Flýtileiðir

Saga af Zulu

Þær eru nokkrar flugurnar sem hafa verið fastir gestir í Febrúarflugum í gegnum árin og meðal þeirra er Zulu, bæði Black og Blue. Þetta er fluga sem flestir þekkja enda er flugan sögð gömul, jafnvel há öldruð. Saga þessarar flugu er sveipuð ákveðinni dulúð því ekki hefur tekist að eigna hana einhverjum ákveðnum aðila, ekki vitað með vissu hvar hún kom fram eða þá hvenær.

Flugan er til í nokkrum útfærslum eins og sjá má af þessum myndum sem fengnar eru úr safni Febrúarflugna síðustu árin, en í megin atriðum hafa hnýtarar haldið fast í hefðbundið útlit flugunnar, með örfáum undantekningum.

En hvað ætli þessi fluga sé gömul? Ég sá nýlega grein á vefnum þar sem því var haldið fram að hún væri 300 ára gömul, aðra grein fann ég sem sagði að hún hefði komið fram á miðri 20. öldinni (1900-1999). Hvort tveggja stenst ekki við nánari skoðun. En hvernig ætli flugan hafi þróast í gegnum árin og hvað vitum við elst um hana? Til að leita svara fór FOS í gegnum nokkrar bækur úr safninu og skannaði inn uppskriftir og myndir af Zulu þar sem þær var að finna.

Bob Church’s Guide to Trout Flies útgefin 1987, höfundur: Bob Church
Fly-Dressing útgefin 1975, höfundur: David J. Collyer
Reservoir and lake flies útgefin 1970, höfundur John Veniard
Favorite Flies and Their History útgefin 1892, höfundur: Mary Orvis Marbury

Favorite Flies and Their History er elst þeirra heimilda sem ég fann eitthvað um Zulu. Hvergi var minnst á fluguna í eldri bókum sem FOS hefur aðgang að sem ná þó allt aftur til 1486. Við getum þá sagt með vissu að flugan varð örugglega til fyrir 1892. Ef við gefum okkur að Zulu hafi ekki legið ónefnd í boxum veiðimanna í einhver ár eða áratugi, sem gæti þó raunar verið, þá gæti ákveðin vísbending um aldur hennar legið í nafni hennar.

Það eru í það minnsta tvær sögur sem tengjast nafni flugunnar og þær eiga það sameiginlegt að vísa til Zulu ættbálksins í Zululandi, nú héraðs í Suður Afríku. Önnur sagan segir að flugan hafi verið hnýtt eftir höfuðskrauti leiðtoga (konungi) Zulu ættbálksins, Cetshwayo kaMpande sem ríkti frá 1873 til 1884. Sé þessi saga rétt þá getum við leitt líkum að því að flugan hafi orðið til á árunum á milli 1873 – 1892. Hin sagan sem sögð er tengist einnig Cetshwayo, en þó með öðrum hætti.

Upp úr 1874 tók Breska heimsveldið að ásælast mannauð Zululands sem ódýrt vinnuafl fyrir breska plantekrubændur, m.ö.o. þræla. Cetshwayo konungur stóð upp í hárinu á heimsveldinu og vildi semja um aðild að Breska heimsveldinu með fullu sjálfstæði, ekki innlimun. Bretar höfnuðu öllum samningum og réðust inn í Zululand árið 1879 og upphófst þá blóðugt stríð með gríðarlegu mannfalli beggja herja. Sagan segir að svartar fjaðrir Zulu tákni ættbálkinn sem nánast var útrýmt í þessu stríði og rauði liturinn tákni blóð þeirra sem dóu í átökunum. Eigi þessi saga við rök að styðjast, þá getum við sagt með nokkurri vissu að Zulu hafi orðið til á árinum á milli 1879 og 1892, nær held ég ekki að unnt sé að komast í sögunni.

Eftir situr að hvergi í því sem skráð hefur verið um Zulu, er að finna eitt einasta orð um það hver hafi fyrstur hnýtt fluguna eða hvar nákvæmlega í Englandi hún hafi orðið til. Svo verður að taka með í reikninginn að það er ekkert víst að Claude De Black frá Nova Scotia (heimildarmaður Mary Orvis) hafi gert greinarmun á Englandi og öðrum löndum Bretlandseyja. Þannig er nefnilega að veiðimenn í norðurhéruðum Bretlands hafa áratugum saman talið Zulu vera ættaða úr sínum héruðum. Kannski sannast hér bara hið fornkveðna; Allir vildu Lilju kveðið hafa. Það sem eftir situr er að litasamsetning Zulu hefur gengur svo sannanlega í augu silungsins.

One starts by observing that in weedy rivers trout live in an environment of green; in gravelly or rocky rivers they live in an environment of brown. One knows from the attractiveness of the Red Tag and the Zulu that they are peculiarly sensitive to red.

The Way of a Trout with a Fly, útgefin 1921, höfundur G. E. M. Skues, bls. 29

Senda ábendingu

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com