Er virkilega svona erfitt að losna við vindhnúta eða eru þeir óhjákvæmilegur fylgifiskur fluguveiðinnar? Eitt sinn sagði góður maður við mig; Þeir sem fá ekki vindhnút stöku sinnum, eru ekki að veiða. Svo mörg voru þau orð og viðkomandi dró annað augað í pung þegar við heyrðum einn halda því fram að hann fengi aldrei vindhnút á taum.
Ég hef margoft tilgreint ástæðu þess að vindhnútar verða til og óþarfi að fara mörgum orðum um það enn og aftur; taumurinn (eða fluglínan sjálf) fellur niður fyrir neðri bug línunnar í kastinu. Hingað til hef ég heyrt á bilinu 4 – 6 ástæður þessa, en svo lærir lengi sem lifir því nú hefur heldur betur bætt í. Nýlega rak ég augun í að Ed Jaworowski gróf upp eina 15 ástæður þess að taumurinn getur tekið upp á þessum skolla. Í sannleika sagt, þá fannst mér nú 4 – 6 ástæður alveg nóg til að moða úr, hvað þá 15, þannig að mér var huggun harmi gegn að Ed dró aðeins úr og nefndi einmitt 4 atriði sem líklegust eru til þess að valda þessu;
ótímabær hraðaaukning í kastinu
olboginn losnar upp í kastinu
ferill stangartopps verður íhvolfur í kastinu
ótímabær stefnubreyting línunnar (of seint, of snemma)
Mér varð töluvert rórra þegar ég sá þessar fjórar algengustu ástæður, fimmtán voru einfaldlega of margar. Nú er bara að muna eftir þessum fjórum og þá tekst mér e.t.v. að útiloka helming þeirra hnúta sem ég raða reglulega á tauminn minn.
Það hefur eitthvað borið á vangaveltum hér um léttleika flugna og ég er ekki alveg hættur enn. Í flestum færslum um léttari flugur hef ég verið að velta mér upp úr straumflugum, en hvað með púpurnar? Er ekki einmitt kostur við púpur að hafa þær þungar? Koma þeim niður sem fyrst, þyngja þær með tungsten kúlum í yfirstærð þannig að þær sökkva eins og steinn?
Í mínum huga er svarið hreint og klárt þegar veitt er í straumi. Ég hef alveg reynt það sjálfur að tökum fjölgar þegar flugan kemst hratt og örugglega niður að fiski, einfaldlega vegna þess að allt þarf að gerast hraðar þegar veitt er í straumi heldur en vatnaveiði. Alhæfing? Já, alveg örugglega að einhverju marki, en til einföldunar óska ég eftir því að við höldum okkur við þessa alhæfingu og getum þannig haldið áfram og komist að því ætlaði upphaflega að koma á framfæri.
Veiði í tiltölulega kyrrstæðu vatni er einfaldlega allt önnur en veiði í straumvatni. Ég hef alltaf (reynt að) nálgast vatnaveiði í rólegheitum, hún er mín leið til að vinda ofan af mér og njóta þess að vera í veiði. Hér má ég til með að skjóta því inn sem skotið var á mig eitt sinn; Vatnaveiði er bara fyrir letingja, bæði þá sem eru fastir á bakkanum og þá sem halda á stöng. Mér fannst þetta fyndið, þetta var þannig sagt að ég gat ómögulega tekið þetta nærri mér. Það sem einn kallar leti, það finnst öðrum að njóta og þegar maður nýtur einhvers, þá liggur ekkert endilega mikið og nú er ég alveg að nálgast efnið.
Ef það liggur ekkert á að koma flugunni niður, þá finnst mér allt mæla með því að nota létta púpu. Rétt eins og léttari straumflugur, þá hreyfa léttari púpur sig eðlilegar í vatni heldur en þungar og það hlýtur að teljast ótvíræður kostur. Það er víst svo að hlutfallslega fá skordýr sem slugast þetta á botninum, eru silaleg og þung á sér, miðað við þau skordýr sem svamla um í rólegheitunum (letingjar?) eða kippast líflega til í vatninu. Þá má reyndar alveg benda á kosti þess að beita votflugu í stað púpu þegar ætið svamlar um, en það er önnur saga.
Nú ætla ég ekki vera með einhverja aldursfordóma, en það eru helst yngri veiðimenn sem hafa ekki hugmynd um hvernig léttar púpur líta út. Það er stór hópur veiðimanna sem þekkir aðeins púpur með kúluhaus, jafnvel tungsten kúlu og ýmsum brögðum beitt til að bregða þyngingu undir búkinn. Svo vita náttúrulega allir að mjóar púpur sökkva betur en þær bústnu.
Til að eignast léttari púpu er einfaldast að sleppa einhverju og bæta jafnvel einhverju öðru við þannig að kvikindið þurfi að hafa eitthvað fyrir því að sökkva. Það má t.d. sleppa kúlunni eða nota léttari kúlu, þetta segir sig eiginlega sjálft. Svo má sleppa því að vírvefja búkinn á nokkrum vel þekktum púpum eins og t.d. Pheasant Tail og nota bara þráð í staðinn. Púpan léttist trúlega um einhver 30 – 40% við að sleppa koparnum og mig grunar fastlega að hún verði enn líflegri í vatni fyrir bragðið.
Svo má ekki gleyma því að mjög margar púpur sem við þyngjum í drep í dag voru ekkert svona þungar þegar höfundar þeirra settu þær fyrst saman. Prófaðu að nota léttari púpur og ég er sannfærðum um að ef þú kemst upp á lagið með að veiða þær líflega, þá hættir þú að hugsa um letingja kommentið hér að framan. Það er virkilega líflegt að veiða léttar púpur.
Gömul vísa, tugga, endurtekning, frasi, klisja, orðaleppur; Gott kast samanstendur af samfellu í kasti frá öftustu stöðu og fram í fremra stopp þar sem hröðun er jöfn og án kraftastæla. Svona hljómar pistill dagsins og ætti ekki að þarfnast nánari útskýringa við, og þó. Það gætu verið einhverjir fleiri þarna úti á veraldarvefnum sem eru eins og ég (ólíklegt, en mögulegt þó) sem þurfa að hafa þetta sífellt í huga.
Það er nefnilega ekki til neitt hleðslukast, færslukast eða kraftakast. Flugukast á sér upphaf og endi og er kastferill þar á milli, einn ferill. Að skipta um taktík í miðju kasti er einfaldlega ávísun á mislukkað kast, hvort sem það er skyndilegur kippur, snögg aukning afls eða skyndiákvörðun um fullkomna kyrrstöðu stangar.
Það er síðan ekki fyrr en að endurteknum kastferil lokið þegar veiðimaður ákveður að leggja fluguna fram, að það kemur einhver eftirfylgni til skjalanna; að lækka topp stangarinnar niður að vatnsborðinu. Fyrr á stöngin ekki að leka niður úr fremra stoppi og meira að segja það á sér tímasetningu, rétt eins og annað í fluguveiðinni.
Flestir geta hrósað því happi að hafa notið leiðsagnar vinar eða reynds veiðimanns þegar þeir tóku sitt fyrsta flugukast á æfinni. Þetta er vitaskuld ekki einhlítt, en fyrr eða síðar hefur væntanlega einhver bent á eitthvað hjá ykkur sem betur mætti fara.
Eitt það fyrsta sem ég fékk að heyra var að bíða, bíða eftir því að línan væri búin að rétta fyllilega úr sér í falskastinu áður en ég hefði atlöguna í næsta falskast. Þetta er frábær punktur, en því miður ekki alveg réttur, því ef maður bíður alveg þangað til línan hefur rétt úr sér, þá er maður orðinn of seinn og missir af hleðslu stangarinnar í næsta kast.
Merkilegt nokk, þá tók ég mark á þessari athugasemd í frumbernsku minni í fluguveiði og afraksturinn varð heldur máttlaus falsköst í báðar áttir, ég var meira að veifa línunni fram og til baka heldur en lengja í henni. Um leið og ég fékk örlítið betri leiðsögn eða betur útfærða ábendingu, þá fóru falsköstin af verða öflugri og í beinu framhaldi færri. Sem sagt; ekki bíða eftir því að lína hafi rétt alveg úr sér. Taktu mark á kraftinum sem stöngin leiðir niður í handfangið, þegar kraftinn hann þverr, þá er rétt að hefja undirbúning að næsta kasti með hægri en aukinni færslu stangarinnar í gagnstæða átt við feril línunnar. Það er vissulega smá kúnst að finna rétta augnablikið til að hefja nýtt kast, en þegar þú hefur fundið það, þá er það fljótt að festast í vöðvaminninu hjá þér.
Enn og aftur dettur mér Harry Potter í hug, síðast var það þegar ég var spurðum um val á flugustöng, en núna kviknaði þessi tenging hjá mér þegar mér varð fótaskortur á internetinu og lenti á myndbandi þar sem hönnuður hjá þekktu fyrirtæki kynnti byltingarkennda nýja flugustöng. Svona meðal annarra orða, þá er eins og stangarframleiðendur séu sífellt óánægðir með veiðisamfélagið, það er alltaf eitthvað byltingarkennt (e: revolutionary) á leiðinni frá þeim.
Þessi umrædda byltingarkennda stöng átti að vera með innbyggða skriðvörn, svona eins og flestir bílar í dag, sem átti að koma í veg fyrir að toppur stangarinnar leitaði til annarar hvorrar hliðar í kastinu með þeim afleiðingum að línunni skrikar fótur og sveigir frá beinni línu. Þessi hegðun er vel þekkt þegar hleðsla neðri hluta stangarinnar lendir í toppstykkinu með þeim afleiðingum að toppurinn fer að víbra í láréttu plani, sveigir til hliðanna.
Örvæntið ekki, þið þurfið ekkert að hlaupa og kaupa ykkur nýja stöng með skriðvörn, þ.e.a.s. ef þið eigið hana ekki nú þegar, því það er til gamalt og gott ráð við þessu. Með smá æfingu er hægt að vinna gegn þessari hegðun. Þegar þú leggur af stað í kast og verður var við að stönginn er mögulega ofhlaðin, þá getur þú, rétt áður en þú stoppar í framkastinu, snúið lítillega en snöggt upp á stöngina um örfáar gráður, þetta tekur hliðarvíbringinn úr toppstykkinu. Það sem þú þarft að læra er að finna hve margar gráður þú átt að snúa upp á stöngina til að vinna á móti ofhleðslunni, það er afar misjafnt eftir stífleika og gerð stanga hve margar gráðurnar eru.
Til að setja þetta í samhengi við annað sem ég hef nefnt hér á síðunni, þá er þetta snaggaraleg útfærsla á s.k. sveigkasti (e: curve cast) sem nota má til að koma flugunni á bak við hindrun, svo sem stein eða girðingarstaur úti í vatni sem eru ótrúlega margir á Íslandi.
Í mörg ár hef ég verið að hamast við að byggja upp tilfinningar gagnvart flugustöngunum mínum. Ég þarf ekkert að eiga stöng lengi til að fá á tilfinninguna hvort mér líki hún eða ekki, þannig að það er ekki það sem ég er að byggja upp. Nei, en ég þarf stundum langan tíma til að fá það á tilfinninguna hvernig stöngin er að hlaða sig og hvenær hún hefur náð æskilegri eða of mikilli hleðslu.
Að finna er afar algengt orð í allri umræðu um flugukast og sumum finnst beinlínis óþægilegt að finna hvort stöng hefur hlaðið sig í kastinu á meðan aðrir stóla á að stöngin svari spurningu handarinnar um hleðslu í gegnum gripið. Síðastliðinn vetur lenti ég á netspjalli (hópspjall) þar sem flugukastkennari sat fyrir svörum og hann var harður á því að bestu flugukastararnir finni ekkert í kasthendinni hvernig stönginni líður með hleðsluna, góð hleðsla og hröðun stangarinnar er svo fullkomin að stöng og hendi renni saman í eitt og skiptist ekkert á tilfinningum.
Í mín eyru hljómaði þetta eins og útópía, eitthvað afar fjarlægt sem ég ætti trúlega aldrei eftir að ná eða upplifa, en svo voraði, bæði á dagatalinu og í sálinni og ég fór í veiði. Þá gerðist það að nýleg stöng sem ég hef tekið ákveðnu ástfóstri við, hætti einfaldlega að láta mig vita hvenær henni líkaði hleðslan, það eina sem hún tjáði mér var hvenær línan væri nærri búin að rétta úr sér, hvenær ég ætti að stoppa og ef ég gerði eitthvað svo vitlaust að hún gat ekki orða bundist. Kannski hafa fleiri stangir hagað sér svona, ég bara ekki tekið eftir því. Það hefur hvarflað að mér að eftir þetta netspjall hafi ég verið meira meðvitaður um gott samband mitt við flugustöngina, ef allt er í lagi, þá fær maður ekki skilaboð. Auðvitað ætti þetta að vera svona, maður á bara að fá villuboðin, ekki sífelldar tilkynningar um að allt sé í lagi.