Gíslholtsvatn, 1. apríl

Veðurguðirnir og sérlegir fulltrúar þeirra hér á landi, Veðurstofan, stóðu við allt sitt í dag. Það var kalt og dumbungur við Gíslholtsvatn fyrir hádegið í dag, en það rofaði heldur betur til upp úr því. Hæst náði hitinn í 8°C og sól skein í heiði allt þar til ég hélt heim á leið rétt fyrir kl.16

Vatnið er trúlega laust undan ís fyrir einhverju síðan, en hitastig þess náði 6°C í dag og skordýrin fara væntanlega á stjá hvað úr hverju og þá lifnar heldur yfir tilverunni. Ég var mátulega vongóður þegar ég rölti inn fyrir Svanhildartanga og prófaði á leiðinni allar mögulegar og ómögulegar flugur, hægan inndrátt, hraðan og með rykkjum eða bara hreint ekki neinn inndrátt.

Þannig að stutt saga verði ekki of löng, þá varð ég ekki var við fisk þá fimm klukkutíma sem ég var við vatnið. Reyndar fór drjúgur tími hjá mér í röltið inn með vatninu að norðan og annað eins í að sitja bara og njóta þess að vera loksins kominn aftur fram á vatnsbakkann, glápa út í loftið og njóta rjúkandi kaffibolla úti í guðsgrænni náttúrunni.

Þrátt fyrir fiskleysið, þá var þetta kærkominn dagur og langþráður eftir alla biðina í vetur.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 / 0 / 0 / 0 1

Gíslholtsvatn, 11. júní

Það var farið að nálgast mánuð frá því við fórum síðast í veiðiferð, þannig að það var ekki um annað að ræða en láta slag standa og nýta í það minnsta part úr laugardeginum í veiði. Gíslholtsvatn varð fyrir valinu því sunnudagurinn var frátekinn í Hlíðarvatnsdaginn.

Ekki var það veðrið sem varð þess valdandi að við vorum heldur sein á ferðinni á laugardaginn, en á áfangastað komumst við rétt um seinna kaffi og fengum að pota vagninum niður við sunnanvert vatnið, takk fyrir strákar að hleypa okkur svona alveg ofan í ykkur.

Himbrimapar á Gíslholtsvatni
Himbrimapar á Gíslholtsvatni

Áður en vagninn var settur upp, töltum við hjónin inn með vatninu til vesturs og gerðum heiðarlega tilraun til að setja í einhverja fiska. Frúin setti í afskaplega vænan og sprækan urriða sem tók flugunni með loftköstum og losaði sig snilldarlega af. Um leið og urriðinn tók þessi loftköst, köfuðu nálægir himbrimar og hafa trúlega gert sé þennan urriða að góðu þegar hann hafði sagt skilið við flugu frúarinnar. Sjálfur setti ég í einn titt sem fékk líf og þá eru nú öll afrek okkar talinn.

Eftir að hafa sett upp vagninn og svalað mesta þorstanum, tölti ég aftur inn með vatninu á meðan frúin litaðist aðeins um fyrir innan augnlokin. Í þá tæpa tvo klukkutíma sem ég barði vatnið með öllum mögulegum flugum varð ég ekkert frekar var við fisk, þannig að ég hætti snemma og tók á mig náðir að hætti gamalmenna, var sofnaður rétt um kl.23 og svaf eins og steinn fram undir kl.9  Kannski flensuskítur síðustu vikna hafði haft eitthvað með þetta að gera, en mikið ofboðslega var samt gott að komast út undir bert loft og út í sveit.

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 8 / 1 2 8

Gíslholtsvatn 6. og 7. júní

Sumarið hitti á helgi þetta árið, þ.e.a.s. ef ekkert verður nú meira úr því. Fyrsta ferð sumarsins á gamalkunnar slóðir, Gíslholtsvatn í Holtum. Við undum okkur austur fyrir fjall strax eftir vinnu á föstudaginn og byrjuðum umsvifalaust að vinda ofan af okkur. Gerðum lítið annað veiðitengt á föstudagskvöldið heldur en setja stangirnar saman, drógum okkur snemma í kojur og þóttumst ætla þeim mun fyrr á fætur.

Ég hef sagt það áður og segi það enn, það er svo frábært að komast út af malbikinu og leyfa stressinu að líða úr sér og það tókst heldur betur á laugardaginn. Okkur tókst að sofa af okkur fyrsta, annað og þriðja hanagal og fórum ekki framúr fyrr en að ganga 12. Haninn í Gíslholti var orðinn rámur af því að reyna að vekja okkur og gafst upp á endanum. Það sem maður getur sofið svona í útilegu, frábært.

Gíslholtsvatn, 6. júní 2015
Gíslholtsvatn, 6. júní 2015

Aldrei þessu vant langaði okkur að setja upp vagninn vestan við vatnið og auðvitað fengum við góðfúslegt leyfi til þess hjá ábúendum. Ætlunin var að reyna fyrir okkur meðfram bakkanum undir Gíslholtsfjalli, sem við og gerðum upp úr hádeginu og fram að seinna kaffi. Jú, við settum í samtals 5 bleikjur á þessu ráfi okkar út að tánni, en ekkert fór fyrir urriðanum. Við efumst aftur á móti ekki um að hann sé þarna á öðrum tímum dags og þá sérstaklega austast á ströndinni, margir skemmtilegir veiðistaðir þar. Bleikjan sem við kræktum í var öll í smærra lagi og ekki ólíklegt að henni sé að fjölga nokkur hressilega í vatninu, var nú nóg af henni fyrir.

Eftir ríkulegan kvöldverð og ágætis spjall við Sverri í Gíslholti um ofsetin vötn til heiða og á láglendi, ákváðum við að rölta inn með suðurbakka vatnsins og reyna fyrir okkur á kunnuglegum slóðum við vatnið. Það fór svo að ég setti í tvo prýðilega urriða og frúin í enn eina bleikjuna, undirmáls. Sæl og glöð með daginn, drógum við síðan sængur yfir höfuð og sofnuðum vært undir jarmi rolla og pípi mófugla, eitt og eitt rop úr rjúpu slæddist einnig með.

Annar af urriðum ferðarinnar
Annar af urriðum ferðarinnar

Sunnudagurinn rann upp og enn og aftur tókst okkur að sofa af okkur allar tilraunir hanans á bænum til að vekja okkur. Ekki var alveg eins heiðskýrt og á laugardeginum, en gott veður engu að síður og því röltum við í rólegheitum inn með vatninu að sunnan og þar settum við í þrjár bleikjur til viðbótar og þar af eina sem var hæf til matar.

Það kom fram í samtali okkar við Sverri að hugsanlega væri best að hirða alla bleikju sem kæmi á land, viðkoma hennar í vatninu væri slík að úr gæti orðið bleikjufár ef ekkert yrði að gert. Þegar kemur að þekkingu á ofsetnum vötnum eru ekki margir sem vita sínu viti eins vel og Sverrir og því ástæða til að huga að orðum hans. Við hjónin tókum í það minnst alla bleikju á land sem kom á hjá okkur, sumt nýtist í mat, annað ekki eins og gengur. Vonandi sjá veiðimenn sér fært að taka það með sér sem bítur á, það verður þá meira til skiptanna fyrir þær sem eftir verða í vatninu og bleikjan getur því orðið stærri.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 4 / 4 / 2 0 / 4 4 / 7

Gíslholtsvatn 6. sept.

Því verður víst ekki á móti mælt að það líður að hausti. Skordýrum á ferli fækkar, hægt og rólegar kólnar en …. það þarf ekki að leggja árar í bát og skjóta ferðavögnum í geymslu. Veðurspáin fyrir helgina var kannski ekki þess efnis að maður stefndi á langan flæking en þá getur maður alltaf skotist í dagsferð, jafnvel gist eina nótt. Og það var einmitt það sem við hjónin gerðum eftir vinnu á föstudag; helstu græjum skotið í skottið á bílnum og vagninn tengdur og stefnan tekin austur fyrir fjall, spáin fyrir laugardaginn var þokkaleg.

Rólyndis veður um morguninn og frúin byrjaði að kíkja til berja á meðan ég dró á mig vöðlur og reyndi aðeins fyrir mér undan suðurbakka vatnsins. Jú, ég sá til fiskjar en það var alveg sama hvað ég bauð, ekkert var nógu gott fyrir hann. Eftir nokkra stund og töluvert af berjum (kræki, aðal- og bara blá) slóst frúin í för með mér vestur með bakkanum. Jú, ég sá til fiskjar en ….  Svo sá ég annan fisk, 1,5 punda urriða. Glæsilegur fiskur sem var vægast sagt fullur af seiðum sem hann hafði hafði gert sér að góðu. Þetta var sem sagt fiskurinn sem frúin krækti í á Pheasant, djúpt og langt út frá bakkanum. Vafalaust einhver fallegasti urriði sem ég hef séð í sumar.

Annars er lítið til frásagnar af veiði. Eftir kaffihlé reyndi ég aftur fyrir mér, en án árangurs en naut þess í ríku mæli að fylgjast með smábleikjunni, fast uppi við bakkan þar sem hún var á sífelldum þönum fram og til baka og skartaði sínum fallegustu hrygningarlitum. Sannanlega skemmtilegt að fylgjast með henni.

Það hafði blundað svolítið í mér að labba með vatninu frá bænum og undir Gíslholtsfjalli, en þar sem einhver lurkur hefur verið í mér síðustu vikur varð ekkert úr því. Það virðist hausta svolítið að mér líkt og náttúrunni, ég labba bara út með vatninu síðar.

Frá Gíslholtsvatni
Frá Gíslholtsvatni

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 / 0 120 / 121 / 0 18 / 27 22 / 28

Gíslholtsvatn, 23. júní

Ég skrifa þessa ferð á daginn í dag, sunnudag, þótt við höfum í raun verið að veiða hálfan laugardag og hálfan sunnudag. Við sem sagt, renndum austur í Holtahrepp sem heitir víst orðið Ásahreppur og bönkuðum uppá að Gíslholti. Það er skemmst frá að segja að skv. venju var auðfengið leyfi til veiða, hefur að vísu hækkar frá því í fyrra, stöngin nú á 1.000 kr.

Nokkur strekkingur var á laugardaginn og vorum við hjónin því róleg við vagnin fyrir miðju vatni að sunnan, gerðum okkur e.t.v. einhverjar vonir um að hann lægði með kvöldinu, sem brást þó. Ég rölti þó fljótlega inn með vatninu til vesturs og varð fljótlega var við fisk, titti sem sóttu stíft í Pheasant. Ekki kom þó fiskur á fyrr en aflaklóin mætti á staðinn og brá sömu flugu undir og fékk urriða. Ekki stór, en hirtur þó. Á meðan gafst ég upp á sífelldu narti og setti Higa’s SOS undir og fékk þessa líka…… rosalega litlu bleikju sem fékk líf. Eitthvað fór hungrið að segja til sín fyrr en venjulega þannig að við röltum okkur aftur inn að vagni og byrjuðum að hita grillið. Á meðan smellti frúin maðki undir flot og henti út til að hafa eitthvað annað en dásamlegt útsýnið til að glápa á. Og viti menn, fyrsti alvöru fiskurinn, rúmlega punds urriði gerði sér ánamaðk að góðu af hlaðborði Tótu.

Eftir kvöldmat reyndum við aðeins fyrir okkur í Vestra Gíslholtsvatni, kannski meira svona til að sval forvitninni, en urðum ekki vör við fisk. Reyndar vorum við búin að heyra það frá ábúanda Gíslholtsvatns að vatnið gæfi stóra, mjög stóra fiska, en þeir væru heldur  liðfærri en í Austara vatninu og ekki alltaf auðvelt að hitta á þá.

Sunnudagurinn rann upp og stóð undir nafni. Glampandi sól og heldur stilltara heldur en á laugardaginn. Með morgunkaffinu fékkst enn einn urriðinn á maðk sem frúin vill endilega að verði skrifaður á mig þar sem ég henti flotinu út fyrir hana. Fiskurinn lét mikið til sín taka þarna undir bakkanum hjá okkur, svo mjög að við gáfumst upp og smelltum okkur í vöðlurnar og létum vaða. Ég verð nú að viðurkenna að þegar ég var búinn að fá enn einn bleikjutittinn á Pólskan Pheasant varð mér hugsað til ferðar okkar hjóna í vatnið í fyrra. Ég er bara ekki að smella með þessu vatni. Frúin æfði viðbragðsflýti með þurrflugu og uppskar heilmikla æfingu þar til þokkaleg bleikja sat loks föst. Eftir piknik í hádeginu röltum við aftur vestur með bakkanum og ég ákvað að láta Pheasant alveg vera, hann færði mér bara titti, og setti Higa’s SOS undir. Já, takk fleiri tittir. Ég sem sagt fékk ekki einn einasta fisk sem ég hirti á flugu í þessari ferð. Konan hirti tvo og svo þessir tveir á maðkinn.

Við höfðum spurnir af því að vatnið hefði komið afskaplega hægt til þetta sumarið, mun síðar en í fyrra. Það munar reyndar tæpum mánuði á ferð okkar í ár og í fyrra. Í fyrra var töluverður gróður komin til í vatninu á löngum kafla meðfram suðurbakkanum, en í ár, mánuði síðar, var þar nánast ekki stingandi strá/stör. Það er svolítið sláandi að sjá það svona berlega hve vorið hefur verið okkur kalt þetta árið.

Veiðitölur ársins

Bleikjur í ferð Bleikjur alls Urriðar í ferð Urriðar alls Fj.ferða
 2 / 5 2 / 7 / 1 5 / 11 21

Gíslholtsvatn, 26-28 maí.

Loksins, loksins, loksins. Hið nafnlausa veiðifélag fór í sína fyrstu útilegu-og veiðiferð sumarsins. Fyrir valinu varð vatn sem ekkert okkar hafði prófað áður, Gíslholtsvatn í Holtahreppi. Sökum slælegs veðurs var ekki lagt af stað fyrr en á laugardaginn, sumir síðar en aðrir. Mosfellingar voru mættir við suðurbakka vatnsins þegar við Reykvíkingarnir renndum í hlað að Gíslholti. Eftir stutt stopp og upplýsingar frá húsfreyju Bryndísi komum við okkur fyrir á ágætis bala í nánd við snyrtilegu aðstöðuna (kamarinn) hjá Mosfellingunum. Hér er ekki verið að gera gys að umræddum kamri, hann er með sanni einhver snyrtilegasti kamar sem ég hef haft ánægjuleg kynni af í gegnum tíðina.

Gíslholtsvatn

Veðrið var frekar hryssingslegt á laugardaginn og lítið um aflabrögð, sjálfur tók ég eitt peð á Blóðorm sem ég sleppti og fór bara jákvæður í bólið í sudda og rigningu. Upp rann sunnudagurinn, bjartur og léttur yfir þannig að veiðifélagar drifu sig fljótlega út í vatn. Eitthvað dró nú fljótlega úr gleði minni, því á meðan ég hamaðist við að prófa Peacock í ýmsum myndum, mýpúpur, Pheasant Tail og fleiri frægar flugur, var það eina sem ég hafði upp úr krafsinu mjög smávaxnar bleikjur sem allar fengu líf, 4 stk. samtals. Bjarti punkturinn í öllu þessu smælki var að konan og einhver samsuða mín af PT og Héraeyra tóku hverja bleikjuna á fætur annarri auk rígvænns urriða, samtals 9 stk. Eftir ágætt hlé frá 16:30 og framyfir kvöldverð fór vatnið alveg á kostum og dásamlegt umhverfið naut sín í kvöldsólinni, en ekki var mikið um aflabrögð. Ég þori alveg að viðurkenna að mér var nú alveg hætt að lítast á blikuna þegar ég lagðist á koddann skömmu eftir miðnættið; Var ég alveg búinn að missa töddsið?

Sonurinn með bleikjuna á

Mánudagurinn rann upp frekar þungbúinn en fljótlega reif hann þetta af sér og vatnið skartaði sínu fegursta og loksins fór maður að sjá einhverjar alvöru uppitökur. Við hjónakornin röltum okkur út með ströndinni og ég setti Mýpúpu undir og tók loksins eina bleikju sem var nægjanlega stór að réttlætanlegt væri að blóðga hana og setja í netið. Skömmu seinna horfði ég á tvær bleikjur sem hreinlega fúlsuðu við umræddri flugu þannig að ég skipti yfir í Pheasant Tail, nánast original og tók þrjár bleikjur til viðbótar, þar af tvær sem ég hirti. Á meðan þessu fór fram bætti frúin í safnið, tæplega 2 punda urriða og vænni bleikju. Ekki má gleyma syninum sem tók fram kaststöngina, setti í eina væna á sunnudagskvöldið sem nagaði sig samt af spúninum á síðasta augnabliki. En strákurinn tók síðan eina þokkalega rétt upp úr hádegi mánudagsins þannig að enginn núllaði í þessari ferð. Veiðifélagarnir hafa frá ýmsu að segja og hver veit nema þeirra saga komi á Icepete innan tíðar.

Frúarfiskar sunnudags

Niðurstaða helgarinnar alveg þokkaleg og mestar líkur á að við bregðum okkur aftur austur fyrir Þjórsá og heimsækjum vatnið síðar í sumar.

Svona almennt um vatnið, ýmislegt gagnlegt og þær flugur sem ég hef séð gefa í því, má væntanlega lesa um hér á blogginu innan tíðar. Þangað til þá ætla ég að láta mér nægja að segja að í vatninu er töluvert af smávaxinni bleikju og einn og einn nokkuð vænn urriði sem er alltaf gaman að glíma við. Vatnið er eitthvað að koma til eftir nokkur mögur ár í stangveiði og örugglega þess virði að heimsækja.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 22 9 4 1 15 11

Ummæli

30.05.2012 – G. Hjálmar: Ég var í dag, undir hlíðinni beint á móti kamrinum. Fékk tvær smáar bleikjur sem fengu líf á ný. Vatnið minnir mig um margt á Hítarvatnið nema þar er smælkið urriði og inn á milli ágætis bleikjur.
30.05.2012 – Kristján: Þú segir nokkuð, ég náði ekki að tengja fyrr en þú nefnir þetta. nokkuð til í þessu. Nema þá helst að eitthvað er nú minna af flugu við Gíslholtsvatnið heldur en við Hítarvatnið. Mér skilst á Svarta Zulu að það hafi verið rosaleg fluga þar um síðustu helgi.