Hlíðarvatn í Hnappadal

Hlíðarvatn í Hnappadal hefur um margra ára skeið verið eitt af mínum uppáhalds vötnum. Vatnið tilheyrir þremur bæjum sem land eiga að því; Heggsstöðum, Hallkellsstaðahlíð og Hraunholtum. Frá Heggsstöðum liggur illfær slóði inn að Heggstaðaseli þar sem gera má ágæta veiði, sérstaklega undir Snoppu og þar í kring. Í landi Hallkellsstaðahlíðar er hægt að tjalda í túnfætinum gegn vægu gjaldi. Á báðum þessum bæjum eru seld veiðileyfi, auk þess sem veiðileyfi fyrir landi Hraunholta er nú inni í Veiðikortinu.

Í landi Hraunholta hefur Stangveiðifélag Borgarness reist veiðihús undir Fellshálsi, Jónsbúð og sett upp aðstöðu fyrir veiðimenn til að gera að fiski. Kanna má með lausa daga í Jónsbúð á vef Stangaveiðifélags Borgarness með því að smella hérna. Í landi Hraunholta eru nokkrar flatir í grennd við veiðihúsið þar sem hægt er að tjalda eða setja upp vagn og hefur það yfirleitt verið auðsótt mál í samráði við landeiganda.

Sveiflur í vatnshæð Hlíðarvatns eru nokkrar frá náttúrunnar hendi og mikill munur getur verið á hæstu stöðu að vori og þeirrar lægstu að hausti. Í góðu árferði er afrennsli um Hraunholtaá til Oddastaðavatns, en oftar er vatnsstaða á sumrum slík að ekkert rennur í ánni og þá er eina afrennsli vatnsins um gljúpt hraunið. Helstu ár og lækir sem renna til Hlíðarvatns eru Fossá og Djúpadalsá að austan og lækirnir sem renna um Illumýrargil og Draugagil að sunnan.

Í vatninu er bæði bleikja og urriði og er það mál manna að í vatninu séu í það minnsta tvö afbrigði bleikju því töluverður útlitsmunur er á bleikjunni austan og vestan við Álftatanga. Fiskurinn getur orðið mjög vænn og í vatninu hafa veiðst urriðar um og yfir 50 sm. og boltableikjur þótt mest sé af fiski rétt um og yfir pundið.
Vatnið hefur um árabil verið fastur punktur í veiðiferðum mínum og fyrir hefur komið að ég hafi heimstótt það allt að 7 skiptum á sumri. Vegna framangreindra sveiflna í vatninu getur svo borið undir að engin ferð innan sumars sé eins hvað veiðistaði varðar. Veiðistaðir sem óaðgengilegir eru að vori, geta allt í einu orðnir aðgengilegir á miðju sumri.

Eins og áður getur er veiðileyfi fyrir landi Hraunholta nú inni í Veiðikortinu (2019) og eykst þá mögulega ástundun vatnsins nokkuð frá því sem verið hefur síðustu ár.

Tenglar

Flugur

Higa’s SOS – júní
Blóðormur – maí
Þingeyingur – sept.
Bleik og blá – ág. / sept.
Dýrbítur (svartur) – okt.
Black Ghost – júl til sept.
Pólskur PT – maí til ág.
Peacock – maí til ág.
Héraeyra – júní til sept.
Watson’s Fancy – maí til sept.
Dentist – júlí til sept.
Nobbler (orange) – alltadf
Nobbler (svartur) – júl. til sept.
Krókurinn – maí til ág.
Heimasætan – júl. til sept.
Vinstri græn – júl. til sept.

Tölt um vatnið

Myndir

Myndbönd

Vötnin

Vesturland
Norðvesturland
Norðausturland
Austurland
Suðurland
Hálendið

Create a website or blog at WordPress.com