Undanfarin 6 ár hef ég haldið í þá hefð að heimsækja Kvíslavatn á Sprengisandi í það minnsta einu sinni á ári, stundum oftar. Það er einfaldlega eitthvað við það að komast upp undir Hofsjökul í veiði og um síðustu helgi gaf veðurspáin þokkalegasta veður til kynna og ég stakk því af seinni part föstudags með mitt færanlega veiðihús í eftirdragi.
F26 eins og bókstafurinn gefur til kynna, er fjallvegur og maður getur átt á ýmsu von þegar líður á sumarið. Fyrir utan hefðbundin þvottabretti í flestum brekkum, þá var ástandið á veginum bara alveg þokkalegt og ég var nokkuð hefðbundin tíma af malbikinu og inn að Kvíslavatni, um það bil eina klukkustund. Framan af ferð var hið ágætasta veður, nærri því heiðskýrt en fljótlega eftir að ég var kominn yfir Köldukvísl fór að bæta í vind og ryk dró fyrir sólu. Raunar bætti jafnt og þétt í vind með kvöldinu og rétt um það bil sem ég tók á mig náðir um kl. 22 var farið að slá í 13 m/sek. og vagninn ruggaði mér kröftuglega í svefn.
Ég hef stundum tekið upp á því að blanda öðrum áhugamálum mínum inn í veiðisögur og í þessari sögu gefst tækifæri til að troða jarðfræði örlítið inn. Eftir að hafa verið vaggað í svefn á föstudagskvöldið, hrökk ég upp rétt fyrir miðnættið við það að vagninn vaggaði allt í einu í þvert á vindinn þegar tveir hressilegir jarðskjálftar riðu yfir. Ég var sem sagt áminntur, heldur óþægilega, á að ég hafði valið mér næturstað í nágrenni við Bárðarbungu í Vatnajökli og það sem meira var, einhverjum 200 metrum fyrir neðan yfirborð Hágöngulóns sem tekur jú við vatni úr Köldukvíslarjökli, skammt vestan Bárðarbungu. Hvað ef bungan á Bárði færi nú að gera einhvern óskunda? Tja, það væri þá ekkert við því að gera, hugsaði ég með mér og snéri mér á hina hliðina og vonaði að ekki mundir bæta enn meira í vind.
Eftir nokkra kaffibolla, ítrekaða stöðutöku á veðri ákvað ég að rölta undan vindinum út með víkinni þar sem lækurinn úr Svörtubotnum rennur til vatnsins. Í stuttu máli, þá var ekki einn einasta fisk að sjá sem var kannski ekkert skrítið miðað við báruna sem var á vatninu, alveg þangað til ég kom inn á sandfjöruna sem stundum hefur verið nefnd Skötustaðir. Skortur á örnefnum á þessum slóðum verður víst ekki leystur með öðrum hætti en gefa upp hnitin þar sem ég varð fyrst var við fisk N 64° 32′ 9“ W 18° 32′ 36“
Upp á ströndina stóð töluverð bára og ég byrjaði því á að reyna hefðbundnar urriðaflugur út í ölduna og draga þær snaggaralega inn. Þessum flugum var hreint ekki sinnt og það var ekki fyrr en ég lenti í einhverju brasi með línuna undir vöðluskónum sem varð þess valdandi að flugan sökk alveg niður á botn að ég fékk nart. Nú já, þarna ertu þá og ég skipti yfir í afbrigði af rauðum Nobbler, hnýtt á stuttan krók #12 og dró hann lötur hægt eftir botninum og þar með hófust leikar.

Eftir að hafa tekið nokkra, misst fleiri og orðið var við töluvert áreiti á fluguna, hóf ég röltið út með ströndinni og alveg þangað sem gruggið tók við af tæru vatninu úr Svörtubotnum. Það er óhætt að segja að þarna var mjög mikið af fiski að gera sér það sem ég taldi vera skötuorm að góðu við botninn. Annað kom þó raunar á daginn þegar ég kíkti í þá 7 fiska sem ég tók á þessum slóðum. Ég fann aðeins einn skötuorm í þessum fiskum en allir voru þeir stappaðir af flugu og mýlirfu.

Eftir miðdegisverð lagðist ég í könnunarferð, renndi niður að útfalli Ölduvers og reyndi töluvert þar, án árangurs, rétt eins og víðar á leiðinni. Þegar ég endaði síðan hringferð mína niðri við Svarárós varð mér öllum lokið, ekki einn einasti fiskur í ósnum, ekkert nart þrátt fyrir tíð fluguskipti og mismunandi aðferðir. Ég ákvað því að prófa nokkrar auðhnýttar flugur sem ég hef verið að vinna með, helst til að sjá hvernig þær haga sér í vatni. Eftir að hafa prófað nokkrar dökkar í grugginu norðvestan við eyðið sem skilur að Svarárós og Kvíslavatn, þá var komið að einni sem ég hafði satt best að segja ekkert endilega trú á. En, svona getur maður mislesið aðstæður og umhverfið.

Í stað þess að leyfa þessari flugu að sökkva, þá skipti ég yfir í flotlínu og hóf snaggaralegan inndrátt um leið og hún lenti. Og viti menn, í fyrsta kasti var flugan tekin rétt eftir að hún lenti og sá var hreint ekki sáttur við mistökin sín. Mér hafa alltaf fundist fiskarnir í Kvíslavatni vera hressir og til í tuskið, en þessi sló öll met, djöflaðist, stökk og setti hraðamet í allar áttir meðan hann krossaði vatnið fyrir framan mig. Eftir frábæra skemmtun í 10 mínútur náði ég undirtökunum og landaði vænum 3ja punda urriða. Auðvitað hélt ég áfram að prófa þessa flugu með sama inndrætti og í þriðja, fjórða kasti tók annar 2ja pundari og síðdeginu lauk ég síðan með 3,5 punda skemmtikrafti sem náði nær allri línunni út hjá mér áður en mér tókst að hemja hann á bremsunni.

Áður en ég hélt til baka í vagninn, settist ég niður með kaffibolla og naut þess í botn að horfa á umhverfið í kvöldstillunni og auðvitað hafði ég auga með því hvort fiskur léti sjá sig í Svartárósi, en það fór nú ekki svo, þannig að ég tuskaðist heim í vagn og tók kvöldinu bara rólega og endurraðaði í nokkur flugubox með kaldan við hendina.

Vinur allra veiðimanna, Himbriminn vakti mig frekar seint á sunnudaginn ( kl. 10 ) með ákalli sínu til spúsu sinnar og unga að drífa sig inn að hvíta ferlíkinu sem inni að Svörtubotnum, það væri fiskur að vaka þar. Það þurfti ekki marga kaffibolla áður en ég var kominn í vöðlurnar og hugsaði mér gott til glóðarinn að reyna fyrir mér í blíðunni á sömu slóðum og ég hafði byrjað laugardaginn á. Þá þegar var hitastigið komið fast að 20°C og sól skein skært á bak við skýin.

Að þessu sinni var allt annað uppi á teningnum, ekki litið við flugum á botninum enda var fluga á vatninu og víðast hvar var fiskur í uppitöku. Mér varð ósjálfrátt hugsað til flotlínunnar og ævintýrisins við Svartárós, en ég valdi að þessu sinni töluvert minni flugu og af öðrum toga. Frændur Kvíslaveitu urriðans, þeir sem eiga heima í Veiðivötnum, voru ansi sprækir þegar ég sýndi þeim sérlega einfalda kopar- og svartlitaða flugu fyrr í sumar. Eftir að hafa krafsað mig í gegnum nokkur box fann ég þá sem ég hafði í huga; óþyngd fluga með koparbúk og væng úr svartri lambsull.

Eftir að hafa tekið fjóra væna fiska, skipti ég um flugu. Já, stundum vill maður bara fá staðfestingu á því að hafa rambað á réttu fluguna og það má segja að það hafi ég fengið. Í að verða 1 klst. reyndi ég nokkrar aðrar flugur, þekktar og eigin skáldverk en það var ekki fyrr en ég nálgast aftur svarta flugu með kopar eða gulli að þær vöktu einhvern áhuga. Ég skipti því aftur í upphaflegu fluguna og það var eins og við manninn mælt, þeir fóru að taka og fjórir til viðbótar enduðu í netinu mínu. Eftir á að hyggja, þá getur líka verið að það hafi orðið smá hlé á tökum fiska eftir að mér heyrðist bíll vera að nálgast mig upp úr hádegi og vatnið hagaði sér eitthvað skringilega. Það var reyndar ekki fyrr en á heimleið að ég kveikti á útvarpinu og heyrði að það hefði verið snarpur kippur í Torfajökli kl. 12:44.

Þegar klukkan var langt gengin í þrjú og mér tók að vaxa heildarafli helgarinn í augum, lét ég gott heita og hélt til baka í vagninn, fékk mér kröftugan miðdegisverð og settist út í blíðuna og naut þess sem var eftir af henni áður en ég tók hafurtask mitt og vagn saman og hélt heim á leið, miklu meira en sáttur við þessa ferð mína að Kvíslavatni.






















