
Fellsendavatn
Á Veiðivatnaleið skammt austan Vatnsfellsvirkjunar er Fellsendavatn. Í eðlilegu árferði er vatnið rétt um 1.7km2 og er í 530 m.y.s. Ekki þarf að lækka mikið í vatninu þannig að upp komi eyði á milli norður- og suðurhelmings þess og minnkar það þá verulega. Í miklum þurrkum, hverfur syðri hluti vatnsins algjörlega. Nafn sitt dregur vatnið af Vatnsfelli sem gnæfir yfir því að norðan, 730 m. hátt.
Aðkoma að vatninu er með ágætum og lítið mál að hafast þar við í ferðabíl eða vögnum, svo lengi sem veiðimönnum stendur ekki stuggur af að halda til á svörtum sandinum því lítið er um góður við vatnið. Sá litli gróður sem þar er á oft erfitt uppdráttar og veiðimenn eru beðnir um að gæta vel að fótsporum sínum og skilja ekkert rusl eftir við vatnið.
Í vatnið er sleppt urriða og þar má oft gera ágæta veiði í fjölda og þyngd. Sögur fara af brögðóttum risa fiskum í vatninu sem stolið hafa stöngum með öllum búnaði, kippt þeim upp úr stangahöldum og látið þær hverfa langt út í vatn. Veiði er þó misjöfn í vatninu eins og gerist og gengur, ásókn og fjöldi fiska í sleppingum ræður þar vitaskuld mestu.
Helstu veiðistaðir eru við ströndina að norðan, en ganga inn með vatninu að austan og vestan er ekkert síður vænleg. Nokkrir vænlegir staðir eru við vatnið að vestan þar sem eyðið kemur upp í þurrkum og að austan við syðri hluta þess. Mesta dýpt vatnsins er að norðan en dýpið er nokkuð jafnt inn að eyðinu.
Fellsendavatn er á forræði Veiðifélags Holtamannaafréttar en Fishpartner eru með vatnið á leigu og sala fer fram á netinu á þeirra vef. Veiðifélagar Fishpartner veiða frítt í vatninu.