Kvíslavatn

Kvíslavatn er suðaustur af Hofsjökli, vestan Sprengisandsleiðar F26. Frá Vatnsfellsvirkjun inn að vegamótum Sprengisandsleiðar og Kvíslavatnsvegar við Versali eru 38 km. Kvíslavatnsvegur liggur vestan við og norður fyrir vatnið og sameinast F26 að norðan skammt frá Kistuöldu. Frá gatnamótunum við Versali og áfram um Sprengisandsleið eru 13 km að vaðinu yfir Svartá við suðaustanvert Kvíslavatn. Skammt þaðan greinast nokkrir slóðar um svæðið austan við Kvíslavatn, m.a. að Svartárósi, Ölduveri og að Svörtubotnum.

Vatnið varð til við framkvæmdir Landvirkjunar á árunum 1980 til 1984 þar sem austurkvísl Þjórsár, Hreysiskvísl, Eyvindarkvíslar nyrðri og fremri, Þúfuverskvísl og Svartá voru stíflaðar og vatni safnað í það sem heitir í dag Kvíslavatn. Í vatnið renna í dag Þjórsá og Hreysiskvísl að norðan og fjöldi lækja að austan og Svartá úr suðaustri. Frá vatninu rennur um skurð til Dratthalavatns sem nú gengur undir heitinu Stóraverslón. Þaðan rennur svo vatnið um annan skurð (Stóraversskurð) framhjá Versölum í Sauðafellslón og áfram til Þórisvatns. Ofangreind vötn og stíflur tilheyra Kvíslaveitum Landsvirkjunar.

Meðal dýpt Kvíslavatns er 4,5m og nær það ríflega 20 ferkílómetrum að flatarmáli þegar það er fullt. Fiski var fyrst sleppt í vötn á þessum slóðum árið 1980, þ.e. Þverölduvatn og Þúfuvötn en árið 1984 var fyrst sleppt í Kvíslavatn og framhald var á þeim sleppingum í nokkur ár. Þau seiði sem sleppt var í Kvíslavatn og nærliggjandi ár voru af stofni Veiðivatnaurriða, en í Þúfuvötn og Þveröldu var sleppt af stofni Mývatns og Kúðafljóts.

Eins og oft vill verða um ný vötn og uppistöðulón var töluverð frumframleiðsla til að byrja með í Kvíslavatni og urriðinn stækkaði hratt en verulega hefur dregið úr vaxtarhraða þar hin síðari ár. Rannsóknir benda til að náttúrulegum hrygningarstofni gæti tekist að koma undir sig fótunum á þessum slóðum en ekki er gert ráð fyrir að veiði á næstu árum aukist frá því sem nú gerist þar sem frumframleiðsla og viðkoma skordýra nær sér tæpast á skrið eftir að Þjórsá var veitt beint til vatnsins og það skipti um ásýnd og lit, varð jökullitað.

Veiði getur engu að síður verið mjög góð í Kvíslavatni og þá helst þar sem lækir renna í vatnið eða ferskvatn safnast saman og skordýr ná fótfestu. Eins eru rennur á milli vatna og lóna nokkuð vinsælar, sérstaklega ef straums gætir. Sveiflur í vatnshæð hafa og munu halda áfram að hafa verulega neikvæð áhrif á viðkomu skordýra, s.s. mýflugu, skötuorms og stutthalafló en þessi skordýr hafa verið uppistaðan í fæðu urriðans á þessu svæði frá árinu 1980.

Kvíslavatn er á forræði Veiðifélags Holtamannaafréttar og veiðileyfi er hægt að kaupa á netinu hjá Fishpartner.

Tenglar

Flugur

Vinstri græn
Nobbler (hvítur)
Nobbler (svartur)
Nobbler (orange)
Damsel – olvie
Silfur og bekkur
Humungus
Brúnn og kopar

Myndir

Myndband

Önnur vötn Holtamanna

Vötnin

Vesturland
Norðvesturland
Norðausturland
Austurland
Suðurland
Hálendið

Create a website or blog at WordPress.com