Það er náttúrulega eitthvað að þeim veiðimanni sem smellir í 360 km. fram og til baka á 12 tímum til þess að komast í ákveðið vatn til að veiða, en það gerði ég einmitt á laugardaginn þegar ég brenndi upp að Landmannahelli, kvittaði mig inn á svæðið og fékk veiðiskýrslu til að skila í lok dags. Ferðinni var heitið í Frostastaðavatn og einhver þau önnur vötn sem lægju vel við höggi og þá helst töku.
Landmannaleið (F225) frá Landvegi (26) inn að Landmannahelli var nýlega opnuð og enn hafði þunglestuðum túristaferjum ekki auðnast að breyta henni í þvottabretti eða dusta af henni ofaníburðinn þar sem hann er þynnstur. Vel að merkja, vegurinn frá Landmannahelli til austurs er enn lokaður vegna bleytu þannig að ferðalangar verða að láta sig hafa það að aka til baka að vöðunum á Helliskvís og Rauðfossakvísl og þaðan inn Kringlu í átt að Dómadal og Frostastaðavatni.

Einhvers staðar las ég að meðalhæð Hollywood leikara væri vel undir meðalhæð almennings. Þetta kitlaði mig aðeins á laugardaginn þegar ég setti í hverja bleikjuna á fætur annarri í Frostastaðavatni sem náði ekki þeirri stærð sem ég hefði óskað. Samhengi þessa er e.t.v. heldur langsótt en það á rætur að tekja til nýlegs sjónvarpsþáttar þeirra tvibba Gunna og Ása þar sem þeir heimsóttu Frostastaðavatn. Gat það virkilega verið að skyndileg frægð bleikjunnar í Frostastaðavatni hefði stigið henni svo til höfuðs og aðeins væri teflt fram fiskum af svipaðri stærð og Hollywood leikurum? Nei, það er nú ekki svo, en vissulega var það áberandi hve fiskurinn var smágerður, nettur, stuttur í annan endann eða hvaða lýsingu maður getur gefið á fiski sem ekki nær meðalstærð síðustu ára. Að þessu sögðu er rétt að taka það fram að oftar en ekki hefur verið smá bið eftir stærri fiski upp að Suðurnámshrauni á vorin (vorið nær nokkuð langt inn í sumarið á hálendinu) þannig að það kom mér ekkert á óvart að þegar ég náði lengri köstum út á vatnið, þá komu aðeins vænni fiskar.

Eftir að ég hafði eytt tveimur tímum undan Suðurnámshrauni rölti ég til baka og færði mig að vatninu að norðan. Í fyrstu ferð minni í fyrra óð ég eftir malarrifinu undir Frostastaðahrauni og náði þannig til nokkuð vænni fiskjar ef ég veiddi eins utarlega og mér var unnt og þetta langaði mig að prófa aftur. Þetta árið er ekki eins mikið í Frostastaðavatni og á sama tíma og í fyrra en yfirdrifið samt. Næst austurbakkanum var nóg af fiski og á í hverju kasti, smár fiskur en nokkuð vel haldinn. Sem því næst fyrir miðju hrauni var fiskurinn aðeins stærri, ekki þó stór, en í mjög góðum holdum. Annars langar mig sérstaklega að taka það fram að í þessari ferð fékk ég ekki einn einasta sláp, þ.e. þessa hausstóru og mögru fiska sem stundum hafa verið áberandi í vatninu á vorin. Þegar allt var talið, stórt og smátt, voru það 25 fiskar sem ég tók úr vatninu (hirti allt, líka smælkið) og þeir vigtuðu tæp sex kíló. Það gerir meðalvigt upp á 240 gr. sem er vitaskuld ekkert sérstök vigt.

Eftir Frostastaðavatn renndi ég aftur í átt að Dómadal ef svo bæri undir að þokkaleg kastátt væri við Dómadalsvatn. Á leiðinni keyrði ég framhjá Nýjapolli sem enn eitt árið kom sér fyrir í Dómadal. Þetta árið er hann aftur á móti ekki til trafala og snertir Landmannaleið nánast ekkert.

Þar sem vindur var nokkur í Dómadal og ég orðinn heldur blautur og kaldur, ákvað ég að renna til baka að Landmannahelli en kom þó við í Herbjarnarfellsvatni og barði það augum og flugum í smá stund. Ef mér skjátlast ekki því meir, þá var ég trúlega fyrsti veiðimaður að vatninu þetta sumarið því ekki sá ég nein bílför í átt að því og nokkurn spotta varð ég að aka eftir minni því vegurinn var hvergi sjáanlegur. Ég held að þetta sé það mesta sem ég hef séð í vatninu og greinilegt að það getur alveg hækkað enn meira í vatninu ef allur snjórinn sem var við bakkana skyldi taka upp á því að bráðna snarlega. Að vísu þarf þá eitthvað að hlýna eða rigna enn meira í sumar heldur en þegar hefur gert.

Þegar mér þótti fullreynt að ná fiski upp úr jökulköldu Herbjarnarfellsvatni hélt ég til baka að Landmannahelli, skilaði veiðiskýrslunni minni og kastaði kveðju á hóp Ármanna sem komnir voru í hús og annan hóp sem ég hitti fyrr um daginn. Það gladdi mitt litla hjarta þegar ég hitti þann hóp í Dómadalnum og sá að þeir voru með handbært prent af samantekt minni um Framvötn frá 2016. Það kemur þá mögulega einhverjum að gagni sem ég set hér fram á síðunni.
Því miður var það samdóma álit allra sem ég hitti á laugardaginn að þeim þótti fiskurinn heldur smár í Frostastaðavatni og deginum ljósara að bleikjan er heldur liðmörg. Til einhverra ráða verður að grípa þannig að ekki fari illa fyrir vatninu og bleikjustofninum. Ég ber nú samt þá von í brjósti að þegar sumarið gengur fyllilega í garð að Fjallabaki, þá komi stærri fiskar í kastfæri í Frostastaðavatni, rétt eins og gerst hefur undanfarin ár.
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 25 | 15 / 38 | 0 / 0 | 0 / 1 | 6 / 9 |