Sporðöldulón

Sporðöldulón varð til þegar inntaksstífla Búðarhálsvirkjunar var reist rétt ofan ármóta Köldukvíslar og Tungnaár við Hrauneyjahólma síðla árs 2013. Innan stíflu er nú affalli Hrauneyjavirkjunar safnað auk þess vatns sem Kaldakvísl nær að safna í sig frá Köldukvíslarstíflu við Sauðafellslón. Frá því Búðarhálsvirkjun tók til starfa árið 2014 hefur ekkert sjáanlegt afrennsli verið úr lóninu. Þess í stað rennur úr lóninu um jarðgöng undir Búðarháls til virkjunarinnar. Neðan stíflunnar rennur nú tær Tungnaá um nálega 8 km. þar til hún fellur í Sultartangalón við Hald.

Nafn sitt dregur lónið af Sporðöldu sem gengur norðvestur úr Þykkuöldu sem aðskilur Þóristungur frá Hrauneyjarlóni.

Með tilkomu stíflunnar fóru forgörðum mikilvægir hrygningarstaðir bæði bleikju og urriða í Köldukvísl. Jafnframt tók stíflan alfarið fyrir samgang bleikju úr Köldukvísl niður í Tungnaá þar sem nokkur hluti silungastofnsins hafði einnig sínar hrygningarstöðvar á árum áður. Nú einskorðast hrygningin við þann fiskgenga hluta Köldukvíslar sem er ofan Sporðöldulóns og óseyrar í lóninu.

Eins og algengt er þar sem ný lón skola út næringarefnum úr grónu landi, varð töluverður vöxtur í bleikju- og urriðastofninum fyrstu árin eftir myndun lónsins, en hratt hefur dregið úr þeim vexti hin síðari ár og þegar er farið að bera á fjölgun smærri bleikju í afla og urriða hefur fækkað.

Þó má gera nokkuð góða veiði í Sporðöldulóni ef þannig hittir á og vatnshæð er ekki í toppi. Vænlegir staðir eru þá helst þar sem bergvatn rennur til þess eða önnur skil verða í jökulvatninu. Lónið er innan vébanda Veiðifélags Holtamannaafréttar og fer sala veiðileyfa fram í Hrauneyjum og á vef Fishpartner.

Tenglar

Flugur

Krókurinn
Peacock
Bleik og blá
Nobbler (bleikur)
Peacock m.orange skotti

Önnur vötn Holtamanna

Vötnin

Vesturland
Norðvesturland
Norðausturland
Austurland
Suðurland
Hálendið

Create a website or blog at WordPress.com