Eins og hundur

Það eru ótrúlega mörg orðasambönd sem tengjast hundum; að vera eins og snúið roð í hundi, að vera nasvís eins og hundur, það er hundur í honum, það er ekki hundi út sigandi og lykta eins og hundur af sundi. Það síðasta er eiginlega það sem ég var að leita eftir. Að lykta eins og hundur af sundi er ekki neitt sérstaklega eftirsóknarvert, í það minnsta finnst mér það ekki.

Það kemur þó fyrir að kvöldi að maður lyktar eins og hundur af sundi þegar maður fer úr vöðlunum eftir langan dag í veiði. Það er vissulega misslæmur þefurinn af manni, stundum er maður einfaldlega ekki í húsum hæfur, stundum er manni skipað að fara úr sokkum og öðrum plöggum sem þefja, en trúlega er versta útgáfan af þessu sú þegar maður er vinsamlegast beðinn að yfirgefa veiðisvæðið og ekki láta sjá sig þar aftur.

Oft kemur nú fyrir að maður svitnar í venjulegum fötum og þá er það sjaldnast tiltökumál, maður þrífur sig og skiptir um föt og málið er dautt. En maður skiptir ekki svo glatt um vöðlur í miðjum veiðitúr. En það eru nokkur einföld ráð sem duga ágætlega til að teygja á tímanum sem það tekur vöðlunar að gerast brotlegar við banni við þróun, framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna.

Þegar þú tekur þér pásu frá veiði, farðu þá úr vöðlunum (það dugar ekki að bretta þær bara niður). Snúðu vöðlunum á rönguna og leyfðu að lofta um þær á meðan þú nýtur nestisins og kaffibollans. Bakteríur eru náttúrulegur fylgifiskur alls lífs, við kjöraðstæður eins og í raka og stöðnuðu lofti eins og í vöðlunum, þá fjölgar þeim ansi hressilega með tilheyrandi óþef. Þegar svo er komið að vöðlurnar anga bæði þurrar og rakar, þá er örugglega tími til kominn að þvo þær.

Pokaloka

Á mínu heimili er brauðskápur í eldhúsinu og einhverra hluta vegna verða þessar pokalokur alltaf eftir í skápnum þótt brauðið sé löngu búið. Raunar hefur þeim farið fækkandi, þessum litlu plastflipum á síðustu árum og því ekki víst að allir eigi svona pokaloku tiltæka, en þá má alveg athuga hvort gömul gítarnögl frá rokk- eða pönkárunum leynist ekki einhversstaðar ofan í skúffu.

Mér hefur ekkert alltaf gengið jafn vel að brjóta saman geislana á fjöðrum þegar ég er að vesenast með hringvöf á flugu, sumar fjaðrir eru einfaldlega óstýrlátari heldur en aðrar. Svo var mér bent á að klippa V í svona pokaloku og nota hana til að leggja geislana aftur. Það var svo um daginn að þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég rakst á þetta myndband Tim Flaglers og datt í hug að miðla þessu til lesenda:

Fulltrúar framleiðenda

Flestir veiðimenn eiga sér einhverja uppáhalds græju, flugu eða fatnað. Einn sem ég þekki fer ekki út að veiða öðruvísi en hann sé búinn að spegla sig í bak og fyrir, look‘ið verður að vera í lagi. Ég tek það sérstaklega fram að umræddur veiðimaður er karlmaður, bara til að koma í veg fyrir einhvern leiðinda misskilning. Mig grunar að þessi veiðimaður sé alltaf klæddur í sama vörumerkið, bæði að ofan og neðan, jafnvel innanundir líka. Hann er eiginlega gangandi auglýsing, snyrtilegur og flottur til fara. Annar sem ég þekki er ekki bara trúr ákveðinni stangartegund, hann beinlínis elskar þær allar og er sérstaklega duglegur að mæla með þeim. Á ég eitthvað að nefna þá sem ég þekki og hafa tekið ástfóstri við ákveðið taumaefni eða línu? Ég held að það sé óþarfi, þið þekkið væntanlega einhvern svona veiðimann.

Þessir veiðimenn eru góðir fulltrúar framleiðenda og ég viðurkenni það fúslega að ég legg við hlustir þegar þeir tjá sig og það kemur oft fyrir að ég fer eftir því sem þeir segja. Mér vitandi njóta þeir sem ég hef hér í huga ekki neitt betri kjara hjá verslunum heldur en Pétur eða Páll utan af götunni og þetta ræður töluverðu um það að þegar þeir opna munninn, þá legg ég við hlustir. Ég þekki þessa aðila, þeir veiða af ástríðu fyrir veiðinni sjálfri, eru góðir félagar félaga sinna og þekkja vel til á ýmsum veiðistöðum, hoknir af reynslu.

Nú er ég ekki að gefa í skyn að þeir veiðimenn sem leynt og ljóst eru styrktir til dáða af ákveðnum vörumerkjum eða verslunum séu ekki góðir félagar félaga sinna eða eitthvað slakari veiðimenn. En, því miður tek ég ekki alveg eins mikið mark á svörum þeirra þegar spurt er; Hvaða stöng á ég að fá mér? og svarið er einfaldlega það sama og stendur með myllumerki (#) undir profile myndinni þeirra á Instagram eða Facebook. Svona er ég nú einkennilegur og fer eiginlega ekkert batnandi með aldrinum. Eflaust hef ég farið á mis við eða ekki lagt trúnað á margar góðar ráðleggingar vegna þess að frábær álitsgjafi var á mála hjá einhverju Co. Ltd. eða Inc. Vegna þess að ég trúi því í einlægni að margir álitsgjafar séu vel meinandi og viti í raun sínu viti, þá langar mig til að segja að það sé miður að efasemdir um gildi áhrifavalda hafi verið að færast í aukast síðustu misserin. En því miður þá verða svörtu sauðirnir í hópinum oft til þess að stimpla fjöldann.

Þessar hugleiðingar mínar eiga sér raunar nokkuð langan aðdraganda, ég varð nefnilega fyrir áhrifum af grein sem Ryan Hudson, eigandi Wyoming Fishing Company skrifaði árið 2018 og hefur dregið nokkurn dilk á eftir sér. Það tilfelli sem hann vísaði til var álitshnekkir, ef ekki skellur fyrir tímaritið American Angler og vakti marga til umhugsunar um val styrktaraðila á þeim áhrifavöldum sem þeir hafa valið sér til samstarfs. Eitthvað var líka ýjað að ábyrgð veiðimanna að standa vörð um heilindi sinna félaga. Ég get nú ekki sagt að ég hafi tekið þetta mjög til mín, hef hingað til talið að fávitarnir á netinu (afsakið orðbragðið) dæmi sig sjálfir og ekki endilega þörf á að ég setjist í eitthvert dómarasæti yfir þeim. En, kannski á maður samt að hafa orð á því þegar sami fiskurinn kemur fyrir beint af bakkanum í tvær vikur í röð á samfélagsmiðlum eða tanngarðar veiðimanns læsast um handfangið á taumalausri veiðistönginni sem fangaði trophy fiskinn? Ef ég mætti hafa áhrif á einhvern lesanda, þá mæli ég með að smella á nafn Ryan Hudson og lesa greinina sem nærri setti American Angler á hausinn.

Vöðluþvottur

Lengi vel trúði ég því eins og nýriðnu neti að maður mætti ekki þvo vöðlurnar sínar, þá færi öll vatnsvörn úr þeim o.s.frv. Á endanum kom nú samt að því að ég bara varð, það varð ekki hjá því komist að þvo þær, slík var umhverfisógn þeirra orðin.

Þessum veitti ekki af þvotti

Það er nú samt ákveðin fyrirvari á því hvaða vöðlur megi og hvernig eigi að þvo þær. Hefðbundnar öndunarvöðlur1) má alveg handþvo, sumar hverjar má jafnvel setja á kalt þvottakerfi í þvottavél. Raunar ætti að þvo vöðlur reglulega því ef efnið í vöðlunum nær að verða pakkað af drullu, þá hættir vatnsfælan í efninu að virka, vöðlunar byrja að safna í sig vatni og beinlínis fara að leka í gegnum efnið. Það er betra að vera með lítið virka vatnsfælu í stað skítugrar.

Ef vöðlurnar eru svo óhreinar að fyrirséð er að nota verði þvottaefni 2), þá eru nokkur atriði sem ber að varast:

  • Ekki nota þvottaefni sem inniheldur bleikiefni (klórsambönd t.d.)
  • Þvottaefni með mýkingarefni á aldrei að nota á vatnshelt efni
  • Notið lyktarlaust þvottaefni, lykt í þvottaefni er yfirleitt kemísk og fer ekki vel með vatnsfæluna

Eftir þvott á að leyfa vöðlunum að þorna, ekki setja þær í þurrkarann og gætið þess vel að þær sé fullþornaðar áður en þið ætlið mögulega að endurnýja vatnsfæluna í efninu.

Hér geta óhreinindin safnað í sig vatni og ….

Svo má ekki gleyma veiðijökkunum, flesta þeirra má einnig þvo en gætið þá sértstaklega að fyrirvara 1) hér að neðan.

1) Hefðbundnar vöðlur eru m.a. Guideline, Orvis, Patagonia, Scierra og Simms. Kynnið ykkur þvottaleiðbeiningar framleiðanda áður en þið þvoið vöðlurnar, ef þið finnið ekki þvottaleiðbeiningar, hafið þá samband við söluaðila og óskið leiðbeininga.

2) Þvottaefni sem sérstaklega eru ætluð útvistarfatnaði henta vöðlum ágætlega. Meðal vörumerkja sem leitandi er að hér á Íslandi er t.d. Nikwax og Revivex sem hvoru tveggja bjóða upp á þvottaefni og efni til að endurnýja vatnafæluna í efninu. Fylgið leiðbeiningum framleiðanda um þvott og endurnýjun vatnsfælunnar.

Endalaus umræða

Hvert einasta vor má lesa orðahnippingarnar á samfélagsmiðlum þegar myndir af fyrstu fiskunum fara að detta inn, hnippingarnar halda síðan áfram svo lengi sem fiskur kemur á land og er ekki skilað aftur í vatnið. Ég á nú frekar von á að þetta verði raunin á næsta ári, ekki nema þá veiðimenn fari að pukrast með myndir af ljómandi fallegum fiski sem er á leið á pönnuna. Já, ég ætla aðeins að velta mér upp úr þessari endalausu umræðu sem á sér stað á milli þeirra sem aðhyllast skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda og þeirra sem telja hreint enga skynsemi í því að drepa fisk.

Af orðfæri þeirra sem koma mér fyrir sjónir sem æðstuprestar veiða og sleppa má ráða að það sé komið að þolmörkum þeirra á umburðalyndi fyrir því að sjá blóðgaðan fisk. Það hét í mínu ungdæmi að vera að andskotast í fólki að gera lítið úr því opinberlega og er engum til framdráttar. Slakið aðeins á og færið rök fyrir máli ykkar í stað þess að slá um ykkur fullyrðingum án þess að þekkja nægjanlega vel til.

Orðfæri þeirra sem veiða og deyða er heldur ekkert sérstaklega málefnalegt á köflum og beinist oftar en ekki að þeim sem kallaði eru snobbveiðimenn sem mér skilst að séu þeir sem veiða á flugu og koma helst að sunnan. Ég þakka bara pent fyrir mig, fluguveiði er sú veiðiaðferð sem ég finn mig best í og hefur ekkert með snobb að gera, í það minnsta ekki í mínum huga. Ef ég væri haldin einhverju veiðisnobbi þá væru væntanlega ekki jafn margir af mínum bestu veiðifélögum veiðimenn sem veiða lítið eða ekkert á flugu.

Að öllum orðahnippingum slepptum, þá eru gild rök fyrir veiða og sleppa, en þau eru ekki algild. Að sama skapi eru gild rök fyrir því að sleppa því að veiða, en þá missir auðvitað einhver spón úr aski sínum og því er sá kostur sjaldan nefndur til sögunnar.

Upprunalega hugmyndafræðin á bak við veiða og sleppa byggir á því að vernda fiskistofn í á eða vatni þannig að til staðar verði nægur fjöldi einstaklinga til að viðhalda og helst auka við stofnstærðina. Þegar þetta er gert á réttan hátt, hefur það sannað sig að vera afar öflug leið til að auka viðkomu fiska og verðmæti veiðisvæðis til útleigu og/eða veiðileyfasölu, um það er engum blöðum að fletta.

Líkt og með marga aðra hugmyndafræði hafa aðrir tekið hana upp á sína arma og úrfært að eigin markmiðum. Einn afleggjari veiða og sleppa hefur ekkert með veiða að gera, aðeins sleppa. Sú fræði byggir á því að hætta alfarið allri nýtingu dýra til manneldis og hefur oft verið kennd við Vegan-lífstíl. Ég þekki í raun afskaplega lítið til þessa lífstíls, en geri mér grein fyrir grundvallaratriðunum hans og því hallast ég á þá skoðun að fylgjendur hans ættu alfarið að sleppa því að veiða. Hér ætla ég að láta ógetið þeirrar stundar sem ég sá Vegan veiðimann stunda stangveiði og leggja afla sinn í púkkið, en hafna síðan tiltekinni hafraköku með kaffinu vegna þess að hún var ekki Vegan.

Lög og reglur hafa fylgt mannskepnunni frá örófi alda. Elstu dæmin eru trúarbrögð þar sem boð og bönn voru snyrtilega útfærð í fyrirmælum æðri máttarvalda og fólki innprentað sjálfvirkt samviskubit færi það á svig við þau. Þessari aðferðafærði hefur því miður aðeins verið beitt þegar kemur að veiða og sleppa, þetta sé hið eina siðferðilega rétta og öll frávik skuli litinn hornauga til að framkalla samviskubit þess brotlega. Veiðieðli mannskepnunnar er töluvert eldra heldur en trúarbrögð mannkynssögunnar og því engin ástæða fyrir veiðimenn að fyrirverða sig ef þeir finna fyrir þörfinni að veiða sér og sínum til matar. Í stóra samhenginu munar aldrei svo um einn eða nokkra fiska til átu úr náttúrulegum fiskistofni sem á annað borð má pirra með stangveiði. Ef stofninn er svo illa haldinn að ekki megi taka úr honum stöku einstakling, þá ætti að friða hann algjörlega. Ég hvet veiðimenn til að velja sér veiðisvæði þar sem taka má fisk, ástunda sleppingar að eigin vali eða þegar afla í máltíð hefur verið náð.

Eins og ég nefndi hér áður, þá eru rök fyrir veiða og sleppa ekki algild og eiga alls ekki við allsstaðar. Eitt dæmi um það eru veiðar þar sem fiski hefur eða er sleppt í áður fisklaus vötn. Víða háttar því þannig til að fiskur nær ekki að fjölga sér með náttúrulegum hætti og einmitt þess vegna hafa þau verið fisklaus. Dæmi um þetta eru flest vötn í Veiðivötnum á Landmannaafrétti og því fráleitt að sleppa þar fiski ef hann er á annað borð kominn í matstærð. Mitt álit er að aðeins þau tvö vötn þar sem Veiðivatnaurriðinn getur fjölgað sér í eigi að vernda ef upp kemur sú staða að stofninum sé hætta búinn. Það hefur og verið gert eftir gengdalausa ofveiði á árum áður. Þá var reyndar gengið lengra en veiða og sleppa, vötnin voru alfarið friðuð og það skilaði sér.

Augljóst dæmi um vötn eða ár þar sem veiða og sleppa á ekki við er þar sem fiskistofn er of stór miðað við framleiðni svæðisins. Dags, daglega eru þessi svæði nefnd ofsetin. Sem dæmi um slík svæði má nefna lokuð bleikjuvötn og ár með takmarkaðri framleiðni sem stundum má rekja til sleppinga seiða umfram burðarþol þeirra. Þetta á við um sleppingar allra laxfiska; bleikju, urriða og lax.

Lengi vel höfum við haft litlar áhyggjur af innrás framandi fisktegunda hér á landi, en nú er öldin önnur. Flundru varð hér fyrst vart í Ölfusá árið 1999 og árið 2017 hafði útbreiðslusvæði hennar náð hringinn í kringum landið. Flundru sleppum við ekki. Annar skolli hefur trúlega verið viðloðandi strendur landsins frá því hann veiddist fyrst í Hítará á Mýrum árið 1960. Hér er ég að tala um hnúðlax sem nú hefur orðið vart í ám hringinn í kringum landið. Þó skiptar skoðanir séu á því hvort hnúðlax geti orðið að nytjastofni hér, þá er hann framandi fisktegund sem stefnt getur staðbundnum fiskistofnum í hættu og því sleppum við honum ekki, hvað sem hver segir.

Ef einhver hefur haft dug í sér eða nennu til að klára lestur þessarar greinar og hefur enn ekki fengið nóg, þá er meira efni byggt á sama grúski mínu handan við hornið. Já, þetta er endalaus umræða.

Draumalíf

Á þessum árstíma lifa margir veiðimenn einhvers konar draumalífi, láta sig dreyma um veiðina í báðar áttir á dagatalinu. Mörgum verður hugsað til veiðinnar síðasta sumar, öðrum verður hugsað til næsta sumars og setja sér háleit markmið. Þá sem detta niður í hnýtingar og setja í einhverja nýja flugu, dreymir líka næsta sumar, suma ósjálfrátt en aðra meðvitað því nú skal hnýta fluguna sem verður game changer næsta sumars. Svo eru þeir til sem dreymir draumalífið, ég er þar á meðal. Draumalífið mitt er samt beiskju og öfund blandið.

Tærnar við íslenskt fjallavatn – Samsett mynd

Á sumrin set ég gjarnan tærnar upp í loft við fjallavatn á Íslandi, nýt þess að heyra í engu nema náttúrunni í góðra vina hópi, baða flugur og nýt þess einfaldlega að vera til. Þegar tekur að haustar á Íslandi og veiðin fer að dala, þá fæ ég hin og þessi skilaboð að sunnan, veiðitímabilið er að hefjast á Nýja Sjálandi. Þá fer mig að dreyma tærnar mínar upp í loft á allt öðrum stað.

Tærnar við nýsjálenskt fjallavatn – Samsett mynd

Þó það sé yfirleitt alltaf í nógu að snúast hérna heima á Íslandi yfir vetrarmánuðina, þá geta þessir mánuðir stundum verið ótrúlega lengi að líða. Það styttir vitaskuld biðina þegar maður fær skilaboð frá nýsjálenskum veiðimönnum sem eru að njóta sumarsins þarna hinumegin á kúlunni okkar. Ég þori alveg að viðurkenna að stundum grípur samt um sig smá öfund eða afbrýðisemi innra með mér þegar menn státa sig af hinum eða þessum veiðitúr á meðan ég sit hérna heima og veturinn hamast á litlu veiðibakteríuna mína.

Haustið og það sem af er vetrar hefur verið mörgum veiðimanninum erfitt vegna þessarar skollans veiru sem gengur hér yfir. Sumarið varð heldur endasleppt hjá þeim sem ekki treystu sér í fjölmennari veiðihús s.l. haust og ekki bætti úr skák þegar veiruskollinn sótti í sig veðrið og setti vetrarstarf og samkomur veiðimanna úr skorðum. Auðvitað ber maður þá von í brjósti að þessi óáran gangi yfir og haldist í lægð þannig að maður getir farið að hitta mann og annan, þó ekki væri nema til þess að komast aðeins í samband í gegnum eitthvað annað en mynd- eða hljóðsamskipti í gegnum tölvuna. Þangað til verður maður bara að láta sig dreyma draumalandið, annað hvort þetta hérna eða hinu megin á hnettinum.

Betri

Tökum okkur nokkrar sekúndur í að virða fyrir okkur góðan kastara. Það sem fyrir augu ber er veiðimaður sem hefur fullt vald á stönginni og línunni, kastar með tignarlegum hreyfingum og afraksturinn er lína sem rennur eftir ímynduðu kasthjólinu í fallegum boga, réttir þannig úr sér og leggst þráðbeint fram. Góður kastar hefur ánægju af því að kasta, einfaldlega vegna þess að hann kann það og þessi ánægja, alveg hverju menn halda fram, sést á kastaranum. Þetta er ekki ofsafengin gleði, hún kemur aðeins hjá mönnum eins og mér sem slysast til að eiga eitt og eitt gott kast, þetta er innri ánægja sem felur í sér rósemd.

Ég þekki nokkra veiðimenn sem trúa því statt og stöðugt að þeir verði betri veiðimenn með því að kasta betur. Ekki dettur mér í hug að efast um gildi þess að kasta vel fyrir veiðimenn, en það eitt gerir engan að betri veiðimanni. Góður kastari ræður yfir ákveðinni nákvæmni í kastinu, hann hefur meiri möguleika á að setja fluguna niður þar sem hann vill og þannig aukið möguleika sína sem veiðimanns, eða hvað?

Í mörgum ám tíðkast það að veiðimenn verða að kaupa sér veiðileiðsögn og veiðileyfi. Hlutverk veiðileiðsögumannsins er að fræða veiðimanninn um ánna, benda á bestu veiðistaðina hverju sinni og hvar eigi að setja fluguna niður þannig að fiskurinn láti glepjast og taki hana. Svo þekki ég líka nokkra sem eru snillingar í framreiðslu og kaffiuppáhellingum á bakkanum, sannkallaðir veislukokkar undir berum himni, en það er allt önnur saga. Og þó? Ef veiðimaðurinn nær nú ekki með nokkru móti að setja fluguna niður á tilgreindan stað og fær engin viðbrögð, þá hefur gædinn um tvennt að velja; kasta fyrir viðkomandi veiðimann (þeir eru flestir mjög lunknir kastarar) eða hella upp á gott kaffi á bakkanum, flauta veiðimanninn uppúr og hleypa öðrum að staðnum. Ef veiðimaðurinn er aftur á móti barasta ágætur kastari og fer eftir leiðbeiningum og setur fluguna niður á hárréttum stað, þá gæti nú ýmislegt skemmtilegt gerst.

Þetta var e.t.v. ekki góð dæmisaga en inntakið í þessum pælingum mínum er einfaldlega að ef einhver ætlar að verða góður veiðimaður, þá þarf hann að innihalda dágóðan skammt af kastara og annað eins af leiðsögumanni. Mér liggur meira að segja við að segja að góður veiðimaður kemst upp með að vera heldur lélegur kastari ef hann veit í það minnsta hvar hann á að reyna að setja fluguna niður. Hæfileg blanda er best, þannig fær maður ekki óbragð í munninn eins og þegar maður húkkar fisk.

Loftþrýstingur

Veður hefur töluverð áhrif á allar skepnur, bein og óbein. Þegar það er rigningarsuddi og vindur, kalsi eins og það heitir, þá hefur það áhrif á veiðimenn ekkert síður en fiska og í einfeldni minni þá á ég það til að heimfæra mína upplifun beint á fiskinn; Æ, hann er ekkert að hreyfa sig í þessu roki eða Hann er ekkert á ferðinni í þessum kulda.

Stærsti munurinn á okkur, þ.e. mannskepnunni og fiskunum, er að við erum með heitt blóð en þeir kalt þannig að við bregðumst að öllu jöfnu fyrr við sveiflum í hita heldur en þeir. Og viðbragðið okkar er allt annað en þeirra, við höfum þann möguleika að fækka fötum í hita eða klæða okkur betur í kulda en þau úrræði hefur fiskurinn ekki. Ef hitastigið í vatninu verður eitthvað of hátt, þá leitar hann í kaldara vatn. Ef hitastigið í vatninu er of lágt, þá leitar hann í heitara vatn eða hægir á líkamsstarfseminni ef það finnst ekki. Kjörhitastig bleikju er nokkuð lægra heldur en urriða, 5 -12°C á móti 10 – 18°C hjá urriðanum. Ekki rugla þessum tölum saman við það hitastig eða öllu heldur þann lága hita sem þarf til að fiskurinn dragi verulega úr líkamsstarfsemi sinni og leggist í dvala. Eins má ekki gleyma því að kjörhitastig, þ.e. hvenær bleikja er hve virkust er afar mismunandi eftir stofnum hennar þannig að þessar tölur eru ekki heilagar.

Loftþrýsting þekkja fiskar ágætlega án þess að hafa endilega útbúið sér einhver hugtök yfir mismunandi þrýsting eins og við mennirnir. Hæð yfir Grænalandi og lægð við Færeyja er eitthvað sem maður tók inn með móðurmjólkinni og fagnaði því lengra í burti sem lægðin færði sig, svo lengi sem hæð var í grennd. Í stuttu máli þá er hæð einfaldlega svæði með hærri loftþrýsting heldur umhverfið og hérna megin á kúlunni blæs vindurinn um þær réttsælis   Lægð er aftur á móti svæði með lægri loftþrýsting heldur en svæðið umhverfis og vindur gengur rangsælis  um þær. Lægðum fylgir gjarnan óstöðugt veður, hvassir vindar, skýjað og úrkoma. Hæðir bera með sér stöðugra veður og oft heiðríkju. En hvað hefur þetta með fiskinn að gera?

Breytingar á loftþrýstingi hefur meiri áhrif á fiska með tiltölulega stóran sundmaga heldur lítinn. Laxfiskar (urriði, bleikja og lax) eru einmitt þannig og það sem meira er, þeir eru með lokað kerfi sundmaga. Fiskar leitast við að halda jafnvægi eðlisþyngdar, þ.e. þyngd vs. ummál. Ef þrýstingur lækkar, þá þenst gasið í sundmaganum út og eðlisþyngd hans minnkar. Fiskurinn bregst yfirleitt við þessu með því að eyða orku í að færa sig niður á meira dýpi, ummál sundmagans minnkar og eðlisþyngdin réttist af. Það tekur smá tíma fyrir fiskinn að færa gas úr sundmaganum yfir í blóðrásina en þegar það hefur gerst, þá getur hann fært sig til í vatnsbolnum að vild. Eftir stendur að orkan sem hann notaði í að færa sig niður í vatnsbolinn er glötuð og eðlileg viðbrögð fiskins eru að afla sér fæðu, vinna upp tapið. Meðal annars þess vegna er oft töluverður hasar í fiski eftir að loftþrýstingur hefur lækkað skyndilega og fiskurinn hefur jafnað sig og hann leitar þá gjarnan upp í vatnsbolinn, eltir það sem lægðarvindurinn nær að draga saman og róta upp.

Trúlega hressileg lægð

Ef loftþrýstingur hækkar skyndilega, þá dregst sundamaginn saman, ummál fisksins minnkar og þar með eykst eðlisþyngd hans og hann í raun sekkur á meira dýpi án þess að hafa nokkuð fyrir því. Fiskurinn tapar engri orku við þetta og getur fært gasið úr blóðrásinni yfir í sundmagann í rólegheitunum ef honum sýnist svo og fært sig áreynslulaust aftur upp að yfirborðinu. Ef svo ber undir, þá virðist fiskurinn yfir höfuð vera heldur rólegri í háum loftþrýstingin. Í mörgum tilfellum hefur fiskurinn ekki einu sinni fyrir því að færa sig upp að yfirborðinu, með hæðinni kemur jú oft heiðskýrt veður og sól sem hann hefur engan áhuga á, leggst því við botn og hreyfir sig lítið sem ekkert.

Óumdeilanleg hæð yfir landinu

Vitaskuld er ekki öll veðurfarssagan sögð með þessum orðum, en í grunninn snýst þetta um að halda eðlisþyngd í breytilegum loftþrýstingi. Hvað breyttur loftþrýstingur hefur í för með sér hvað varðar fæðu, er allt annað mál. Þegar fæðan fer á stjá þegar vatnið hefur hitnað í heiðríkjunni eða súrefnisinnihaldið aukist skyndilega í lægðarrigningunni, þá hefur fiskurinn þegar náð jafnvægi og þarf ekkert að fórna miklu til að geta farið á stjá. Fylgjumst vel með fallandi loftþrýstingi, hann getur verið ávísun á fjör.

Þarf alltaf að vera bling?

Það er gömul vísa og sígild í fluguhnýtingum að setja eitthvað bling á fluguna til að ná frekar athygli fiskins. Blingið getur verið af ýmsum tegundum og gerðum; tinsel, flashabou, þrívíddarflashabou (holographic), crystal hair, chrystal flash, pearl flat tinsel, oval (french) tinsel ofl. ofl.

Með tíð og tíma hef ég aðeins dregið úr öllu þessu blingi og farið að skilja laufléttar athugasemdir mér reyndari veiðimanna hér um árið að „Það er nú óþarfi að setja svona marga þræði“. Að vísu hef ég á sama tíma tekið ákveðnu ástfóstri við búkefni í straumflugur sem inniheldur töluvert af blingi, bæði fyrir dagsljós og UV hin síðari ár. Þetta efni kemur vissulega mikið í staðinn fyrir flatt eða rúnað tinsel í búkvöf.

Eins og svo oft áður, þá var það grein á vefnum sem vakti mig aðeins til umhugsunar um gildi alls þessa blings á flugum. Það hefur alveg komið fyrir að mér hefur fundist blingið fæla fiskinn frá, frekar en laða hann að flugunni. Helst hefur mér fundist þetta þá örfáu daga sem sólinn er sérstaklega skær, ekki ský á himni og allt glitrar sem glitrað getur í vatninu. Þá hef ég prófað að velja flugu með aðeins minna bingi og jafnvel gengið betur.

Eins finnst mér þetta tilfellið þegar fiskur styggist eða er að upplagi tregur til töku. Það er stundum eins og fiskar séu jafn gamlir og maður sjálfur, verða einfaldlega pirraðir af öllu áreitinu og hætta alveg að bregðast við því sem fyrir þá er lagt. Ég er svolítið svona þegar kemur að tónlist, á meðan ungviði hoppar og skoppar í takt við eitthvað glimmerpopp, þá kýs ég að setjast út í horn og bíða eftir einhverju kröftugu, þungu og einsleitu rokki, helst hráu í átt við pönk. Þá getur litli puttinn farið að hreyfast hjá mér.

Þegar kemur að litlum flugum, sem er auðvitað matsatriði hvers veiðimanns, þá hef ég verið heldur spar á glimmerið nema ég sé einfaldlega að taka til á hnýtingarborðinu mínu og vöndla öllum afklippum sem ég finn á öngul og geri einhverja öfgaglitrandi púpu úr öllu saman. Síðari ár hef ég frekar unnið með heita reiti á púpur (e: hotspots) og nota þá gjarnan UV eða orange í kraga eða skott frekar en glimmer.

Nú ber ekki að skilja þetta sem svo að ég spari allt bling, ég hnýti allar flugur með mismiklu blingi til að eiga þær fyrir allar mögulegar aðstæður. Nei, ég hnýti þær næstum allar eins og nota einfaldlega taumaklippurnar mínar til að fækka þráðunum ef mér finnst þær eitthvað of glannalegar þegar á hólminn er komið.

Hitaveitufiskur

Hér um árið missti ég út úr mér að ég nennti ekki að eltast við friðaðan hitaveitufisk á Þingvöllum. Þetta með hitaveitufiskinn þótti bara sniðugt, ekkert meira en það. Ef ég man rétt, þá hef ég aðeins veitt einn urriða á Þingvöllum og það var fyrir samverkandi mistök okkar beggja. Hann var svo vitlaus að láta glepjast af Pheasant #14 í stað þess að gleypa dvergbleikju  sem var á sveimi þarna. Mín mistök voru að trúa því allt of snemma sumars að bleikjan væri komin upp að landi við Vörðuvík.

Þótt þetta með hitaveitufiskinn hafi hálft í hvoru verið grín, þá vitum við að fiskurinn lætur stjórnast af vatnshita. Þessi ensím sem hann notar til að brjóta niður fæðu eru hitastýrð. Hvort það er framleiðsla eða virkni þessara ensíma sem dalar með lækkandi hitastigi, veit ég ekki, en hitt veit ég að þegar hitastig vatnsins hækkar, þá eykst virkni eða magn þessara ensíma og fiskurinn fer að éta aftur eftir hvíld. Vatnshiti stýrist yfirleitt af veðurfarslegum aðstæðum, en ekki alltaf. Stundum verða mannanna verk til þess að vatnshiti hækkar og stundum er það nálægð við háhitasvæði sem verður þessa valdandi. Innstreymi hita eins og við þekkjum í Þingvallavatni getur leitt til þess að fiskur á ákveðnu svæði svamlar í kjörhitastigi nær allan ársins hring, étur og étur og stækkar eftir því. Þetta atferli er alls ekki eina skýringin á stórvexti þessa stofns, Þingvallaurriðinn verður óvanalega seint kynþroska, þ.e. 8 – 9 ára og virðist lítið annað hafa fyrir stafni þessi ár heldur en éta og stækka.

Því hefur verið haldið fram að erfðir urriðans og þessi síðbúni kynþroski ráði mestu um stærð hans, en það eru til fleiri stofnar urriða á Íslandi sem verða kynþroska tiltölulega seint á lífsleiðinni og ekki verða þeir jafn stórir og frændi þeirra á Þingvöllum, svona yfirleitt. Eins eru þau vötn til sem urriða af Þingvallastofni var sleppt í fyrir margt löngu síðan og þar verða þeir ekki svona stórir. Hæfileikinn, erfðirnar, leggja e.t.v. grunninn að þessum ógnarvexti fisksins á Þingvöllum, en það þarf eitthvað fleira að koma til og þá er nærtækt að horfa til fæðuframboðsins og fjölda daga á ári sem fiskurinn nýtur kjörhita. Við megum samt ekki gleyma því að stærri fiskur étur meira og hann þarf sífellt að stækka máltíðina og réttina á matseðlinum.

Í Litluá í Kelduhverfi skapa umhverfisáhrif mjög svipuð lífsskilyrði og á ákveðnum stöðum í Þingvallavatni. Þar verður urriðinn oft gríðarlega stór vegna þess að vatnið í ánni helst að jafnaði 12°C vegna blöndunar heits vatns úr Brunnum í upptakavatn árinnar, Skjálftavatn. Sami stofn urriða finnst í öðrum kaldari ám og þar verður hann ekki nándar nærri eins stór þó nægt æti sé til staðar. Í þeim ám er dagafjöldi kjörhitastigs líka allt annar og nær því að vera eðlilegur, enda stýrist hann af veðri og vindum, ekki jarðhita.

Fleiri vötn og ár á Íslandi eru til sem státa af lífskilyrðum sem verða til þess að fiskurinn stækkar mikið og hratt. Ég trúi því ekki að ég sé einn um að koma auga á svæði sem þessi. Svæði þar sem það eru mannanna verk sem hafa hróflað við hita- og/eða fæðuframboði og þannig lagt grunninn að stórfiskastofni, ekki aðeins urriða heldur einnig bleikju. Fæst þessara svæða fá mikla athygli í umræðunni vegna annars en þeirra stóru.

Veiðimönnum er upp til hópa sérstaklega annt um hreinleika áa og vatna, eru duglegir að finna orsakir mengunar sem raskað getur lífríkinu og berjast með kjafti og klóm þar til málum er kippt í liðinn. Því miður fer aðeins minna fyrir umræðunni ef mengunin hleypir fjöri í fiskinn. Heitt vatn, jafnvel vel hreinsað getur raskað lífríki áa og vatna, en það telst yfirleitt ekki til mengunarvalda. Sömu sögu er að segja um kalt afrennsli sem ber með sér ónáttúrulegar fæðuagnir sem fiskurinn nýtir til átu.

Hvoru tveggja virðist við fyrstu sýn ekki vera neitt stórmál, bara betra fyrir fiskinn, ekki satt? Eykur hróður viðkomandi svæðis og gerir það söluvænna o.s.frv. Málið er samt sem áður ekki svona einfalt, það tók nokkrar þúsundir ára fyrir lífríkið að þróast þannig að það gæti fóstrað ákveðna fjölbreytni í góðu jafnvægi. Einsleitt lífríki á sér sjaldnast langa framtíð, en það er einmitt það sem svona inngrip manskepnunnar leiðir af sér. Útkoman verður oftar en ekki að fiskistofnar samanstanda af tiltölulega fáum en stórum einstaklingum sem þegar fram í sækir, leggjast af fullum þunga á ungviðið og raska þannig enn frekar fjölbreytileikanum. Þá þýðir lítið að setja á sleppiskyldu á stóru fiskana, það ýtir aðeins enn frekar undir fábreytileika stofnsins, nýliðarnir eiga ekki séns í þessa stóru sem njóta verndar því þeir verða bara sífellt svangari eftir því sem þeir stækka meira.

Orð sem þessi leggjast ekki alltaf vel í veiðimenn og veiðileyfasala, en það verður bara að hafa það. Ég held að mál sé til komið að vera sjálfum sér samkvæmur og viðurkenna að það að umturna lífríkinu eða raska jafnvægi þessu sem tók þúsundir ára að ná sé glapræði og komi öllum í koll þegar upp er staðið. Það er í okkar valdi sem göngum á jörðinni um þessar mundir, að ganga svo frá hnútum að komandi kynslóðir geti notið fjölbreytileika náttúrunnar. Meðal stangveiðimanna í dag eru þegar margir yngri veiðimenn sem hafa aðeins kynnst fiski sem hefur fengið að vaxa samkvæmt forskrift manna, ekki náttúru. Fiskurinn er e.t.v. stór, tekur sig vel út á mynd og það þykir sjálfsagt að sleppa honum að myndatöku lokinni af því þeir eru svo fáir. Það er langt því frá að þetta sé eitthvað landslið fiska, þetta eru mögulega Íslandsmeistarar, en þeir eru ekki lið, til þess eru þeir of fáir. Farðu út í búð og keyptu bland í poka fyrir 1.000,- kr. og settu hann á varamannabekkinn við sparkvöll yngriflokka. Vittu til, það verða fáir sem fá flesta molana, sumir ekkert. Endurtaktu leikinn í nokkra daga og þú getur verið viss um að einn daginn verða aðeins þeir frekustu eftir, ekki sem lið að spila fótbolta heldur einstaklingar að bíða eftir pokanum við varamannabekkinn. Svona byggir maður ekki gott lið yngriflokka eða upprennandi landslið, það sama á við um fiskinn okkar.

Hnýttu hnútinn þinn rétt

Fyrir ekki svo löngu síðan tók ég mig til að setti nokkra vel valda hnúta hér inn á síðuna, hnúta sem ég hef reynt að temja mér að nota. Það að telja upp einhverja 10 hnúta og mæla með þeim, einfaldlega út frá eigin reynslu, var ekki hugsað sem einhver boðorðaflaumur. En hér hefði verið gullið tækifæri til að efna til trúarbragðastyrjaldar og ég hefði auðveldlega getað tekið mér sæti sem æðstiklerkur ákveðins hnútasafnaðar. Yfirleitt er lítið um viðbrögð við ábendingum eða tillögum mínum hér á vefnum, en fátt hefur kallað fram jafn margar spurningar og þessar birtingar; Af hverju notar þú ekki XXX í stað ZZZ?, Finnst þér þessi virkilega góður, ég nota alltaf ÖÖÖ, Mér finnst betra að nota ÆÆÆ, hann er bestur.

Mér fannst svolítið gaman að fá þessar spurningar, allar voru þær í ætt við; Minn guð er miklu betri en þinn. Fullyrðing sem hefur drepið fleiri manneskjur í gegnum aldirnar heldur en nokkur önnur. Guði sé lof að ég er trúleysingi og tek ekki þátt í þessum predikunum.

Þegar öllu er á botninn hvolft, þá ættu veiðimenn að velja sér hnúta sem þeir ná góðum tökum á og umfram allt hafa fulla trú á. En eftir stendur að þegar hnúturinn er hnýttur, þarf hann að vera réttur og rétt að honum staðið, alveg sama hver hann er.

  • Ekki gleyma að væta hnútinn vel áður en þú herðir hann, þurrt efni brennur og tognar þannig að slitstyrkur þess verður aðeins brot af því sem gefið er upp
  • Þegar þú herðir hnútinn, gerðu það rólega og með jöfnu átaki, ekki rykkja honum saman því þá geta myndast slaufur og auka-lykkjur sem slíta efnið.
  • Þegar hnúturinn er orðinn vel formaður, strekktu á efninu og haltu því strekktu í smá tíma. Með því nærðu að láta hann þétta sig og misfellur og skekkjur rétta úr sér.
  • Prófaðu alltaf hnútinn áður en þú byrjar að veiða, taktu þéttingsfast á honum, en þó ekki með einhverjum kraftastælum.

Þankar um liti

Hverjum hefði dottið í hug að setja saman orðalista yfir liti á velsku, gelísku og írsku, öðrum en þeim sem hefur sérstakt dálæti á fluguhnýtingum? Eflaust einhverjum málfræðingi en það er ég ekki. Það er ógrynni af flugum sem eiga ættir að rekja til Skotlands, Wales og Írlands. Í upprunalegu lýsingum þessara flugna leynast oft litaheiti sem erfitt er að ráða í. Þau eru augljóslega ekki ensk að uppruna og er þá nærtækast að leita í önnur tungumál.

Ástæðan fyrir þessu grúski mínu var afskaplega einföld. Ég var að leita að uppruna og réttri merkingu orðsins blae sbr. heiti á flugu sem flestir veiðimenn þekkja mæta vel Blae and Black. Það sem ég taldi einfaldlega misritun á orðinu blae þar sem það var ritað blea reyndist þó mögulegar eiga sér aðra skýringu. Ein tilgáta sem ég rakst á tengist vatninu Blea sem er skammt frá High Street (fjall) í Lake District á norðvestur Englandi.

Blea – Mynd: © Mick Knapton

Þannig að ég ausi út ónauðsynlegri vitneskju, þá er Blea eitt fárra vatna á Englandi sem ber svipmót af gígvötnum á Íslandi. Vatnið varð nú samt ekki til við eldgos, heldur við það að ísaldarskriðjökull dagaði þarna uppi þegar ísöld hopaði þaðan fyrir um 15.000 árum síðan. Vatnið er í raun jökullón og það sem er útfall þess í dag var að öllum líkindum ós þess við sjó um tíma. Það sem er e.t.v. merkilegast við þetta vatn er að þar er urriði og þar hafa margir veiðimenn veitt á flugu sem þeir hafa, mögulegar í gráglettni sinni við Skota, nefnt Blea and Black og er nákvæmlega sú sama og Blae and Black.

En aftur að þessu með litina, ég lagðist sem sagt í grúsk og úr varð listi þó nokkurra orða sem líktist orðabók. Þá greip um sig einhver þráhyggja, sem á sér eflaust einhverja skammstöfun, og ég settist niður nokkur kvöld (reyndar þó nokkur) og kláraði 450 orða- og hugtakalista sem ég hef verið að safna í síðustu árin. Það voru að vísu til tveir aðskildir orðalistar hér á FOS.IS en nú er listinn aðeins einn og fékk hann hið hógværa heiti: Alfræðiorðalisti og inniheldur orð og hugtök sem tengjast stangveiði, flugum, fluguhnýtingum og hnýtingarefni.

Í hallæri

Stundum þarf ekki mikið til að gleðja lítinn. Eins og svo oft á vetrum þá rennir maður í gegnum áhugaverðar blaðagreinar sem maður hefur sett á ís yfir sumarið. Sum sumur má maður bara ekkert vera að því að lesa einhverjar blaðagreinar og þá er gott að geyma þær til rólegri vetrarmánuða.

Umrædd grein fjallaði um vinsælustu viðbrögð veiðimanna þegar ekkert líf er sjáanlegt á vatninu. Þetta var svona klassísk grein þar sem 10 ‚nafntogaðir‘ veiðimenn sögðu frá og allir höfðu þeir rétt fyrir sér. Ég satt best að segja elska að lesa svona greinar, maður fær svo endalaust margar hugmyndir að lausnum að maður man enga þeirra þegar virkilega þörf er á að breyta út frá vananum, það gefur því augaleið að maður dettur alltaf í sama farið.

Þegar ekkert er að gerast, ekkert klak og engar uppitökur, þá dett ég yfirleitt í boxið í hægri brjóstvasanum þar sem Nobblerarnir liggja og kúra sig, þ.e. þegar ég þykist vita að urriði sé á ferðinni. Trúlega situr í mér einhver eldgömul reynsla þar sem Nobbler virkaði þegar allt annað brást og þess vegna leita ég í þetta box. Það ætti að vera farið að síast inn hjá lesendum að ég veiði alls ekki stóra fiska með stórum flugum. Ég á þær samt, en uppáhalds stærðin mín af Nobbler er #10, næst vinsælastur er #12 og það er ekki fyrr en fullreynt er, sem kemur ótrúlega oft fyrir, að ég fikra mig upp í stærð í stað þess að smækka.

Áður en lengra er haldið þá kemur hér smá sögustund. Þegar ég nefni fluguna Nobbler, þá á ég eiginlega við allar flugur sem skarta marabou skotti, alveg sama hvort þær eru af ætt Damsel, Woolly Bugger, Knopfler eða Humungus, já eða Dog Nobbler.

Í gegnum tíðina hafa þessir Nobblerar verið þyngdir, sumir alveg ógnar þungir með haus í yfirstærð og undir lokkandi búknum hefur leynst blý- eða tungsten þannig að flugan í heild sinni vegur gott betur en 220 cal byssukúla eins og hann Winchester karlinn setti á markað árið 1935. Ég viðurkenni fúslega að ég þurfti að fletta þessu upp, ég hef ekki hundsvita á byssum eða byssukúlum, en þessi kúla er víst rétt innan við 4 gr.* Þessi 4 gr og gott betur en það er þekkt þyngd á Nobbler hér á Íslandi og fékkst hér um árið í verslun og var sér-merkt sem Veiðivatna útgáfa. Eftir eitt sumar fékk hún viðurnefni eins og Stangarbrjótur, Urriðarotarinn, Smellur og skellur og Sökkarinn. Sjálfur eignaðist ég svona flugu og réð ekkert við hana, sem var kannski eins gott því ég lagði henni og hef ekki notað síðan.

 

Krúttmolarnir mínir eru ekki svona þungir, þeir eru í raun laufléttir miðað við marga sem ég hef séð þó þeir hafi verið mun léttari heldur en Stangarbrjóturinn. Ég geri mér fulla grein fyrir því að stundum þarf maður að koma þessum elskum niður, en þá nota ég einfaldlega intermediate línu eða hæg-sökkvandi í stað þess að velja þunga útgáfu. Ég er einlægur aðdáandi flugna sem hægt er að nota á marga mismunandi vegu. Stuttur og léttur Nobbler á flotlínu getur alveg eins líkt eftir skorkvikindi rétt undir yfirborðinu eins og hornsíli að skjótast á milli steina á grunnu vatni. Skipta um línu eða lengja í taum, þá getur hann líkt eftir allt öðru skorkvikindi sem lúsast eftir botninum, löturhægt eða með kippum.

Hver og einn veiðimaður á sér væntanlega einhverja svona hallæris flugu sem hann grípur til þegar ekkert er að gerast, mín er Nobbler.

*) Eins og fram kemur í greininni, hef ég ekki nokkurt einasta vit á byssum og byssukúlum, en bý svo vel að eiga hugljúfan vin sem benti mér á að ég hefði ruglað saman grain og grömmum í greininni. Hann Winchester karlinn mældi víst kúlurnar sínar 30 – 40 grain sem gera 3 – 4 grömm. Leiðréttist það hér með.

Árórugarn

Þær eru ófáar flugurnar sem hafa orðið til á Íslandi sem innihalda árórugarn. En hvað er þetta árórugarn eiginlega? Mér skilst að á Íslandi séu þekktustu tegundirnar DMC og Anchor. Sjálfur hef ég laumast inn í Rokku í Fjarðarkaupum og staðið eins og glópur fyrir framan allt úrvalið af DMC sem þar er að finna. Hefðbundið árórugarn er ekki unnið úr ull, heldur bómull ólíkt því sem margir halda og það fæst í nær óteljandi litum og litaafbrigðum og það eru ekki allir hnýtarar sem vita að garnið er ekki aðeins til sem hefðbundið matt eða hálfgljáandi, það er einnig til með málmgljáa (metalic) og í útfjólubláum litum (UV) sem kveikir e.t.v. einhverjar hugmyndir um notagildi þess í hnýtingar.

Algengasta tegund árórugarns er 6 þátta (flos) og það er tiltölulega auðvelt að rekja það í sundur til að ná æskilegum sverleika í flugu. Það er einnig til fíngerðara en kallast þá perlugarn (pearl). Hvoru tveggja garnið er sérstaklega slitsterkt og í mínum boxum leynast nokkrar flugur úr árórugarni sem þurft hafa að feta erfiða stigu vatnaveiðinnar með mér en lifað það ágætlega af. Enn hef ég ekki tekið eftir því að liturinn í garninu dofni, hvorki fyrir áhrif sólar eða vatns þannig að ég held áfram að nota það í ýmsar flugur.

Nokkrar af þeim flugum sem ég trúi að höfundar þeirra hafi upprunalega notað árórugarn í, leiðréttið mig hver sem betur veit, eru meðal annars; Killer, Langskeggur, Bjargvætturinn, Hlíðarvatnsnymfan, Tailor og Burton. Ég þykist hafa lesið það eða heyrt að Viðar Egilsson hafi notað aurórugarn í Watson‘s Fancy púpur og votflugur, þannig að ég hef leyft mér að gera það líka.

Hnýta og nýta krókinn

Í upphaf skyldi endinn skoða og þegar kemur að fluguhnýtingum, þá er krókurinn upphafið. Tómur krókurinn er allt og sumt sem þú hefur fyrir framan þig og yfirleitt er hnýtingarþráðurinn það fyrsta sem snertir krókinn. Ég hef áður birt hér nokkrar greinar um æskileg hlutföll ýmissa flugnagerða, en mér finnst eins og eitthvað hafi vantað í þær greinar, nefnilega hvar og hvernig maður eigi að byrja með hnýtingarþráðinn á krókinum og hvernig sé einfaldast að mæla efnið m.v. krók þannig að það sé í æskilegum hlutföllum.

Byrjum á því einfaldasta, hvar maður byrjar á krókinum og hvert undirbyggingin skuli ná. Það er eignlega alveg sama hvaða flugu ég ætla að hnýta, mér gefst alltaf best að byrja rétt u.þ.b. tvöfaldri augalengd frá endanum. Þá á ég örugglega nóg pláss eftir til að ganga frá skeggi, haus og öðru sem þarf á fluguna. Í raun er þessi staðsetning sú sama og vængur votflugu er festur niður á. Það sem ég merki hér sem enda er í raun þar sem skott votflugu ætti að festast niður.

Krókurinn er í raun hin ágætasta mælistika, mun betri heldur en skífumál eða reglustika einfaldlega vegna þess að krókar eru nær eins misjafnir og framleiðendur þeirra eru margir og mm sem passa á eina tegund, passa hreint ekki á næstu tegund. Sem sagt; til að mæla efni í flugu er best að nota krókinn sem mælistiku.

Ágætt skott á votflugu er því sem næst jafn langt og leggur króksins. Hér er reyndar sýndur 2XL krókur sem oftar er notaður í straumflugu og þá er skottið oft ekki haft nema ½ legglengd króksins.

Skegg á púpu er yfirleitt fest niður rétt aftan við haus flugunnar og er u.þ.b. fjórðungur af legglengd króks.

Skegg á votflugu er því sem næst legglengd króks, þó aldrei styttra en svo að það snerti ekki öngulbroddinn.

Skegg og straumflugu er töluvert lengra heldur en á votflugu, það lætur nærri að það ætti að snerta bug króksins.

Það má einnig nota krókinn til að mæla lengd vængja á flugur, en þá koma ýmsir fyrirvara um tegundir flugna að málinu og oft verður maður að bæta verulega í eða draga verulega frá.

Vængur votflugu er yfirleitt örlítið lengri en leggur króksins. Mér hefur reynst ágætlega að miða við lengdina frá auga og aftur að agnhaldi og festa vænginn niður þétt við haus flugunnar.

Vængur straumflugu getur verið allt að tvöföld lengd leggjar, yfirleitt þó aldrei styttri en sem nemur 1 ½ legglengd.

Veiðivötn 2020 – IV hluti

Þá er komið að síðustu greininni sem unnin verður upp úr skoðanakönnun okkar um Veiðivötn 2020. Veður og veðurfar er veiðimönnum sérstaklega hugleikið og því þótti við hæfi að fá mat veiðimanna á veðrinu í Vötnunum s.l. sumar. Eins og aðrir svaröguleikar sem gefnir voru upp, þá voru þeir sem tengdust veðrinu sniðnir að huglægu mati veiðimanna, ekki var beðið um vindstig, sólarstundir eða hitatölur.

Til samanburðar við svör veiðimanna eru hér birtar upplýsingar sem unnar hafa verið úr veðurathugunum frá opnun stangaveiðitímabilsins þann 18. júní og fram til loka þess 21. ágúst. Vinsamlegast athugið að þessar upplýsingar eru einskorðaðar við veðurtölur frá kl. kl. 08:00 til kl.23:00 þannig að þær ná aðeins til þess tíma sem veiðimenn eru alla jafna á ferli í Vötnunum.

Eins og sjá má var meirihluti veiðimanna (65%) á því að lofthiti hafi verið svipaður í ár eins og undanfarin ár. Álíka hlutfall var á milli þeirra sem töldu það hafa verið hlýrra eða kaldara heldur en undafarin ár og það hafa greinilega einhverji 10 lent í töluverðum kulda og aldrei upplifað annað eins í Vötnunu (2%).

Hér að neðan má sjá hitatölurnar í Vötnunum eins og þær voru skráðar í veðurathugunum og hefðu átt að koma við skinn veiðimanna frá kl.8:00 til 23:00 á stangaveiðitímanum:

Þegar meðaltalshiti júní, júlí og ágúst fyrir fimm ár er reiknað út frá veðurathugunum, kemur í ljós að hitastigið umrædda mánuði í sumar var í raun undir meðaltali áranna 2016 til 2019 sem er 8,06 °C en nokkru hlýrra heldur en árin 2017 og 2018.

Til gamans var spurt um mat veiðimanna á sólarstundum í sumar sem leið. Hvort kom á undan, eggið eða hænana í þessu tilfelli er erfitt að segja, en það var eftirtektarverð fylgni á milli þeirra sem svöruðu því til að það hefði verið glampandi sól eða heiðskírt flesta daga og þeirra sem veiddu mjög vel eða gerður góða veiði. Til gaman var afstaða annarra sem voru í Vötnunum á sama tíma athuguð og þá kom í ljós að þeir sem voru almennt með lélega eða slaka veiði, voru á þungbúnari veiðistöðum. Það skildi þó aldrei vera að afli hafi áhrif á viðhorf manna til veðurs eða þá öfugt?

Mat veiðimanna á vindi og vindstyrk er nokkuð sem hægt er að bera saman við veðurathugnir og þar verður hver og einn að staðsetja sinn tíma í Veiðivötnum því ekki var farið fram á nákvæma tímasetningu veiðiferða í skoðanakönnuninni.

Það má geta sér þess til að þeir sem upplifðu veðrið sem fárveður hafi lent í einhverjum þeirra 5 toppa sem vindmælirinn setti í tölu yfir 20 m/sek. Annars virðist vindur hafa verið nokkuð spakur að jafnaði, en vissulega gerði strekking inn á milli. Áberandi vindakaflar eru í vikum 25. 27. 29. 31. og 33. þar sem meðalvindur var rétt undir eða náði yfir 10 m/sek.

Ekki var sérstaklega spurt um úrkomu í skoðanakönnuninni, en oft hefur nú sést meiri útkoma í Vötnunum heldur en þetta á liðnum árum. Einhverjir hafa þó eflaust vöknað eitthvað í úrhellinu um miðja 29. viku og rigningakaflanum sem stóð í rúma viku frá lokum 31. vikur og út 32. viku.

Því miður eru mælingar á vatnshita í Veiðivötnum ekki tiltækar og því lítin samanburð að hafa við mat veiðimanna á hitastigi vatnanna. Það sem réð því að þessi spurning var höfð með í könnuninni voru þær getgátur að vötnin hefðu verið kaldari í sumar en oft áður og því leitaði fiskurinn meira út í dýpið.

Miðað við álit veiðimanna hér að ofan, þá er skýringa á breyttum aflabrögðum ekki að leita í lakari vatnshita. En þetta er náttúrulega ekki hávísindaleg könnun, meira í gamni gerð og vonandi hafa veiðimenn haft gaman og mögulega eitthvert gagn af því að rýna í niðurstöðurnar.

Kærar þakkir, allir 222 sem tóku þátt í þessari könnun, hver veit nema maður rekist á einhvern ykkar næsta sumar í Vötnunum. Ég er í það minnsta að fara aftur og ég ætla að taka með mér heilsökkvandi línu á flugustöngina, mér sýnist nefnilega að þeir sem veiddu djúpt hafi almennt verið sáttir við sitt og það var greinilega betra veður á þá líka. Ef eitthvað er að marka valfrjáls skilaboð sem svarendur settu inn, þá eru veiðimenn almennt harðákveðnir í að fara aftur í vötnin næsta sumar, eða eins og einn sagði; Það þarf meira til en eitt dapurt ár til að ég hætti að fara.

Veiðivötn 2020 – III hluti

Þegar litið er til agns veiðimanna í Veiðivötnum, þá hefur sú þjóðsaga verið lífseig að þar séu allir bakkar morandi í útvötnuðum ánamaðki. Eins og veiðimenn sjálfir vita, þá er þetta fjarri sanni og ef eitthvað er að marka niðurstöður þessarar könnunar, þá er það e.t.v. að ánamaðurinn er víkjandi í Vötnunum og veiðimenn eru í auknu mæli að smakka á öllu agni, ef svo mætti að orði komast.

Af þeim sem merktu við að hafa notað maðk (82 veiðimenn), voru aðeins 4% sem notuðu hann eingöngu sem er litlu minna hlutfall en þeir sem eingöngu veiddu á aðra breitu eða spún, en þeir voru að vísu töluvert fleiri. Maðkurinn virðist í mörgum tilfellum vera þriðja val veiðimanna sem veiddu á annað agn.

Maðkur sem agn

Það voru 118 veiðimenn sem merktu við spúnaveiði og hlutfall þeirra sem notuðu hann eingöngu var 5%.

Spúnn sem agn

Þeir sem sögðust hafa notað sára, síld eða makríl (121 svör), voru 6% sem notuðu hana eingöngu.

Sári, síld eða makríll sem agn

Hlutfall þeirra sem notuðu ofangreint agn eingöngu var mjög svipað, 4 – 6% svarenda. Þeir sem notuðu flugu skáru sig verulega úr. Af þeim 174 sem merktu við að hafa notað flugu, voru 34% sem notuðu hana eingöngu.

Fluga sem agn

Dreifing notkunar agns var annars nokkuð mikil, ef flugan er undanskilin. Litakóðarnir á myndinni hér að neðan gefa til kynna hvað agn var tölulega hæst í hverri tíðni notkunar (grænt kom oftast fyrir, gult sjaldnast):

Allt agn – fjöldi svara pr. tíðni

Kemur þá að aflatölum miðað við agn sem helst var notað. Byrjum á þeim sem gerðu mjög góða veiði, aldrei betri. Hér er skiptingin afar sérstök, spúnninn er með 40% og svo skiptir annað agn með sér restinni. Til glöggvunar má nefna það að þessir veiðimenn veiddu helst á miðlungs dýpi eða djúpt, sjá fyrstu greinina um niðurstöður þessarar könnunar.

Agn þeirra sem veiddu mjög vel

Þeir sem gerðu góða veiði sem hefði þó mátt vera betri voru aftur á móti langsamlega flestir að nota flugu:

Agn þeirra sem veiddu vel, þó hún hefði mátt vera betri

Þeir sem gerðu góða veiði og voru sátti við sitt, notuðu sömuleiðis helst flugu, þó ekki jafn afgerandi:

Agn þeirra sem voru sáttir við sitt

Þegar horft er til þeirra sem gerðu slaka veiði, sem voru í raun 43% veiðimanna, þá notuðu þeir helst flugu og skiptu öðru agni svipað niður og hópurinn hér að ofan:

Agn þeirra sem gerðu slaka veiði

Þeir sem skarðastan hlut báru frá borði, veiddu sömuleiðis mest á flugu:

Agn þeirra sem veiddu verst

Hvaða lærdóm veiðimenn geti tekið út úr þessum tölum er eflaust misjafnt eftir sjónarhorni hvers og eins. Fyrir mér er nokkuð mikil fylgni í agni eftir aflabrögðum, ef undan er skilinn sá hópur sem gerði einna bestu veiðina. Þar verður væntanlega að taka með í reikninginn að þann hóp skipuðu fæstir veiðimenn og dreifing agns var nokkuð sérstök, spúnninn þó vinsælastur. Á milli annarra viðmiðunarhópa er töluverð fylgni á milli mismunandi agns og ekki að sjá að það ráði miklu um aflabrögð.

Fjórða og síðasta greinin í þessari samantekt kemur svo hér á síðuna innan skamms og þá kíkjum við fyrst á vinsælasta umræðuefni Íslendinga, veðrið.

Spegill

Þegar ég fæ að skyggnast í flugubox annarra veiðimanna fer stundum af stað einhver einkennilegur kokteill af tilfinningum innra með mér. Oft sé ég vel skipulagt box, öllum flugum raðað upp eftir greinilegu skipulagi og hvergi einhver óboðinn gestur í röðinni. Þá verður mér hugsað til þeirra sem leynast í mínum vösum, oftast kaos með lýtur engu skipulagi. Svo er það þessi tilfinning sem ég finn fyrir þegar hver einasta fluga í boxinu er nákvæm eftirlíking þeirrar næstu, hver fluga í þremur eða fjórum stærðum o.s.frv.

Boxið mitt er hreint ekki þannig að hver einasta fluga sé nákvæmlega eins og systir hennar sem er þarna einhvers staðar innan um allar hinar. Það kemur hreint ekki oft fyrir að úr minni þvingu fæðist eineggja tví-, þrí,- eða fjórburar, sérstaklega ekki ef heilt sumar líður á milli þess að ég hnýti umrædda flugu. Það hefur alveg komið fyrir að ég hef verið í ágætri veiði, svo trosnar flugan eða ég glata henni með einhverjum grunsamlegum hætti og verð að seilast í boxið eftir annarri eins. Einmitt, hún ætti að vera eins, en er það ekki alveg. Kannski er skottið aðeins styttra, vængurinn annar eða skeggið miklu lengra. Fyrir bragðið hreyfist flugan með öðrum hætti í vatninu og ég veiði ekki neitt á númer tvö.

Svo er það sem var sagt við mig eitt sinn; Eins flugur bera vott um öguð vinnubrögð. Þetta var náttúrulega smá skens á mig og flugurnar mínar, en ég reyndi að kjafta mig út úr þessu með því að nefna fjölbreytileika náttúrunnar og benti á þróunarkenningu Darwins. Þessi útúrsnúningur þótti ekki merkilegur og var ekki virtur viðlits. Auðvitað vissi ég að þetta var alveg satt, ég ætlaði alltaf að hnýta flugurnar allar eins, en svo brast eitthvað í höndunum á mér og ég þurfti að grípa til þess að skrökva einhverju í flugunni til að redda málunum.

Að vísu er það svo að þegar ég hnýti hefðbundinn skammt af tiltekinni flugu að vetri, þá á ég það alveg til að efna niður í þær allar áður en ég byrja að hnýta, þá verða þær oftar en ekki nærri allar eins og ég verð að viðurkenna að þær taka sig miklu betur út í geymsluboxinu. Næsta skref er að hætta að framkvæma einhverjar skítareddingar ef eitthvað klikkar, rekja frekar upp eða þá bæta nýrri flugu í hnýtingarröðina. Svo er loka skrefið sem kemur e.t.v. síðar, halda boxunum í vösunum mínum svolítið snyrtilegri næsta sumar.

Veiðivötn 2020 – II hluti

Það væri ekki veiðin ef ekki væru vötnin og fiskurinn. Þegar FOS.IS setti þessa könnun af stað var leynt og ljóst verið að leita að því hvort veiðin hefði færst eitthvað til, þ.e. hvar þessir 18.336 fiskar hefðu fengist og þá ekki endilega í hvaða vötnum, heldur hvar í þeim og hvaða brögðum veiðimenn beittu til að ná þeim. Upplýsingar um veiðitölur í einstaka vötnum liggja fyrir á heimasíðu Veiðivatna.

Veiðimenn eiga sér oft sína uppáhaldsstaði, þegar þeir staðir bregðast þá leita margir á önnur mið, prófa nýja staði og jafnvel önnur vötn heldur en þeir heimsækja alla jafna. Aðrir sitja bara sem fastast á sínum gömlu, góðu stöðum og bíða þess að fiskurinn komi í kastfæri. Í þessari skoðanakönnun var gerð tilraun til þess að kortleggja hvar veiðimenn hefðu fengið fisk og hve margir hafi farið fisklausir heim úr þeim vötnum sem þeir prófuðu.

Alls bárust 1.519 svör frá 222 veiðimönnum undir þessum lið í könnuninni. Fjöldi svara fyrir hvert vatn var vitaskuld mismunandi, þau eru jú mis vinsæl vötnin í Veiðivötnum. Hér að neðan má sjá niðurstöðurnar úr þessum lið könnunarinnar. Í fyrrihlutanum eru tölurnar sá fjöldi svara sem var á bak við hvern valkost í vötnunum.

ARNARPOLLUR – 72 SVÖR
BREIÐAVATN – 73 SVÖR
ESKIVATN – 47 SVÖR
GRÆNAVATN – 129 SVÖR
HRAUNVÖTN – 161 SVÖR
KRÓKSPOLLUR – 22 SVÖR
KVÍSLARVATN – 34 SVÖR
KVÍSLARVATNSGÍGUR – 38 SVÖR
LANGAVATN – 76 SVÖR
LITLA-BREIÐAVATN – 50 SVÖR
LITLA-FOSSVATN – 55 SVÖR
LITLA-SKÁLAVATN – 58 SVÖR
LITLISJÓR – 189 SVÖR
NÝJAVATN – 55 SVÖR
ÓNEFNDAVATN – 58 SVÖR
ÓNÝTAVATN – 66 SVÖR
ÓNÝTAVATN-FREMRA – 40 SVÖR
PYTTLUR – 40 SVÖR
SKÁLAVATN – 66 SVÖR
SKYGGNISVATN – 27 SVÖR
SNJÓÖLDUVATN – 71 SVAR
STÓRA-FOSSVATN – 102 SVÖR

Þegar þessar tölur eru skoðaðar, þá kemur í ljós að fæstir fóru fisklausir heim úr Litlasjó eða 14% svarenda. Þar á eftir kemur Snjóölduvatn þar sem 17% fóru fisklausir heim. Snjóölduvatn er einnig það vatn þar sem flestir veiddu á nýjum stöðum, eða 11% svarenda. Það kann að skýrast af því að margir lögðu leið sína í vatnið í fyrsta skipti. Í gegnum árin hefur mér virst nokkuð samhengi vera á milli þess að þegar tregt er í Litlasjó, þá sækja menn í Snjóölduvatn til að fá fiðringinn eftir rólegan dag.

Að lokum eru hér samandregin öll svörin. Athugið að hér er um hlutfallstölur að ræða, ekki fjölda:

HLUTFALL SVARA – 1.519 SVÖR

Það kemur ef til vill á óvart hve fastheldnir veiðimenn voru á sína veiðistaði, aðeins 7% veiddu á nýjum stöðum. Að vísu má bæta við einhverjum prósentustigum þeirra sem veiddu bæði á sömu stöðum og einhverjum nýjum, en það er áberandi að 32% veiðimanna héldu sig á kunnuglegum slóðum. Vissulega er hlutfall þeirra sem ekki fengu fisk nokkuð hátt (42%).

Ef aðeins er tekið tillit til þeirra sem veiddu á annað borð, þá eru þeir sem veiddu mest á sömu stöðum 55%, þeir sem veiddu á sömu stöðum eða einhverjum nýjum 33% og þeir nýjungagjörnu 12%:

HLUTFALL SVARA AÐ UNDANSKYLDUM ÞEIM SEM EKKI FENGU FISK

Næsta grein um niðurstöður þessarar könnunar kemur hér innan tíðar og þá verður aðeins kíkt á agnið sem veiðimenn notuðu helst í Veiðivötnum árið 2020.

 

Veiðivötn 2020 – I hluti

Töluverðar umræður voru í sumar um gang mála í Veiðivötnum. FOS.IS lék forvitni á að vita hvernig veiðimenn litu til sumarsins í baksýnisspeglinum og setti því skoðanakönnun í gang þann 25.okt. þar sem nokkrar almennar spurningar voru lagðar fram um upplifun veiðimanna í Veiðivötnum í sumar sem leið. Ekki stóð á viðbrögðum og svörum. Alls svöruðu 222 þessari könnun sem opin var í viku og margir hverjir nýttu tækifærið að koma ábendingum og persónulegri sýn á framfæri í frjálsum texta. Það hefur því verið úr miklu efni að moða síðustu vikur og fyrirséð að niðurstöðurnar birtist í nokkrum færslum hér á síðunni.

Eins og tekið var fram í könnuninni, er hér ekki um hávísindalega könnun að ræða og því kunna einhver viðmið að hafa komið þátttakendum spánskt fyrir sjónir, en vonandi skýrast þau þegar niðurstöðurnar birtast hér.

Það er óumdeilanlegt að stangveiði í Veiðivötnum var dræm í sumar sem leið, alls veiddust 17.570 fiskar á stangveiðitímabilinu, 18.336 þegar stangveiði á netaveiðitímanum hefur verið bætt við. Skv. vef Veiðivatna þarf að leita aftur til áranna 2014 og 2015 til að finna svipaðar veiðitölur. Í könnuninni var spurt um álit manna á hvoru tveggja; aflabrögðum urriða og bleikju. Alls bárust 375 svör við þessum tveimur spurningum og skiptast svör þáttenda sem hér segir:

Skipting svara þeirra 222 sem svöruðu spurningunni um urriðaveiðina voru sem hér segir:

Skipting þeirra 153 svara sem bárust um bleikjuveiðina var sem hér segir:

Sömu tölur í fjölda svarenda talið voru sem hér segir, urriðaveiðin fyrst:

Og bleikjuveiðin:

Þótt yfirgnæfandi fjöldi svarenda hafi ekki riðið feitum hesti úr Veiðivötnum í sumar, þá gerðu 5% svarenda betri veiði en áður, 11% góða veiði þótt hún hafi stundum verið betri og 20% til viðbótar voru sáttir við sitt. 36% svarenda voru því sáttir við aflabrögðin eða meira en það. Nær ómarktaækur munur var á þeim sem skipuðu sér í þessa flokka eftir bleikjuveiði eingöngu (39%) eða urriðaveiði eingöngu (34%). Þó freistast maður til að draga þá ályktun að meiri tíma hafi verið eytt í bleikjuveiði í sumar heldur en undanfarin ár og því hafi fleiri gert sína bestu veiði í bleikjunni hingað til.

Með þessum fyrstu spurningum könnunarinnar voru fengnir 5 viðmiðunarhópar sem notaðir voru til frekari úrvinnslu og aðgreiningar svara. Meðal þess sem tekið var saman var hvar þessir 5 mismunandi hópar hefðu helst sett í fisk í vatninu. Þar sem vísað er til dýpis var viðmið gefið í könnuninni:

  • Á grunnu vatni (minna en 1 metra dýpi)
  • Á miðlungs dýpi (1 – 3 metra dýpi)
  • Djúpt (meira en 3 metra dýpi)

Þeir sem höfðu gert sína bestu veiði (5% svara) töldu sig helst hafa sett í fisk á eftirtöldum svæðum:

Þeir sem gerðu góða veiði, þó hún hafi stundum verið betri (11% svara) náðu fiski helst:

Þeir sem voru þrátt fyrir allt sáttir við sitt (20% svara) fengu fisk helst:

Stærsti hópurinn, þ.e. þeir sem töldu aflabrögðin vera slök og höfðu oft gert betri veiði (43% svara) settu helst í fisk:

Þeir sem reka lestina, í fleiri en einum skilningi, voru þeir sem töldu veiðina beinlínis hafa verið lélega, aldrei verri (21% svara) veiddu helst:

Skv. þessu er nokkuð ljóst að miðlungs dýpið (1 – 3 metrar) og dýpra (meira en 3 metrar) hafa verið gjöfulasta dýpið í sumar og skyldi engan undra:

Síðar í könnuninni var spurt um veiðistaði í þeim vötnum sem svarendur prófuðu í sumar, hvaða agn menn hefðu helst notað o.fl. Svör og niðurstöður þeirra spurninga verða birt hér á FOS.IS í næstu greinum.