Því verður víst ekki á móti mælt að það líður að hausti. Skordýrum á ferli fækkar, hægt og rólegar kólnar en …. það þarf ekki að leggja árar í bát og skjóta ferðavögnum í geymslu. Veðurspáin fyrir helgina var kannski ekki þess efnis að maður stefndi á langan flæking en þá getur maður alltaf skotist í dagsferð, jafnvel gist eina nótt. Og það var einmitt það sem við hjónin gerðum eftir vinnu á föstudag; helstu græjum skotið í skottið á bílnum og vagninn tengdur og stefnan tekin austur fyrir fjall, spáin fyrir laugardaginn var þokkaleg.
Rólyndis veður um morguninn og frúin byrjaði að kíkja til berja á meðan ég dró á mig vöðlur og reyndi aðeins fyrir mér undan suðurbakka vatnsins. Jú, ég sá til fiskjar en það var alveg sama hvað ég bauð, ekkert var nógu gott fyrir hann. Eftir nokkra stund og töluvert af berjum (kræki, aðal- og bara blá) slóst frúin í för með mér vestur með bakkanum. Jú, ég sá til fiskjar en …. Svo sá ég annan fisk, 1,5 punda urriða. Glæsilegur fiskur sem var vægast sagt fullur af seiðum sem hann hafði hafði gert sér að góðu. Þetta var sem sagt fiskurinn sem frúin krækti í á Pheasant, djúpt og langt út frá bakkanum. Vafalaust einhver fallegasti urriði sem ég hef séð í sumar.
Annars er lítið til frásagnar af veiði. Eftir kaffihlé reyndi ég aftur fyrir mér, en án árangurs en naut þess í ríku mæli að fylgjast með smábleikjunni, fast uppi við bakkan þar sem hún var á sífelldum þönum fram og til baka og skartaði sínum fallegustu hrygningarlitum. Sannanlega skemmtilegt að fylgjast með henni.
Það hafði blundað svolítið í mér að labba með vatninu frá bænum og undir Gíslholtsfjalli, en þar sem einhver lurkur hefur verið í mér síðustu vikur varð ekkert úr því. Það virðist hausta svolítið að mér líkt og náttúrunni, ég labba bara út með vatninu síðar.

Veiðitölur ársins
Bleikjur í ferð | Bleikjur alls | Urriðar í ferð | Urriðar alls | Fj.ferða |
---|---|---|---|---|
0 / 0 | 120 / 121 | 1 / 0 | 18 / 27 | 22 / 28 |
Senda ábendingu