Flýtileiðir

Gíslholtsvatn, 26-28 maí.

Loksins, loksins, loksins. Hið nafnlausa veiðifélag fór í sína fyrstu útilegu-og veiðiferð sumarsins. Fyrir valinu varð vatn sem ekkert okkar hafði prófað áður, Gíslholtsvatn í Holtahreppi. Sökum slælegs veðurs var ekki lagt af stað fyrr en á laugardaginn, sumir síðar en aðrir. Mosfellingar voru mættir við suðurbakka vatnsins þegar við Reykvíkingarnir renndum í hlað að Gíslholti. Eftir stutt stopp og upplýsingar frá húsfreyju Bryndísi komum við okkur fyrir á ágætis bala í nánd við snyrtilegu aðstöðuna (kamarinn) hjá Mosfellingunum. Hér er ekki verið að gera gys að umræddum kamri, hann er með sanni einhver snyrtilegasti kamar sem ég hef haft ánægjuleg kynni af í gegnum tíðina.

Gíslholtsvatn

Veðrið var frekar hryssingslegt á laugardaginn og lítið um aflabrögð, sjálfur tók ég eitt peð á Blóðorm sem ég sleppti og fór bara jákvæður í bólið í sudda og rigningu. Upp rann sunnudagurinn, bjartur og léttur yfir þannig að veiðifélagar drifu sig fljótlega út í vatn. Eitthvað dró nú fljótlega úr gleði minni, því á meðan ég hamaðist við að prófa Peacock í ýmsum myndum, mýpúpur, Pheasant Tail og fleiri frægar flugur, var það eina sem ég hafði upp úr krafsinu mjög smávaxnar bleikjur sem allar fengu líf, 4 stk. samtals. Bjarti punkturinn í öllu þessu smælki var að konan og einhver samsuða mín af PT og Héraeyra tóku hverja bleikjuna á fætur annarri auk rígvænns urriða, samtals 9 stk. Eftir ágætt hlé frá 16:30 og framyfir kvöldverð fór vatnið alveg á kostum og dásamlegt umhverfið naut sín í kvöldsólinni, en ekki var mikið um aflabrögð. Ég þori alveg að viðurkenna að mér var nú alveg hætt að lítast á blikuna þegar ég lagðist á koddann skömmu eftir miðnættið; Var ég alveg búinn að missa töddsið?

Sonurinn með bleikjuna á

Mánudagurinn rann upp frekar þungbúinn en fljótlega reif hann þetta af sér og vatnið skartaði sínu fegursta og loksins fór maður að sjá einhverjar alvöru uppitökur. Við hjónakornin röltum okkur út með ströndinni og ég setti Mýpúpu undir og tók loksins eina bleikju sem var nægjanlega stór að réttlætanlegt væri að blóðga hana og setja í netið. Skömmu seinna horfði ég á tvær bleikjur sem hreinlega fúlsuðu við umræddri flugu þannig að ég skipti yfir í Pheasant Tail, nánast original og tók þrjár bleikjur til viðbótar, þar af tvær sem ég hirti. Á meðan þessu fór fram bætti frúin í safnið, tæplega 2 punda urriða og vænni bleikju. Ekki má gleyma syninum sem tók fram kaststöngina, setti í eina væna á sunnudagskvöldið sem nagaði sig samt af spúninum á síðasta augnabliki. En strákurinn tók síðan eina þokkalega rétt upp úr hádegi mánudagsins þannig að enginn núllaði í þessari ferð. Veiðifélagarnir hafa frá ýmsu að segja og hver veit nema þeirra saga komi á Icepete innan tíðar.

Frúarfiskar sunnudags

Niðurstaða helgarinnar alveg þokkaleg og mestar líkur á að við bregðum okkur aftur austur fyrir Þjórsá og heimsækjum vatnið síðar í sumar.

Svona almennt um vatnið, ýmislegt gagnlegt og þær flugur sem ég hef séð gefa í því, má væntanlega lesa um hér á blogginu innan tíðar. Þangað til þá ætla ég að láta mér nægja að segja að í vatninu er töluvert af smávaxinni bleikju og einn og einn nokkuð vænn urriði sem er alltaf gaman að glíma við. Vatnið er eitthvað að koma til eftir nokkur mögur ár í stangveiði og örugglega þess virði að heimsækja.

Veiðitölur ársins

Bleikjur Sleppt Urriðar Sleppt Fj.ferða Núllað
 22 9 4 1 15 11

Ummæli

30.05.2012 – G. Hjálmar: Ég var í dag, undir hlíðinni beint á móti kamrinum. Fékk tvær smáar bleikjur sem fengu líf á ný. Vatnið minnir mig um margt á Hítarvatnið nema þar er smælkið urriði og inn á milli ágætis bleikjur.
30.05.2012 – Kristján: Þú segir nokkuð, ég náði ekki að tengja fyrr en þú nefnir þetta. nokkuð til í þessu. Nema þá helst að eitthvað er nú minna af flugu við Gíslholtsvatnið heldur en við Hítarvatnið. Mér skilst á Svarta Zulu að það hafi verið rosaleg fluga þar um síðustu helgi.

Eitt svar við “Gíslholtsvatn, 26-28 maí.”

  1. G. Hjalmar Avatar
    G. Hjalmar

    Ég var í dag, undir hlíðinni beint á móti kamrinum. Fékk tvær smáar bleikjur sem fengu líf á ný. Vatnið minnir mig um margt á Hítarvatnið nema þar er smælkið urriði og inn á milli ágætis bleikjur.

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com