
Pyttlur
Á milli Skálavatns og Nýjavatns er nokkur fjöldi lítilla vatna sem einu nafni eru nefndar Pyttlur. Mér er aðeins kunnugt um að tvær þeirra beri nöfn og eru það Stóra Pyttla og Skeifupyttla.
Stórapyttla
Eins og nafnið ber með sér, þá er Stóra Pyttla þessara vatna stærst, nokkuð djúpt á köflum og þar má setja í vænan urriða. Ekki er akfært að Stóru Pyttlu en stystur gangur er að henni frá sunnanverðu Skálavatni og að norðan frá Dvergasteini við Langavatn.

Skeifupyttla
Rétt austan slóðans á milli Kvíslarvatns og Litla Breiðavatns liggur Skeifupyttla og er akfært sem næst niður að henni. Mér er ekki kunnugt um fengsæla veiðistaði í Skeifupyttlu, en sé tekið mið af smæð hennar, þá ætti að vera nokk sama hvar niður er borið við vatnið, ef fiskur er þar á annað borð þá ætti hann að renna á agnið.