Flýtileiðir

Vatnsendavatn og Vatnsvatn

Þessi vötn hafa um langt skeið verið vagga silungsveiðimanna á höfuðborgarsvæðinu og flestir hafa reynt sig í það minnsta einu sinni á ævinni í þessum vötnum. Fjarlægð þeirra frá Reykjavík og Kópavogi gerir þau að einhverju fjölsóttasta veiðisvæði Íslands, þó eitthvað hafi dregið úr veiði þar hin síðari ár. Hástemmdar lýsingar eins og Háskóli fluguveiðimanna eru eitthvað sem við höfum allir heyrt og fiskurinn sagður með eindæmum kræsinn á flugur og framsetningu þeirra. Já, þessi vötn heita í dag Elliðavatn og er 2 ferkílómetrar að stærð en fyrir miðlunarstíflu Elliðaárvirkjunar (1926) voru þau tvö og aðeins 60% af núverandi flatarmáli Elliðavatns.

Kort frá 1880 með viðbót höfundar

Með því að bera saman kort af svæðinu frá árinu 1880 og stærð vatnsins í dag (rauðar línur) má glögglega sjá hve vatnið hefur stækkað gríðarlega með tilkomu Elliðavatnsstíflunnar árið 1926. Engjarnar sem fóru undir vatn hafa væntanlega auðgað lífríkið í vatninu svo mikið að viðkoma fiskjar hefur margfaldast á skömmum tíma. Því miður er auðgun sem þessi ekki til frambúðar. Að vísu hnignar henni mis hratt eftir vötnum en ýmislegt bendir til að áhrifanna í Elliðavatni sé nú hætt að gæta, raunar fyrir löngu og lífríki vatnsins sé því orðið eins og formæðra þess, Vatnsendavatns og Vatnsvatns fyrir 1926. Í eðli sínu voru þessi vötn lindarvötn með frekar takmarkaðri lífflóru og töluvert hröðum endurnýjunartíma. Mér skilst að einkenni slíkra vatna sé að stofnstærðir fiska séu litlar sem gæti verið skýring á lokaorðum Jóns Kristjánssonar fiskifræðings í skýrslu sinni Stofnstærðarmæling silungs í Elliðavatni 2001; ‘Nokkuð kemur á óvart hve bleikjustofninn er lítill m.v. stærð vatnsins, um 2 tonn eða 10 kg /ha. Tilsamanburðar mældust 48 kg/ha af bleikju í Vífilsstaðavatni með sams konar aðferð 1985.‘

En það var fleira sem gerðist við stíflun vatnsins. Fuglalífið nánast hrundi, vaðfuglar hurfu og öðrum tegundum fækkaði snarlega. Nokkuð sem hefur ekki reynst afturkræft.

Elliðavatn og nágrenni í dag

Fram að stíflun vatnsins rann Bugða óhindrað framhjá og sameinaðist Dimmu sem var náttúrulegt affall Vatnsendavatns. Frá ármótum hétu árnar Elliðaár, í fleirtölu því þær runnu aðskildar að meira eða minna leiti til sjávar í Kollafirði. Það má leiða líkum að því að Bugða/Hólmsá hafi verið sjógeng urriða sem væntanlega hefur lagt leið sína að vori út í hin gjöfula Kollafjörð og snúið aftur feitur og pattaralegur að hausti, upp Elliðaárnar, Bugðu og Hólmsá til hrygningar. Væri þetta raunin í dag væri stutt í sjóbirtinginn fyrir höfuðborgarbúa og við þyrftum lítið að hafa áhyggjur af græðgi hans í bleikju Elliðavatns.

En það er önnur á sem rennur til Elliðavatns í dag, Suðurá. Það sem við þekkjum sem Helluvatn hefur væntanlega ekki verið neitt annað en ós Suðurár í Vatnsvatn. Ég hef engar heimildir fundið um urriða í Suðurá fyrir tíð miðlunarstíflunnar, en nokkrar sem nefna rígvæna bleikju á þeim slóðum og í systurvötnunum tveimur. Án þess að ég treysti mér til að kveða endanlega upp úr um hvort sú hafi verið raunin þá sýnist mér engu að síður sem nokkur aðskilnaður hafi verið milli urriða og bleikju á þessum slóðum hér áður fyrr. Í það minnsta mun meiri en er í dag.

Stæðum við í dag frammi fyrir valkostinum að stífla eða ekki stífla þessar perlur í túnfæti höfuðborgarinnar, svona rétt á mörkum byggðar og óbyggðar, yrði valið væntanlega ekki erfitt. Við létum vatnasvæði Heiðmerkur njóta ávinningsins og létum ógert að steypa fyrir affallið. Og hvað stendur svo sem í vegi fyrir því að við hverfum til fortíðar? Eigum við ekki nægt rafmagn sem aflað er með öðru en vatnsafli í dag? Er kannski kominn tími til að feta í fótspor þjóða sem þora að viðurkenna mistök á þessu sviði og fjarlægja nú stíflur fiskvega?

Vatnsendavatn og Vatnsvatn án stíflu

Eitt svar við “Vatnsendavatn og Vatnsvatn”

 1. Hilmar Avatar
  Hilmar

  Afar fróðlegir og skemmtilegir pistlar um Elliðavatn í dag og í denn. Fagna því einnig að þetta sé komið á veiðikortið, svo er undir okkur veiðimönnum komið að grisja aðeins urriðann, hlífa bleikjunni og ganga vel um þessa perlu.

  mbk

  Hilmar

  Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com