leisenring reynt að innprenta okkur í áratugi. Sumir veiðimenn hafa tekið mark á þessu, aðrir ekki. Það er ekki erfitt að greina þessa veiðimenn í sundur. Þeir þekkjast auðveldlega sem hafa náð tökum á þessu, meðvitað eða ómeðvitað, það eru þeir sem veiða fisk sama hver flugan er.

Grafinn urriði með rjómaosti

Flestir þekkja grafinn lax á ristuðu brauði með graflaxsósu, herramannsmatur. En það getur verið tómt vesen að borða þetta nema með hníf og gaffli og því verður stundum ekki komið við, sérstaklega í veislu eða kokteilboði þar sem fátt er um hnífapör. Ég hef því tekið grafinn urriða, sneitt hann niður og saxað gróft ofan á þunnar (u.þ.b. 0,5 sm. þykkar) sneiðar af grófu snittubrauði. Hver sneið verður því u.þ.b. tveir munnbitar og ekkert mál að tylla henni við hlið te- eða kaffibollans á undirskálina.

Grafinn urriði á snittubrauði

Til að halda örlítilli nýbreytni í þessu, þá hef ég smurt sneiðarnar með Philadelphia Original rjómaosti í stað smjörs eða majónes. Hverri sneið hef ég síðan úthlutað einum vænum dropa af graflaxsósu og ef ég er ekki í mikilli tímaþröng, þá hef ég sett örlítið af steinselju ofaná til skrauts. Vel að merkja, þá er auðvitað líka hægt að útbúa þessar snittur með reyktri bleikju.

Nokkrir smáréttir úr aflanum

Gamalt nylon

Ég hef í mörg ár haldið því fram að það sé ekkert til sem heitir einskisverður fróðleikur (e. useless information), það er alltaf hægt að notast við eitthvað af þessum, þó ekki væri nema til þess að leggja útfrá honum í efnisöflun. Eitt af því sem varð mér hvatning til smá vefleitar er sú staðreynd að nylon kom fyrst fyrir augu almennings árið 1938, nánar tiltekið í hárum tannbursta og skömmu síðar í sokkabuxum. Mér skilst að þessar fyrstu sokkabuxur séu fyrir löngu horfnar einfaldlega vegna þess að hráefnið í þeim hefur fyrir löngu brotnað niður og þar með buxurnar sjálfar.

Fljótlega eftir að byrjað var á að spinna nylon í þráð fóru menn að nota hann til fluguhnýtinga, hvaða ár veit ég ekki nákvæmlega en ég las um það á heimasíðu American Museum of Fly Fishing að þeir væru í stökustu vandræðum með einhverja safngripi (flugur) vegna þess að þeir væru að losna í sundur vegna þess að hnýtingarþráðurinn væri að morkna í sundur. Ég ætla rétt að vona að menn séu ekki í þessum vandræðum með eitthvað sem leynist í fluguboxunum.

Mér skilst að hnýtingarþráður úr nylon hafi takmarkaðan líftíma, hve langan greinir menn síðan verulega á um. Tom Rosenbauer tekur greinilega enga sénsa og skiptir öllum sínum hnýtingarþráðum út á tveggja ára fresti. Væntanlega fær hann einhvern góðan afslátt hjá Orvis, verandi starfsmaður þeirra og þarf ekki að horfa í aurinn þegar kemur að endurnýjun. Aðrir hnýtarar segjast nota nylon þráð sem sé orðinn meira en 5 – 6 ára og það sé ekkert að honum. Reyndar taka þeir fram að stundum þurfi þeir að vinda ofan af keflunum, einu eða tveimur lögum af þræði þannig að upprunalegur litur kemur í ljós. Það að nylon lætur lit með tímanum er einmitt skýrt merki um að efnið sé farið að brotna niður, verður þurrt og stökkt.

En er eitthvað til ráða ef nylon er byrjað að brotna niður? Algjörlega án ábyrgðar, þá hef ég hér eftir eina ábendingu sem smellt var fram á erlendum spjallþræði; Taktu skaftpott með ½ lítra af vatni og bættu eins og einni matskeið af hlutlausri matarolíu út í vatnið. Hitaðu vatnið að suðu og stilltu lokið á pottinum þannig að gufuna leggi út til hliðar. Stilltu gömlu hnýtingarkeflunum þannig upp að gufuna leggi um þau og leyfðu þeim að hitna vel. Þetta skilst mér eigi að þrífa hnýtingarþráðinn og að einhverju marki endurnýja í það minnsta yfirborðsfituna í þræðinum.

Ég get mér þess til að líftími nylon fari mikið eftir því hvernig þráðurinn sé geymdur. Nylon brotnar niður fyrir áhrif sólarljóss, hita og raka. Ætli gamli frasinn Geymist á þurrum og köldum stað sé ekki bara í fullu gildi þegar kemur að heppilegum geymslustað. Annars get ég heilshugar tekið undir undrun og hneykslun sem kom fram í einu kommenti á spjallsíðu; Þetta á náttúrulega ekki að vera neitt vandamál, hnýttu bara flugur þangað til þráðurinn klárast.

Tortillur með reyktri bleikju

Í síðustu viku skaut ég hér inn uppskrift að tortillum með gröfnum urriða, en það er líka hægt að nota reykta bleikju og mörgum finnst sú útgáfa ekki síðri.

Tortillur með reyktri bleikju

Uppskriftin er mjög svipuð, þ.e. á átta stórar maís tortillakökur nota ég eina dós af hvítlauks- og jurakrydduðum Philadelphia rjómaosti sem ég hræri út með einni dós af 18% sýrðum rjóma. Með reyktum fiski kýs ég að nota þennan kryddaða ost sem kemur með skemmtilegt mótvægi við reykbragðið af fiskinum sem vel að merkja þarf að vera taðreyktur. Bleikjuna sneiði ég niður þannig að hún sé í þykkara lagi og nægi í 5 – 6 raðir á smurðar maískökurnar. Að nota maískökur er kannski bara einhver sérviska í mér, en mér finnst þær fara einfaldlega betur með reyktum fiski heldur en þær úr hveiti.

Nokkrir smáréttir úr aflanum

Kökunum rúlla ég síðan þétt í lengjur og nota gjarnan sushi bambusmottu þannig að þær verði þéttar og áferðafallegri. Lengjurnar má sneiða strax niður í 1,5 – 2 sm. þykkar sneiðar, en ekki er verra að leyfa lengjunum að taka sig yfir nótt í kæli. Eigum við eitthvað að ræða drykki með þessu? Jú, vel kælt hvítvín eða ískaldur bjór sem í þessu tilfelli má alveg vera dökkur maltbjór ef vill.