Sumarið er alveg að detta inn, maður velur sér bara staðsetningu, stillir sig inn á veðrið og lætur slag standa. Með þetta að leiðarljósi héldum við veiðifélagarnir út úr bænum fyrir hádegið á föstudaginn, tókum stefnuna vestur í Hnappadal.
Það hafa fáar fréttir borist úr Hlíðarvatninu það sem af er sumars og því fátt annað að gera en skoða aðstæður upp á eigin spýtur, nesta sig upp og ganga úr skugga um að nægt gas væri á kútunum ef hitastigið þyrfti einhverja hjálp til að halda þolanlegum hita yfir nóttina. Veðurspáin var jú, svona og svona, í og úr, þessi eða hin áttin og hitastigið eftir því. Jákvæðasta spáin var eitthvað í áttina við skýjað, skúrir og sólarglæta á köflum.
Til að klára þetta strax með veðrið, þá var það alls ekki eins svalt og spár gáfu tilefni til að ætla. Fyrripartur föstudags til sunnudags einna fallegastir, oft stillur og almennt fallegt veður. Skúri urðum við ekki vör við fyrr en á sunnudag, sem skipti okkur engu máli því við vorum búinn að pakka og ganga frá þegar þessir fimm dropar duttu niður úr skýjunum.
Og þá að sívinsælli spurningu veiðimanna; Var vatn í vatninu? Stutta svarið er einfaldlega já og það var í meðallagi góð vatnsstaða eins og sjá má á víðmyndinni hér að neðan sem tekin er af vesturenda Fellsbrekku.

Undanfarin ár hafa verið upp og ofan, aðallega ofan í vatnsborði Hlíðarvatns og miklir þurrkar hafa sett verulegt strik í reikninginn, en það var ánægjulegt að sjá það núna að upp úr miðjun júní er staðan bara tiltölulega góð.
Það er að verða einhver frasi hér að lýsa fasi okkar á veiðistað sem tiltölulega slöku, vorum ekkert að flýta okkur en vorum þó komin út í vatnið rétt upp úr hádegi. Það var annað hvort að hafa sig af stað og ná í endann á fyrriparti dagsins eða þá veðja á kvöldið. Auðvitað stóðumst við ekki blíðuna og töltum út að Rifinu norðanverðu og það var eins og við manninn mælt, það var búið að opna hlaðborð Hlíðarvatns og bleikjurnar fóru hamförum í yfirborðinu.
Þó það væri ekki algjör stilla, þá nægðu sólargeislarnir til þess að vekja klakið og við settum því þurrflugur og klekjur (emergers) undir og uppskárum eftir því. Áður en bleikjurnar fengu sér eftirmiðdagslúr, lágu nokkrar vænar í netum okkar og einhverjar til viðbótar fengu leyfi til að snúa aftur til systra sinna og gátu þá sagt sögur af grunsamlega girnilegum en stingandi mýflugum sem þær höfðu komist í kynni við.
Það varð lítið úr veiði eftir kvöldmat þar sem snögglega kólnaði og tók fyrir allar uppitökur og eitthvað tók hann að blása meira í þokkabót.
Enn og aftur var asinn á okkur hjónum í lágmarki á laugardaginn, stungið úr heilum kaffibrúsa í morgunsárið og fyllt á maga áður en við hreyfðum okkur nokkuð umfram nauðsynlegustu ferðir inn í vagn til að bæta á veitingar. Þegar við loksins drógumst í vöðlurnar var enn og aftur brostið á með klaki og enn fengu þurrflugurnar að njóta sín. Við sáum svo sem litla ástæðu til að breyta mikið út frá vananum og héldum okkur við fyrstu og aðra rennu út frá Rifinu. Þeir sem þekkja til við Hlíðarvatn vita að þar á ég við staðina þar sem vatnar yfir og á milli skerja út frá Rifinu. Þarna þjappast oft ætið saman og er nærri ávísun á fisk, sem raunin varð einmitt á.
Eins og venjulega, í það minnsta í okkar tilfelli, þá gerðist það upp úr miðjum degi að fiskurinn dró sig í til hlés og það var eins og skrúfað væri fyrir alla veiði. Við töltum því aftur í vagninn, sumir fengu sér lúr á meðan aðrir stússuðust í veiðigræjum og veltu því fyrir sér hvað yrði ofaná í kvöldmat.
Þar sem nær allur afli okkar hafði verið bleikja hingað til, þá stóð minn hugur til þess að vaða út í skerin undir Fellsbrekku um kvöldið og tæla nokkra urriða upp úr dýpinu með vel völdum nobblerum. Ég tölti því af stað og hugsaði mér gott til glóðarinnar, minnugur fyrri ferða út á skerin þaðan sem stutt er í fengsæl urriðamið. Svo bregðast krosstré sem aðrir raftar og þrátt fyrir töluverðar tilraunir með litróf nobblera á hægsökkvandi línu, þá kom ekki eitt einasta bein upp úr vatninu. Þetta voru tíðindi til næsta bæjar, hefði ég bara nennt að ganga þangað, og ég var lengi að velta þessu fyrir mér.
Ég komst að þeirri niðurstöðu, hvort sem hún er nú rétt eða röng, að sveiflur undangenginna ára í vatnshæðinni hafa mögulega komið verr niður á urriðastofni vatnsins heldur bleikjunnar. Þeir urriðar sem við tókum voru smávaxnir og fáir, ekki meira en tveggja ára fiskur utan eins sem trúlega var orðinn fimm ára en hefði mátt vera bústnari. Ekki skorti ætið, nóg af hornsíli úti á skerjunum en það var einfaldlega ekki nokkurt líf með djúpinu.
Þetta kemur í raun ekkert niður á vatninu, bleikja var einstaklega vel haldin og hefur sjaldan verið jafn spræk og kröftug á flugu. Ekki ein einasta bleikja sem náð hafði matstærð vantaði gramm upp á að vera yfir meðallagi í holdum.
Sunnudagurinn byrjaði á svipuðum nótum og laugardagurinn, blíðviðri og bleikjur í uppitökum. Við bættum aðeins í netin okkar og skiptum yfir í þyngri flugur þegar hann hallaði sér óþyrmilega í norðvestan átt með tilheyrandi kulda.
Eins og áður segir náðum við að pakka saman áður en örfáir dropar féllu á okkur og það sem meira er við náðum í heimahagana áður en óvæntar tafir urðu á umferð um göngin. Hreint út sagt, frábær helgi sem minnst verður sem þurrfluguhelgarinnar miklu. Er samt enn að velta fyrir mér fjarveru urriðanna.
Senda ábendingu