FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Kvíslavatn – 29. til 30. júlí 2023

    1. ágúst 2023
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Undanfarin 6 ár hef ég haldið í þá hefð að heimsækja Kvíslavatn á Sprengisandi í það minnsta einu sinni á ári, stundum oftar. Það er einfaldlega eitthvað við það að komast upp undir Hofsjökul í veiði og um síðustu helgi gaf veðurspáin þokkalegasta veður til kynna og ég stakk því af seinni part föstudags með mitt færanlega veiðihús í eftirdragi.

    F26 eins og bókstafurinn gefur til kynna, er fjallvegur og maður getur átt á ýmsu von þegar líður á sumarið. Fyrir utan hefðbundin þvottabretti í flestum brekkum, þá var ástandið á veginum bara alveg þokkalegt og ég var nokkuð hefðbundin tíma af malbikinu og inn að Kvíslavatni, um það bil eina klukkustund. Framan af ferð var hið ágætasta veður, nærri því heiðskýrt en fljótlega eftir að ég var kominn yfir Köldukvísl fór að bæta í vind og ryk dró fyrir sólu. Raunar bætti jafnt og þétt í vind með kvöldinu og rétt um það bil sem ég tók á mig náðir um kl. 22 var farið að slá í 13 m/sek. og vagninn ruggaði mér kröftuglega í svefn.

    Ég hef stundum tekið upp á því að blanda öðrum áhugamálum mínum inn í veiðisögur og í þessari sögu gefst tækifæri til að troða jarðfræði örlítið inn. Eftir að hafa verið vaggað í svefn á föstudagskvöldið, hrökk ég upp rétt fyrir miðnættið við það að vagninn vaggaði allt í einu í þvert á vindinn þegar tveir hressilegir jarðskjálftar riðu yfir. Ég var sem sagt áminntur, heldur óþægilega, á að ég hafði valið mér næturstað í nágrenni við Bárðarbungu í Vatnajökli og það sem meira var, einhverjum 200 metrum fyrir neðan yfirborð Hágöngulóns sem tekur jú við vatni úr Köldukvíslarjökli, skammt vestan Bárðarbungu. Hvað ef bungan á Bárði færi nú að gera einhvern óskunda? Tja, það væri þá ekkert við því að gera, hugsaði ég með mér og snéri mér á hina hliðina og vonaði að ekki mundir bæta enn meira í vind.

    Eftir nokkra kaffibolla, ítrekaða stöðutöku á veðri ákvað ég að rölta undan vindinum út með víkinni þar sem lækurinn úr Svörtubotnum rennur til vatnsins. Í stuttu máli, þá var ekki einn einasta fisk að sjá sem var kannski ekkert skrítið miðað við báruna sem var á vatninu, alveg þangað til ég kom inn á sandfjöruna sem stundum hefur verið nefnd Skötustaðir. Skortur á örnefnum á þessum slóðum verður víst ekki leystur með öðrum hætti en gefa upp hnitin þar sem ég varð fyrst var við fisk N 64° 32′ 9“ W 18° 32′ 36“

    Upp á ströndina stóð töluverð bára og ég byrjaði því á að reyna hefðbundnar urriðaflugur út í ölduna og draga þær snaggaralega inn. Þessum flugum var hreint ekki sinnt og það var ekki fyrr en ég lenti í einhverju brasi með línuna undir vöðluskónum sem varð þess valdandi að flugan sökk alveg niður á botn að ég fékk nart. Nú já, þarna ertu þá og ég skipti yfir í afbrigði af rauðum Nobbler, hnýtt á stuttan krók #12 og dró hann lötur hægt eftir botninum og þar með hófust leikar.

    Afbrigði af Nobbler, stuttur krókur #12

    Eftir að hafa tekið nokkra, misst fleiri og orðið var við töluvert áreiti á fluguna, hóf ég röltið út með ströndinni og alveg þangað sem gruggið tók við af tæru vatninu úr Svörtubotnum. Það er óhætt að segja að þarna var mjög mikið af fiski að gera sér það sem ég taldi vera skötuorm að góðu við botninn. Annað kom þó raunar á daginn þegar ég kíkti í þá 7 fiska sem ég tók á þessum slóðum. Ég fann aðeins einn skötuorm í þessum fiskum en allir voru þeir stappaðir af flugu og mýlirfu.

    Aflinn fram að miðdegisverði (raunar bættist einn við eftir þessa mynd)

    Eftir miðdegisverð lagðist ég í könnunarferð, renndi niður að útfalli Ölduvers og reyndi töluvert þar, án árangurs, rétt eins og víðar á leiðinni. Þegar ég endaði síðan hringferð mína niðri við Svarárós varð mér öllum lokið, ekki einn einasti fiskur í ósnum, ekkert nart þrátt fyrir tíð fluguskipti og mismunandi aðferðir. Ég ákvað því að prófa nokkrar auðhnýttar flugur sem ég hef verið að vinna með, helst til að sjá hvernig þær haga sér í vatni. Eftir að hafa prófað nokkrar dökkar í grugginu norðvestan við eyðið sem skilur að Svarárós og Kvíslavatn, þá var komið að einni sem ég hafði satt best að segja ekkert endilega trú á. En, svona getur maður mislesið aðstæður og umhverfið.

    Hnýtt á legglangan krók #6, gengur undir vinnuheitinu White and silver straggle

    Í stað þess að leyfa þessari flugu að sökkva, þá skipti ég yfir í flotlínu og hóf snaggaralegan inndrátt um leið og hún lenti. Og viti menn, í fyrsta kasti var flugan tekin rétt eftir að hún lenti og sá var hreint ekki sáttur við mistökin sín. Mér hafa alltaf fundist fiskarnir í Kvíslavatni vera hressir og til í tuskið, en þessi sló öll met, djöflaðist, stökk og setti hraðamet í allar áttir meðan hann krossaði vatnið fyrir framan mig. Eftir frábæra skemmtun í 10 mínútur náði ég undirtökunum og landaði vænum 3ja punda urriða. Auðvitað hélt ég áfram að prófa þessa flugu með sama inndrætti og í þriðja, fjórða kasti tók annar 2ja pundari og síðdeginu lauk ég síðan með 3,5 punda skemmtikrafti sem náði nær allri línunni út hjá mér áður en mér tókst að hemja hann á bremsunni.

    Gruggbræðurnir þrír við Svartárós

    Áður en ég hélt til baka í vagninn, settist ég niður með kaffibolla og naut þess í botn að horfa á umhverfið í kvöldstillunni og auðvitað hafði ég auga með því hvort fiskur léti sjá sig í Svartárósi, en það fór nú ekki svo, þannig að ég tuskaðist heim í vagn og tók kvöldinu bara rólega og endurraðaði í nokkur flugubox með kaldan við hendina.

    Rólegheita síðdegi við Svarárós

    Vinur allra veiðimanna, Himbriminn vakti mig frekar seint á sunnudaginn ( kl. 10 ) með ákalli sínu til spúsu sinnar og unga að drífa sig inn að hvíta ferlíkinu sem inni að Svörtubotnum, það væri fiskur að vaka þar. Það þurfti ekki marga kaffibolla áður en ég var kominn í vöðlurnar og hugsaði mér gott til glóðarinn að reyna fyrir mér í blíðunni á sömu slóðum og ég hafði byrjað laugardaginn á. Þá þegar var hitastigið komið fast að 20°C og sól skein skært á bak við skýin.

    Spegill á sunnudegi

    Að þessu sinni var allt annað uppi á teningnum, ekki litið við flugum á botninum enda var fluga á vatninu og víðast hvar var fiskur í uppitöku. Mér varð ósjálfrátt hugsað til flotlínunnar og ævintýrisins við Svartárós, en ég valdi að þessu sinni töluvert minni flugu og af öðrum toga. Frændur Kvíslaveitu urriðans, þeir sem eiga heima í Veiðivötnum, voru ansi sprækir þegar ég sýndi þeim sérlega einfalda kopar- og svartlitaða flugu fyrr í sumar. Eftir að hafa krafsað mig í gegnum nokkur box fann ég þá sem ég hafði í huga; óþyngd fluga með koparbúk og væng úr svartri lambsull.

    Hnýtt á grubber #4 og gengur undir vinnuheitinu Copper sheep

    Eftir að hafa tekið fjóra væna fiska, skipti ég um flugu. Já, stundum vill maður bara fá staðfestingu á því að hafa rambað á réttu fluguna og það má segja að það hafi ég fengið. Í að verða 1 klst. reyndi ég nokkrar aðrar flugur, þekktar og eigin skáldverk en það var ekki fyrr en ég nálgast aftur svarta flugu með kopar eða gulli að þær vöktu einhvern áhuga. Ég skipti því aftur í upphaflegu fluguna og það var eins og við manninn mælt, þeir fóru að taka og fjórir til viðbótar enduðu í netinu mínu. Eftir á að hyggja, þá getur líka verið að það hafi orðið smá hlé á tökum fiska eftir að mér heyrðist bíll vera að nálgast mig upp úr hádegi og vatnið hagaði sér eitthvað skringilega. Það var reyndar ekki fyrr en á heimleið að ég kveikti á útvarpinu og heyrði að það hefði verið snarpur kippur í Torfajökli kl. 12:44.

    Afli sunnudagsins

    Þegar klukkan var langt gengin í þrjú og mér tók að vaxa heildarafli helgarinn í augum, lét ég gott heita og hélt til baka í vagninn, fékk mér kröftugan miðdegisverð og settist út í blíðuna og naut þess sem var eftir af henni áður en ég tók hafurtask mitt og vagn saman og hélt heim á leið, miklu meira en sáttur við þessa ferð mína að Kvíslavatni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kvíslavatn 7. Ágúst 2021

    10. ágúst 2021
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Að þessu sinni munaði aðeins einum degi að það væri heilt ár á milli ferða okkar í Kvíslavatn. Í fyrra fórum við 8. ágúst, þetta árið fórum við 7. ágúst. Að þessu sinni vorum við ekki ein á ferð, þriðja hjól var undir vagninum því við plötuðum með okkur góðan félaga sem aldrei hafði heimsótt vatnið.

    Við vorum mætt inn við Svartárós rétt um kl. 10 og ósinn speglaði blíðuna yfir og allt um kring. Stundum segja menn að þegar vatnið er spegill, þá veiðist lítið sem ekkert. Hvort sem það var ástæðan eða eitthvað annað, eins og t.d. að það var enginn fiskur á staðnum, þá fengum við ekki eitt einasta nart þannig að við færðum okkur yfir í Ölduver í þeirri von að skötuormurinn væri eitthvað á stjái og væri að laða að sér urriðann.

    Smellið á mynd fyrir fulla upplausn

    Þegar við mættum á staðinn voru þar fyrir einir 6 veiðimenn í blönduðum hóp sem beitti öllum brögðum til þess að ná fiski. Eitthvað lét hann bíða eftir sér og eftir því sem ég best veit, þá kom aðeins einn hirðanlegur fiskur á land hjá öllum þessum veiðimönnum og einhverjir undirmálsfiskar sem var sleppt. Óvanaleg staða var á s.k. Skötustöðum því nær ekkert tært vatn var við bakkana, eitthvað líf var að sjá gengt okkur en lítið að gerast okkar megin.

    Línan í pásu

    Eftir hádegishressingu færðum við okkur niður að útfalli Ölduvers þar sem við sáum loks eitthvað til fiskjar, en settum ekki í neinn, hvað þá lönduðum, þannig að við stöldruðum ekkert mjög lengi við.

    Við héldum til baka um Ölduver og fórum alveg inn í botn, þ.e. við mörkin milli vatns og þar sem rennur til þess úr Svörtubotnum. Þessi staður hefur oft reynst okkur vel þegar tært vatnið nær lítið sem ekkert niður með bökkum vatnsins. Veðrið lék við okkur og það var eins og við manninn mælt að þarna leyndust nokkrir vænir urriðar þannig að allir fengu eitthvað fyrir sinn snúð. Eins og gengur voru ungliðar þarna innan um þannig að eitthvað var um sleppingar.

    Þriðja hjólið að landa fiski

    Eins og hendi væri veifað snérist vindáttin og það var eins og flautað hefði verið upp úr lauginni, allir  fiskar drógu sig í hlé og það gerðum við líka. Eftir síðdegishressingu tókum við stöðuna á urriðanum aftur, einhver kom á land en var sleppt og úr varð að við færðum okkur aðeins til baka, prófuðum aðeins meira og færðum okkur síðan alla leið niður í Svartárós þar sem við byrjuðum daginn.

    Uppskeran í Svarárósi var heldur rýr, enginn fiskur, aðeins ein naum taka og þar með er sagan öll. Það var tilfinning mín að hefðbundna veiðistaði skorti fyrst og fremst eitt; fæðu. Sá fiskur sem ég sá var að því er mér fannst á óvanalegum stöðum, oft innarlega í víkum og vogum, eiginlega svolítið til hlés. Annars vorum við samtals með vel á annan tug fiska þennan dag en heim fóru sjö fiskar sem eiga eftir að kæta einhverja bragðlauka. Heilt yfir var þetta hinn besti dagur, þó akstur hafi tekið stóra part af honum. Af færð; sá partur af Sprengisandsleið sem við ókum var í þokkalega góðu ásigkomulagi, hefur oft verið verri.

    Sólarlagið við Kerlingafjöll

    Lokaorðin tengjast holdafari og magafylli þeirra fiska sem ég skoðaði. Eins og margir vita, þá er fiskurinn í Kvíslavatni af stofni Veiðivatnaurriða. Í sínum upprunalegu heimskynnum er þessi urriði frekar þéttur og holdmikill. Undir venjulegum kringumstæðum er hann ekki alveg eins holdmikill í Kvíslavatni, en vænn þó. Þetta skýrist væntanlega af því að vatnið er ekki alveg eins frjósamt og flest Veiðivatna.

    Þeir fiskar Kvíslavatns sem ég hef skoðað síðustu ár hafa yfirleitt verið pakkaðir af skötuormi, en nú bar svo við að lítið þurfti að greina magafylli þeirra sem við tókum með okkur. Magafyllin var lítil og samanstóð helst af flugu og óverulegu magni kuðunga. Það var ekki einn einasti skötuormur í fiskunum sem komust á mitt borð sem er vissulega óvanalegt en ekki óeðlilegt. Af þeim þremur fiskum sem þriðja hjólið í veiðiferðinni tók með sér heim, var aðeins einn sem innihélt þetta klassíska svargræn gums sem gefur vísbendingu um skötuorm í fæðu. Viðkoma skötuorms er brokkgeng og sum ár virðist hann alveg hverfa, en kemur tvíefldur til baka næsta ár. Í fljótu bragði virðist sem önnur fæða hafi ekki náð að fylla það skarð sem skötuormurinn skildi eftir sig og því hafi fiskurinn farið á óhefðbundnar slóðir í fæðuleit.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kvíslavatn 8. ágúst 2020

    9. ágúst 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Eins og sjá má, þá var prýðilegt veður uppi á Sprengisandi að morgni laugardags. Hitastigið eins og það hefur barasta verið í sumar, ekkert of hlýtt en fjallasýn góð og sólin glennti sig í grennd um morguninn. Það dró þó reyndar nokkuð fyrir sólu þegar leið á daginn og vindurinn var eitthvað að flýta sér norður í land.

    Við byrjuðum niðri við Svartárós, áttum skemmtilegt spjall við netabændur sem mættu þangað til að vitja um og það var ekki laust við að maður fyndi fyrir spennunni með þeim yfir því hvað kæmi upp úr netunum. Þeim félögum til hróss þá voru lagnir þeirra á þeim slóðum sem ekki trufluðu stangaveiðimenn og sambúð okkar var sem sóma. Við stöldruðum ekki lengi við, héldum för okkar áfram og stefndum á Ölduver og eyddum lunganu úr deginum þar.

    Það hefur verið bætt hressilega við af jökulvatni í Kvíslavatn, svo mjög að nær öll víkin við Ölduver var lituð svo lítið hefur trúlega sést til þeirra flugna sem við færðum fyrir fiskinn. Ýmislegt sagði okkur þó að það væri nægur fiskur á ferðinni, en það var nánast hending að maður næði flugunni inn í sjónsvið hans. Helst urðum við vör við fisk innst í Ölduveri og tókum fjóra fiska þar, aðrir tveir komu á land á slóðum Skötuvíkur (örnefni sem hvergi er skráð nema í okkar kolli). Aðra staði prófuðum við ekki, en ég frétti af ágætri veiði á beitu þar sem menn prófuðu á laugardaginn. Það kom reyndar til tals milli mín og veiðifélaga míns, að vísu með glotti á vör, að baða einhverjar valdar flugur upp úr rækjusalati til að auka líkurnar á að urriðinn yrði var við þær. Létum þó ekki verða að því.

    Við vorum vel birg af kaffi og með því þannig að við vorum róleg í veiðinni, suðum oft upp á könnunni og vorum heldur spök þar til um kl.23:00 þegar við héldum aftur niður að Hrauneyjum þar sem hlítt og notalegt bólið beið okkar.

    Eins og áður er getið, þá er til nokkur fjöldi mynda sem teknar eru af Þveröldum yfir á Kvíslavatn og Hofsjökul. Hér að neðan gefu þó að líta eina sem tekin er í þveröfuga átt, til austurs af Þveröldum þar sem gefur að líta Þverölduvatn.  Ekki eru seld veiðileyfi í þetta vatn enda óvíst að í því sé nokkur fiskur, síðast var sleppt í þetta vatn upp úr 1980 og fáum sögum fer að veiði þar síðustu áratugina. Fallegt vatn engu að síður.

    Þverölduvatn – smellið fyrir stærri mynd

    Þar sem þetta er væntanlega síðasta ferð okkar inn á Sprengisand að sinni, þá læt ég hér fylgja smá úrval af eldri myndum sem við höfum smellt af á ferðum okkar inn að Kvíslavatni.

    This slideshow requires JavaScript.

    Bleikjur í ferð
    0 / 0
    Bleikjur alls
    3 / 33
    Urriðar í ferð
    3 / 2
    Urriðar alls
    78 / 40
    Veiðiferðir
    19 / 20

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kvíslavatn 9. & 10. júlí 2020

    13. júlí 2020
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Veiðifréttir hafa alltaf áhrif á mann, sérstaklega þegar þær koma frá stöðum sem maður þekkir þokkalega. Kvíslaveitum hefur brugðið fyrir á samfélagsmiðlum upp á síðkastið og þar sem við veiðifélagarnir höfðum hvort hið er ákveðið að kíkja í Kvíslavatn bráðlega varð úr að við slógum tveimur ferðum í eina og færðum færanlega veiðihúsið okkar upp á Sprengisand á miðvikudaginn.

    Kvíslaveitur – smellið fyrir stærri mynd

    Skömmu áður en komið er að Svartá er ekið yfir Þveröldur og þaðan er ágætis útsýn yfir Kvíslaveitur. Dratthalavatn er til vinstri á myndinni, þá Svartárskurður og Kvíslavatn hægra megin við miðju. Ofan Kvíslavatns eru síðan Hreysislón, Eyvindarlón og Þjórsárlón. Yfir svæðinu vaka svo Kerlingarfjöll og Hofsjökull í vestri.

    Veðrið á miðvikudag var frábært og Sprengisandur (F26) frá Vatnsfelli og inn að Svartá var bara í ágætis standi eftir að hafa verið opnaður nú nýverið. Stefnan var tekin á Ölduver að vík eða bugt sem gengur undir nafninu Skötuvík hjá okkur veiðifélögunum. Ekki svo að skilja að við höfum veitt skötu þarna, en skötuorm höfum við aftur á móti séð í maga nær allra fiska sem þar hafa veiðst sbr. fyrri ferðir okkar sem lesa má með því að smella hérna.

    Umrædd vík við Ölduver

    Eins gott og veðrið var á miðvikudagskvöldið, þá var töluverður strekkingur á fimmtudaginn og ekki mikið um skjól fyrir norðaustan áttinni að finna við Ölduver. Við gleyptum í okkur morgunverð og héldum til baka inn á Sprengisandsleið í stefnuna norður. Mögulega væri eitthvert skjól að finna norðan við vatnið, kannski í grennd við Tunnuver.

    Eins og svo oft áður kemur hér útundúr frá veiðisögunni sem að þessu sinni tengist örnefnum og ýmsum ambögum sem skotið hafa upp kollinum.

    Kvíslaveita dregur nafn sitt af öllum þeim kvíslum sem veitt var til þeirra 5 lóna sem mynda veiturnar. Vatnið sem við heimsóttum hét Kvíslavatn fyrir tíma Kvíslaveitna og heitir það enn þann dag í dag. Kvíslárveitur eru ekki til og Kvíslarvatn er í Veiðivötnum. Þá er það sagt og verður ekki sagt aftur.

    En aftur að ferð okkar í Tunnuver. Eftir smá leit að slóðanum niður að Tunnuveri fannst hann loksins, nokkru vestar heldur en ég hef sett hann á kortið af Kvíslavatni hér á síðunni. Núverandi afleggjari að Tunnuveri er rétt austan við brúna yfir Hreysisskurð, biðst ég afsökunar á ónákvæmri staðsetningu á kortinu. Hvað um það, veiðistaðurinn sem við stefndum á er annar af tveimur álitlegum veiðistöðum við norðaustanvert Kvíslavatn. Ef haldið er áfram umræddan slóða er komið að öðrum álitlegum veiðistað sem er við ós Eyvindarkvíslar fremri.

    Tunnuver – smellið fyrir stærri mynd

    Það hvíla á mér einhver álög þetta sumarið eða ég kann ekki fótum mínum forráð. Þrisvar í Veiðivötnum fyrir rúmri viku síðan og á fimmtudaginn endurtók ég leikinn við Tunnuver. Þar setti ég fót niður á sandbotn sem reyndist svo alls ekki vera sandbotn. Sandbleytur, innan sviga kviksyndi, eru fylgifiskar leysinga að vori og langt fram á sumarið uppi á hálendi. Það er óþægilegur andsk…. að lenda í þessum glompum og sökkva upp að hné eða lengra. Við stöldruðum ekkert mjög lengi við í Tunnuveri, þó nógu lengi til að tveir vænir fiskar kæmu á land.

    Þegar við komum úr Tunnuveri sótti á okkur töluverður efi hvort við hefðum betur haldið áfram á þeim slóðum því vindur var umtalsvert meiri sunnar við vatnið heldur en fyrir norðan. Við þvældumst nokkuð um svæðið, skoðuðum hina og þessa staði sem við höfðum áður veitt á en settum ekki í neinn fisk. Það vantaði kannski nennuna í okkur að kasta í rokinu og þegar kólnaði í þokkabót færðum við okkur aftur í vagninn og settumst við spil og snakk át þar til komið var að háttumálum.

    Úfið Kvíslavatn í rokinu

    Föstudagurinn heilsaði okkur með smá golu sem datt þó fljótlega niður. Blíðan tók öll völd og við ákváðum að halda kyrru fyrir í Skötuvík og egna fyrir fiskinn þar sem greinilega var nóg af. Ég nefndi það áður að viðurnefni sitt fékk þessi vík af skötuorminum, uppáhalds fæðu silungsins. Á meðan veiðifélagi minn kippti nokkrum fiskum á land, datt ég í rannsóknarvinnu með því að skoða vandlega litaafbrigði skötuormsins í fiski sem ég tók á land. Áður hef ég séð brúna og svarta skötuorma, en þarna voru þeir meira út í grænt, rétt eins og um daginn í Veiðivötnum. Stuttur grænn Nobbler sannaði sig, dreginn frekar hægt með botninum. Grænn skötuormur sem ég dundaði við að útbúa hérna um árið gekk líka, þ.e. ég fékk mjög ákveðin viðbrögð við honum. Eitthvað var stærðinni ofaukið og enginn urriði festist á krókinum. Ég þarf eiginlega að hnýta kvikindið á smærri krók og hafa hann grænni, þá gæti hann gefið mér fisk.

    Ekki réttur litur og heldur stór á #10

    Þegar kula tók síðdegis smelltum við í orkuríkan kvöldverð, pökkuðum saman og héldum suður á bóginn þangað sem við áttum erindi að Fjallabaki. Þrátt fyrir að fimmtudagurinn hefði nánast fallið flatur vegna leiðinda veðurs, þá bætti föstudagurinn það heldur betur upp og í heildina var þetta hin besta ferð. Undirritaður hefur samt oft gert betri veiði, en árið í ár endar á sléttri tölu og því ekki við miklu að búast frá mér þetta árið. Veiðifélagi minn raðar þess í stað inn fiskum í sinn dálk, sérstaklega urriðum á pínulítinn Nobbler. Þeir voru 12 fiskarnir sem fengu far með okkur til byggða, öðrum var sleppt fyrir síðari veiðiferðir.

    Bleikjur í ferð
    0 / 0
    Bleikjur alls
    3 / 32
    Urriðar í ferð
    13 / 7
    Urriðar alls
    33 / 20
    Veiðiferðir
    15 / 16

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kvíslavatn – 3. ágúst 2019

    5. ágúst 2019
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Þær eru hættar að kalla, þær senda orðið skilaboð í gríð og erg á samfélagsmiðlum þannig að maður getur ekki annað en gengt þeim. Löng helgi, veðurspá með ágætum og ég átti hvort hið er erindi í óbyggðirnar. Það þurft nú  reyndar ekkert að mjög mikla pressu á mig að leggja land undir fót á föstudaginn. Á heimleið úr vinnu renndi ég við í búð og keypti nesti til fararinnar sem í grunninn samanstóð af tveimur dósum af rækjusalati, brauðhleif og kaffipakka, jú og kaffirjóma, það var nú einu sinni Verslunarmannahelgi framundan. Dauðhræddur við alla umferðina út úr bænum lagði ég snemma af stað. Ég veit reyndar enn ekki hvort einhver púki hafi verið í fréttamönnum, því það var nánast ekkert að gerast á vegum og alræmdum gatnamótum þá leið sem ég fór austur fyrir fjall. Ég var því kominn að hálendisbrúninni langt á undan áætlun og ég stóðs ekki mátið og hélt upp á Sprengisand í kvöldsólinni sem var rétt mátulega að setjast í vestri þegar ég náði áfangastað, Kvíslavatn við Þjórsárdrög.

    Sólesetrið á föstudagskvöld

    Um morguninn ákvað ég að byrja daginn við ósa Svarár þar sem hún rennur til Kvíslavatns. Skilin á milli ferskvatns og jökulvatns voru á sínum stað og fiskur gerði heldur betur vart við sig í tæra vatninu. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt, ég var ekki búinn að fá morgunsopann minn og þeir létu eins og vitleysingar þarna rétt við fætur mér. Auðvitað stóðst ég ekki mátið og tók tvö köst með svörtum Nobbler á meðan prímusinn suðaði undir kaffikönnunni. Eftir þessi tvö köst var kaffið tilbúið og ég settist niður og naut morgunsopans og blíðunnar og virti þessa tvo urriða fyrir mér sem komu á land í þessum tveimur köstum.

    Fyrstu tveir fiskarnir með fyrsta kaffibollanum

    Ég ætla ekki að hafa mörg orð um aflabrögð þeirra klukkutíma sem á eftir fóru. Flestir fiskanna tóku gylltan Nobbler með brúnu skotti á miðlungs hröðum inndrætti, hraður inndráttur virkaði ekki og þeir tóku alls ekki langt frá landi. Eitthvað tók ég alveg í skilunum en flesta skammt frá landi í tæra vatninu. Þegar ég gerði að þessum fiskum kom í ljós að þeir voru nær allir úttroðnir af skötuormi, vel haldnir og allir á bilinu 1,5 – 3 pund. Fallegir og bjartir urriðar af Veiðivatnastofni.

    Urriði af Veiðivatnastofni úr Kvíslavatni

    Sannast sagna verð ég bara að viðurkenna að ég var orðinn saddur skömmu fyrir hádegi og þar sem heldur dró úr áhuga urriðans á flugunum mínum, tók ég mig saman og hélt í smá leiðangur. Þessi smá leiðangur varð reyndar heldur lengri en til stóð. Ég byrjaði á því að koma við í Svörtubotnum sem voru töluvert litaðir enda stendur nokkuð hátt í Kvíslavatni. Úr Svörtubotnum hélt ég í langferð inn í Tunnuver og þar var svipaða sögu að segja af vatni og því til viðbótar var fiskurinn mjög hlédrægur í 20°C hita, björtu veðri og logni.

    Fyrst ég var nú kominn þetta norðarlega ákvað ég að fara niður með vatninu að vestan í þeirri veiku von að einhversstaðar rynni ferskt vatn til jökulhroðans sem gerði það að verkum að fiskur léti sjá sig. Eftir að hafa farið um Frúarflóa, kíkt á vatnið gengt Skúmsöldu og þrætt mig eftir öllum mögulegum slóðum við vatnið vestan- og sunnanvert, afréð ég að klára hringinn og halda aftur inn að Svörtubotnum.

    Svartárós – séð af suðurbakkanum

    Þegar þangað var komið var komið að seinna kaffi og heldur var nú rólegt hjá mér sunnan við Svartárós á meðan þrjár kynslóðir veiðimanna gerðu ágæta veiði á spún þar sem ég byrjaði daginn á vesturbakkanum. Ég harkaði af mér og gerði nokkrar tilraunir með flugur og veiðistaði en hætti þegar kynslóðaskipti urðu á vesturbakkanum og þangað mætti beitumaður með þrjár stangir úti og girti beinlínis fyrir allan fisk við ósinn. Mér sjálfum til mikillar furðu varð ég ekkert fúll út í þessa girðingarvinnu við ósinn, ég hafði fengið nægju mína af fiski og ég átti líka spennandi erindi suður í Framvötn. Ég lét því gott heita og tók saman. Mér var nú samt hugsi um það hve margar stangir hver veiðimaður má vera með í Kvíslavatni. Ef ég væri með fleiri hendur þá væri nú gaman að geta verið með þrjár flugustangir á lofti samtímis.

    Miðað við þann tíma sem ég í raun eyddi í veiði, þá var þetta rosalegur túr og eflaust hefði ég getað tekið mun fleiri fiska á þessum slóðum ef ég hefði ekki verið jafn sáttur eftir morgunvaktina eins og raun ber vitni. Veðrið lék við hvern sinn fingur, fiskurinn við fluguna og það er ómetanlegt að geta eytt svona fallegum degi á hálendinu. Frásögninni ætla ég að ljúka með smá hugleiðingum um ástand og viðhald vega, sjá hér að neðan.

    Á þeim tæplega 600 km. sem ég ók um helgina, þá gafst nægur tími til að hugleiða hitt og þetta. Ég ók þrjá mismunandi fjallvegi og kaflar þeirra voru mjög misjafnir. Ég ók Sprengisand (F26) allt upp að Kistuöldu, þaðan yfir á Kvíslaveituveg Landsvirkjunar vestan Kvíslavatns allt niður að Versölum. Fjallabaksleið nyrðri (F208) frá Sigöldu og niður að Frostastaðavatni og Landmannaleið (F225) inn að Landvegi austan Búrfells. Ég ek frekar sparneytnu óbreyttu Bresku landbúnaðartæki en vitaskuld fóru einhverjir lítrar af olíu á þessu ferðalagi mínu. Á eldsneyti sem selt er á Íslandi eru lagðir skattar sem m.a. eiga að renna á til viðhalds vega og þessar tekjur hafa aukist gríðarlega á liðnum árum. Svo virðist vera sem samhengi hlutanna hefur eitthvað skolast til, því þessar auknu tekjur hafa ekki verið að skila sér til þeirra vegspotta sem liggja til grundvallar þessum tekjum. Þeir vegir sem ég flakkaði um er opnaðir að vori og fellst sú opnun helst í því að þangað er sendur veghefill sem lagfærir skemmdir eftir leysingar og heflar síðan yfir hann. Ég held svei mér þá að það sé ekkert meira sem lagt er til þessara vega það árið. Einn þessara vega sker sig verulega úr, það er Landmannaleið frá Búrfell og inn að gatnamótum við Fjallabaksleið nyrðri við Frostastaðavatn. Umferð um þennan veg hefur aukist töluvert meira á liðnum árum heldur en gengur og gerist um aðra fjallvegi. Stórvirkum fólksflutningabílum hefur fjölgað gríðarlega og álag á veginn hefur aldrei verið meira. Úrbætur sjást helst í fjölgun skilta sem vara við utanvegaakstri við þá kafla hans þar sem hann breiðir úr sér vegna þess að upprunalegur slóði er nánast orðinn ófær af sliti.

    Sprengisandsleið (F26) á Þveröldu

    Það hafa verið gerðar miklar, mjög miklar úrbætur á vegum sem liggja að forðabúrum stóriðju á Íslandi; virkjununum á Þjórsársvæðinu. Mig grunar reyndar að þar sér Vegagerðin stikkfrí, Landsvirkjun hefur fjármagnað þær framkvæmdir í tengslum við sín mannvirki og engu til sparað. Það er jú mikilvægt að eiga greiða leið að þessum mikilfenglegu undrasmíðum mannanna. En þegar kemur að undrasmíðum þess sem við Íslendingar vitum mæta vel að ræður öllu þegar á hólminn er komið, náttúrunni, þá er greinilega tómt í buddunni. Það er vissulega leið til að draga úr ágangi ferðamanna (innlendra og erlendra) að halda vegunum mátulega lélegum á hálendinu. Ég er ekki sammála þessu viðhorfi, þetta hefur hingað til heitið að pissa í skóinn sinn. Viðhald undir þörfum verður aðeins til þess að skemmdir verða meiri og umhverfi þeirra spillist af ágangi. Það hefur sýnt sig að gott viðhald vega, eins og t.d. á Veiðivatnasvæðinu, hefur létt álagi af náttúrunni og aukið virðingu ferðalanga og bætt umgengni. Hvernig væri nú að hrista aðeins upp í buddunni og færa nokkrar krónur af þeim sem verja á til viðhalds vega í olíu á veghefilinn og senda hann kannski tvisvar á ári upp á hálendi? Það gæti meira að segja litið vel út í ársskýrslu Vegagerðarinnar að geta sagst hafa tvöfaldað viðhald fjallvega.

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    0 / 0 55 / 71 0 / 13 15 / 36 18 / 19

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Kvíslavatn 17. & 18. júlí

    21. júlí 2018
    Veiði

    Upp

    Forsíða

    Ekki dugði landsfjórðungaferð okkar í síðustu viku til þess að svala veiðifýsninni nema í örfáa daga. Óbyggðirnar kölluðu svo sterkt á okkur í vikunni að við vorum hreint og beint að ærast hér á malbikinu, létum undan á þriðjudaginn og pökkuðum veiðidóti í færanlega veiðihúsið okkar og héldum af stað út úr bænum. Fyrsta stopp voru Hrauneyjar þar sem leitað var upplýsinga um ástand Sprengisandsleiðar, verð á veiðileyfi í Kvíslavatni og hvort ekki væri örugglega hægt að kaupa hálfan og hálfan dag.

    Síðast þegar við fórum Sprengisandsleið komu ítrekað upp í huga mér orð eins veiðibloggara með meiru; þessi volaði vegur en að þessu sinni var vegurinn ekki svo volaður og við komumst með veiðihúsið okkar í heilu lagi inn að Kvíslavatni rétt fyrir kvöldmat. Við komum okkur fyrir gengt Þjófanesi, rétt norðan Svartáróss, settum saman stangir og stefndum inn að Svörtubotnum. Við höfðum verið vöruð við því í Hrauneyjum að þann daginn hefði verið seldur nokkur fjöldi veiðileyfa í Kvíslavatn, en ég átti satt best að segja ekki von á að annar hver merktur veiðistaður við vatnið væri setinn, en sú var raunin.

    Kerlingarfjöll séð frá Kvíslavatni

    Við eyddum lunganu úr kvöldinu á sama staða við Svörtubotna enda engin ástæða til að færa sig þegar fiskurinn hefur áhuga á því sem honum er boðið. Við félagarnir tókum sitt hvora tvo urriðana áður en við héldum til baka að fellihýsinu. Þar sem klukkan var ekki nema rétt um 22:00 og allir sem verið höfðu við Svartárós voru á bak og burt, þá ákváðum við að renna út á tánna og veiða skil Svartár og Kvíslavatns. Kvöldið lék hreint og beint við hvern sinn fingur og sólarlagið á bak við Hofsjökul smellti rauðleitum blæ á himinn.

    Ómetanlegt KODAK moment á fjöllum

    Kvöldinu lauk þannig að veiðifélagi minn setti í tvö prýðilega urriða í skolaða hlutanum á meðan ég rembdist eins og rjúpa við staur að ná þessum skemmtilega sem var að skvetta sér í tæra hlutanum, án árangurs.

    Morguninn eftir fórum við alveg inn að botni í Svörtubotnum, þóttumst alveg vera með þetta þar sem vindurinn stóð inn víkina og að öllu gefnu þá hefði urriðinn átt að vera að rótast í ætinu þar. Annað kom nú á daginn og við enduðum á því að fara aftur á staðinn þar sem við höfðum verið kvöldið áður. Það sem hafist upp úr því krafsi voru fimm rígvænir urriðar hjá veiðifélaga mínum og þrjú hressileg flugnabit hjá mér.

    Tilraun til sköturoms

    Vel að merkja, allir urriðarnir sem við tókum voru smekkfullir af skötuormi en enginn þeirra leit við tilraunum mínum með flugu sem á að líkjast því kvikindi. Kannski þarf ég aðeins að spá betur í inndrætti o.s.frv. þegar ég prófa þá flugu næst. Hvað um það, eftir að við kláruðum síðari hálfan daginn okkar renndum við aftur niður í Hrauneyjar, fylltum á bílinn og héldum ferðalaginu okkar áfram ….

    Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
    0 / 0 37 / 65 9 / 2 30 / 24 14 / 17

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
1 2
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar