Flýtileiðir

Kvíslavatn 9. & 10. júlí 2020

Veiðifréttir hafa alltaf áhrif á mann, sérstaklega þegar þær koma frá stöðum sem maður þekkir þokkalega. Kvíslaveitum hefur brugðið fyrir á samfélagsmiðlum upp á síðkastið og þar sem við veiðifélagarnir höfðum hvort hið er ákveðið að kíkja í Kvíslavatn bráðlega varð úr að við slógum tveimur ferðum í eina og færðum færanlega veiðihúsið okkar upp á Sprengisand á miðvikudaginn.

Kvíslaveitur – smellið fyrir stærri mynd

Skömmu áður en komið er að Svartá er ekið yfir Þveröldur og þaðan er ágætis útsýn yfir Kvíslaveitur. Dratthalavatn er til vinstri á myndinni, þá Svartárskurður og Kvíslavatn hægra megin við miðju. Ofan Kvíslavatns eru síðan Hreysislón, Eyvindarlón og Þjórsárlón. Yfir svæðinu vaka svo Kerlingarfjöll og Hofsjökull í vestri.

Veðrið á miðvikudag var frábært og Sprengisandur (F26) frá Vatnsfelli og inn að Svartá var bara í ágætis standi eftir að hafa verið opnaður nú nýverið. Stefnan var tekin á Ölduver að vík eða bugt sem gengur undir nafninu Skötuvík hjá okkur veiðifélögunum. Ekki svo að skilja að við höfum veitt skötu þarna, en skötuorm höfum við aftur á móti séð í maga nær allra fiska sem þar hafa veiðst sbr. fyrri ferðir okkar sem lesa má með því að smella hérna.

Umrædd vík við Ölduver

Eins gott og veðrið var á miðvikudagskvöldið, þá var töluverður strekkingur á fimmtudaginn og ekki mikið um skjól fyrir norðaustan áttinni að finna við Ölduver. Við gleyptum í okkur morgunverð og héldum til baka inn á Sprengisandsleið í stefnuna norður. Mögulega væri eitthvert skjól að finna norðan við vatnið, kannski í grennd við Tunnuver.

Eins og svo oft áður kemur hér útundúr frá veiðisögunni sem að þessu sinni tengist örnefnum og ýmsum ambögum sem skotið hafa upp kollinum.

Kvíslaveita dregur nafn sitt af öllum þeim kvíslum sem veitt var til þeirra 5 lóna sem mynda veiturnar. Vatnið sem við heimsóttum hét Kvíslavatn fyrir tíma Kvíslaveitna og heitir það enn þann dag í dag. Kvíslárveitur eru ekki til og Kvíslarvatn er í Veiðivötnum. Þá er það sagt og verður ekki sagt aftur.

En aftur að ferð okkar í Tunnuver. Eftir smá leit að slóðanum niður að Tunnuveri fannst hann loksins, nokkru vestar heldur en ég hef sett hann á kortið af Kvíslavatni hér á síðunni. Núverandi afleggjari að Tunnuveri er rétt austan við brúna yfir Hreysisskurð, biðst ég afsökunar á ónákvæmri staðsetningu á kortinu. Hvað um það, veiðistaðurinn sem við stefndum á er annar af tveimur álitlegum veiðistöðum við norðaustanvert Kvíslavatn. Ef haldið er áfram umræddan slóða er komið að öðrum álitlegum veiðistað sem er við ós Eyvindarkvíslar fremri.

Tunnuver – smellið fyrir stærri mynd

Það hvíla á mér einhver álög þetta sumarið eða ég kann ekki fótum mínum forráð. Þrisvar í Veiðivötnum fyrir rúmri viku síðan og á fimmtudaginn endurtók ég leikinn við Tunnuver. Þar setti ég fót niður á sandbotn sem reyndist svo alls ekki vera sandbotn. Sandbleytur, innan sviga kviksyndi, eru fylgifiskar leysinga að vori og langt fram á sumarið uppi á hálendi. Það er óþægilegur andsk…. að lenda í þessum glompum og sökkva upp að hné eða lengra. Við stöldruðum ekkert mjög lengi við í Tunnuveri, þó nógu lengi til að tveir vænir fiskar kæmu á land.

Þegar við komum úr Tunnuveri sótti á okkur töluverður efi hvort við hefðum betur haldið áfram á þeim slóðum því vindur var umtalsvert meiri sunnar við vatnið heldur en fyrir norðan. Við þvældumst nokkuð um svæðið, skoðuðum hina og þessa staði sem við höfðum áður veitt á en settum ekki í neinn fisk. Það vantaði kannski nennuna í okkur að kasta í rokinu og þegar kólnaði í þokkabót færðum við okkur aftur í vagninn og settumst við spil og snakk át þar til komið var að háttumálum.

Úfið Kvíslavatn í rokinu

Föstudagurinn heilsaði okkur með smá golu sem datt þó fljótlega niður. Blíðan tók öll völd og við ákváðum að halda kyrru fyrir í Skötuvík og egna fyrir fiskinn þar sem greinilega var nóg af. Ég nefndi það áður að viðurnefni sitt fékk þessi vík af skötuorminum, uppáhalds fæðu silungsins. Á meðan veiðifélagi minn kippti nokkrum fiskum á land, datt ég í rannsóknarvinnu með því að skoða vandlega litaafbrigði skötuormsins í fiski sem ég tók á land. Áður hef ég séð brúna og svarta skötuorma, en þarna voru þeir meira út í grænt, rétt eins og um daginn í Veiðivötnum. Stuttur grænn Nobbler sannaði sig, dreginn frekar hægt með botninum. Grænn skötuormur sem ég dundaði við að útbúa hérna um árið gekk líka, þ.e. ég fékk mjög ákveðin viðbrögð við honum. Eitthvað var stærðinni ofaukið og enginn urriði festist á krókinum. Ég þarf eiginlega að hnýta kvikindið á smærri krók og hafa hann grænni, þá gæti hann gefið mér fisk.

Ekki réttur litur og heldur stór á #10

Þegar kula tók síðdegis smelltum við í orkuríkan kvöldverð, pökkuðum saman og héldum suður á bóginn þangað sem við áttum erindi að Fjallabaki. Þrátt fyrir að fimmtudagurinn hefði nánast fallið flatur vegna leiðinda veðurs, þá bætti föstudagurinn það heldur betur upp og í heildina var þetta hin besta ferð. Undirritaður hefur samt oft gert betri veiði, en árið í ár endar á sléttri tölu og því ekki við miklu að búast frá mér þetta árið. Veiðifélagi minn raðar þess í stað inn fiskum í sinn dálk, sérstaklega urriðum á pínulítinn Nobbler. Þeir voru 12 fiskarnir sem fengu far með okkur til byggða, öðrum var sleppt fyrir síðari veiðiferðir.

Bleikjur í ferð
0 / 0
Bleikjur alls
3 / 32
Urriðar í ferð
13 / 7
Urriðar alls
33 / 20
Veiðiferðir
15 / 16

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com