FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Vatnsendavatn og Vatnsvatn

    9. nóvember 2012
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Þessi vötn hafa um langt skeið verið vagga silungsveiðimanna á höfuðborgarsvæðinu og flestir hafa reynt sig í það minnsta einu sinni á ævinni í þessum vötnum. Fjarlægð þeirra frá Reykjavík og Kópavogi gerir þau að einhverju fjölsóttasta veiðisvæði Íslands, þó eitthvað hafi dregið úr veiði þar hin síðari ár. Hástemmdar lýsingar eins og Háskóli fluguveiðimanna eru eitthvað sem við höfum allir heyrt og fiskurinn sagður með eindæmum kræsinn á flugur og framsetningu þeirra. Já, þessi vötn heita í dag Elliðavatn og er 2 ferkílómetrar að stærð en fyrir miðlunarstíflu Elliðaárvirkjunar (1926) voru þau tvö og aðeins 60% af núverandi flatarmáli Elliðavatns.

    Kort frá 1880 með viðbót höfundar

    Með því að bera saman kort af svæðinu frá árinu 1880 og stærð vatnsins í dag (rauðar línur) má glögglega sjá hve vatnið hefur stækkað gríðarlega með tilkomu Elliðavatnsstíflunnar árið 1926. Engjarnar sem fóru undir vatn hafa væntanlega auðgað lífríkið í vatninu svo mikið að viðkoma fiskjar hefur margfaldast á skömmum tíma. Því miður er auðgun sem þessi ekki til frambúðar. Að vísu hnignar henni mis hratt eftir vötnum en ýmislegt bendir til að áhrifanna í Elliðavatni sé nú hætt að gæta, raunar fyrir löngu og lífríki vatnsins sé því orðið eins og formæðra þess, Vatnsendavatns og Vatnsvatns fyrir 1926. Í eðli sínu voru þessi vötn lindarvötn með frekar takmarkaðri lífflóru og töluvert hröðum endurnýjunartíma. Mér skilst að einkenni slíkra vatna sé að stofnstærðir fiska séu litlar sem gæti verið skýring á lokaorðum Jóns Kristjánssonar fiskifræðings í skýrslu sinni Stofnstærðarmæling silungs í Elliðavatni 2001; ‘Nokkuð kemur á óvart hve bleikjustofninn er lítill m.v. stærð vatnsins, um 2 tonn eða 10 kg /ha. Tilsamanburðar mældust 48 kg/ha af bleikju í Vífilsstaðavatni með sams konar aðferð 1985.‘

    En það var fleira sem gerðist við stíflun vatnsins. Fuglalífið nánast hrundi, vaðfuglar hurfu og öðrum tegundum fækkaði snarlega. Nokkuð sem hefur ekki reynst afturkræft.

    Elliðavatn og nágrenni í dag

    Fram að stíflun vatnsins rann Bugða óhindrað framhjá og sameinaðist Dimmu sem var náttúrulegt affall Vatnsendavatns. Frá ármótum hétu árnar Elliðaár, í fleirtölu því þær runnu aðskildar að meira eða minna leiti til sjávar í Kollafirði. Það má leiða líkum að því að Bugða/Hólmsá hafi verið sjógeng urriða sem væntanlega hefur lagt leið sína að vori út í hin gjöfula Kollafjörð og snúið aftur feitur og pattaralegur að hausti, upp Elliðaárnar, Bugðu og Hólmsá til hrygningar. Væri þetta raunin í dag væri stutt í sjóbirtinginn fyrir höfuðborgarbúa og við þyrftum lítið að hafa áhyggjur af græðgi hans í bleikju Elliðavatns.

    En það er önnur á sem rennur til Elliðavatns í dag, Suðurá. Það sem við þekkjum sem Helluvatn hefur væntanlega ekki verið neitt annað en ós Suðurár í Vatnsvatn. Ég hef engar heimildir fundið um urriða í Suðurá fyrir tíð miðlunarstíflunnar, en nokkrar sem nefna rígvæna bleikju á þeim slóðum og í systurvötnunum tveimur. Án þess að ég treysti mér til að kveða endanlega upp úr um hvort sú hafi verið raunin þá sýnist mér engu að síður sem nokkur aðskilnaður hafi verið milli urriða og bleikju á þessum slóðum hér áður fyrr. Í það minnsta mun meiri en er í dag.

    Stæðum við í dag frammi fyrir valkostinum að stífla eða ekki stífla þessar perlur í túnfæti höfuðborgarinnar, svona rétt á mörkum byggðar og óbyggðar, yrði valið væntanlega ekki erfitt. Við létum vatnasvæði Heiðmerkur njóta ávinningsins og létum ógert að steypa fyrir affallið. Og hvað stendur svo sem í vegi fyrir því að við hverfum til fortíðar? Eigum við ekki nægt rafmagn sem aflað er með öðru en vatnsafli í dag? Er kannski kominn tími til að feta í fótspor þjóða sem þora að viðurkenna mistök á þessu sviði og fjarlægja nú stíflur fiskvega?

    Vatnsendavatn og Vatnsvatn án stíflu

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Nú er lag í Heiðmörk

    6. nóvember 2012
    Lífríkið

    Upp

    Forsíða

    Persónulega fagna ég því að veiðisvæði Elliðavatns sé komið inn á Veiðikortið, ekki spurning. Þetta svæði er stórt, eitt það stærsta sem silungsveiðimenn komast í á þessu horni landsins; Elliðavatn, Helluvatn og Hólmsá/Bugða sem er 8km í það minnsta og Nátthagavatn. Skv. fréttatilkynningu Veiðikortsins er Suðurá ekki inni á kortinu þannig að ég tel hana ekki með. Kunnugir halda því fram að ásókn í Elliðavatn hafi minkað mikið hin síðari ár og er það miður því sjaldan hefur reynt eins mikið á að veiðimenn jafni út þann mun sem orðið hefur í stofnstærðum bleikju og urriða á svæðinu.

    Skv. skýrslu Jóns Kristjánssonar fiskifræðings frá 2003, Mat á veiðiálagi Elliðavatns 2002 er ‚Álag veiðimanna á stofninn er lítið, sennilega innan við 15% af stofnstærð bleikju og urriða. Áhrif veiðanna á stofninn eru ekki sjáanleg.‘ Í þessari skýrslu og flestum öðrum sem komið hafa fram um Elliðavatn er þess getið að skil veiðiskýrslna séu mjög lélegar og það eitt hamli verulega raunhæfu mati á stofnstærð silungs í vatninu. Ég geri mér vonir um að þetta geti batnað verulega með aðkomu Veiðikortsins að því.

    Gagnrýni í þá átt að ofveiði geti gætt með auknu veiðiálagi er auðveldlega hægt að vísa á bug hvað vötnin varðar. Ef einhvern tímann hefur verið þörf á meiri veiði urriða á svæðinu, þá er það núna þegar hlutfall bleikju minnkar jafnt og þétt. Samkvæmt skýrslu Jóns Kristjánssonar frá árinu 2003; Veiðar og endurheimtur á merktum silungi í Elliðavatni 2003 þá var stofnstærð urriða í Elliðavatni metin ríflega 25.000 fiskar eða um 74%. Stofnstærð bleikju var metin í besta falli um 9000 fiskar eða um 26%. Í skýrslunni kemur fram að afföll bleikju hafi verið nokkuð stöðug um 30% frá árinu 1971 og á sama tíma hafi stærðarsamsetning hennar staðið nokkuð í stað. Án þess að geta um heildarfjölda silunga, nefnir Guðni Guðbergsson fiskifræðingur í blaðaviðtali árið 2011 að bleikjan sé komin niður í 10% stofnstærðar silungs og urriðinn kominn í 90%. Einfaldur framreikningur m.v. 30% afföll á niðurstöður Jóns frá 2002 styður þessar tölur.

    Á þeim árum sem Orkuveitan ástundaði niðurdrátt vatnshæðar í Elliðavatni beinlínis þurrkaði hún riðsvæði bleikjunnar sem liggja á aðeins 10-50 sm. dýpi og skerti þannig samkeppnisstöðu hennar gagnvart urriðanum sem hélt sínum hrygningar- og uppvaxtarstöðvum óskertum í Hólmsá og Suðurá og styrkti seiðabúskap sinn jafnt og þétt á milli ára. Það liggur síðan í eðli urriðans að leita nýrra fanga þegar lífríki ánna nær vart að fæða hann og er Elliðavatnið hans nærtækasti kostur eftir að niðurgöngu til sjávar var lokað á sínum tíma. Þessi ágangur urriðans er auðvitað á kostnað bleikjunnar og stuðlar enn frekar að fækkun hennar í heildarstofnstærð.

    Eitt af því sem hefur komið fræðingum á óvart hin síðari ár er að Elliðavatn er tiltölulega rýrara af gæðum næringar en áður hefur verið talið sbr. Stofnstærðarmæling silungs í Elliðavatni 2001. Ég leyfi mér að efast um að fyrri mælingar/álit manna hafi verið rangar. Þess í stað tel ég að lífríki vatnsins hafi einfaldlega hrakað hin síðari ár. Það er alþekkt að vötn sem verða til eða eru stækkuð út yfir gróið land verða frjósamari töluverðan tíma eftir þessar aðgerðir en hrakar síðan snögglega þegar drekkt gróðurþekjan lætur loks undan og hættir að framleiða t.d. blaðgrænu.

    Öllu þessu til viðbótar hefur nýrnasýking  (PKD) í Elliðavatni herjað meira á bleikjuna heldur en urriðann hin síðari ár skv. skýrslu Þórólfs Árnasonar og Friðþjófs Árnasonar; Elliðaár 2010 Rannsóknir á fiskistofnum vatnakerfisins.

    Stutt samantekt Jóns Kristjánssonar í lok ofangreindrar skýrslu er sláandi ‚Veiðiálag á bleikju er lítið, náttúruleg dánartala er lág, stofninn fremur lítill tölulega séð og viðkoma er lítil. Urriðastofninn er stór, veiðiálag lítið, etv. 10-15 % á ári, heildarafföll virðast mikil , um 60% milli ára, en óvissu háð, margt bendir til þess að hann sé fremur staðbundinn á uppvaxtartíma.‘

    Ofangreint verður allt til þess að Elliðavatn breytist í ‚stórurriðavatn‘ eins og sumir veiðimenn hafa nefnt það. Miðað við þær aðstæður sem við búum silunginum í vatnasviði Heiðmerkur er þetta eðlileg þróun. Við höfum auðvitað valkosti til úrbóta, ef við viljum það á annað borð. Einn þessara kosta er að auka veiði í Elliðavatni, Hólmsá og Suðurá með þeim formerkjum að sleppa skuli bleikju. Með þessu getum við stangveiðimenn stuðlað að jöfnuði í stofnstærðum þó það hafi tæpast úrslitaáhrif þar sem stangveiði í vötnum verður seint afgerandi þáttur í lífríkinu. Annar kostur er stórtækari og verður væntanlega seint áberandi í umfjöllun opinberlega, því miður. Til þess að velta honum upp þurfum við aðeins að skoða Vatnsendavatn og Vatnsvatn sem ég ætla að gera í næsta pistli mínum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Taumur fyrir þurrflugu

    3. nóvember 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumur

    Heppilegur taumur í þurrfluguveiði gæti til dæmis verið 4X taumur, u.þ.b. 12‘ að lengd. Ég hef það fyrir satt að sumir taka einfaldlega ‚venjulega‘ 9‘ tauminn sinn og bæta 4X taumaefni framan við hann þannig að þetta þarf ekki að vera flókið.

    Hvort taumurinn eigi að skera yfirborðið eða ekki er álitamál milli veiðimann. Sumir gera mikið úr þeim möguleika að taumurinn myndi skugga og/eða ljósbrot sem fælir fiskinn ef hann liggur á yfirborðinu. Öðrum gæti bara ekki staðið meira á sama og halda áfram að nota venjulega poly-tauminn sinn á yfirborðinu. Í versta falli smyrja sumir smá óhreinindum á hann svo hann skeri yfirborðið. Nú er ég sjálfur ekki góð fyrirmynd í þurrfluguveiði, en verið horfandi á konuna mína leggja þessi kríli á yfirborðið í sumar sem leið, notandi venjulegt taumaefni og takandi fisk í tíma og ótíma þá hlýt ég að hallast að þeim síðarnefndu.

    Eitt er það sem taumsérfræðingar og veiðimenn hafa nefnt og gott er að hafa í huga varðandi þurrflugutauminn og það er að láta hann ásamt taumaefninu liggja í vatni sólarhring áður en veiða skal. Við þetta mýkist taumurinn og þanþol hans eykst til muna.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvaða þurrflugu?

    30. október 2012
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Hvaða flugu er best að nota fyrst? Þetta eru trúarbrögð eins og svo margt annað í veiðinni. Black Gnat er afskaplega vinsæl, aðrir nota Griffith’s Gnat , enn aðrir Royal Wulff. Aðrir byrja ekki á neinni heldur standa eins og glópar á bakkanum og skima út á vatnið og bíða þess að sjá hvaða fluga sest á vatnið. Þegar hún er sest halda þeir áfram að skima, tekur hann? Ef svo skemmtilega vill til að silungurinn sé í því að taka flugu á yfirborðinu er oft ekki flókið mál að finna samstæðu í boxinu.

    Það er útbreiddur misskilningur að dægurflugur (ætt Ephemeroptera) sé ekki til á Íslandi og því afskrifa menn oft þurrflugur sem tilheyra þessari ætt. Þetta er einfaldlega ekki satt og engin ástæða til að afskrifta því við eigum eitt kvikindi hér heima sem er afar áberandi og fjölgar hratt í náttúru okkar.

    Sami misskilningur hefur komið upp varðandi steinfluguna (ætt Plecoptera) og er það miður að ábyrgir veiðivefir og þurrflugusnillingar skuli breiða þetta út í ræðu og riti. Ég vil benda mönnum á að leita sér upplýsinga um þessar tvær tegundir hjá þar til bærum sérfræðingum, eins og t.d. Náttúrufræðistofnun Íslands áður en þeir halda áfram útbreiðslu þessa misskilnings. Nægir að smella á ættarheiti þessara tegunda hér að ofan til að lesa sér til um efnið.

    Önnur þeirra ætta sem er hve útbreiddust hér á landi er vorflugan (ætt Tricoptera) og finnst hún um allt land ásamt mýflugunni (af ætt Diptera). Það er því ekkert óeðlilegt að maður komi sér upp boxi með þessum gerðum þurrflugna, svona í einni eða annarri mynd til að byrja með.

    Hvort maður sest nú niður og hnýtir þessi kvikindi er svo allt önnur spurning. Það hafa sagt mér snillingar að það borgi sig nánast ekki að birgja sig upp af hnýtingarefni fyrir þurrflugu nema þá að veiða mikið á slík dýr eða hnýta fyrir marga. Ætli það dugi fyrir mig að við erum tvö saman í þessu veseni, ég og frúin?

    Royal Wulff

    Griffith’s Gnat

    Black Gnat

    Ummæli

    30.10.2012 – Hilmar: Glæsilegur pistill. Auðvitað hnýtirðu sjálfur, allt annað að veiða fisk á eigin flugur. Fínt að byrja að hnýta þessar: 

    með meistara Davie McPhail.

    Mbk, Hilmar

    Svar: Já, þessar líta auðvitað ljómandi út og allt virðist þetta einfalt hjá Davie McPhail eins og venjulega. Algjör snillingur þessi maður. Kannski maður láti bara reyna á þetta í vetur.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Tauma-klúður

    27. október 2012
    Línur og taumar

    Upp

    Forsíða

    Taumaklúður

    Þú gerir allt rétt; flugnavalið, bakkastið og framkastið en flugan bara kemst ekki eðlilega til skila. Auðvitað getur þú farið í stórkostlega naflaskoðun á eigin ágæti, krufið kastið frá byrjun til enda eða kennt stönginni um. En vandamálið gæti legið í eins einföldum hlut og tauminum og þá er ekki verra að hafa í huga eftirfarandi atriði áður en gripið er til traktískra aðgerða:

    Ef taumurinn leggst þokkalega fram að 2/3 en taumaendinn druslast bara eitthvert út í loftið er ekki ólíklegt að þú hefur valið of grannan taumaenda m.v. fluguna. Prófaðu að færa þig upp um eina stærð (sverari taumaenda) eða notaðu stífara efni.

    Ef þú situr uppi með eina stóra hrúgu af taum á vatninu í lok kastsins er taumurinn að öllum líkindum í heild sinni of grannur. Notaðu sverari eða stífari taum til að tryggja að orkan úr línunni skili sér alla leið fram í flugu.

    Ef flugan skellur á vatninu, er eins og fest á endann á svipu, þá er mál til komið að slaka aðeins á, taumurinn er væntanlega allt of stífur. Prófaðu grennri taum eða úr mýkra efni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þurrflugur í vanda

    24. október 2012
    Hnýtingar

    Upp

    Forsíða

    Engin ‘fake’ fluga

    Fyrir utan þessi einföldu vandamál varðandi þurrflugurnar eins og til dæmis að þær verða alltaf rennandi blautar hjá mér og drukkna eða mér bara tekst ekki að koma þeim út á vatnið þannig að þær líkjast alvöru flugu, þá gengur mér bara mjög vel að veiða á þurrflugu, eða ekki.

    Í þau skipti sem mér hefur enst þolinmæðin til að veiða á þurrflugu hef ég kynnst nokkrum sérlunduðum silungum. Ég hef kynnst gæjum, þessum sem gægjast upp að yfirborðinu en leggja aldrei til atlögu við fluguna mína. Mér skilst á fróðum mönnum að þá hef ég verið að egna með rangri flugu. Ég? Nei, ekki veit ég hvaðan silungar og menn hafa fengið þá flugu í höfuðið.

    Svo hef ég hitt þessa óhittnu sem koma upp í fluguna mína en það er eins og þeir hitti ekki á hana. Þeir súpa bara af yfirborðinu rétt handan hennar. Mér skilst á þessum sömu spekingum að það sé í raun ég sem klikki, ekki silungurinn. Þeir segja að ég sé of bráður á mér, reisi stöngina eitthvað of snemma þannig að flugan skauti úr færi fisksins. Bíddu, er fiskurinn ekki með sporð? Getur hann ekki borið sig almennilega eftir bráðinni?

    Af ofangreindu gæti einhver ráðið að mér gangi bara alls ekkert að veiða á þurrflugu og þurfi aðeins að kynna mér málið betur. Ég ætla í það minnsta að skoða þetta eitthvað í vetur og leyfa ykkur að fylgjast með hérna á blogginu. Svo sjáum við til næsta sumar hvort ég hitti ekki einhverja viðmótsþýðari silunga sem skilja hvað ég er að meina þegar ég legg gómsæta þurrflugu fyrir þá.

    Ummæli

    25.10.2012 – Hilmar: Ha ha ha, góður pistill. Velkominn í þurrflugu dæmið. Svo áttu eftir að kynnast að veiða á þurrflugur í algjöru logni í stöðuvatni, þar sem taumurinn ákveður að sökkva alls ekki og er eins og kaðall tengdur í fluguna og allt vaðandi í uppítökum allt í kring. Það er mjög hressandi og virkar ekki alltaf að bera mold á tauminn.

    Samt alveg hrikalega gaman þegar þeir taka þurrfluguna, fékk alveg nýtt kick út úr fluguveiðinni þegar ég fór að prófa mig áfram í þurrflugudæminu!

    mbk ,Hilmar

    Svar: Já, ég varð einmitt vitni af svona kikki sem frúin mín fékk í sumar, ítrekað. Eftir að hún gerði það gott fór ég að gefa þurrflugunum meiri gaum. Lesa, lesa, horfa, horfa… og kannski verður eitthvað úr þessu næsta sumar.

    28.10.2012 – Þórunn: Eitt mesta kikk sem ég hef fengið í fluguveiðinni var einmitt í blanka logni í Ölvesvatni í sumar, vökur út um allt og flugan mín bara alveg jafn girnileg og allar hinar. Fæ enn svona “flash back” og upplifi kikkið ítrekað þegar ég rifja upp einn flottann sem synti fyrir framan mig og þóttist ekki sjá fluguna mína, snarsnéri svo við, upp og tók ……baaaaaaara geðveikt.
    En, ég fæ svo ekkert endilega kikk þegar ég hugsa um þessa sem ég missti í þessum aðstæðum! Maður þarf að vera alveg svakalega vakandi og með augun límd á flugunni, sem NB getur orsakað ofsastöru, og tilbúin að strekkja á réttu augnabliki. Missti nokkra einfaldlega við það að blikka augunum. Spurning hvort störustaurar fáist einhverstaðar?

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 109 110 111 112 113 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar