Það fór víst ekki framhjá neinum að veðurskilyrði í maí voru veiðimönnum ekkert endilega hagstæð. En hvað var það eiginlega sem var svona afbrigðilegt við veðrið í maí? Leikmaður eins og ég get svo sem bara sagt það var kalt og blautt, en það hefur nú áður verið kalt og blautt í maí og samt hefur fiskast. En hver segir að það hafi ekki fiskast í maí? Auðvitað fiskast ekkert ef enginn fer í veiði, en þar með er ekki sagt að það sé ekki fiskur.
Við höfum heyrt fréttir af ágætri veiði á Þingvöllum, bleikjan kom fyrr upp að og einhver hafði á orði að það væri ekki oft sem bæði urriðinn og bleikjan væru á sama stað eins og kom ítrekað fyrir í maí sem leið. Hlíðarvatn í Selvogi hefur gefið mun betur þetta árið heldur en í fyrra, þar hafa veiðst vænir fiskar og miklu mun fleiri heldur en á sama tíma og í fyrra. Meira að segja eru dæmi þess hjá félögum við vatnið að fleiri fiskar hafi verið dregnir á land það sem af er þessa sumars heldur en allt sumarið í fyrra.

Ef við berum saman nokkur lykilatriði veðurfars s.l. 10 ára í Reykjavík, þá kemur berlega í ljós að síðustu þrír maí mánuðir hafa verið frekar myrkir sé horft til sólarstunda í mánuðinum (gul lína). 2018 er næstum aðeins hálfdrættingur á við 2012 sem þó var ekkert sérstakt í veiði.
Ef við horfum til meðalhita (rauð lína) þá er maí í ár greinilega töluvert kaldari heldur en í fyrra og reyndar annar kaldasti maí mánuður s.l. 10 ár. Gott og blessað, já það var kalt í síðasta mánuði, svona að meðaltali.
En hvað með allan þennan vind? Var virkilega meira rok í maí heldur en undanfarin ár? Jú, örlítið meiri meðalvindur (græn lína) heldur en síðustu ár. Við þurfum að fara allt aftur til 2009 til að finna meiri meðalvind, en það ár var aftur á móti næst bjartast og fjórða hlýjasta árið af þessum 10.
Kemur þá að vætunni, þar sker s.l. maí mánuður sig augljóslega úr með úrkomu upp á 129 mm sem er toppur síðustu 10 ára á meðan að 2012 rigndi innan við 1/6 af þeirri úrkomu.
Þegar ég ber saman veiðiferðir mínar síðustu ára þá stendur 2014 svolítið upp úr í maí. Þá var einmitt hitinn vel yfir meðallagi, þokkalega bjart og úrkoma undir meðallagi. Sem sagt, mér gengur best í lítilli úrkomu og þokkalegum hita. Ég veiði aftur á móti mun verr þegar það er kalt, en þá fer ég líka síður til veiða þar sem ég er kuldaskræfa. Vindur virðist ekkert hafa áhrif á afla eða fjölda ferða, ég kann nefnilega að snúa mér undan vindi og fiskinum virðist standa alveg slétt á sama þótt hann blási. Sólskynsstundir virðast ekki vera neinn úrslitavaldur, ekki nema þá að ég er léttari í lundu í glampandi heldur en dumbungi og því gæti verið að ég fari oftar í veiði þegar sú gula glennir sig.