Eins og sjá má, þá var prýðilegt veður uppi á Sprengisandi að morgni laugardags. Hitastigið eins og það hefur barasta verið í sumar, ekkert of hlýtt en fjallasýn góð og sólin glennti sig í grennd um morguninn. Það dró þó reyndar nokkuð fyrir sólu þegar leið á daginn og vindurinn var eitthvað að flýta sér norður í land.
Við byrjuðum niðri við Svartárós, áttum skemmtilegt spjall við netabændur sem mættu þangað til að vitja um og það var ekki laust við að maður fyndi fyrir spennunni með þeim yfir því hvað kæmi upp úr netunum. Þeim félögum til hróss þá voru lagnir þeirra á þeim slóðum sem ekki trufluðu stangaveiðimenn og sambúð okkar var sem sóma. Við stöldruðum ekki lengi við, héldum för okkar áfram og stefndum á Ölduver og eyddum lunganu úr deginum þar.
Það hefur verið bætt hressilega við af jökulvatni í Kvíslavatn, svo mjög að nær öll víkin við Ölduver var lituð svo lítið hefur trúlega sést til þeirra flugna sem við færðum fyrir fiskinn. Ýmislegt sagði okkur þó að það væri nægur fiskur á ferðinni, en það var nánast hending að maður næði flugunni inn í sjónsvið hans. Helst urðum við vör við fisk innst í Ölduveri og tókum fjóra fiska þar, aðrir tveir komu á land á slóðum Skötuvíkur (örnefni sem hvergi er skráð nema í okkar kolli). Aðra staði prófuðum við ekki, en ég frétti af ágætri veiði á beitu þar sem menn prófuðu á laugardaginn. Það kom reyndar til tals milli mín og veiðifélaga míns, að vísu með glotti á vör, að baða einhverjar valdar flugur upp úr rækjusalati til að auka líkurnar á að urriðinn yrði var við þær. Létum þó ekki verða að því.
Við vorum vel birg af kaffi og með því þannig að við vorum róleg í veiðinni, suðum oft upp á könnunni og vorum heldur spök þar til um kl.23:00 þegar við héldum aftur niður að Hrauneyjum þar sem hlítt og notalegt bólið beið okkar.
Eins og áður er getið, þá er til nokkur fjöldi mynda sem teknar eru af Þveröldum yfir á Kvíslavatn og Hofsjökul. Hér að neðan gefu þó að líta eina sem tekin er í þveröfuga átt, til austurs af Þveröldum þar sem gefur að líta Þverölduvatn. Ekki eru seld veiðileyfi í þetta vatn enda óvíst að í því sé nokkur fiskur, síðast var sleppt í þetta vatn upp úr 1980 og fáum sögum fer að veiði þar síðustu áratugina. Fallegt vatn engu að síður.

Þar sem þetta er væntanlega síðasta ferð okkar inn á Sprengisand að sinni, þá læt ég hér fylgja smá úrval af eldri myndum sem við höfum smellt af á ferðum okkar inn að Kvíslavatni.
0 / 0
3 / 33
3 / 2
78 / 40
19 / 20
Senda ábendingu