Jamm, hér er öngull í rassi. Bæði hjá mér og frúnni. Veðrið var ekkert sérstakt á föstudaginn, rok og rigning og við mættum frekar seint á tjaldstæðið á Þórisstöðum. Prófuðum Glammastaðavatn (Þórisstaðavatn) aðeins um kvöldið en ekkert gekk.
Renndum inn að Eyrarvatni á laugardaginn í þokkalegasta veðri og háðum hetjulega baráttu við mjög vaxandi gróður í vatninu. Í stuttu máli; gróðurinn hafði betur. Annað sem vakti athygli mína var fjölskrúðugt líf vaðfugla við vatnið sbr. ágætis grein Engilberts Jensen um Vífilstaðarvatn sem finna má hér. Jú, jú, ég á líka vöðlur og nota þær mikið, en ég get svo svarið það að ég göslast ekki tugi metra út í vatnið með látum og gusugangi, til þess eins að geta komið færinu fyrir stóru fiskana úti. Ég hafði það á tilfinningunni að á staðinn væru mættir einn og einn kúreki í vöðlum, vopnaðir ógnvekjandi beituhlunkum til þess að ná einhverjum af þessum löxum sem sluppu framhjá veiðimönnunum í Laxá og komust alla leið upp í vötnin í Svínadalnum. Sagan segir að einhver hafi náð 14 löxum í Eyrarvatni nú fyrir skemmstu. Kannski var það bara einn af þeim sem dóluðu fram og til baka á bátunum sínum með spúnadræsuna í eftirdragi?