Mér var farið að líða svolítið eins og í strætó við Þingvallavatnið í gærkvöldi; Leið 312 – Reykjavík, Vellankatla, Nautatangi, Öfugsnáði (tímajöfnun), Vörðuvík, Reykjavík. Að öllu gríni slepptu þá ákváðum við hjónin að slást í hóp þeirra, sem við héldum að yrðu, fjölmargra veiðimanna við Þingvallavatn. En það var nú öðru nær, fáir á ferli og eitthvað lítið um húrra hróp.
Eins og leiðarlýsing hér að ofan gefur til kynna var fyrst komið við í Vellankötlu, sem er einn uppáhalds staða minna við vatnið. Stutt lýsing; ekki eitt einasta högg. Var þá farið að Nautatanga og lagt á sig að vaða djúpt að veiðistað sem aldrei hefur klikkað. En svo bregðast raftar sem fylliraftar, ekki eitt högg. Var þá lagt í nýjan leiðangur og ekið að Öfugsnáða þar sem einn var á veiðum meðan frúin/kærastan sat inni í bíl og virtist hafa það bara alveg ágætt yfir bók að mér sýndist. Nei, þeir eru ekki allir sem eru dregnir til veiða af konunni, eins og ég.
Að lokum renndum við út að Vörðuvík og þóttumst við nú vera komin nokkuð nærri slóðum glæsilegra bleikjumynda síðustu daga, en að sama skapi nokkuð nærri urriðaslóðum. Eftir nokkur köst, engin fluguskipti og ekki mjög langt frá landi, var hrifsað allharkalega í fluguna og línan dregin hressilega úr höndunum á mér. Æ, það laumaðist að mér sá lúmski grunur að ég færi ekki með þennan fisk heim, sem kom svo á daginn. Þetta var sem sagt nokkuð vænn urriði sem hafði litist svona ljómandi vel á Pheasant hjá mér. Ég þori ekki alveg að skjóta á lengd, en yfir 40 sm. var hann í það minnsta og svona líka sprækur. Eftir snarpa viðureign, þar sem ég tók að mér að halda haus, mínum á sínum stað og hans nokkuð vel upp úr vatninu, gafst hann upp svo ég náði að renna honum að bakkanum og losa úr honum fluguna. Það var sprækur og kátur urriði sem skvetti sér í kveðjuskyni þegar ég hafði sleppt honum.

Afsakið léleg gæði á mynd, farsími í rökkri er ekki beinlínis ávísun á góða ljósmynd.
Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 0 / 0 | 0 / 1 | 0 / 5 | 7 / 11 |
1 Athugasemd