Veiðivötn, 3. – 4. júlí

Mér varð á orði í fyrrakvöld að mér liði eins og krakka fyrir framan nammirekkann í stórmarkaði með skotleyfi á allt sem mig langaði í. Að velja eitthvað eitt uppáhalds er næstum dónalegt gagnvart öllu hinu namminu, en einhvers staðar verður maður að byrja. Þegar það kemur að nammi þá vel ég oft frekar litlu, bragðsterku stykkin, frekar en þau stóru einsleitu. Því er svolítið eins farið með mig í veiðinni og því vel ég Hellavatn. Ég var svolítið efins að upplýsa valið, hélt jafnvel að ástæðan væri sú að þar fékk ég minn fyrsta Veiðivatna urriða en það er ekki ástæðan. Hellavatn er einfaldlega bragðbesta nammið í rekkanum sem heitir Veiðivötn. Já, einmitt, karlinn komst tvo daga í Veiðivötn nú fyrir helgi ásamt frúnni og frábærum hópi veiðifélaga ofan af Skaga.

Veiðivötn - Litli Sjór
Veiðivötn – Litli Sjór

Fyrir ferðina var auðvitað hnýtt og hnýtt eftir bestu vitund um heppilegar flugur og svo var skroppið í heimsókn til Joakim‘s og fjárfest í hægsökkvandi línu á sjöu konunnar. Sjálfur þóttist ég vera þokkalega settur en út fór ég nú samt með stöng og hraðsökkvandi Veiðivatna-línu að láni til prufu. Eftir nokkur köst með stönginni var engin vafi lengur í mínum huga; arftaki MMX er fundinn.

Vopnabúrið klárt
Vopnabúrið klárt

Eftir tilhlökkunarþrungna bílferðina upp í Veiðivötn var farið tiltölulega snemma í rúmið, fimmtudagurinn skyldi tekin snemma. Hópurinn ofan af Skaga hafði verið garnrakinn um bestu staðina og við hjónin ákváðum að byrja í Litla Sjó og láta síðan slag standa um framhaldið. Til að gera langa sögu stutta þá bar í raun ekkert til tíðinda hjá okkur yfir daginn. Maður ráfaði (ók) á milli staða, smakkaði á völdum vötnum og valdar flugur smökkuðu á óvörðu fési mínu. Gómsætasti bitinn við Litla Fossvatn var greinilega ég, átján mýbit á 5 mín. og ég stefndi hraðbyri í að leika Fílamanninn II.
Þegar kvöldaði ákváðum við hjónin að við fiskleysi yrði ekki búið þannig að við fórum í nokkuð öruggt vatn og settum í nokkrar bleikjur, svona til að geta verið með í fréttum þegar heim í Setrið væri komið. Föstudagurinn skildi tekinn með stæl, byrjað í Hraunvötnum og fikrað sig kerfisbundið til baka.

Litla Fossvatn
Litla Fossvatn

Eftir glæsilegt veður fimmtudagsins fengum við sýnishorn af norðan belgingi á föstudagsmorguninn, stillum inn á milli, þoku og þéttari þoku (sem einhverjir kalla rigningu) og svo aftur aðeins meiri belging. Eftir einhverjar tilraunir til fluguveiði í Stóra Hraunvatni gerðum við góða ferð í Hellavatn þar sem fyrsti urriðinn féll hjá undirrituðum. Skemmtilegur fiskur sem gaf ekkert eftir fyrr en í fulla hnefana. Sáttur? Já, miklu meira en það. Skipuleg yfirferð okkar hjóna um svæðið varð verulega fyrir áhrifum veðurs og að endingu gáfumst við upp fyrir vindáttinni og snérum leitinni upp í að finna skjól á bleikjuslóðum. Merkilegt þegar fiskarnir taka upp á því að vilja bara flugu konunnar, en ekki mína, en svona eru sumar ferðirnar.

Veiðivötn
Veiðivötn

Niðurstaða tveggja daga í Veiðivötnum: frábær ferð, mjög skemmtilegur félagsskapur sem var ósínkur á ráð og leiðbeiningar, dásamlegt umhverfi og endalausir möguleikar til veiði. Það er ekki spurning um ef, heldur þegar ég fer næst, að ég ætla að einbeita mér að Stóra Fossvatni, Snjóölduvatni og Skálavatni, ásamt nýja uppáhalds molanum mínum, Hellavatni.

Takk fyrir okkur, Skagamenn. Frábærir dagar og við eigum örugglega eftir að hittast einhvern tímann aftur í Veiðivötnum.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 11 / 3 13 / 11 / 1 5 / 12 14 / 19

Ummæli

06.07.2014 – Siggi Kr. (Taumur): Hellavatn er ótrúlega fallegt og skemmtilegt vatn eins og Hraunvötnin eru reyndar flest. En hvert fóruð þið til að ná í bleikjur. Hef heyrt að Langavatn hafi verið að gefa þokkalegar bleikjur í sumar og Kvíslarvatn líka. Er að fara sjálfur eftir viku eftir að hafa tekið eitt sumar “off” í fyrra og spennan er hrikaleg.

Svar: Já, ég kolféll alveg fyrir Hellavatni. Kannski ekki alveg að marka fyrstu sýn á vötnin því mér skilst á kunnugum að heldur sé lágt í vötnunum núna. Við (aðallega frúin) mokaði bleikjunni upp í Langavatni (Langavatnskrika) og svo aðeins í Nýjavatni. Raunar smellti hún einnig í bleikjur í Snjóölduvatni (Hellisnef sunnanvert til austurs), þannig að það er víða hægt að krækja í bleikjuna. Mér skildist á staðarhöldurum að bleikjan sem kemur á land núna sé öllu vænni heldur en verið hefur. Hvað sem mönnum finnst um bleikjuna á þessu svæði, er ágætt til þess að vita að hún eigi sér afdrep á hálendinu, því víða er hún jú að hopa á láglendi.

2 svör við “Veiðivötn, 3. – 4. júlí”

  1. Siggi Kr Avatar

    Hellavatn er ótrúlega fallegt og skemmtilegt vatn eins og Hraunvötnin eru reyndar flest. En hvert fóruð þið til að ná í bleikjur. Hef heyrt að Langavatn hafi verið að gefa þokkalegar bleikjur í sumar og Kvíslarvatn líka. Er að fara eftir sjálfur eftir viku eftir að hafa tekið eitt sumar „off“ í fyrra og spennan er hrikaleg.

    Líkar við

  2. Að lokum | FLUGUR OG SKRÖKSÖGUR Avatar

    […] þann 17.júní tók heldur að lifna yfir veiðinni og við tók ein skemmtilegasta ferð ársins, Veiðivötn í fyrsta skiptið. Síðar í júlí færðum við hjónin okkur suður fyrir Tungnaá og lögðum […]

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com