fos_nyarid

Flugur og skröksögur líta um öxl á þessum tímamótum. Það sem við sjáum er eitt besta vatnaveiðiár sem menn muna eftir. En það er langt því frá að það sé eitthvert viðmið, því minni manna er oft minna heldur en menn þykjast muna.

Endalausar verðhækkanir á stangveiðileyfum hafa orðið mörgum manninum að umfjöllunarefni síðustu mánuðina. Leynt og ljóst er óánægja manna með verðlagningu í öfugu hlutfalli við afla undangenginnar vertíðar, þ.e. færri fiskar í frystinum kalla á meiri óánægju með verð veiðileyfa. Það sannast enn og aftur að náttúran tekur ekkert mark á aukinni arðsemiskröfu eða gróðavon í veiðibransanum og veiði dróst mikið saman frá árinu 2013. Kallað hefur verið eftir auknum samtakamætti veiðimanna þannig að unnt sé að spyrna fótum við enn frekari hækkun veiðileyfa.

Svona hljómar umfjöllun fjölmiðla í meginatriðum fyrir árið 2014. Það er töluvert þynnra hljóðið í þessum sömu fjölmiðlum um afkomu vatnaveiðinnar og verðlagningu veiðileyfa. Langsamlega vinsælasti kostur vatnaveiðimanna, Veiðikortið hækkar ekkert á milli ára og veiði hefur almennt farið upp á við. Að vísu kemur sumarið 2013 eins og skrattinn úr sauðaleggnum inn í sögu síðustu ára en þannig er nú einu sinni stangveiðinn. Sé kalt á bakkanum er vatnið einnig kalt og þá heldur fiskurinn sig til hlés, jafnt í vötnum sem ám. Þrátt fyrir að sumarið 2014 hafi ekki verið sérstaklega sólríkt, þá var hlýtt og nóg af fersku vatni í vötnunum okkar, fiskum og veiðimönnum til ánægjuauka þannig að aflatölur voru með því besta sem sést hefur í langan tíma.

Það er ef til vill merki um aukið sambandsleysi veiðimanna við náttúruna að sveiflur í aflabrögðum virðst sífellt kom fleirum og fleirum á óvart. Það getur með sama hætti þótt vísbending um ákveðið sambandsleysi þegar menn þakka skammtíma aðgerðum mannanna aukinn afla. Langtímaáhrif inngripa okkar eru aftur á móti til þess eins fallin að spilla afrakstri þróunar sem hefur tekið náttúruna hundruði ára að byggja upp. Látum náttúruna í friði og lærum að njóta hennar af skynsemi og aðgát, þá þarf aldrei að koma til okkar afskipta, sem er væntanlega affærasælast fyrir allt og alla.

Af veiðiferðum mínum er það helst að frétta að fyrsti fiskur ársins var bjartur og fallegur 60 sm. birtingur úr Meðalfellsvatni á fyrsta í Veiðikorti, þ.e. 1. apríl. Ellefu dögum síðar skrapp ég í Eldvatnið og braut blað í sögu minni sem veiðimaður; braut toppinn á uppáhalds stönginni minni. Lítið var síðan að frétta af veiði framan af sumri sem ég skýri með lélegu tíðafari og ýmsum öðrum afsökunum. Reyndar slysaðist ég til að taka urriða á Þingvöllum þegar allur urriði átti að vera horfinn af bleikjuslóð og þykir mér enn miður að ég skyldi hafa truflað þann góða fisk. Ég er nefnilega haldinn þeirri firru að sleppa því að sleppa á Þingvöllum. Ef einhver stofn er í slíkri hættu að mælt sé með því að veiða og sleppa, þá kýs ég að sleppa því að veiða og einbeiti mér að öðrum fiskum eða vötnum, nóg er af urriða á öðrum slóðum sem má taka með sér heim í soðið.

Eftir þjóðlega heimsókn á Þingvelli þann 17.júní tók heldur að lifna yfir veiðinni og við tók ein skemmtilegasta ferð ársins, Veiðivötn í fyrsta skiptið. Síðar í júlí færðum við hjónin okkur suður fyrir Tungnaá og lögðum eiginlega Framvötnin í einelti það sem eftir lifði sumars. Aldrei spurning um að veiða og sleppa á þeim slóðum, bara veiða og taka, slík er ofgnótt bleikju á svæðinu.

Heildaryfirlit fyrir veiðiárið okkar hjóna má finna hér.

Árið á vefnum var eiginlega við það sama og verið hefur á umliðnum árum. Tæpar 81.000 heimsóknir á árinu og yfir 100 nýjar greinar og færslur. Af þessum heimsóknum skruppu yfir 2.500 yfir á önnur veiðiblogg og 25.000 á aðrar veiðitengdar síður. Samtals hafa tæplega 267.000 heimsóknir heiðrað síðuna frá því hún fór í loftið og stígandinn á milli ára er jafn og öruggur.

Ég framkvæmdi þá breytingu á árinu að færa Facebook færslur og tilkynningar yfir á sérstaka síðu fyrir Flugur og skröksögur en fram að þessu hef ég nýtt mína persónulegu síðu fyrir FOS. Fylgjendur nýju síðunnar eru nú þegar orðnir 175 en maður getur alltaf á sig blómum bætt og á nýju ári ætla ég að laumast til að efna til smá ‘like’ leiks til að afla nýrra fylgjenda. Meira um það síðar.

Til allra sem fylgst hafa með þessu pári mínu; kærar þakkir fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða, nýja árið verður bara ennþá öflugra og alltaf jafn ókeypis á fos.is

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.