Hvar eiga veiðimenn að vera annars staðar en á Þingvöllum á þessum degi? Ég reif mig upp kl.6 í morgun, hitaði vatn á brúsa og skundaði á Þingvöll, eins og sagði í ljóðinu forðum. Dásamleg þoka grúfði yfir völlunum og vatninu, hlýtt og stillt veður, ekki hægt að biðja um það betra.

Um síðustu helgi fórum við hjónin á Þingvöll og áttum skemmtilega stund með fullt af murtum og 2-3 undirmálsbleikjum sem ekki verða færðar til bókar sökum smæðar. Í þeirri ferð brugðum við út af vananum og fórum í Tóftirnar austanverðar, svæði sem lofar góðu. Ég hugsaði mér því gott til glóðarinnar í morgun og byrjaði í Tóftum, en fljótlega fékk ég það á tilfinninguna að trúlega yrði meira um menn en afla á þeim slóðum, svo ég færði mig út á Nes með stefnuna á Nautatanga.
Eftir að hafa hrist nokkrar murtur af brá svo við að tekið var í Peacock’inn af fullri alvöru. Jamm, ekki bar að öðru en stærri bleikja væri þar á ferð. Eftir nokkuð snarpa viðureign lá þessi líka feita og pattaralega hryggna á bakkanum, 1 – 1,5 pund. Skömmu síðar var aftur tekið í Peacock og nú af enn meiri alvöru. Viðureignin var að sama skapi lengri og endaði með þessari líka fínu bleikju á bakkanum.

Eftir smá bið, með tilheyrandi árangurslausum tilraunum með aðrar flugur, setti ég Peacock aftur undir og auðvitað kom enn ein bleikjan á hjá mér í svipaðri stærð og sú fyrsta. Flottur morgun á Þingvöllum í kyrrð og ró, fjarri glys og látum Borgarinnar. Ég hef sjaldan átt ánægjulegri Þjóðhátíðardag, til hamingju með daginn.
Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 3 | 0 / 3 | 0 / 0 | 5 / 11 | 10 / 15 |
Ummæli
17.06.2014 – Þorkell: Fagnaði þjóðhátíðardeginum með nákvæmlega sama hætti og þú. Reis úr rekkju klukkan sex, skundaði á Þingvöll og treysti vort heit. Landaði þremur bleikjum á Pheasant tail og Peacock og veðrið maður. Til hamingju með daginn sömuleiðis.
Svar: Já, segðu. Frábært verður eins og sjá má á myndunum af þinni frásögn, sjá hér.
Fagnaði þjóðhátíðardeginum með nákvæmlega sama hætti og þú. Reis úr rekkju klukkan sex, skundaði á Þingvöll og treysti vort heit. Landaði þremur bleikjum á Pheasant tail og Peacock og veðrið maður. Til hamingju með daginn sömuleiðis.