FOS
  • Færslur
  • Flugur
    • Flugur – uppskriftir
    • Febrúarflugur
    • Úr þvingunni
    • Klassískar flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Hlíðarvatn í Hnappadal 18. til 20. júní 2021

    22.júní 2021
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Sumarið er alveg að detta inn, maður velur sér bara staðsetningu, stillir sig inn á veðrið og lætur slag standa. Með þetta að leiðarljósi héldum við veiðifélagarnir út úr bænum fyrir hádegið á föstudaginn, tókum stefnuna vestur í Hnappadal.

    Það hafa fáar fréttir borist úr Hlíðarvatninu það sem af er sumars og því fátt annað að gera en skoða aðstæður upp á eigin spýtur, nesta sig upp og ganga úr skugga um að nægt gas væri á kútunum ef hitastigið þyrfti einhverja hjálp til að halda þolanlegum hita yfir nóttina. Veðurspáin var jú, svona og svona, í og úr, þessi eða hin áttin og hitastigið eftir því. Jákvæðasta spáin var eitthvað í áttina við skýjað, skúrir og sólarglæta á köflum.

    Til að klára þetta strax með veðrið, þá var það alls ekki eins svalt og spár gáfu tilefni til að ætla. Fyrripartur föstudags til sunnudags einna fallegastir, oft stillur og almennt fallegt veður. Skúri urðum við ekki vör við fyrr en á sunnudag, sem skipti okkur engu máli því við vorum búinn að pakka og ganga frá þegar þessir fimm dropar duttu niður úr skýjunum.

    Og þá að sívinsælli spurningu veiðimanna; Var vatn í vatninu? Stutta svarið er einfaldlega já og það var í meðallagi góð vatnsstaða eins og sjá má á víðmyndinni hér að neðan sem tekin er af vesturenda Fellsbrekku.

    Smellið á mynd fyrir fulla stærð

    Undanfarin ár hafa verið upp og ofan, aðallega ofan í vatnsborði Hlíðarvatns og miklir þurrkar hafa sett verulegt strik í reikninginn, en það var ánægjulegt að sjá það núna að upp úr miðjun júní er staðan bara tiltölulega góð.

    Það er að verða einhver frasi hér að lýsa fasi okkar á veiðistað sem tiltölulega slöku, vorum ekkert að flýta okkur en vorum þó komin út í vatnið rétt upp úr hádegi. Það var annað hvort að hafa sig af stað og ná í endann á fyrriparti dagsins eða þá veðja á kvöldið. Auðvitað stóðumst við ekki blíðuna og töltum út að Rifinu norðanverðu og það var eins og við manninn mælt, það var búið að opna hlaðborð Hlíðarvatns og bleikjurnar fóru hamförum í yfirborðinu.

    Þó það væri ekki algjör stilla, þá nægðu sólargeislarnir til þess að vekja klakið og við settum því þurrflugur og klekjur (emergers) undir og uppskárum eftir því. Áður en bleikjurnar fengu sér eftirmiðdagslúr, lágu nokkrar vænar í netum okkar og einhverjar til viðbótar fengu leyfi til að snúa aftur til systra sinna og gátu þá sagt sögur af grunsamlega girnilegum en stingandi mýflugum sem þær höfðu komist í kynni við.

    Það varð lítið úr veiði eftir kvöldmat þar sem snögglega kólnaði og tók fyrir allar uppitökur og eitthvað tók hann að blása meira í þokkabót.

    Enn og aftur var asinn á okkur hjónum í lágmarki á laugardaginn, stungið úr heilum kaffibrúsa í morgunsárið og fyllt á maga áður en við hreyfðum okkur nokkuð umfram nauðsynlegustu ferðir inn í vagn til að bæta á veitingar. Þegar við loksins drógumst í vöðlurnar var enn og aftur brostið á með klaki og enn fengu þurrflugurnar að njóta sín. Við sáum svo sem litla ástæðu til að breyta mikið út frá vananum og héldum okkur við fyrstu og aðra rennu út frá Rifinu. Þeir sem þekkja til við Hlíðarvatn vita að þar á ég við staðina þar sem vatnar yfir og á milli skerja út frá Rifinu. Þarna þjappast oft ætið saman og er nærri ávísun á fisk, sem raunin varð einmitt á.

    Eins og venjulega, í það minnsta í okkar tilfelli, þá gerðist það upp úr miðjum degi að fiskurinn dró sig í til hlés og það var eins og skrúfað væri fyrir alla veiði. Við töltum því aftur í vagninn, sumir fengu sér lúr á meðan aðrir stússuðust í veiðigræjum og veltu því fyrir sér hvað yrði ofaná í kvöldmat.

    Þar sem nær allur afli okkar hafði verið bleikja hingað til, þá stóð minn hugur til þess að vaða út í skerin undir Fellsbrekku um kvöldið og tæla nokkra urriða upp úr dýpinu með vel völdum nobblerum. Ég tölti því af stað og hugsaði mér gott til glóðarinnar, minnugur fyrri ferða út á skerin þaðan sem stutt er í fengsæl urriðamið. Svo bregðast krosstré sem aðrir raftar og þrátt fyrir töluverðar tilraunir með litróf nobblera á hægsökkvandi línu, þá kom ekki eitt einasta bein upp úr vatninu. Þetta voru tíðindi til næsta bæjar, hefði ég bara nennt að ganga þangað, og ég var lengi að velta þessu fyrir mér.

    Ég komst að þeirri niðurstöðu, hvort sem hún er nú rétt eða röng, að sveiflur undangenginna ára í vatnshæðinni hafa mögulega komið verr niður á urriðastofni vatnsins heldur bleikjunnar. Þeir urriðar sem við tókum voru smávaxnir og fáir, ekki meira en tveggja ára fiskur utan eins sem trúlega var orðinn fimm ára en hefði mátt vera bústnari. Ekki skorti ætið, nóg af hornsíli úti á skerjunum en það var einfaldlega ekki nokkurt líf með djúpinu.

    Þetta kemur í raun ekkert niður á vatninu, bleikja var einstaklega vel haldin og hefur sjaldan verið jafn spræk og kröftug á flugu. Ekki ein einasta bleikja sem náð hafði matstærð vantaði gramm upp á að vera yfir meðallagi í holdum.

    Sunnudagurinn byrjaði á svipuðum nótum og laugardagurinn, blíðviðri og bleikjur í uppitökum. Við bættum aðeins í netin okkar og skiptum yfir í þyngri flugur þegar hann hallaði sér óþyrmilega í norðvestan átt með tilheyrandi kulda.

    Eins og áður segir náðum við að pakka saman áður en örfáir dropar féllu á okkur og það sem meira er við náðum í heimahagana áður en óvæntar tafir urðu á umferð um göngin. Hreint út sagt, frábær helgi sem minnst verður sem þurrfluguhelgarinnar miklu. Er samt enn að velta fyrir mér fjarveru urriðanna.

  • Hlíðarvatn í Hnappadal 6. – 7. júní 2020

    7.júní 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Langþráðan ilm af sumri lagði fyrir vit okkar í Hnappadalnum á laugardaginn þegar við renndum inn að Jónsbúð Borgnesinga við Hlíðarvatn. Þörfin á veiðiferð var töluverð, en vinna fram til hádegis varð til þess að við vorum seint á ferð. Á leið okkar vestur Mýrar, með okkar færanlega veiðihús í eftirdragi, tóku að gerjast ýmsar hugmyndir um daginn. Það væri e.t.v. töluvert lægra í vatninu en fyrir ½ mánuði síðan, vatnið orðið hlýrra, fleiri fiskar á stjái en erfiðara að finna tjaldstæði. Það síðasta var náttúrulega einhver útgáfa af hirtu þinn helvítis tjakk því við höfðum ekkert fyrir okkur í því að bakkarnir væru ofsetnir veiðimönnum, en veðrið gaf nú samt tilefni til að ætla töluverða ásókn.

    Þegar á staðinn var komið, þá kom hið sanna í ljós. Það var ekki eitt einasta tjald við vatnið, einn vagn að vísu en hann var við Jónsbúð. Vatnið hafði hlýnað, en það var hvorki að sjá fisk né að það hefði lækkað í vatninu. Þvert á móti, það hafi enn hækkað í vatninu og nú flaut yfir Rifið og þau fáu sker sem stóðu vel upp úr áður, möruðu í hálfu kafi. Nú hlýtur þessi snjór í fjöllunum austan Hnappadals eiginlega að vera búinn og vatnsborðið nær þekkilegri hæð.

    Á myndinni hér að neðan ættu að vera nokkur sker. Hægra megin við miðju er það stærsta og hæsta, en það rétt aðeins marar þarna í hálfu kafi. Vatnsborðið hefur hækkað um 60 – 80 cm frá því við vorum við vatnið 23. maí s.l. og langt því frá að vaðið yrði út frá Rifinu til norðurs í hraunið.

    Hlíðarvatn frá Rifi og inn í botn – Smellið fyrir stærri mynd

    Það var eins og sumarið væri virkilega komið í Hnappadalinn, hiti vel yfir lágmörkum og vindur ekkert til að væla yfir. Reyndar var hann nokkuð vestlægur sem er ekki algengt á þessum slóðum þannig að gamlir hundar sem helst eru vanir að eiga við hann úr norðaustri voru hálf vandræðalegir til að byrja með og þurftu fljótlega að taka sér pásu, matast og hugsa sitt ráð.

    Úr varð að við töltum inn með Fellsbrekku að Svartaskúta, lengra komumst við ekki með vatninu og þar byrjuðum við kvöldið. Eftir ótilgreindan fjölda af töpuðum flugum, var loksins tekið í svartan Nobbler af mikilli hógværð. Jæja, ég hef þá lent á barnaheimilinu, hugsaði ég mér og losaði 20 cm urriða af flugunni. Þetta með töpuðu flugurnar kom til vegna þess að ég gerði mér enga grein fyrir botninum sem ég náði til. Undir venjulegum kringumstæðum ætti maður að geta veitt fram af nokkrum hraunköntum þarna, en ég get svarið það að allt þetta vatn hefur fært þá eitthvað til og þeir eru nú skreyttir ýmsum flugum úr farteski mínu.

    Eftir að við höfðum gert ýmsar atrennur að fiski, sem við vel að merkja sáum aldrei, þá komst sú kjaftasaga á í okkar hópi (þar sem tveir veiðimenn koma saman, þar er hópur) að það væri svo mikið vatn í vatninu að fiskarnir hefðu beinlínis drukknað.

    Þar sem ekkert fullvaxið líf virtist vera þarna við Svartaskúta, færðum við okkur aftur út að Rifi þar sem ég náði loks í mathæfan fisk á ólívulitaðan Nobbler og síðan annan úr ungliðahreyfingunni. Veiðifélaga mínum þótti minn matfiskur greinilega ekki nóg fyrir okkur tvö, þannig að hún setti í annan eins til að taka með heim.

    00:30 aðfaranótt sunnudags

    Það er til marks um veðurblíðuna að við vorum við vatnið fram á sunnudag, þ.e. klukkan var 00:30 þegar við hættum, fóru upp í vagn og gengum til náða eftir heitan kakóbolla með smá lögg útí. Sunnudagsmorguninn skyldi tekinn með trompi.

    10:00 sunnudagsmorgun

    Hann var jú alveg þokkalega fagur, en nú blés hann aðeins kröftugra af suðri, sem er enn ein óþekkt átt í Hnappadalnum þannig að við vorum eiginlega alveg úti á túni. Eftir nokkrar tilraunir á og við Rifið, létum við gott heita, tókum saman rétt í tæka tíð áður en fyrstu droparnir féllu. Það var létt yfir okkur á heimleiðinni, núna voru nefin full af sumri og útvistarhjörtun eru farin að slá örlítið örar.

    Bleikjur í ferð
    0 / 0
    Bleikjur alls
    3 / 3
    Urriðar í ferð
    1 / 3
    Urriðar alls
    3 / 6
    Veiðiferðir
    9 / 10
  • Hlíðarvatn í Hnappadal 23. maí 2020

    25.maí 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Þegar kemur að því að velja orð yfir veðrið í Borgarfirði á laugardagsmorgun, þá dettur mér helst í hug þetta fallega og lítt notaða íslenska orð vindur. Með töluverðri jákvæðni má segja að það hafi verið gjóla í Skorradalnum nokkuð langt fram eftir laugardeginum, en þegar okkur veiðifélögunum fannst orðið nóg um að bíða þess að hann gengi niður, tókum við stefnuna á Hlíðarvatn í Hnappadal. Kannski væri hann stilltari þar, sjálfsblekkingin var algjör.

    Miðað við hitatölur síðustu sólarhringa, þá gerðum við eiginlega ráð fyrir að vatnið hefði hlýnað nóg til að kveikja á einhverju skordýralífi í Hnappadalnum og það stóðst. Það var nóg af flugu; þerrilöpp, toppflugur og ýmislegt annað sem flögraði um eða feyktist til í gjólunni. Við byrjuðum á því að renna inn fyrir Jónsbúð, virtum fyrir okkur ölduhæð og einbeitta veiðimenn sem lögðu agn sitt fyrir fiskinn innan við Rifið. Berandi þá von í brjósti að vind mundi lægja þegar liði á daginn, ákváðum við byrja í vatninu að norðan undir Stekkjarholti þar sem meint útfall vatnsins til Hraunholtaár á að vera.

    Útfallið til vinstri, vatnið allt til austurs, Hraunholtahnjúkar til hægri – Smellið fyrir stærri mynd

    Við byrjuðum reyndar á því að tölta út á hraunið þar sem við áttum alveg eins von á að fiskurinn hefði bunkast upp í víkurnar í leit að æti. Annað hvort vorum við ekki á réttum slóðum, ekki með réttu flugurnar eða fiskurinn var bara hreint og beint ekki þar, þannig að við héldum til baka undir holtið og gerðum heiðarlegar tilraunir með ýmsar flugur. Það var ekki fyrr en veiðifélagi minn var kominn að litlum svörtum Nobbler í boxinu að fiskur tók.

    Eins og mörgum öðrum veiðimönnum er farið, þá apaði ég eftir og hnýtti eins flugu á hjá mér. Já, það var greinilegt að þessi Nobbler var málið því eftir nokkur köst tók ég mjög svipaðan fisk, trúlega þann sama og hljóp á hjá frúnni. Þessi krúttlegi urriði fékk því enn annað tækifæri til að stækka aðeins, sjáum til hvort hann verði ekki kominn í matstærð þegar líður að hausti.

    Á einhverjum tímapunkti þótti okkur líklegt að Kári væri þrotinn kröftum og ætlaði sér að setjast í helgan stein, þannig að við tókum okkur til og renndum aftur inn að Jónsbúð. Þar gerðum við nokkrar heiðarlegar tilraunir til þess að slæma flugum út á móti öldunni við Rifið, en án árangurs. Við færðum okkur því fljótlega sunnan á Rifið og veiddum inn í víkina gengt Jónsbúð. Sjálfur varð ég ekki var við fisk, en veiðifélaginn setti í þokkalega einsmáltíðs bleikju sem fékk síðar far með okkur til baka í bústaðinn.

    Sem sagt; vindurinn var ekki vinur okkar á laugardaginn. Hitastigið var aftur á móti mjög ásættanlegt og flugan er komin á stjá við Hlíðarvatn í Hnappadal, þá fer þetta nú allt að koma. Já, fyrir áhugamenn um vatnshæðina, þá er hún í hefðbundnum gír miðað við árstíma, nokkuð hátt en það flæðir ekki yfir Rifið eins og stundum áður á þessum tíma.

    Bleikjur í ferð
    1 / 0
    Bleikjur alls
    1 / 3
    Urriðar í ferð
    1 / 1
    Urriðar alls
    2 / 3
    Veiðiferðir
    5 / 6
  • Hlíðarvatn í Hnappadal 29. sept. 2019

    30.september 2019
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Það er ekki alltaf að haustið kemur svona hægt og hljótt. Mér skilst að mánuðurinn sem er að líða hafi slegið einhver blíðumet þegar á fyrstu dögunum og síðan þá hefur hann verið eintóm uppbót á sumarið. Reyndar er það víst svo að vitarnir á Veðurstofunni telja september til síðsumars, ekki hausts og það getur náttúrulega skýrt alla þessa blíðu.

    Hvað um það, veðurspá helgarinnar hljóðaði upp á ýmist tilbrigði við dásamlegt veður og því þótti tilvalið að taka annan dag helgarinnar frá fyrir veiðiferð. Hvert? Þangað sem spáin vísaði manni, svo einfalt var það nú; Hlíðarvatn í Hnappadal.

    Eftir að hafa endurheimt veiðifélaga minn á sunnudagsmorgun úr klóm mannræningja sem bar að dyrum á mínu heimili á laugardag, var þessi líka fallega morgunbirta nýtt til að renna fyrir Hvalfjörð og Hafnarfjall, vestur á Mýrar og inn Hnappadalinn. Þegar okkur bar að garði var hin óbrigðula norðaustanátt upp á sitt besta og jafnvel aðeins meira en það. Við ákváðum því að byrja undir Stekkjarholti (þeim sem ekki eru staðkunnugir er bent á ágætis kort af vatninu sem má finna hérna) í þeirri von að vindurinn væri eitthvað spakari þar um slóðir heldur en undir Fellsbrekku. Ég ætla nú ekki að segja að sú von hafi átt sér stoð í raunveruleikanum, en við reyndum nú samt fyrir okkur dágóða stund og annað okkar uppskar í það minnsta eitthvað af narti, áhugalaus að vísu en nartað samt.

    Þegar vind tók að lægja færðum við okkur á gamalkunnar slóðir undir Fellsbrekkur og út á Rifið. Já, það er víst rétt að taka það fram að Hlíðarvatn í Hnappadal er komið aftur. Það brá sér í smá frí síðla sumars, hvarf næstum með öllu en er nú komið aftur og það flýtur meira að segja (næstum) yfir Rifið á kafla. Við vorum ekki búin að vera lengi að þegar félaga okkar úr veiðifélaginu bar að garði, vindbarinn í meiralagi og hann ásamt félögum sínum búinn að fá alveg nóg af strekkinginum skammt sunnan Heydals. Það sem mér fannst ennþá goluskítur var bara blíða í hans augum.

    Við þræddum okkur fyrir Rifið og reyndum hinar ýmsu flugur, glötuðum töluverðum fjölda þeirra en eins og veiðifélagi minn orðaði það; Þú verður nú að hafa eitthvað að gera í vetur. Eftir smá kaffipásu töltum við inn undir Fellsbrekku og böðuðum nokkrar flugur til viðbótar og þar setti ég í eina fiska ferðarinnar. Sá var nú ekki til að hafa mörg orð um, fallegur þó með eindæmum og fékk líf. Ég hef hugsað mér að að vitja hans aftur næsta vor, tæpt að ég nái því þetta sumarið því vatnið lokar jú í dag 30. september.

    Veiðifélagi minn hélt uppteknum hætti og glataði öllum þeim flugum sem stöldruðu augnablik við á taumendanum hjá henni. Ég fór að sjá sæng mína útbreidda og í huga mér var fjöldi hnýtingarkvölda framundan kominn vel á þriðja tug, þannig að ég lagði það ofurvarlega til um fimmleitið að við segðum þetta bara gott, tækjum okkur saman og héldum heim á leið.

    Þessi tillaga var samþykkt, en fátt var nú rætt á meðan við gengum frá græjunum. Það var reyndar ekki fyrr en við vorum komin inn á Heydalsveg að það heyrðist hljóð úr horni; Það hefði nú verið gaman að fá eins og eina töku. Svo mörg voru þau orð og ekki fleira sagt í bili. Hvort þetta verður síðasta ferð okkar félaganna þetta sumarið, haustið eða hvað sem þessi árstíð annars heitir, veit ég ekki. Ég er í það minnsta ekki búinn að pakka græjunum niður og enn eru örfáar flugur eftir í einhverjum boxum.

    Bleikjur í ferð
    0 / 0
    Bleikjur alls
    58 / 74
    Urriðar í ferð
    0 / 1
    Urriðar alls
    19 / 42
    Veiðiferðir
    25 / 26
  • Hlíðarvatn 26. maí

    27.maí 2019
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Á heimleið úr Hraunsfirði eru nokkur álitleg vötn, í það minnsta fyrir þá sem eiga heima sunnan Borgarfjarðar. Eitt þessara vatna kom inn á Veiðikortið nú nýlega en vatnið höfum við veiðifélagarnir stundar í mörg ár, Hlíðarvatn í Hnappadal og það heimsóttum við í gær, sunnudag eftir að hafa verið tvær nætur við Hraunsfjörðinn.

    Þeim sem þekkja Hlíðarvatnið ætti ekki að koma á óvart þegar ég segi að vindáttin var af norð-austri þegar við renndum í hlað fyrir landi Hraunholta upp úr hádegi í gær. Þessi yndislega vindátt hefur tekið svo ótal oft á móti okkur í Hnappadalnum að vart verður talið. En, það skemmir ekki fyrir okkur því við þykjumst þekkja fiskinn í vatninu nokkuð ágætlega, þ.e. stofninn, því flestir þeirra einstaklinga sem við höfum farið höndum um hafa fylgt okkur heim í lok dags.

    Rifið

    Oft hefur nú vatnið verið meira á þessum árstíma heldur en það er um þessar mundir. Rifið stendur vel uppúr og það má ekki miklu muna að vaðfært sé að verða út í skerin undir Fellsbrekku. Eiðið út frá Rifi til norðurs var ekki alveg komið upp, en mig grunaði að það væri nóg fyrirstaða þannig að fiskurinn héldi sig þar í víkinni þannig að mér tókst að telja veiðifélaga minn á að tölta þangað í stað þess að rölta inn með vatninu í átt að Neðri-skúta.

    Flugan sem fór undir var Orange Nobbler. Silungastofnarnir í vatninu hafa verið aldir upp við það í gegnum árin að vilja Orange Nobbler, hvort sem um er að ræða bleikju eða urriða. Af tómri frekju kom ég mér fyrir beint á móti vindi, slæmdi línunni út og leyfði flugunni að sökkva í ölduna. Tvö snaggaraleg tog og fyrsti fiskur var á, þokkaleg bleikja sem tók grimmt. Í kvikindisskap mínum kallaði ég nógu hátt „FYRSTI“ þannig að það barst veiðifélaga mínum örugglega þrátt fyrir rokið. Næsta kast, sama fluga, annar fiskur og auðvitað kalli ég „ANNAR“. Þriðja kast og ekkert gerðist. Fjórða kast og ég kallaði „ÞRIÐJI“ og skömmu síðar kallaði ég „FJÓRÐI“ en þá hætti ég líka því ég fann fyrir einkennilegum sviða á milli augnanna þar sem nístandi augnaráð veiðifélaga míns hitt mig fyrir. Áður en ég náði að hvísla „FIMMTI“ þá réttust aflatölurnar þegar frúin tók sinn fyrsta urriða í sumar og skömmu síðar bætti hún bleikju við.

    Fiskarnir sem komu á land voru vel haldnir og virtust hafa haft nóg æti. Raunar voru þeir allir troðnir af bobba, ekki eitt einasta hornsíli í maga þeirra og flugu var nú ekki heldur fyrir að fara. Það er reyndar reynsla mín að það sé einhver bið eftir hornsílinu, en þegar það fer af stað þá er veisla úti á skerjunum.

    Þetta var flott stutt stopp sem við gerðum í vatninu og eftir að við höfðum fengið okkur bita og skjalfest veiðinestið okkar og útsýnið, héldum við áfram för okkar heim eftir þessa fyrstu veiði-ferða-útilegu helgi sumarsins.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    1 / 1 2 / 12 1 / 5 1 / 7 7 / 8

    Og veiðifélaginn þurfti að eiga síðasta orðið (eins og vanalega): Djös…..það er bara mjööööööög ljótt að segja svona…eða telja svona upphátt, eiginlega svo hátt að það þurfti að kalla 🙂Bíddu bara. (annars er þetta ekki mitt ár, er það nokkuð?)

  • Hlíðarvatn í Hnappadal, 1. – 3. júní

    3.júní 2018
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Hún stóðst, hún stóðst ….. veðurspáin. Veðurspá helgarinnar fyrir vesturland var ekki upp á marga fiska en þrátt fyrir það létum við slag standa á föstudaginn og renndum vestur í Hnappadal með vagn og ‚alles‘. Fyrsta formlega útilega sumarsins skildi tekin með stæl, farið út úr bænum á föstudag og helst ekki komið heim fyrr en þegar langt yrði liðið á sunnudag.

    Hún hefur lengi verið römm sú taug sem tengir okkur veiðifélagana við Hlíðarvatn í Hnappadal og þar sem við erum bæði félagar í Stangaveiðifélagi Borgarness og keyptum sumarleyfi í vatnið um daginn, þá þótti okkur sjálfsagt að taka stefnuna á vatnið. Og þvílíkt vatn! Hér þarf mynd til að skýra þessa upphrópun:

    Frá Jónsbúð til norðurs

    Myndin er tekin næstum á tröppunum að Jónsbúð, veiðihúsi SVFB. Fyrir miðri mynd er slóði sem liggur undir hlíðinni til hægri og út að s.k. Rifi. Þessi slóði er núna 20 – 30 sm. undir vatnsyfirborðinu, en venjulega er hann u.þ.b. 100 sm. ofan þess. Fyrir miðri mynd sést glitta í nokkra steina lengst úti í vatninu. Þetta er hæsti punktur Rifs sem ég held að sé yfirleitt í ríflegri mannhæð þegar maður stendur við vatnsborðið. Það er sem sagt mikið í Hlíðarvatni í Hnappadal núna og eiginlega ekki á einn einasta þekktan veiðistað komist.

    Frá Jónsbúð að Hraunholtum

    Meira að segja hraunið á milli Jónsbúðar og bæjarins Hraunholta líktist meira flóa en stöku víkum.

    Eins og ég hóf söguna, þá stóðst veðurspáin. Athugið, hún var ekki upp á marga fiska og það var aðeins ein örvingluð bleikja sem slysaðist til að taka Peacock með orange skotti hjá mér á föstudagskvöldið, rétt við Jónsbúð. Sökum skorts á stærð var þeirri bleikju sleppt aftur. Veðrið sjálft var með prýðilegasta móti þótt óvenjuleg vindátt væri við vatnið; suðvestanátt. Þeim sem þekkja til, þykir þetta eflaust afskaplega merkilegt því almennt er talið að aðeins ein vindátt sé við Hlíðarvatn, sú norðaustlæga.

    Föstudagskvöldið við Hlíðarvatn

    Laugardagurinn var rakur, mjög rakur á köflum og eiginlega bara frekar blautur og til að toppa þokusuddann, þá var vindur að sperra sig töluvert úr þessari asna suðvestanstæðri átt. Ég tölti um morguninn að þeim stað sem Rifið ætti að vera, óð eins og ég þekkti til í leit að þekktum veiðistöðum, en varð ekkert ágengt. Eftir hádegið fórum við síðan inn með Fellsbrekku að norðan, en urðum ekki vör við fisk, enda ekki víst að nokkur fiskur hafi eitthvað þangað að sækja. Það sem áður var frekar gróðursnauð malarfjara við vatnið, er núna á bóla kafi og óvíst að þar leynist eitthvað æti. Það var ekki fyrr en við vorum á töltinu aftur að Jónsbúð að ég setti í smábleikju á orange Nobbler þar sem vegarslóðinn liggur á kafi. Ef föstudagsbleikjan taldist smágerð, þá var þessi beinlínis dvergvaxin og öðlaðist því frelsi sitt á ný eftir stutta viðureign.

    Getgátur okkur hjóna eru einfaldlega þær að vatnið sé enn of kalt vegna mikilla vatnavaxta eftir rigningar maí mánaðar og fiskurinn haldi sig því enn töluvert utar í vatninu, á meira dýpi. Gróður, bæði í hlíðum og í vatni er komin heldur skammt á veg í Hnappadalnum og því hefur fiskurinn lítið upp á grynningar að sækja og bobbar sem áður voru í seilingarfjarlægð fiska og veiðimanna eru núna langt úti í hafsauga. Ég man ekki til að hafa séð vatnsborðið standa jafn hátt og um þessa helgi, en  Sigurði í Hraunholtum  sagði mér að það hefði þó staðið nokkru hærra í einhver skipti, en tók fram að nú þætti sér nóg komið, nú mætti það hætta að bæta á sig.

    Við létum staðar numið í veiði um kvöldmat á laugardag, drógum okkur inn í vagn við blaður og spil og héldum heim á leið eftir kuldalega aðfararnótt sunnudags þar sem sannaðist að maður á ekki að fara í útilegu með aðeins einn átekinn gaskút á vagninum. Þrátt fyrir allt kvöddum við Hlíðarvatn með sól í sinni því nú hefur vagninn verið liðkaður eftir veturinn og stefnan verður eflaust tekin á nýjar veiðislóðir á næstu helgum. Þetta veiðir sig ekki sjálft og löngu kominn tími á að liggja úti við veiðar.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
     0 / 2 11 / 10 0 / 0 0 / 1 3 / 5

     

1 2 3 … 5
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2022 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

Hleð athugasemdir...
 

    • Fylgja Fylgja
      • FOS
      • Gakktu í lið með 156 áskrifendum
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Breyta vef
      • Fylgja Fylgja
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar