Hlíðarvatn & Kleifarvatn 16.-18.júní

Eftir vel ígrundaða yfirferð allra mögulegra og ómögulegra veðurspáa ákvað veiðifélagið að smella sér í Hlíðarvatnið í Hnappadal þann 16.júní upp á þá von að vindstyrkurinn yrði ekki alveg sá sami og spáð var. Í stuttu máli; spárnar gengu eftir og vel það. Þrátt fyrir afleit skilyrði tóks veiðifélögum að særa upp eina 9 fiska, bleikjur og urriða rétt um pundið í landi Hraunholts. Einn tekinn á svartan og gylltan Tóbý, ein á Pólska Pheasant Tail (með koparkúlu og rauðum kraga) og restin á maðk.

Ferðakort

Þjóðhátíðardagurinn rann upp með enn meira roki þannig að ákveðið var að renna í Borgarnes og taka veðrið þar. Þar sem við höfðum engan áhuga á að taka það veður með okkur, skildum við það bara eftir og ókum sem leið liggur (á ská með krókum) yfir Draga og í Svínadalinn ef ske kynni að lognið ferðaðist ekki eins hratt yfir á þeim slóðum. En, nei ekki varð sú raunin þannig að haldið var áfram fyrir Hvalfjörðinn, inn Kjósina og upp að Þingvallavatni sem lofaði góðu megnið af Grafningum. Hvað sem segja má um nýja svæðið á Veiðikortinu, Ölfusvatnsvík, þá er þetta nú ekki hlýlegasta svæði landsins þannig að við héldum áfram að Úlfljótsvatni (stutt stopp, samlokur og djús) og þaðan niður á Suðurlandsveg í átt til Reykjavíkur, en… sagan er ekki öll. Það er nefnilega hægt að skjótast af Suðurlandsveginum yfir í Krísuvík um Bláfjöll, sem við og gerðum. Næstum logn og blíða, hlýtt og hið ákjósanlegasta veður þannig að við komum okkur fyrir við Lambahaga, Vatnshlíðarmeginn og settum út færi. Eftir smá tilraunir með einhverjar flugur, endaði ég á því að setja Rolluna undir og viti menn, fjögurra punda bleikja greip tækifærið og festi sig kyrfilega á hjá mér en þar með er líka sögum af veiði að mestu lokið fyrir utan tvo titti sem gáfu sig veiðimönnum á vald í dag (18.) annar á svartan Buzzer en hinn á maðk. Trúlega eru þessir fiskar einhverjir dýrustu fiskar sumarsins, sé allt talið; veiðileyfi í Hlíðarvatni og bensínkostnaður tveggja bíla með fellihýsi í eftirdragi um meira eða minna allt suðvestur horn landsins, en gaman var þetta nú samt.

Haustveiði, Hlíðarvatn 9.okt.

Eins og tíðarfarið hefur verið síðustu vikur er fátt sem mælir gegn því að skreppa til veiða og njóta haustlita og veðurblíðu. Og, það var einmitt það sem við hjónin í ónefndu veiðifélagi ákváðum á föstudag. Við sem sagt hringdum á undan okkur vestur í Hnappadal og fengum leyfi að renna í Hlíðarvatn enn eitt skiptið á þessu ári. Afraksturinn varð nú ekkert rosalegur, eiginkonan tók 6 urriða á Black Ghost (eins og venjulega) og ég tók 2 á Svartan Dýrbít. Aðrir tveir komu á land á maðk og þar með er sagan öll. Sjálfur eltist ég töluverðan tíma við bleikjur inn að Álftatanga en þær voru greinilega í hryggningarstuði og vildu ekkert með flugurnar mínar hafa. Urriðarnir sem við hjónin tókum skiptust jafnt í hryggnur og hængi. Hryggnurnar tómar eða með óþroskuðum hrognum og hængarnir fullir af æti. Hryggningu urriðans því greinilega lokið þetta haustið og nú keppast þeir við að fita sig fyrir veturinn. Það vakti athygli mína að töluvert var af Vorflugu á ferðinni sem skv. fræðunum er með seinasta móti árs. Svona hefur nú veðráttan verið mild í haust.

Af sögunni endalausu; Vatnshæð. Við áttum smá spjall við Albert á Heggsstöðum og sagði hann okkur að yfirborðið hafi ekki orðið lægra í 70 ár í Hlíðarvatni. Hólmi einn í vatninu, sem í versta falli hafi hingað til gægst upp úr því, hafi komið allur upp í sumar og til séu mælingar m.v. eðlilega vatnshæð upp á 7 m dýpi á þennan hólma. Í byrjun ágúst skaut ég á að 3 m vantaði í vatnið og miðaði ég þá við það sem ég hef séð hæst í því, sem var greinilega vanmat. Annars hefur aðeins hækkað í vatninu síðustu vikur, lítið þó. Albert taldi að þurrkarnir í sumar og lélegur vatnsbúskapur komi örugglega til með að hafa áhrif á nýliðun næstu ára.

Til gamans útbjó ég þetta kort af vatninu og teiknaði inn í það yfirborð vatnsins eins og ég upplifði það í sumar.

Hlíðarvatn, Hnappadal 5.sept.

Rjómablíða, létt vestan og suð-vestan átt og vatnið upp á sitt fegursta. Vorum mætt í vatnið kl.10 og fljótlega fóru fyrstu fiskarnir að týnast á land. Fastir liðir eins og venjulega; enn hefur lækkað í vatninu. Nú er ég hættur að þora að segja til um hversu mikið vantar í vatnið. Ef við fáum enn einn snjóléttann vetur, þá lítur næsta sumar ekki vel út. Við hjónin voru mjög einbeitt og héldum okkur við fluguna allan daginn, hún með Black Ghost (10 fiskar) en ég með ýmsar aðrar; Vinstri græn, Bleik og blá, Dentist, Blue Charm og Þingeyingur auk Black Ghost (8 fiskar) þannig að samtals tókum við 18 væna fiska fram til kl.21:00 Vatnið hefur því gefið okkur 83 fiska í sumar. Ferðafélagar okkar tóku eitthvað minna á maðk.

Hlíðarvatn, Hnappadal 31.júl.-2.ág.

Ekki klikkar Hlíðarvatnið, þótt það hafi ekki verið neitt brjálæði.  Tókum heim með okkur ein 14 stk. á bilinu 1 1/2 – 2 pund.  Vatnið hefur minnkað enn meira frá því við vorum þar um miðjan júlí og mér sýnst að vanti c.a. 3 m í vatnið.  Ókostur: gróðurinn er að verða verulega til trafala.  Kostur: ekki þarf að leita lengi að dýpinu þar sem ‘þeir stóru’ leynast.  Vorum eins og venjulega í landi Heggsstaða og tókum alla fiskana innst í vatninu.  Prófuðum allt svæðið út að Álftatanga en gróðurinn var aðeins of mikill. Veiðarfæri: 6 stk. á Black Ghost, 3 stk. á Dentist, 4 stk. á svartan og gylltan spinner og 1 stk. á maðk.  Frúin stimplaði sig heldur betur inn í fluguveiðinni og tók 6 stk. á Black Ghost eins og ekkert væri á meðan ég þráaðist við með Dentist og einhverjar aðrar sem ekkert gáfu.

Á meðan við drápum eins og við gátum, var yngri sonurinn á fullu að bjarga urriðaseyðum úr þornandi pollum og koma þeim í öruggt skjól í lækjarsprænunni.  Kannski átti strákurinn bara metið í ferðinni, því hann bjargaði á milli 20 – 30 stk.  Vonandi fer vatnsbúskapurinn á svæðinu eitthvað að rétta úr sér, það var í það minnsta rigning þegar við fórum heim.

Hlíðarvatn, Hnappadal 14.-15.júlí

Brjáluð veiði báða dagana.  Vorum tvö saman (eins og venjulega) og tókum 51 stk. sem voru á bilinu 1/2 – 1 1/2 pund.  Fengum leyfi hjá Guðmundi á Heggstöðum og vorum mest í víkinni vestan Sandfells.  Næstum allir komu á land með spún, helst svartur Toby eða svartur og gylltur spinner.  Heyrðum skýringar á skiptingu tegunda í vatninu frá staðkunnugum; urriðinn heldur sig lang mest vestan Sandfells að Álftatanga, en (stór) bleikjan heldur sig mest í dýpinu við Álftatanga og vestur í hraunið fyrir landi Hraunholts.  Eitthvað minnsta vatn í vatninu sem við höfum séð, vantaði minnst 2,5 m upp á vatnshæðina.

Á leiðinni heim fórum við norður Heydal og í Haukadalsvatnið.  Eftir smá skoðunartúr meðfram vatninu fundum við okkur stað fyrir fellihýsið og tjölduðum í þeirri von að strekkingsvind sem var á staðnum myndi lægja með kvöldinu.  En það varð ekki.  Þvert á móti, þannig að við pökkuðum saman og fórum heim með smá krókum.