Það ber í bakkafullan lækinn að ég kvarti yfir offramboði á flugum og að ég fyllist stundum valkvíða þegar kemur að því að velja flugu, sérstaklega þegar haft er í huga að á þessari síðu eru upplýsingar og uppskriftir að tæplega 100 tegundum og þær er flestar að finna í geymsluboxunum mínum. Einhverjum kann að detta sjálfskaparvíti í hug og það má til nokkurs sannsvegar færa.
Sú fluga sem fer einna oftast undir hjá mér er trúlega Nobbler. Þetta kvikindi er til í einstaklega mörgum útgáfum og stærðum í mínum boxum og alls ekki alveg ljóst hvert þeirra getur talist til alvöru Nobblers og hvert ekki. Eflaust firrist einhver við mig núna, en ég hef leyft mér að nálgast Nobbler á svipaðan máta og margir aðrir nálgast Woolly Bugger eða Damsel, ég nota Nobbler sem samheiti yfir nær allar marabou flugur sem ég hnýti. Ég hnýti fluguna úr því efni sem mér finnst laða það fram sem ég sækist eftir og hvort ég set vaskakeðju á hann, eina kúlu, keilu eða jafnvel hauskúpu (e: skull head) rænir mig ekki svefni. Búkefnið er eins misjafnt og útgáfurnar mínar eru margar, stundum nota ég chenille, stundum bara venjulegt ullarband eða bara marabou í þá ör-mjóu. Hin síðari ár hef ég líka verið að leika mér að UV chenille, bústnu efni og sleppi meira að segja hringvafinni fjöður um búkinn, en eftir sem áður kalla ég fluguna Nobbler.

Á stuttum, litlum krók er Nobbler ekkert frábrugðinn hverri annarri gyðlu (e: nymph) og þegar ég leik mér að litum og efnisvali, þá getur hann auðveldlega komið í stað fjölda flugna sem fall í þann flokk. Á hefðbundnum votflugukrók #8, sem ég tel Stefán Hjaltested Nobbler fóstra nota, er hann skæður þar sem hornsíli eru á ferð, þ.e. Nobblerinn.
Í vötnum þar sem stærri fiskur heldur til og hefur vanist á að éta nánast allt sem syndir kringum hann leyfi ég mér að skipta hefðbundnu chenille alfarið út og nota tinsel chenille í staðinn. Strangt til tekið skiptir Nobbler þá um nafn og heitir Humungus upp á útlensku eða Veiðivatnagull eða þá eitthvað enn annað upp á Íslensku. Fyrir mér er þetta nú eftir sem áður Nobbler, hvort sem hann er gylltur, koparlitaður eða silfraður.
Senda ábendingu