Heilt yfir má segja að sumarið 2014 hafi verið eitt besta ár í veiðinni sem komið hefur í langan tíma hjá mér. 25 ferðir færðu mér 121 bleikju og 27 urriða. Meðalveiði í ferð voru því tæplega 6 fiskar. Munar þar lang mestu um úthald okkar hjóna í Framvötnum í júlí og ágúst. Frúin endaði sömuleiðis í 121 bleikju, en urriðarnir voru eilítið færri eða 18. Aftur á móti var meðalveiði hennar í ferð ríflega 6 stk. þannig að enn og aftur hefur hún vinninginn og er vel að honum komin.

Um tíðafar sumarsins er það helst að segja að mér fannst eiginlega alltaf vera sól og blíða, nema þá helst þegar hausta tók. Þvert ofan í mínar spár um langt og milt haust var líkt og botnin hefði verið sleginn úr einhverri tunnu á himnum og veðurguðirnir byrstu sig örlítið meir heldur en ég átti von á. Hvað um það, vertíðin var gjöful og margra góðra stunda að minnast frá bökkum vatnanna okkar.
1 Athugasemd