Flýtileiðir

Kvíslavatn – 3. ágúst 2019

Þær eru hættar að kalla, þær senda orðið skilaboð í gríð og erg á samfélagsmiðlum þannig að maður getur ekki annað en gengt þeim. Löng helgi, veðurspá með ágætum og ég átti hvort hið er erindi í óbyggðirnar. Það þurft nú  reyndar ekkert að mjög mikla pressu á mig að leggja land undir fót á föstudaginn. Á heimleið úr vinnu renndi ég við í búð og keypti nesti til fararinnar sem í grunninn samanstóð af tveimur dósum af rækjusalati, brauðhleif og kaffipakka, jú og kaffirjóma, það var nú einu sinni Verslunarmannahelgi framundan. Dauðhræddur við alla umferðina út úr bænum lagði ég snemma af stað. Ég veit reyndar enn ekki hvort einhver púki hafi verið í fréttamönnum, því það var nánast ekkert að gerast á vegum og alræmdum gatnamótum þá leið sem ég fór austur fyrir fjall. Ég var því kominn að hálendisbrúninni langt á undan áætlun og ég stóðs ekki mátið og hélt upp á Sprengisand í kvöldsólinni sem var rétt mátulega að setjast í vestri þegar ég náði áfangastað, Kvíslavatn við Þjórsárdrög.

Sólesetrið á föstudagskvöld

Um morguninn ákvað ég að byrja daginn við ósa Svarár þar sem hún rennur til Kvíslavatns. Skilin á milli ferskvatns og jökulvatns voru á sínum stað og fiskur gerði heldur betur vart við sig í tæra vatninu. Mér fannst þetta ekki sanngjarnt, ég var ekki búinn að fá morgunsopann minn og þeir létu eins og vitleysingar þarna rétt við fætur mér. Auðvitað stóðst ég ekki mátið og tók tvö köst með svörtum Nobbler á meðan prímusinn suðaði undir kaffikönnunni. Eftir þessi tvö köst var kaffið tilbúið og ég settist niður og naut morgunsopans og blíðunnar og virti þessa tvo urriða fyrir mér sem komu á land í þessum tveimur köstum.

Fyrstu tveir fiskarnir með fyrsta kaffibollanum

Ég ætla ekki að hafa mörg orð um aflabrögð þeirra klukkutíma sem á eftir fóru. Flestir fiskanna tóku gylltan Nobbler með brúnu skotti á miðlungs hröðum inndrætti, hraður inndráttur virkaði ekki og þeir tóku alls ekki langt frá landi. Eitthvað tók ég alveg í skilunum en flesta skammt frá landi í tæra vatninu. Þegar ég gerði að þessum fiskum kom í ljós að þeir voru nær allir úttroðnir af skötuormi, vel haldnir og allir á bilinu 1,5 – 3 pund. Fallegir og bjartir urriðar af Veiðivatnastofni.

Urriði af Veiðivatnastofni úr Kvíslavatni

Sannast sagna verð ég bara að viðurkenna að ég var orðinn saddur skömmu fyrir hádegi og þar sem heldur dró úr áhuga urriðans á flugunum mínum, tók ég mig saman og hélt í smá leiðangur. Þessi smá leiðangur varð reyndar heldur lengri en til stóð. Ég byrjaði á því að koma við í Svörtubotnum sem voru töluvert litaðir enda stendur nokkuð hátt í Kvíslavatni. Úr Svörtubotnum hélt ég í langferð inn í Tunnuver og þar var svipaða sögu að segja af vatni og því til viðbótar var fiskurinn mjög hlédrægur í 20°C hita, björtu veðri og logni.

Fyrst ég var nú kominn þetta norðarlega ákvað ég að fara niður með vatninu að vestan í þeirri veiku von að einhversstaðar rynni ferskt vatn til jökulhroðans sem gerði það að verkum að fiskur léti sjá sig. Eftir að hafa farið um Frúarflóa, kíkt á vatnið gengt Skúmsöldu og þrætt mig eftir öllum mögulegum slóðum við vatnið vestan- og sunnanvert, afréð ég að klára hringinn og halda aftur inn að Svörtubotnum.

Svartárós – séð af suðurbakkanum

Þegar þangað var komið var komið að seinna kaffi og heldur var nú rólegt hjá mér sunnan við Svartárós á meðan þrjár kynslóðir veiðimanna gerðu ágæta veiði á spún þar sem ég byrjaði daginn á vesturbakkanum. Ég harkaði af mér og gerði nokkrar tilraunir með flugur og veiðistaði en hætti þegar kynslóðaskipti urðu á vesturbakkanum og þangað mætti beitumaður með þrjár stangir úti og girti beinlínis fyrir allan fisk við ósinn. Mér sjálfum til mikillar furðu varð ég ekkert fúll út í þessa girðingarvinnu við ósinn, ég hafði fengið nægju mína af fiski og ég átti líka spennandi erindi suður í Framvötn. Ég lét því gott heita og tók saman. Mér var nú samt hugsi um það hve margar stangir hver veiðimaður má vera með í Kvíslavatni. Ef ég væri með fleiri hendur þá væri nú gaman að geta verið með þrjár flugustangir á lofti samtímis.

Miðað við þann tíma sem ég í raun eyddi í veiði, þá var þetta rosalegur túr og eflaust hefði ég getað tekið mun fleiri fiska á þessum slóðum ef ég hefði ekki verið jafn sáttur eftir morgunvaktina eins og raun ber vitni. Veðrið lék við hvern sinn fingur, fiskurinn við fluguna og það er ómetanlegt að geta eytt svona fallegum degi á hálendinu. Frásögninni ætla ég að ljúka með smá hugleiðingum um ástand og viðhald vega, sjá hér að neðan.

Á þeim tæplega 600 km. sem ég ók um helgina, þá gafst nægur tími til að hugleiða hitt og þetta. Ég ók þrjá mismunandi fjallvegi og kaflar þeirra voru mjög misjafnir. Ég ók Sprengisand (F26) allt upp að Kistuöldu, þaðan yfir á Kvíslaveituveg Landsvirkjunar vestan Kvíslavatns allt niður að Versölum. Fjallabaksleið nyrðri (F208) frá Sigöldu og niður að Frostastaðavatni og Landmannaleið (F225) inn að Landvegi austan Búrfells. Ég ek frekar sparneytnu óbreyttu Bresku landbúnaðartæki en vitaskuld fóru einhverjir lítrar af olíu á þessu ferðalagi mínu. Á eldsneyti sem selt er á Íslandi eru lagðir skattar sem m.a. eiga að renna á til viðhalds vega og þessar tekjur hafa aukist gríðarlega á liðnum árum. Svo virðist vera sem samhengi hlutanna hefur eitthvað skolast til, því þessar auknu tekjur hafa ekki verið að skila sér til þeirra vegspotta sem liggja til grundvallar þessum tekjum. Þeir vegir sem ég flakkaði um er opnaðir að vori og fellst sú opnun helst í því að þangað er sendur veghefill sem lagfærir skemmdir eftir leysingar og heflar síðan yfir hann. Ég held svei mér þá að það sé ekkert meira sem lagt er til þessara vega það árið. Einn þessara vega sker sig verulega úr, það er Landmannaleið frá Búrfell og inn að gatnamótum við Fjallabaksleið nyrðri við Frostastaðavatn. Umferð um þennan veg hefur aukist töluvert meira á liðnum árum heldur en gengur og gerist um aðra fjallvegi. Stórvirkum fólksflutningabílum hefur fjölgað gríðarlega og álag á veginn hefur aldrei verið meira. Úrbætur sjást helst í fjölgun skilta sem vara við utanvegaakstri við þá kafla hans þar sem hann breiðir úr sér vegna þess að upprunalegur slóði er nánast orðinn ófær af sliti.

Sprengisandsleið (F26) á Þveröldu

Það hafa verið gerðar miklar, mjög miklar úrbætur á vegum sem liggja að forðabúrum stóriðju á Íslandi; virkjununum á Þjórsársvæðinu. Mig grunar reyndar að þar sér Vegagerðin stikkfrí, Landsvirkjun hefur fjármagnað þær framkvæmdir í tengslum við sín mannvirki og engu til sparað. Það er jú mikilvægt að eiga greiða leið að þessum mikilfenglegu undrasmíðum mannanna. En þegar kemur að undrasmíðum þess sem við Íslendingar vitum mæta vel að ræður öllu þegar á hólminn er komið, náttúrunni, þá er greinilega tómt í buddunni. Það er vissulega leið til að draga úr ágangi ferðamanna (innlendra og erlendra) að halda vegunum mátulega lélegum á hálendinu. Ég er ekki sammála þessu viðhorfi, þetta hefur hingað til heitið að pissa í skóinn sinn. Viðhald undir þörfum verður aðeins til þess að skemmdir verða meiri og umhverfi þeirra spillist af ágangi. Það hefur sýnt sig að gott viðhald vega, eins og t.d. á Veiðivatnasvæðinu, hefur létt álagi af náttúrunni og aukið virðingu ferðalanga og bætt umgengni. Hvernig væri nú að hrista aðeins upp í buddunni og færa nokkrar krónur af þeim sem verja á til viðhalds vega í olíu á veghefilinn og senda hann kannski tvisvar á ári upp á hálendi? Það gæti meira að segja litið vel út í ársskýrslu Vegagerðarinnar að geta sagst hafa tvöfaldað viðhald fjallvega.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
0 / 0 55 / 71 0 / 13 15 / 36 18 / 19

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com