Þetta er ekki sú fyrirsögn sem ég hefði viljað setja á þessa grein, en því miður var alveg sama hvað ég velti mér upp úr merkingu enska orðsins emerging, þá fann ég ekkert skárra en þetta. Ég hef verið að veltast með þetta í kollinum í einhver ár eða alveg síðan ég varð vitni að urmul flugna sem risu upp af botni Vatnsviks við Þingvallavatn hér um árið og bleikjan fór gjörsamlega hamförum og veltist í ætinu.
Þegar svo ber undir að fluga klekst út og rís upp að yfirborðinu, þá er oft ekki minni hamagangur rétt undir yfirborðinu heldur en á ofan þess. Það er ekki auðvelt að lýsa þessum þungu undiröldum sem myndast í vatninu, fiskurinn kemur jafnvel aldrei upp í yfirborðið, heldur veltist um í vatninu á þetta 15 – 50 sm. dýpi og úðar í sig nýklöktum flugum sem rísa upp að yfirborðinu.
Stundum er mjög erfitt að greina að það sé veisla í gangi undir yfirborðinu og oftar en ekki sér maður krökkt af flugu á yfirborðinu en engar uppitökur. Undir niðri ólgar samt allt og kraumar og einstaka sinnum sér maður kúf myndast á yfirborðinu, stöku ugga uppúr en aldrei beinlínis einhverja töku. Það voru einmitt tveir svona kúfar sem mynduðust á vatninu sem vöktu athygli mína, þeir komu fram á nákvæmalega sama stað, með nákvæmlega sama hætti og þá var ekki um að villast, það var klak í gangi og bleikjunni þótti fyrirhöfnin ekki svara kostnaði að eltast við þær flugur sem náðu yfirborðinu.
Ég hafði verið með votflugu á flotlínu þegar þetta var og datt þá í hug að setja þyngda flugu undir, ekki hefðbundna Þingvallafluguþyngd, heldur venjulegt Héraeyra. Fyrst það var eitthvað í gangi þarna, var alveg eins gott að taka þátt í veislunni en ég viðurkenni það fúslega að mér varð nú hugsað til þeirra hundruða af flugum sem ég sá á vatninu, margfaldaði með óræðri tölu og hugsaði þá sem svo að ein fluga frá mér væri þá ekki til mikils líkleg innan um allt það sem væntanlega var á ferðinni í vatninu.
Lengi vel gerðist ekkert, ég dró hægt inn, miðlungs, með hléum og með rykkjum, ekkert gerðist. Þá var það að ég fór að hugsa, flugurnar voru jú að rísa og hví ekki að reisa stöngina lítið eitt í stað þess að draga inn. Það var eins og við manninn mælt, flugan var negld og væn bleikja var óhress á hinum endanum að vera trufluð svona illa á matmálstímanum. Ég þóttist nú vera nokkuð góður með mig þegar mér tókst síðar að taka aðra með þessari aðferð, því samkeppnin við náttúrulegu fæðuna var hreint út sagt gríðarleg.
Senda ábendingu