FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Silungur í híði

    4. apríl 2023
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Fyrirsögn þessarar greinar gæti verið heitið á uppskrift að gómsætum fiskrétti. Hugsið ykkur bara; ferskur silungur, innbakaður í einhverjum gourmet jurtum á grillinu eða í fiskiklemmu yfir varðeldi. En, nei. Þetta er ekki uppskrift, þetta er grein þar sem mig langar að leitast við að leiðrétta algengan misskilning eða samslátt á tegunda sem borin hefur verið undir mig í nokkur skipti.

    Byrjum bara á grundvallar útskýringu; birnir eru spendýr sem lifa á landi. Nær allar tegundir bjarna leggjast annað hvort í híði eða dvala yfir köldustu mánuði ársins. Það er töluverður munur á að leggjast í dvala eða leggjast í híði, sem ég ætla ekki að fara nánar út í hér.

    Silungur er fiskur sem lifir í vatni og leggst hvorki í híði né í dvala. Jafnvel yfir köldustu mánuði ársins þegar hitastig vatns fer alveg niður að frostmarki, þá eru þeir með fullri meðvitund, ef það má þá segja það um fiska. Þeir hægja verulega á allri líkamsstarfsemi, en þeir hætta ekki að borða og þeir hreyfa sig meðvitað eftir æti, leita þess og neyta.

    Fiskar eru með kalt blóð og þegar líkamshiti þeirra fellur til samræmis við vatnshita, þá hægist sjálfkrafa á framleiðslu meltingarensíma og þar með meltingu þannig að þeim er í raun nauðugur sá kostur að spara orku. Raunar benda rannsóknir til þess að melting urriða stöðvast við hitastig 2.9 til 3.6°C og bleikju 0.0 til 3.3°C. Sömu rannsóknir leiddu í ljós að bæði urriði og bleikja lifa af þótt vatnshiti fari alveg niður að frostmarki og báðar tegundir geta þrauka töluverðan tíma án virkrar meltingar. Að vísi mjókka fiskarnir verulega undir þessum kringumstæðum, þeir eru jú ekki í dvala eða híði og ganga því á orkuforða sinn á meðan melting liggur niðri eða er í lágmarki.

    Rannsóknar heimild: Journal of Fish Biology (2010), J.M. Elliott and J.A. Elliott

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fluguveiði undir ís

    1. apríl 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Er fluguveiði undir ís eitthvað sem við verðum að gefa gaum ef vorið verður jafn kalt og sumir vilja meina? Veðurfræðingar eru raunar ekki allir sammála um að það verði svona rosalegt, en veðurspekingar virðast flestir vera á einu máli, það stefni í kalt vor framan af í það minnsta.

    Eins einkennilega og það hljómar þá er fluguveiði undir ís alveg möguleg, en þá er ég að vísu ekki að tala um að bora holu og sleppa þyngdum flugum niður í djúpið. Raunar er ég ekki heldur að tala um fluguveiði alveg undir ísnum, en nærri því þó. Við vitum að geymsluþol matar eykst við frystingu og þegar ísa leysir þá losnar úr ísnum ýmislegt sem fiski þykir gott.

    Að kasta flugu upp á skörina og draga hana fram af henni hefur reynst mörgum manninum fengsælt og maður hefur heyrt margar sögur af soltnum fiski sem tekur flugu alveg við ísinn.

    Annar fengsæll veiðistaður, nátengdur, er þar sem snjór gengur fram í vatn og bráðnar hægt og rólega. Mér er minnisstæður skafl við Herbjarnarfellsvatn að Fjallabaki sem urriðar lónuðu fyrir framan á örgrunnu vatni langt fram á sumarið og pikkuðu upp það sem snjóbráðin bar með sér út í vatnið. Svo eru þeir nokkrir skaflarnir sem maður man eftir við nokkur vötn í Veiðivötnum sem hafa nánast verið ávísun á fisk í gegnum árin.

    Hvort sem vorið verður kalt, blautt, vindasamt eða dásamlega hlýtt og sólríkt, þá má alveg hafa þessa skafla í huga, langt fram á sumarið. Eitt smáræði að lokum, þó það sé 1. apríl í dag, þá er þessi grein ekki eitthvað gabb.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þegar urriðanum leiðist

    30. mars 2023
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Árið 2009 tók Norska ríkissjónvarpið sig til og sendi beint út frá 7 klst. langa lestarferð frá Bergen til Óslóar. Þetta þótti afar sniðugt og fékk mikið áhorf þannig að NRK tók upp þráðinn 2010 og sendi út nokkrar aðrar lestarferðir. Sannast sagna var ekkert mikið um að vera í þessum útsendingum, fallegt landslag, annað slagið datt inn einhver áfangastaður, en þar fyrir utan var þetta afskaplega rólegt enda fékk þetta heitið Slow TV. Þegar áhorfið fór að dala, þá bættu þeir inn einu og einu viðtali, jafnvel skemmtiatriðum þannig að þeir misstu ekki allt áhorfið. Sniðugt og þetta virkaði.

    Mér datt þetta í hug þegar ég var að fylgja flugunni minni eftir í rólegheitunum með stangartoppinum og passa að hún færi ekki of hratt eða of hægt. Ég var eiginlega svolítið eins og tökumaðurinn hjá NRK, þetta var allt fyrir fram ákveðið, ég þurfti bara að passa að flugan dytti ekki úr fókus. Það sem angraði mig samt var eigin upplifun af SlowTV, mér leiddist þetta alveg óskaplega. Gæti urriðanum leiðst þessi hægagangur, ekkertaðgerast.is?

    Stutta svarið er einfaldlega já, honum getur leiðst þetta eða öllu heldur hann leiðir oft hjá sér fæðu sem sker sig ekkert úr öðru sem flýtur hjá ef hann er ekki svangur. Í þeim tilfellum sem fiskurinn sýnir agninu engan áhuga, þá þarf eitthvað meira að koma til þannig að hann taki. Eitt er að skipta um flugu, setja einhverja undir sem fylgir alls ekki því sem er á borðinu í það og það skiptið. En svo er líka til það sem er oft einfaldast, veldu þér tímapunkt á dauða rekinu og hættu að passa upp á það. Kipptu í fluguna, ventu línunni (e: mend) þannig til að hún stöðvast eitt augnablik en kippist síðan til þegar straumurinn hefur gripið línuna, gerðu bara eitthvað eða ekki neitt.

    Hversu oft hefur þú gleymt þér eitt augnablik, hætt að vanda þig og flugan tekur á skrið, skautar í allt aðra átt heldur en hún er búin að vera stefna í? Og hvað gerist, jú fiskurinn tekur eftir þessari óeðlilegu hegðun og rándýrið í honum vaknar. Eitt það einfaldasta sem hægt er að gera er að gera ekki neitt, svona rétt undir lokin á því að rennsli flugunnar er að ljúka, leyfðu straumnum að taka fluguna, skauta með hana út í strauminn eða upp að bakkanum. Hugsaðu eins og NRK, áhorfendur missa áhugan ef ekkert er að gerast, rjúfðu dagskránna og smelltu inn eins og einu skemmtiatriði annars slagið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Létt og leikandi

    28. mars 2023
    Ætið

    Upp

    Forsíða

    Meira um léttar flugur! Já, ég er svolítið með þetta á heilanum þessi misserin og ekki skánar ástandið þegar kunningi æsir mann upp í að skrifa um léttar flugur í straumvatni. Það sem hann hafði í huga voru ekki léttar straumflugur, hvað þá votflugur því hann hefur enga trú á svoleiðis furðuskepnum eins og hann kallar þær. Nei, hann var með léttari púpur í huga vegna þess að nýlega lét ég þess getið að ég skildi vel að veiðimenn vildu þyngri púpur í straumvatni. Þessi kunningi minn veiði ekkert, hvorki á flugu né nokkuð annað. Að vísu er ég ekki að segja alveg satt, hann veiðir oft og iðulega, en þá aðeins með einhver grisjuháf í hönd til að fanga skordýr, þess vegna kalla ég hann ekki veiðimann (hér skortir glettni í ritað mál, því ég meina þetta hreint ekki).

    Hann spurði mig sem sagt út í þetta dauðarek (e: dead drift) hvað það væri eiginlega sem veiðimenn sæktust eftir með þessu. Ég reyndi, af nánast fullkominni vanþekkingu, að skýra það út fyrir þessum kunningja mínum að markmiðið væri að láta ekki straum í vatni ná tökum á línunni, taumnum eða flugunni þannig að agnið ræki ekki óeðlilega hratt. Trúið mér, oft hef ég séð stór augu þegar ég læt eitthvað út úr mér, en þau augu sem mættu mér þegar ég lét þetta út úr mér voru með þeim stærri sem ég hef séð. Hvers vegna? spurði hann og ég reyndi að umorða skýringar mínar en var stoppaður í miðri setningu. Ég skil alveg, en hvers vegna? Nú var komið að mér að reka upp stór augu og ég spurði hvað hann eiginlega meinti, þetta væri auðvitað gert til að fiskurinn gæti ekki spottað að flugan væri ekki náttúrulega fæða og léti glepjast af henni.

    -Aha, og hvað segir þér að náttúruleg fæða ferðist ekki undan straumi, jafnvel með meiri hraða en straumurinn? sagði hann og glotti. Ég þóttist alveg kannast við að á einhverjum tímapunkti losar skordýr tökin á botninum og leitar upp á yfirborðið, en gat það verið að það ferðist hraðar en straumurinn? Það stóð ekki á svarinu; Pottþétt, því þegar paddan leitar upp, þá annað hvort tekur hún frumstæð sundtök eða notar gasbólu undir skel eða aftan við haus til að létta sig. Allt sem er á hreyfingu í straum, með lægri eðlismassa en vatnið og meiri þéttni, það ferðast hraðar en straumurinn. Hann bætti að vísu við sá tími sem skordýrið losar tökin og svamlar um í vatninu, getur í besta falli talist augnablik í lífi þess, en ef veiðimenn vilja endilega líkja eftir hreyfanleika pöddunnar, þá ættu þeir líka að vera viðbúnir því að litla, hreyfingarlausa paddan á botninum taki á sprett í vatninu. Ef hún nær ekki upp að yfirborðinu í fyrstu atrennu, þá helmingast strax líkurnar á að henni takist það í annarri tilraun og hvert fer hún þá? Jú, með straumnum, kannski ekki nema hálf í kafi en að öllum líkindum undir yfirborðinu; Léttari púpur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Rassskellur

    23. mars 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Enn held ég áfram að kíkja yfir vandamála punkta síðustu ára, það virðist vera af nógu að taka, eða þá ég hafi gleymt að merkja við að ég hafi þegar skrifað eitthvað upp úr þessu pári mínu. Ef einhvern rámar í eldri grein um rassskelli, þá er eins líklegt að ég hafi gleymt að merkja við DONE um þetta vandamál. Ég get þá alltaf skýlt mér á bak við það að góð vísa er aldrei of oft kveðin.

    Rassskellur í flugukasti er trúlega eitthvað sem allir fluguveiðimenn hafa upplifað, einu sinni eða miklu oftar. Það sem ég á við hérna er þessi leiðinlega höggbylgja sem kemur stundum í flugulínuna, gjarnan í bakkastinu, þegar lagt er af stað í framkastið.

    Mynd tengist efninu hreint ekki neitt

    Ég hef nýlega minnst á það að hefja framkastið aðeins áður en línan hefur rétt alveg úr sér og það er einmitt lækningin við þessum rassskellum sem línan getur tekið upp á ef framkastið er hafið of snemma, línubugurinn of víður eða afar illa formaður, t.d. ef stangartoppurinn hefur verið að teikna einhverjar krúsídúllur í loftinu frá fremstu stöðu og aftur í þá öftustu. Ekki gleyma því að línan ferðast í sama plani og eftir sömu slóð og stangartoppurinn fetar á leið sinni í kastinu og ef sú slóð er ráfandi út og suður, þá fer línan hana líka og línubugurinn misheppnast. Reynið að halda beinni línu eða jöfnum ávölum feril (belgíska kastið) og byrjið framkastið örlítið áður en línan hefur rétt úr sér.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Enn og aftur, vindhnútur

    21. mars 2023
    Kast

    Upp

    Forsíða

    Er virkilega svona erfitt að losna við vindhnúta eða eru þeir óhjákvæmilegur fylgifiskur fluguveiðinnar? Eitt sinn sagði góður maður við mig; Þeir sem fá ekki vindhnút stöku sinnum, eru ekki að veiða. Svo mörg voru þau orð og viðkomandi dró annað augað í pung þegar við heyrðum einn halda því fram að hann fengi aldrei vindhnút á taum.

    Ég hef margoft tilgreint ástæðu þess að vindhnútar verða til og óþarfi að fara mörgum orðum um það enn og aftur; taumurinn (eða fluglínan sjálf) fellur niður fyrir neðri bug línunnar í kastinu. Hingað til hef ég heyrt á bilinu 4 – 6 ástæður þessa, en svo lærir lengi sem lifir því nú hefur heldur betur bætt í. Nýlega rak ég augun í að Ed Jaworowski gróf upp eina 15 ástæður þess að taumurinn getur tekið upp á þessum skolla. Í sannleika sagt, þá fannst mér nú 4 – 6 ástæður alveg nóg til að moða úr, hvað þá 15, þannig að mér var huggun harmi gegn að Ed dró aðeins úr og nefndi einmitt 4 atriði sem líklegust eru til þess að valda þessu;

    • ótímabær hraðaaukning í kastinu
    • olboginn losnar upp í kastinu
    • ferill stangartopps verður íhvolfur í kastinu
    • ótímabær stefnubreyting línunnar (of seint, of snemma)

    Mér varð töluvert rórra þegar ég sá þessar fjórar algengustu ástæður, fimmtán voru einfaldlega of margar. Nú er bara að muna eftir þessum fjórum og þá tekst mér e.t.v. að útiloka helming þeirra hnúta sem ég raða reglulega á tauminn minn.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 5 6 7 8 9 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar