Slepptu

Ég ætla rétt að vona að lesendur haldi ekki að ég sé einhver gægjupervert, en ég bara kemst stundum ekki hjá því að fylgjast með öðrum veiðimönnum á veiðislóð. Maður getur grætt alveg helling á því að fylgjast með öðrum og í mínu tilfelli, fundið ástæðu fyrir smá grein eða ábendingu.

Góð línustjórnun, fyrir og í miðju kasti er alltaf eitthvað sem maður tekur eftir. Sumum er það ósjálfrátt að leiðbeina línunni sem liggur laus frá hjóli og að fyrstu lykkju þegar þeir lengja í kastinu eða leggja línuna fram. Undir ýmsum kringumstæðum er þetta kúnst, það er svo margt sem getur verið til trafala þegar línan á að renna fyrirhafnarlaust út úr topplykkjunni.

Svo hefur það komið fyrir að maður sér þá sem halda fast um stöngina, með báðum höndum og klemma línuna með annarri hendinni við korkinn, slaka samt aðeins á gripinu þegar þeir vilja lengja í. Það er beinlínis eins og þeir hafi gleymt að losa um takið á stönginni með óvirku hendinni eftir síðustu baráttu. Í stað þess að línan leiki annað hvort alveg laus eða renni létt og lipurt í gegnum óvirku höndina í kastinu, þá þarf hún að troðast á milli handar og korks sem dregur stórlega úr hraða hennar. Slepptu, annað hvort hendinni af stönginni eða línunni alveg.

Erfðabreyttar stangir

Það sem af er sumars hef ég verið að máta mig við nýja stöng og nú hef ég verið að upplifa það á eigin skinni sem orðrómurinn á götunni sagði mér fyrir mörgum árum; það eru til þrjár fjölskyldur flugustanga. Eins og annar orðrómur er þessi ekkert áreiðanlegur, en hann gefur vísbendingu um að þessar þrjár fjölskyldur. Það er síðan undir ættfræðingum komið að dæma um það hvaða fjölskyldu hver stöng tilheyrir.

Sú stöng sem ég er að máta mig við tilheyrir fjölskyldu stanga sem einfaldlega smella í handbremsuna ef ég reyni að taka völdin af henni. Ég hef reynt þetta, viljandi og óviljandi það sem af er sumri og ég þarf greinilega að hægja aðeins á mér og hlusta betur á stöngina. Mér skilst að meðlimir þessarar fjölskyldu séu nokkurskonar erfðabætt grænmeti sem hefur kostað milljónir að hanna og búa yfir töfrabrögðum sem venjulegum veiðimanni er um megn að tjónka við, það verður einfaldlega að leyfa stönginni að ráð, annars fer allt í kássu.

Þeim sem geta ómögulega sætt sig við stangir sem taka af þeim völdin, þeim sem vilja stýra öllu frá upphafi ferðalagsins og til enda, þeir ættu e.t.v. að bindast böndum við allt aðra stangafjölskyldu. Meðlimir þeirrar fjölskyldu styðja við allt gott sem kastarinn gerir, leggja að vísu ekkert mikið til málanna en yppta líka bara öxlum yfir hverri vitleysu sem honum dettur í hug að gera. Sumir hafa kallað þessa fjölskyldu postulafjölskylduna, fyrirgefa öllum allt og gera engum mein. Oft eru þessar stangir í ódýrari kantinum, framleiddar úr þekktum og margreyndum hráefnum, ekkert verið að tefla á tvær hættur.

Fram til þess hef ég verið trúlofaður inn í fjölskyldu stanga sem virka vel undir öllum venjulegum kringumstæðum, eru á viðráðanlegu verði og hjálpa mér mátulega við köstin, en ég verð að leggja svolítið til málanna til að koma línunni þangað sem ég vil fá hana. Þetta er trúlega sú fjölskylda sem tekur mestum breytingum á milli kynslóða, því oft er hryggjastykki stanga í þessari fjölskyldu einhverjir kynblendingar hinna fjölskyldnanna tveggja. Nýleg hráefni, stundum afleggjarar næst nýjustu kynslóðar þeirra erfðabættu notuð í þessar stangir en framleiddar með það fyrir augum að fyrirgefa miðlungs kastaranum aðeins meira.

Við Arnarfell

Ég er sem sagt í þeim sporum núna að hægja á mér, hlusta og leggja hreyfingu til stangarinn frekar en afl. Þetta verður áhugavert sumar.

Lína og lína?

Ég hef í nokkur ár átt mér uppáhalds flugulínu en eftir síðasta sumar var deginum ljósara að dagar hennar voru taldir þannig að ný flotlína fór á jólaóskalistann minn. Þessi lína hefur hentað mér og aðal stönginni minni alveg ágætlega en svo gerðist það að ég keypti mér nýja stöng sem aðal stöng. Báðar eru þær #7, sú gamla 9,6 fet en sú nýja 10 fet, en í því liggur ekki helsti munur þeirra. Sú nýja er stífari, töluvert stífari og gerir þar af leiðandi kröfu til allt annarrar línu. Uppáhalds flotlínan mín var viðeigandi lína #7 og 185 grains en það vantaði alla hleðslu í nýju stöngina mína og ég var endalaust að falskasta til að ná einhverri lengd í köstin.

Ég hnippti því í kunningja mína og fékk að prófa aðrar línur af stærð #7. Viljandi spurði ég ekkert nánar út í þessar línur, smellti þeim bara á nýju stöngina mína og prófaði hverja á fætur annarri. Það voru tvær línur sem mér fannst passa stönginni, en þær voru mjög ólíkar. Önnur var með tiltölulega stuttum þungum haus og kostaði hreint og beint smáaura og þar sem ég sá strax fyrir mér nokkrar aðstæður þar sem hún mundi henta mér, þá festi ég kaup á henni. Eftir töluvert grúsk, vigtun og útreikninga, fann ég út úr því að hún var 192 grains, sem sagt aðeins þyngri heldur en gamla uppáhalds línan mín. Þar sem haus línunnar er óvanalega langt fyrir aftan fremsta part hennar, þ.e. línan frá haus og út að enda var mjög löng.

Hin línan sem smellpassaði stönginni var allt öðrum eiginleikum búinn, samt með áberandi skothaus og hagaði sér allt öðruvísi þegar hún hlóð stöngina enda kom á daginn að hún var 215 grains, sem er aðeins þyngra heldur en ‚standard‘ lína #7 ætti að vera að hámarki. Ég féll svolítið flatur fyrir þessari línu og þegar mér hafði tekist að draga annað augað í pung, þá var verðmunur þeirra ekki alveg eins rosalegur og ég ákvað að kaupa þær báðar.

Lærdómurinn af þessu gaufi mínu? Jú, lína #7 og lína #7 er alls ekki sama línan og maður á ekki að hika við að prófa þær nokkrar á móti tiltekinni stöng.

Ekki taka slakann með þér

Algeng mistök eru oft auðleyst, það eina sem þarf er að muna lausnina. Það kemur alveg eins fyrir í vatnaveiði eins og í straumvatni að slaki myndast á línunni þegar flugan nálgast bakkann eða er komin á örgrunnt vatn þar sem engin von er á veiði. Margur veiðimaðurinn freistast til þess að taka línuna beint upp í nýtt kast, með slaka og öllu. Allur slaki umfram óverulegan bug verður til þess að upptaka línunnar verður ekki eins áhrifarík eins og til er ætlast.

Til að nýta upptöku línunnar til hins ýtrasta er ágæt regla að lækka stöngina niður að vatnsborðinu og draga línuna inn til að taka allan slaka milli stangartopps og flugu af. Sú lengd línunnar sem þú dregur inn skilar sér margfalt til baka í hleðslu stangarinnar fyrir fyrsta kastið, þú ert örugglega ekki að tapa neinu þótt þú styttir þannig línuna sem liggur út frá stangartoppi.

Enginn bakkgír

Mistök eru oft eftirminnaleg, stundum svo mjög að þau ásækja veiðimenn í áratugi. Einn blogg-kunningi minn vestan Atlantsála á svona minningu sem hann velti upp á spjallsíðu ekki alls fyrir löngu. Þannig var mál með vexti að hann var við veiðar með föður sínum þar sem sá gamli setur í ótrúlegan fisk, trúlega fisk lífs síns sem var í það minnsta 70 sm urriði. Ég glotti reyndar aðeins þegar umræddum fiski var lýst sem tröllslegum, óviðjafnanlegum og algjörlega einstökum. En, hvað um það, þessi fiskur var svo rosalegur að faðirinn þurfti aðstoð við að háfa hann og sonurinn óð því út í og setti sig í stellingar að háfa fiskinn sem sá gamli beindi listilega að honum.

Rétt í þann mund sem sonurinn setti háfinn niður í vatnið, snýr fiskurinn sér um 90° og stefnir ekki lengur í netið, heldur á móti línunni. Í æsingi augnabliksins, hallar sonurinn sér fram og eltir fiskinn í vatninu með háfinn. Fiskurinn tekur þá vitaskuld snöggt viðbragð og beinlínis syndir fram úr flugunni sem fyrir augnabliki hafði setið föst í kjaftinum á honum.

Það grátlega við þetta allt er að umræddur klaufi er fiskatferlisfræðingur (vona að mér hafi tekist að þýða þetta skammlaust) og hann veit upp á hár að urriði getur aðeins synt í eina átt, áfram. Með því að koma svona aftan að honum og stugga við honum, hvatti hann því fiskinn til að taka á sprett og þar með losnaði flugan og hann hvarf sjónum.

Ef þú vilt háfa fisk örugglega, hafðu háfinn þá í vatninu áður en fiskurinn kemur í færi og í raun, hreyfðu háfinn sem minnst. Ef fiskurinn er á ferðinni og stefnir í háfinn, viljugur eða óviljugur, þá eru 33% líkur á því að þú þurfir aðeins að lyfta háfinu til að ná honum. Og ef ekki, þá getur þú allt eins gert tilraun til að háfa hann frá hlið ef hann snýr sér. Bara ekki elta fiskinn og mundu, ef þú ert til aðstoðar veiðimanninum, þá er það veiðimaðurinn sem segir til og tekur ákvörðun, það er ekki þitt á ákveða hvenær þú leggur til atlögu.

Örlítil hreyfing

Sá grunur hefur alveg laumast að mér að lesendur séu búnir að fá meira en nóg af greinum sem gefa til kynna að ég sé rosalega smámunasamur. Endalausar smápillur um einhverjar leiðréttingar á hinu og þessu sem enginn nennir lengur að lesa. Ef einhver heldur virkilega að ég taki allt það upp sem hér er skrifað, þá er það mikill misskilningur. Aha, þú ert einn af þeim sem þykist allt vita, en gerir ekkert af því sjálfur, var sagt við mig um daginn. Ég hló við, það var nefnilega ein áberandi villa í þessari setningu, ég veit ekki allt og reyni ekki einu sinni að halda því fram. Stundum finnst mér eins og því meira sem ég kynni mér, því meira á ég ólært, en mér finnst gott að koma því í texta sem mér er bent á eða ég læri. Hér á eftir ætla ég að taka smá snúning á ábendingu sem gaukað var að mér í vor.

Beinn og brotinn úlnliður

Þannig að maður leiki sér aðeins með líkamsparta, þá hefur það lengi verið minn akkilesarhæll að brjóta úlnliðinn í bakkastinu. Eins og svo oft áður var mér bent á þetta og sagt að stinga stönginni niður í ermina á jakkanum mínum, þó ekki væri nema til þess að finna muninn í kastinu. Jú, jú, ég kannaðist alveg við að kastið batnaði og hélt áfram að tylla stönginni í ermina þannig að ég fengi frið út kastæfinguna. En nei, kemur ekki þessi gaur aftur og spyr mig hvar ég hafi lært að stoppa tvisvar í bakkastinu. Ha, þarna var komið eitthvað alveg nýtt til sögunnar sem ég vissi ekki um, stoppa tvisvar? Já, þú stoppar í bakkastinu en eftir augnablik færir þú stöngina aðeins aftar. Ég fylgdist með sjálfum mér og viti menn. Jafnvel þótt ég hefði spennt stöngina inn í ermina á jakkanum mínum og þannig ráðið bót á þessum með úlnliðinn, þá kom þarna örlítil hreyfing eftir hreint aftara-stopp þar sem ég leyfði stönginni að leka aðeins aftar.

Ég snéri mig næstum úr hálsliðnum, horfði bara á línuna í bakkastinu og þá sá ég línuna ferðast í þokkalega beinni línu, en svo kom þessi örlitla hreyfing og línan féll eins og steinn. Þetta var ekki erfitt að lagfæra, bara taka sér tak og hætta þessum ósið og bakköstin urðu miklu betri.

Það er gott að eiga einhvern að sem getur bent manni á svona bull, sérstaklega þegar maður veit bara alls ekki af því.

Á dauða mínum

Þegar ég var strákur og var eitthvað að stelast með eldspýtur og kveikja varðeld niðri í fjöru, þá fann maður sér stundum stóran stein til að kubba í sundur spýtur á eldinn. Því skarpi sem brúnin á grjótinu var, því auðveldara var að brjóta spýturnar með því að tvíhenda þeim við steininn. Einföld regla um átak beggja megin við fyrirstöðu.

Þessari minningu laust niður í kollinn á mér í fyrrasumar þegar ég sá veiðimann glíma við þokkalegan fisk á einhendu. Fiskurinn tók vel í og stöngin hafði svignað alveg niður að korki, skemmtileg viðureign. Á dauða mínum átti ég von, eða réttara sagt dauða stangarinnar, þegar ég sá viðkomandi færa aðra höndina framfyrir korkinn og upp á miðjan neðsta part stangarinnar. Umsvifalaust breyttist sveigjan í stönginni og náið nú aðeins niður að hendinni, það var greinilega gripið fast.

Mér tókst alveg halda mér á mottunni og allt fór vel að lokum, fiskurinn komst á land og stöngin enn í sínum upprunalegu fjórum pörtum. Það er gott þegar veiðimaður þekkir og treystir stönginni sinni, en þetta fálm um neðsta hluta stangarinn bar þess ekki merki að hann treysti henni og skapaði trúlega meiri ógn heldur en gagn. Undir þeim kringumstæðum þegar þú treystir ekki stönginni, lækkaðu þá frekar hornið, kláraðu viðureignina og athugaðu síðar hvað sterkari stöng kostar þig.

Bráðræði

Ég hef fengið að heyra að ég sé nokkuð bráður, það er bara kjaftæði, ég er bara snöggur að taka ákvarðanir, við flest annað en flugukastið. Ég á vanda til að gefa línunni allt of langan tíma í bakkastinu og þá fellur hún auðvitað, slær tauminum niður og skyndilega er engin fluga eða ekkert afl eftir í stönginni í framkastið. Ég hef svo sem engar áhyggjur af þessu, er að vinna mig út úr þessu, hef nægan tíma til að lagfæra þetta því ég ætla að vera mörg, mörg ár í veiði til viðbótar. Ég reynir að stytta tímann, finna það í stönginni þegar línan hefur rétt nægjanlega úr sér fyrir framkastið og reyna að halda úlnliðnum stífum eins og góður félagi minn þreytist aldrei á að benda mér á.

Þeir sem eru aftur á móti of spari á tímann eru eins og Indiana Jones, eintómir svipusmellir í tíma og ótíma. Þetta helgast af því að línan fær ekki nægan tíma til að rétta úr sér í bakkastinu og er skyndilega svipt í framkastið. Eina leiðin til að útiloka þessa svipusmelli er að gefa sér og línunni örlítið meiri tíma, hlusta með fingrunum á stöngina, þú finnur það þegar línan hefur náð jafnvægi, þá leggur þú ákveðið af stað í framkastið með jafnri hröðun.

Falsráð á réttum tíma

Það er varla til sú veiðisíða sem ekki smellir reglulega inn ráðum við hinu og þessu sem er að hrjá veiðimenn. Ég freistast alltaf af þessum frábæru ráðum, samsinni þeim og hugsa með mér að nýta mér þetta ráð, seinna. Nei, ég er ekki haldinn frestunaráráttu, þessi ráð koma stundum bara á svo einkennilegum árstíma að maður nær bara ekki að nýta þau strax og þegar til á að taka, þá eru þau gleymd.

Nú eru flestir búnir að teygja aðeins úr línunum sínum, sumir búnir að taka fisk, aðrir ekki. Sjálfur hef ég verið í rólegri kantinum, en ég vitja veiðislóða í nágrenninu reglulega og virði fyrir mér veiðimenn sem eru miklu duglegri en ég. Kvöld eitt í síðustu viku brá ég mér upp að Elliðavatni þar sem nokkrir reyndu sig og svolítið á stangirnar. Það kann að bera vott um sjálfbirgingshátt að bregðast við eins og ég gerði, en ég gat bara ekki orða bundist og notaði orð eins og skelfing er þetta lélegur kastari. Einhver kunningja minna kann að segja að nú hafi ég kastað steini úr glerhúsi, en þetta var ekki illa meint, mér einfaldlega ofbauð sá fjöldi falskasta sem hann notaði til að koma línunni út.

Stöng veiðimannsins var bersýnilega ekki að hlaðast, mögulega vegna þess að lengd línunnar var aðeins of mikil; byrja smátt, lengja lítið var sagt við mig um árið. Þegar það bar ekki árangur var mér skipað að læra tvítog, hraða línunni í fram- og afturkastinu, ná meiri hleðslu og lengja þannig meira í línunni í hverju kasti. Það er vandrataður veiðivegurinn.

Eins falleg og falsköst góðs kastara geta verið, þá eru yfirleitt 2/3 þeirra óþarfi og gera lítið annað en tefja fyrir því að flugan lendi á vatninu, þar sem henni er jú ætlað að veiða fisk. Réttar tímasetningar í tvítogi, snerpa þess og lengd togsins fækka falsköstum verulega. Ef falsköstinn eru of mörg, þá væri e.t.v. ráð að leita ráðlegginga hjá kastkennara áður en sumarið smellur inn fyrir alvöru, það er svo miklu skemmtilegra að veiða þegar köstin skila sér og eru ekki of mörg.

Dropper (afleggjari)

Eitt af því sem ég hef lítið stundað í gegnum árin er að veiða á fleiri flugur en eina og því geta málin vandast þegar maður er spurður út í heppilega uppsetningu á dropper, eða afleggjara eins og ég hef kallað þá hingað til. Slík fyrirspurn barst mér síðla vetrar og ég fór því á stúfana, leitaði til mér fróðari manna og fékk hjá þeim reynslusögur af mismunandi uppsetningum.

Það var merkilegur samhljómur meðal manna um heppilega uppsetningu afleggjara og ég læt því þessa grein frá mér með þeim fimm afbrigðum og útfærslum sem flestir nefndu. Í textanum kemur fyrir eitt nýyrði sem gaukað var að mér; aftaníossi sem viðkomandi hafði um flugu sem hnýtt er á taum sem festur er í buginn á fremri flugunni.

Stuttur afleggjari á taum, þung aftari/neðri fluga

Að því er mér skilst er hér á ferðinni tilvalin uppsetning fyrir skrautlega fremri/efri flugu sem grípur athygli fisksins rétt áður en aftari/neðri flugan, sem oft er þyngd straumfluga eða álíka, smellur inn í sjónsvið hans.

Afleggjarinn (fremri/efri) er hnýttur á taum sem er á bilinu 20 – 50 sm sem hnýttur er með þreföldum skurðlæknahnút (Surgeon‘s Knot) á aðaltauminn eða með hefðbundnum fluguhnút í taumahring. Lengd taumsins að aftari/neðri flugunni getur verið allt frá 50 – 100 sm eða jafnvel lengri, allt eftir því dýpi sem óskað er að veiða. Á grúski mínu á veraldarvefnum rakst ég á skemmtilega skýringu á þessari uppsetningu; ef fiskurinn nartar aðeins í aftari fluguna, lengdu í kastinu og leyfðu honum að sjá fremri, skrautlegu fluguna.

 

Langur afleggjari í bug fremri/efri flugu sem gjarnan er þurrfluga

Hér er á ferðinni sú uppsetning sem flestir álitsgjafar gáfu sín bestu meðmæli. Einfalt að útbúa, flækist lítið og auðvelt að stilla dýpt afleggjara. Hér er afleggjarinn, eða aftaníossinn eins og sumir kjósa að kalla hann, hnýttur með grennra fluorocarbon taumefni í bug fremri/efri flugunnar. Lengd taums að aftari/neðri flugu ræðst af því dýpi sem veiða skal á.

Uppsetningin hér að ofan minnir um margt á púpuveiði með tökuvara sem þetta vissulega er, en það er einnig hægt að nota þessa uppsetningu með buzzer eða votflugu eins og sýnt er hér að neðan.

Langur afleggjari í bug fremri/efri flugu sem gjarnan er votfluga
Stuttur afleggjari í bug á þungri púpu

Í þeim tilfellum sem veiða skal afskaplega litla púpu, gefum okkur að hún sé í stærð #22 eða smærri, þá getur verið afar erfitt að koma flugunni niður á botninn. Með þessari uppsetningu er notast við þunga púpu sem fremri flugu og stuttan afleggjara (aftaníossa) fyrir smávöxnu fluguna. Með þessu móti má koma smávaxinni flugu niður á botninn, sem leikur þau laus í taum sem er á bilinu 20 – 50 sm.

Langur afleggjari á taum, þurrfluga og púpa

Nú treysti ég mér ekki að segja til um ástæðu þess að þessi uppsetning fékk frekar dræmar undirtektir hjá álitsgjöfum. Einn nefndi að hún væri stundum til vandræða, sagði að púpan ætti það til að vefjast um tauminn að þurrflugunni og draga hana niður undir yfirborðið.

Hér er efri/fremri flugan höfð í taum sem nær u.þ.b. ½ dýptar vatnsins og afleggjarinn er hafður á taum sem er 1,5 x dýpinu. Þetta helgast af því að þurrflugan virkar í raun sem töluvari og neðri flugan þarf sína umframlengd í taum til að ná niður á æskilegt dýpi.

Langur afleggjari við þurrflugu

Uppsetning þar sem aftari/neðri flugan er hnýtt í auga þurrflugu eða rétt framan við hana. Lengd að afleggjara ræðst af dýpinu sem veiða skal, yfirleitt þó ekki mikið meira en 120 sm.

Ummæli og undirtektir við þessa uppsetningu voru nokkuð misjafnar. Margir mæltu með þessu umfram það að festa aftari/neðri fluguna við tauminn, svo lengi sem þess væri gætt að hafa afleggjarann ekki svo þungan að hann drægi þurrfluguna niður. Aðrir sáu þessari uppsetningu allt til foráttu; flækjugjarnt, flotbani o.s.frv.

Afturbataveiðimenn

Kannski get ég að einhverju leiti sjálfum mér um kennt, en þegar kreppir að í laxveiðinni, þá leita sífellt fleiri og fleiri veiðimenn í vatnaveiðina. Sumir þessara veiðimanna hafa ekki snert á silungsveiði í fjölda ára og ég hef stundum grínast með það að þessir veiðimenn séu í afturbata. Ég veit að þetta er ljótt að grínast með en stundum er svartasti húmorinn einfaldlega sá sem segir mest, þessi hárbeitta lína sem liggur á milli þess sem er of eða þess sem segja má.

Ég var hér um daginn, kannski í síðustu eða þar síðustu viku, með greinarstúf sem ég vann upp úr nokkrum gullkornum sem ég hef heyrt á bakkanum síðustu sumur. Það er aldrei að vita nema einhverjir hafi borið kennsl á sjálfa sig þarna, en trúið mér, það var ekki einhver einn sem átti það sem ég vitnaði til, þið voru nokkrir sem áttuð kveikjurnar að þeirri grein.

Til að bæta gráu ofan á svart þá hef ég punktað hjá mér nokkur atriði sem ég hef séð að bæði afturbata- og nýir veiðimenn eiga sameiginlegt þegar þeir smella saman við vatnaveiðina.

Eitt af því sem ég hef alveg tekið eftir eru þessar rosalegu pælingar um allt og ekki neitt sem veiðimenn detta niður í. Þegar öllu er á botninn hvolft, þá snýst þetta um að veiða og njóta, ekki ofhugsa eða vanda sig út fyrir öll skynsemismörk þannig að veiðimaðurinn looki vel á samfélagsmiðlum. Slakið á og hættið að ofhugsa allt mögulegt og umfram allt, það þarf enginn að kunna allt á veiðistað, þú hefur nægan tíma næsta vetur til að velta þér upp úr mistökum sumarsins og finna lagfærslur á eigin breiskleika.

Glysgirni er eitthvað sem ég datt alveg á bólakaf í á mínum fyrstu árum. Síðan rann aðeins af mér og ég fór að spá meira í einfaldleika, liti og sköpulag fluga sem ég sá að líktu eftir fæðunni sem fiskurinn sækir í. Mikið af þeim flugum sem ganga í augun á veiðimönnum eru beinlínis fjarstæðukenndar í augum fisksins. Ég held að þetta heiti back to the basics upp á enska tungu.

Besta afsökun sem ég hef fundið fyrir sjálfan mig er að það fæðist enginn fullkominn kastari, þetta lærist smátt og smátt. Sumir þurfa hjálp við þetta, misjafnlega mikla, en örugglega einhverja leiðsögn, en það er algjör óþarfi að vera með 40 feta köstin á tæru í fyrstu ferð. Farðu þér aðeins hægar og lærðu að setja fluguna niður innan við 50 sm frá staðnum sem þú sást fyrir þér, stutt og nákvæmt er oft betra heldur en langt og víðsvegar. Og jafnvel þótt þú æfir þig á veiðislóð, takir stutta spilið fram yfir lengdarköstin, þá gerir enginn alvöru veiðimaður grín að þér.

Ég vona að enginn taki þessum hugrenningum mínum og orðaleikjum illa, þetta er ekki illa meint og helst punktað niður fyrir sjálfan mig, kannski einhverja fleiri.

Hvar er háfurinn?

Hér áður fyrr voru háfar stórir, mjög stórir og festir á langt skaft þannig að það væri auðvelt að ná stórum, stórum löxum í þá, helst án þess að bleyta gúmmískóna. Hvenær það gerðist að silungsveiðimenn fóru að bera á sér háf til að ná fiski, veit ég bara ekki, sumir segja að það séu aldir síðan, aðrir aðeins nokkrir áratugir.

Þeir eru nokkrir silungaháfarnir sem maður hefur séð hingað og þangað, munaðarlausir og trúlega sárt saknað. Mér skilst að það séu alltaf einhverjir sem þjóðgarðsverðir á Þingvöllum pikki út úr runnum á hausti hverju þar sem birkið þrengir að göngustígum við vatnið. Verður maður ekki að fara með rulluna 7, 9, 13 og banka í tré áður en maður segir; ég hef aldrei glatað mínum háfum alveg, þeir hafa stundum brugðið sér frá örskamma stund, en alltaf skilað sér aftur.

Ég er svolítið gamaldags og kýs að nota tréháf sem er eðlilega nokkuð þyngri heldur en léttmálmsháfur og því tók það mig nokkurn tíma að finna segulfestingu sem heldur honum tryggilega án þess þó að vera of stíf þegar til á að taka. Ég er raunar með tvöfalt kerfi; segulfestingu með mótstykkið fast í hnakkastykkinu á veiðijakkanum mínum og lás sem ég get ég get smellt í slyngupokann (e: slingbag) minn þegar þannig ber undir.

Segulfestingin er á enda handfangsins á mínum háfi, þannig vil ég hafa hana en þetta er alls ekki algilt. Margir kjósa að hafa festinguna á gjörðinni þannig að handfangið lafi niður, telja að þannig séu minni lýkur á að netið festist í gróðri og háfurinn missi festuna. Ég kaupi þessi rök og líka þau að með þessu móti er auðveldara að ná til handfangsins þegar losa á háfinn. Mótrökin eru afskaplega einföld, þegar ég er búinn að nota háfinn og hann er blautur, þá kýs ég að láta netið dingla því þannig drýpur betur úr því í stað þess að það liggi blautt við bakið á mér.

Eins og ég nefndi hér fyrr, þá er ég líka með smellutengi í teygju við háfinn minn þannig að ég get húkkað hann í beltið á vöðlunum þegar ég er úti í vatni og gripið til hans þegar minnst varir. Þannig þarf ég ekki að fálma eftir segulfestingunni á bakinu í hvert skipti sem ég þarf að grípa til hans. Þess á milli flýtur hann bara við hlið mér og bíður þess að næsti fiskur lætur glepjast af flugunni minni.

Snúningur

Stundum kemur það fyrir að flugulínurnar mínar og ég erum ekki alveg sammála. Þær liggja bara þarna fyrir fótum mér en þegar ég ‚þarf‘ að lyfta tánum örlítið í kastinu, þá þurfa þær endilega að smeygja sér undir vöðluskóinn og húkka sig þannig fastar að ekkert verður úr kastinu. Sumar línur eru líka í eðli sínu illkvittnar og finna sér hvern einasta stein, trjágrein eða gróður til að vefja sig utan um þegar minnst varir og virðast segja „Hingað, og ekki lengra. Ég nenni þessu ekki lengur.“

Svo kemur það fyrir að línan verður beinlínis andsetinn, snýr upp á sig og er bara með yfirgengilega almenna stæla. Í þeim tilfellum er víst ekki við línuna að sakast, þessir snúningar eru mér að kenna og þá þarf ég að gera eitthvað í mínum málum, jafnvel að strjúka línunni aðeins og fá hana aftur til fylgilags við mig.

Það geta verið nokkrar ástæður fyrir því að það snýst upp á flugulínuna. Ein ástæða þess að flugulína vindur upp á sig er falinn í kastinu mínu. Við breytingar á kastferlinum, þ.e. einhver frávik frá því að línan ferðast í beinni línu frá öftustu stöðu og í fremra stopp, þá snýst upp á línuna. Stundum er þetta með vilja gert, þ.e. maður tekur línuna upp í bakkast og breytir stefnu hennar til að leggja hana niður á nýjan stað, en stundum er þetta óviljandi frávik í framkastinu.

Notkun á stórum flugum, þeim sem taka á sig vind eða búa yfir mikilli loftmótstöðu, geta einnig framkallað smávægilegan snúning á línuna. Smá ábending; ef þessi snúningur hleðst ört upp, þá er það vísbending um að verið sé að nota of létta stöng / línu miðað við flugu og reynandi væri að hækka sig um eitt til tvö númer í stöng.

Annars er það þannig að öll þessi smávægilegu frávik hlaðast upp í línunni og ef ekkert er að gert, þá er kominn svo mikill snúningur á línuna að jafnvel lítill stubbur af henni sem lafir niður úr hjólinu er farinn að snúa upp á sig, flækjast. Í verstu tilfellum dregur maður þessa flækju inn á hjólið og skyndilega stendur allt fast. En áður en að þessu kemur, þá eru nokkur atriði sem má nýta sér til að snúa ofan af vandamálinu.

Það fyrsta sem maður getur gripið til er að taka minna af línunni út af hjólinu fyrir kastið og láta það nýta alla línuna sem leikur laus, alveg að hjólinu. Taka síðan aðeins meira út fyrir næsta kast og láta það nýta viðbótina líka. Það er glettilegt hvað nokkur góð köst geta undið ofan af snúningi.

Ef allt um þrýtur, þá þarf einfaldlega að draga alla línuna út af hjólinu og spóla rólega inn á það aftur og gæta þess að það étist ofan af snúninginum jafnt og þétt. Það væri meira að segja heppilegt að nýta tækifærið og bregða gleraugnaklút eða hreinsitusku á línuna þegar henni er spólað inn á hjólið, slá tvær flugur í einu höggi.

Algeng mistök þessu tengt er að fara að strengja á línunni til að losna við snúninginn, ekki gera það. Við strengjum aðeins á línunni ef hún herpir sig saman vegna hitabreytinga eða vegna þess að hún myndar gorm þegar hún kemur út af spólunni sem er allt annað vandamál og tengist mynni hennar, ekki snúningi.

Strekkingur

Allt frá þeim tíma sem byrjað var að framleiða flugulínur úr gerviefnum hafa veiðimenn glímt við minnisvandamál. Ég til dæmis gleymi oft hvaða lína er á hvaða spólu; er þetta heilsökkvandi línan eða er þetta intermediate línan? Nei, auðvitað veit ég alveg hvaða lína er á hvaða spólu. En ég, rétt eins og aðrir, glími stundum við þetta minnisvandamál í línunum mínum. Þó ein ákveðin lína sé í miklu uppáhaldi hjá mér, þá á ég línur frá fleiri en einum framleiðanda og þær eru allar því marki brenndar að muna óþægilega oft hvernig þær hafa legið á spólunum í einhverjar vikur eða mánuði.

Flestar flugulínur í dag eru framleiddar úr PVC, PU eða PE plastefnum og það liggur í eðli þessara efna að það bítur í sig ákveðna lögun ef það liggur kyrrt í langan tíma. Meira að segja venjulegar gosflöskur geta orðið flatbotna ef flöskurnar standa óhreyfðar svolítið fram yfir síðasta söludag innihaldsins. Flugulínurnar verða að vísu ekki flatbotna, en þær verða stundum eins og gormur þegar þær eru dregnar út af veiðihjólinu. Það sem við erum að sjá þarna er svo kallað langtímaminni plastefna. Línurnar muna nefnilega eftir því þegar þeim var spólað ilvolgum inn á stórar tromlur í verksmiðjunni. Þessari minningu línunnar bregður stundum fyrir þegar henni verður kalt, þá herpist hún saman einmitt í sömu áttina og hún fór inn á tromluna. Ef þið trúið mér ekki, þá skulið þið bara spyrja hann Air Rio von Cortland, hann hefur glímt við þetta vandamál í nokkuð mörg ár.

Þegar flugulínan tekur upp á þessum skolla, þ.e. að rifja um þessar gömlu minningar, þá er í raun aðeins eitt til ráða. Vera hæfilega ákveðinn, svona eins og við óþekkan krakka, ekkert ruddalegur, vera mjúkhentur en ákveðinn. Framkvæmdin er í raun afskaplega einföld; takið 3 – 4 fet af línunni út af hjólinu, togið þéttingsfast í þennan spotta, en umfram allt reynið að forðast að setja hlykk á línuna í öðrum hvorum lófanum eða báðum. Það á ekki að vefja línuna um aðra höndina eða báðar, slíkt átak er einfaldlega of mikið og gerir meira ógagn en gagn. Þegar þú hefur farið svona yfir alla línu, þá er tilvalið að spóla henni aftur inn á hjólið með því að halda þéttingsfast um hana með gleraugnaklút, mögulega vættum í smá línubóni eða hreinsiefni, það sakar ekki að hafa línuna hreina inni á hjólinu.

Því miður kemur það alveg fyrir að menn strekkja of harkalega á línunni og þá er hætt við að kápan (sá hluti línunnar sem er gerður úr plasti) losni frá kjarnanum. Það er raunar óþarfi að óttast að slíta venjulega flugulínu, þær eru yfirleitt framleiddar með 18 – 25 punda slitstyrk að lágmarki og sveigjuþol þeirra er oft vel yfir 20%. Eftir sem áður þá eru þær ekki gerðar fyrir fruntalegt átak, þá getur kápan losnað frá kjarnanum og hætt er við að línan virki þá verr eftir strekkinginn, rétt eins og hún sé brotinn eða kjarninn leiki laus inni í henni.

Örlítil varnaðarorð í lokinn, ekki strekkja á línu sem er snúin. Það er nefnilega ekki það saman að lína sé snúinn eða hafi krullað sig upp í gorm eða rétti ekki alveg úr sér. Ef þú þekkir ekki muninn á snúinni línu og krullaðri, þá skaltu bíða í nokkra daga og lesa þér til um það hvernig eigi að snúa ofan af línu áður en þú ferð að strekkja á línunni þinni.

Ný lína

Þessa dagana upplifa margir veiðimenn eða finna bara hjá sér óstöðvandi þörf að kaupa sér nýja flugulínu, því ekki endast flugulínur til eilífðar. Vissulega má framlengja líf flugulínunnar með ýmsum ráðum, helst ilvolgu baði og almennum þrifum, en það kemur alltaf að því að þær einfaldlega virka ekki sem skyldi lengur.

Það er að mörgu að hyggja þegar ný lína verður fyrir valinu, burtséð frá framleiðanda og gerð línunnar. Þegar allt hefur verið ákveðið og menn tilbúnir að taka upp veskið, þá er aðeins ein ákvörðun eftir; á maður að þiggja það að starfsmaður í veiðiversluninni setji línuna á hjólið eða ætlar maður að gera það sjálfur?

Ef maður er nú með hjólið með sér í búðarferðinni eða það sem enn skemmtilegra er, maður hefur keypt sér nýtt hjól í leiðinni, þá er ekkert því til fyrirstöðu að þiggja þetta boð og láta setja nýju línuna á hjólið. En svo eru það þeir sem eiga eftir að færa línur á milli hjóla eða spóla og verða því að segja nei, takk ég geri það sjálfur.

Það þarf væntanlega ekki að segja reyndum veiðimönnum að það er ekki saman hvernig línu er spólað inn á veiðihjól, en það eru mögulega einhverjir óvanir sem reka augun í þessa grein og þá gætu eftirfarandi leiðbeiningar gagnast. Fyrir utan hið augljósa, þ.e. að réttur endi línunnar eigi að fara fyrst inn á hjólið, oft með áföstum miða sem segir this end to reel eða eitthvað álíka, þá er alls ekki sama hvernig línan er tekin út af spólunni í pakkanum.

Stillið nýju línuna alltaf þannig af að hún spólist úr af geymsluspólunni að neðan og inn á fluguhjólið að neðan. Ef ekki er gætt að þessu, þá er hætt við að línan fari að vinda upp á sig í fyrstu köstunum því framleiðsluminni hennar er snúið við á fluguhjólinu.

Alls ekki taka nýju línuna út af geymsluspólunni í gormi, þá er hætt við að fyrstu köstin endi einmitt þannig.

Því miður hef ég nokkrum sinnum séð nýjar línur eyðilagðar vegna þess að þær eru settar rangt yfir á fluguhjólið og veiðimenn fara að strekkja línurnar í tíma og ótíma til að leiðrétta þessa skekkju, en það dugar skammt og gerir oft meira ógagn heldur en gagn ef öll línan er ekki tekin út af hjólinu og henni spólað inn aftur.

Dulin veiði

Í haust sem leið var ég að viða að mér efni til að byggja undir grein sem þegar hefur birst hér á síðunni. Leit mín að ummælum frægra veiðimanna á kostum bestu veiðimanna sem viðkomandi hafði hitt leiddi mig að nokkrum greinum um þann goðumlíka eiginleika veiðimanna að láta lítið fyrir sér fara. Ég viðurkenni að ég var orðinn svolítið pirraður á öllum þessum hæglátu veiðimönnum sem voru dásamaðir í annarri hvorri grein sem ég náði mér í. Hvað er þetta eiginlega? Hafa þessir menn aldrei hnerrað um ævina, kveðið drundrímur með hvelli eða losað önnur búkhljóð eftir staðgóðan hádegisverð?

Þegar mesta pirringinn tók að brá af mér, þá fór ég að meðtaka eitthvað af því sem þessir menn voru dásamaðir fyrir. Það var sem sagt verið að mæra þá fyrir að eiga við fisk í návígi, fara dult á bakkanum og stunda sjónveiði (e: sight fishing) sem ku vera mikil kúnst sem ég hef sjálfur ekki lært ennþá. Ég kippti nokkrum greinum yfir í ‚lesa síðar‘ möppuna mína fyrst þessir menn voru svona frábærir, þá væri e.t.v. ekki út úr korti að tileinka sér einhverja kosti þeirra.

Ég er ekki þungstígur, þó ég segi sjálfur frá, en mér skilst að þessir menn hafi nánast liðið áreynslulaust yfir móa og mýrar. Kjarr og annar skógargróður hafi nánast vikið úr vegi fyrir þeim og svo hafi þeir beinlínis tekið á sig lit umhverfisins þannig að það var ekki nokkur leið fyrir fiskinn að koma auga á þá. Til að bæta um betur, þá hafi þeir aðeins þurft að hvísla að stönginni að setja fluguna niður einmitt 20 sm fyrir framan nefið á fiskinum. Grínlaust, þá er mikið lagt upp úr því að ná good presentation þegar á hólminn er komið þannig að öllum huliðshæfileikum veiðimannsins væri ekki sóað fyrir eitthvað klessukast. Þessi hæfileiki er ekki meðfæddur hjá veiðimönnum, hann verður að æfa og rækta eins og flest allt annað í stangveiðinni.

Það gráa ofan á svart var síðan þetta með litinn á línunni. Ég pældi mig í gegnum fjölda greina þar sem hvít lína var lykillinn, aðrar þar sem kremuð lína var málið og svo enn aðrar þar sem fölgræna línan var eina sem virkaði. Mikið var mér létt þegar ég rakst á eina þar sem höfundur tefldi fram sannfæringu í stað ákveðins litar á línu. Ef veiðimaður er nægjanlega sannfærður um að hann sé með rétta litinn á línunni, þá virkar hún, alveg sama hvernig hún er á litinn. Bingó, ég ætla að sannfæra sjálfan mig að gamla góða orange flotlínan mín sé sú eina rétta.

Þegar hingað var komið í lestri spekingaspjalla, þá var komið að þyngd línunnar. Já, einmitt, átti nú að rústa þessu öllu með því að halda því fram að þyngd línunnar yrði að vera á sléttri tölu, ég sem veiði alltaf á oddatölum. Nei, viti menn, þarna voru flestir sammála mér, oddatölur eru málið. Lína #2 er of létt fyrir spegilinn á litla stöðuvatninu, er svona meira fyrir lygna læki. Lína #4 er of þung þannig að þeir mæltu með #3. Ef það er ekki alveg jafn stillt veður, þá væri málið að færa sig upp í #5 og skrúfa kraftinn aðeins niður í kastinu, leyfa línunni að renna. Ég féll alveg fyrir því þegar einn spekingurinn viðurkenndi að hann notaði reyndar helst línu #5 af því hún hefði nægjanlegan burð til að veiða nettar straum- og votflugur, en ekki of þung fyrir örsmáar þurrflugur.

Einhverra hluta vegna, ég veit reyndar alveg hvers vegna, voru þeir nær allir sammála um að nota fluorcarbon taumaefni í stað poly. Ég ætla nú samt að halda mig við poly, skipti bara oftar um taum þannig að hann haldi nærri því sama gegnsæi og fluorcarbon. Við erum samt sammála um að nota hnútalausan frammjókkandi taum.

Þegar hér var komið lestrinum var klukkan einfaldlega orðin of margt og ég ákvað að loka tölvunni og skreiðast í bólið. Þessa nótt dreymdi mig að ég læddist í veiði á fallegum sumardegi á Íslandi. Ég hef sjaldan sofið jafn vært, rumskaði ekki einu sinni þótt fyrsta haustlægðin hamaðist í gluggatjöldunum alla nóttina.

Lífsferill sjóbirtings

Í raun má segja að lífsferill sjóbirtings og sjóbleikju sé ekkert mjög frábrugðinn, ef undan er skilin valkvæð hegðun bleikjunnar að taka upp sjógönguhegðun eða ekki. Urriði af sjóbirtingsstofni virðist alltaf hafa þá hvöt / þörf að ganga til sjávar. Hér að neðan gefur að líta lífsferil urriða sem elst upp í ferskvatni en gengur til sjávar um leið og líkamsburðir og aðstæður leyfa.

Fyrstu ár sjóbirtings í ferskvatni eru í nær engu frábrugðin venjulegum vatnaurriða. Algengast er að birtingurinn hrygni í ám eða lækjum, en við heppileg skilyrði getur hann hrygnt í stöðuvötnum. Oftast er hrygningartímabil hans frá því í byrjun september og fram undir lok október.

Hrogn urriðans klekjast út í mars og fram í maí, allt eftir hitastigi vatnsins. Kviðpokaseiði urriðans hafa skamma viðdvöl í hrygningarmölinni, aðeins tvo mánuði að jafnaði og halda þá út í vatnsbolinn, stöðuvatn eða straumvatn. Smærri seiðinn halda þó til í lygnara vatni að jafnaði, en með auknum vexti eykst fæðuþörfin og seiðin færa sig út í straumþyngra vatn eða út í stöðuvötn þar sem fæðuframboð er meira.

Þegar birtingurinn hefur náð tveggja til fimm ára aldri, þá gengur hann til sjávar í apríl til maí og dvelur allt að átta vikum í sjó áður en hann gengur aftur upp í ferskvatnið. Bæði geldfiskur og hrygningarfiskur gengur til sjávar, en dvelja veturinn í ferskvatni.

Helstu heimildir: Nokkur atriði varðandi lífsferil laxfiska, Árni Ísaksson Veiðimálastofnun 1980.

Biðröð eða kássa

Það hefur verið sagt um íslendinga að þeir viti ekki hvað biðraðamenning sé. Það kemur ekki oft fyrir að það myndist biðröð á tiltekinn veiðistað í vatnaveiðinni, ástæðan ætti að vera augljós, það er yfirleitt nægt pláss fyrir alla við vötnin og engin ástæða til þess að tveir eða fleiri bítist um að vera á einum ákveðnum stað. Að vísu eru til þeir veiðistaðir sem eru svo vinsælir að menn standa nánast öxl við öxl, bak í bak og telja í kastið þannig að næstu menn taki ekki upp á sama tíma og allar línur fari í flækju. Mér dettur ákveðin staður við Þingvallavatn og góð saga úr Veiðivötnum í hug þegar ég set þetta niður á lyklaborðið. Þetta er sjaldnast vandmál þegar samstilltir veiðifélagar eru á ferð, en auðvitað kemur fyrir að einhver sker sig úr hópinum og gerir bara það sem honum sýnist, það er þó undantekning.

Undantekningarnar eru veiðimenn sem stendur á sama. Þeim stendur á sama um svigrúm næstu manna til veiða og ef þeir sjá smugu, þá troða þeir sér í hana. Ef smugan er ekki til staðar, þá einfaldlega planta þeir sér við hlið ysta manns, helst mjög nærri honum og taka gjarnan hálft hliðarskref nær honum í hverju kasti.

Ráðið við þessu er í raun svo einfalt að það tekur því ekki að nefna það; skiptast á. Það eru síðan til ýmsar útfærslur og viðbætur sem má koma sér saman um; skipta þegar einn hefur fengið fisk, ½ klst. á kjaft eða eitthvað annað viðmið. Lykillinn fellst í samkomulaginu, ef það skortir þá er eins víst að biðröðin breytist í kássu.

Lífsferill urriða

Urriða- og laxaseiði eru oft samkeppnisaðilar um æti í vistkerfum sem þessar tvær tegundir laxfiska deila. Skyndileg fjölgun af annarri tegundinni getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir afkomu hinnar tegundarinnar. Hér að neðan gefur að líta lífsferil urriða sem elst upp í lokuðu vistkerfi, stöðuvatni, og tekur ekki upp sjógönguhegðun.

Algengast er að urriði hrygni í ám eða lækjum, en við heppileg skilyrði getur hann hrygnt í stöðuvötnum. Oftast er hrygningartímabil urriðans frá því í byrjun september og fram undir lok október. Dæmi eru þó til um að urriði hrygni alveg fram í janúar.

Hrogn urriðans klekjast út í mars og fram í maí, allt eftir hitastigi vatnsins. Kviðpokaseiði urriðans hafa skamma viðdvöl í hrygningarmölinni, aðeins tvo mánuði að jafnaði og halda þá út í vatnsbolinn, stöðuvatn eða straumvatn. Smærri seiðinn halda þó til í lygnara vatni að jafnaði, en með auknum vexti eykst fæðuþörfin og seiðin færa sig út í straumþyngra vatn eða út í stöðuvötn þar sem fæðuframboð er meira.

Almennt verður urriðinn kynþroska á fimm til sjö árum, en fjölmörg dæmi eru um afar seinþroska urriða sem verða ekki kynþroska fyrr en sjö til átta ára.

Helstu heimildir: Nokkur atriði varðandi lífsferil laxfiska, Árni Ísaksson Veiðimálastofnun 1980.

Í heimsókn

Fyrir einhverju síðan þá setti ég hér inn smá pistil um þær mismunandi týpur veiðimanna sem maður hittir í veiðivöruverslunum (sjá hér). Sá pistill var nú meira í gamni gerður, en þó með smá alvarlegum undirtóni. Sjálfur fer ég eins oft og þurfa þykir á mínu heimili í veiðivöruverslanir og stundum oftar. Sumar verslanir eru hálfgerðar félagsmiðstöðvar, þar koma menn saman og skeggræða landsins gagn og nauðsynjar, kannski eitthvað í ætt við heitu pottana í laugunum.

Ég er alinn upp úti á landi þar sem aðeins voru tvær verslanir. Önnur seldi allt milli himins og jarðar, hin seldir allt milli himins og jarðar og ABU. Á þessum árum vissi ég lítið annað en að Jói Jóns, strákurinn vestur í þorpi fékk eina ABU-MATIC 80 sem til var í búðinni og mig langaði í svona veiðihjól líka. Þar sem ég þekkti Jóa ekkert, þá náði þetta ekkert lengra og ég lá á aurunum mínum þangað til annað hjól kom í búðina.

Það var ekki fyrr en ég var dreginn í borgarferð sem gutti að ég lagðist á glugga í ónefndri veiðibúð niðri í bæ og sá að til var búð sem bauð upp á margar gerðir veiðihjóla og áttu ekki bara eitt stykki á lager. Þvílíkt og annað eins úrval.

Töluvert mörgum árum síðar að ég fór að venja komur mínar í veiðivöruverslanir af einhverri alvöru. Smátt og smátt fór maður að kannast við einhver andlit, þeim hafði brugðið fyrir í einhverju blaðinu með stórveiði úr einhverjum ám hingað og þangað, aflaklær. Enn sat við það saman, ég þekkti þessa menn ekkert og var því ekkert að kássast upp á þá í einhverri verslun úti í bæ.

Tímarnir breytast og auglýsingarnar með, nú er Jói Jóns ekkert endilega bara einhver strákur vestur í þorpi, hann er þessi á auglýsingunni frá Beitubúðinni og notar ekkert nema Lorem Ipsum græjur, hann er eiginlega orðinn almannaeign og sést oft í Beitubúðinni. En inn í Beitubúðina koma líka óþekktir veiðimenn, byrjendur í mjög ákveðnum erindagjörðum. Sumir þeirra eru kannski ekki alveg vissir um það hvernig koma eigi orðum að erindinu, ráfa um og skoða hitt og þetta en finna ekki endilega það sem þá vantar. Svo eru þeir sem koma inn með brennandi spurningar, fá svar við henni og fara aftur út með ótal fleiri spurningum ósvarað.

Eitt gott ráð fyrir þá sem koma inn í veiðivöruverslanir og eru ekki alveg vissir hvað það er eða hvernig er best að nota það sem þeim hefur verið ráðlagt að kaupa; verið umfram allt heiðarlegir við sjálfa ykkur og alla aðra. Verið heiðarlegir og segist ekki vera vissir, þið hafið aldrei prófað þetta og þið þurfið aðeins meiri þjónustu heldur en fá vöruna í hendurnar. Sjálfur er ég ekki alveg byrjandi í þessu stússi, en ég er líka byrjandi þegar eitthvað nýtt kemur fram og þá spyr ég; Hvað er þetta? Hvernig virkar þetta? Hvernig notar maður þetta? Þetta kann að hljóma heimskulega, en málið er að einu heimskulegu spurningarnar eru þær sem aldrei eru spurðar.

Góður afgreiðslumaður er fljótur að fatta þegar spyrjandinn veit ekki alveg hvað um ræðir og bætir þá oft upp á það sem þú spyrð ekki um. Hann gæti jafnvel komið með góða sögu af Jóa Jóns þegar hann veiddi 20 punda fiskinn, einmitt með þessu sem þú spurðir um. Lykillinn er að spyrja nægjanlega almennrar, en þó hnitmiðaðrar spurningar. Ef svo skemmtilega vill nú til að Jói Jóns er staddur í búðinni og afgreiðslumaðurinn kallar á hann, ekki falla í stafi og renna lásnum fyrir talfærin á þér. Jói Jóns er nefnilega bara maður af holdi og blóði, rétt eins og þú, ekkert meira en það. Jú, kannski, ef hann er alvöru veiðimaður þá er hann búinn að verða sér úti um reynslu og alvöru veiðimenn eru alltaf til í að segja frá reynslu sinni. Nýttu þér tækifærið og dragðu garnirnar úr Jóa.

Passaðu þig bara á einu, ekki fara út úr búðinni fyrr en þú ert örugglega kominn með það sem þú ætlaðir upphaflega að kaupa. Hvort þú farir út með eitthvað meira, eitthvað sem þú vissir ekki einu sinni að væri til, það skiptir minna máli svo lengi sem þú hefur efni á því.