FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • September er sumar

    16. október 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ég heyrði það út undan mér að Veðurstofa Íslands telur september til sumarmánaða og ég sé ekkert sem réttlætir það að hirða einhverja bandbreidd af internetinu til að fá þetta staðfest. Ástæðan er afar einföld, ég er hjartanlega sammála VÍ.

    Sá september sem kvaddi okkur í ár var reyndar með afbrigðum mildur, víðast hvar, framan af, svona að mestu leiti. Hann kvaddi okkur reyndar með hvelli, en heilt yfir var hann hlýr og mildur, víða mun betri heldur en aðrir mánuðir sumars. Þrátt fyrir milt veðurfar, þá eiga ákveðnar breytingar sér stað í náttúrunni í september sem veiðimenn verða að taka mark á. Líftími gróðurs fer þverrandi þegar líður á mánuðinn og þar með lífríkis í heild sinni og þessu verða veiðimenn að taka mark á.

    Sá september sem blasti við okkur á láglendinu var reyndar örlítið fyrr á ferðinni en dagatalið sagði til um uppi á hálendi, ætli hann hafi ekki byrjað í síðustu viku ágúst þegar ég skrapp dagsferð inn að Framvötnum á Landmannaafrétti. Þó það stæði ágúst á almanakinu og sól skein í heiði, hitastigið vel yfir 10°C og logn að mestu, þá var kominn september í lífríkið. Næturnar hafa væntanlega verið orðið töluvert svalari og það tók lengri tíma fyrir vatnið að vakna. Flugurnar fóru ekki á stjá fyrr en vel upp úr hádegi, stöldruðu stutt við, kláruðu sitt og fóru væntanlega inn á veiðilendurnar miklu skömmu síðar.

    Ef ég hefði verið á ferðinni í, segjum júlí eða byrjun ágúst, þá hefði fiskur verið að vaka um allt vatn að grípa ný klakið æti með látum. Varla nokkur uppitaka, ekkert líf að sjá, en þekkjandi vatnið sem ég stóð við var ég alveg öruggur á því að þarna var fiskur og sá fiskur var að borða. Í eðlilegu ári eru aðeins tvö tímabil sem fiskur étur nær ekkert; þegar hægist á meltingunni yfir köldustu mánuðina og þegar hann vinnur í fjölgun stofnsins. Allan annan tíma er hann á sífeldu narti, étur allt sem fyrir hann kemur eða hann finnur á rápi. En hvar var hann þá að éta og hvað?

    Þar sem umrætt vatn var setið urriða voru ákveðnar líkur á að hann væri einhvers staðar við yfirborðið eða ekki langt þar frá. Stundum er talað um að fengsælustu svæði hvers vatns séu við botninn og á efstu 50 sm vatnsbolsins. Það er mín reynsla að svæðið við yfirborðið dýpkar nokkuð síðla sumars, seinnipart ágúst og í september og nær þá allt að 1 metra niður í vatnið og að þessari breytingu hef ég aðlagað mig. Aðlögunin þarf alls ekki að fara fram með breyttu flugnavali, mögulega stærð flugna, en heilt yfir er það mín upplifun að þær flugur sem hafa gefið á miðju sumri, þær virka alveg eins vel að hausti. Það er óþarfi að fara í einhverjar stórkostlegar sviptingar í flugnavali, sköpulag ætis er nær alltaf það sama, ef það er á annað borð til staðar. Hér set ég strax smá hnykk á yfirlýsingar um flugnaval; hafðu reynslubolta í farteskinu sem er með lengra skotti sem dillar sér meira eða með örlítið meira bling í væng eða á búk. Að öðru leiti má flugan vera þekkt og alveg eins og sú sem veiddi fisk á miðju sumri.

    En aftur að þessari veiðiferð. Ég veiði gjarnan á intermediate línu, hún hentar mér vel og þeirri veiði sem ég stunda óháð tíma árs og því sá ég enga ástæðu til að breyta út af vananum. Ég aftur á móti leyfði línunni að sökkva nær 1 metra í vatnið heldur en 50 sm áður en ég hóf inndrátt, einfaldlega vegna þess að ég sá ekkert líf rétt undir yfirborðinu þó það væru langlappa hrossaflugur að koma upp, taka flugið í skamma stund, hitta aðra flugu og dýfa síðan afturendanum örstutt í vatnsborðið. Þetta var mér vísbending um að fiskurinn væri ekki á eftir flugunni, sem reyndar kemur ekkert á óvart þegar litið er til stærðar fullvaxta flugu m.v. lirfu hennar. Þegar á boðstólum er bústinn vel innpökkuð lirfa eða langlappa mjóna, þá er valið ekki erfitt.

    Flugurnar sem ég valdi voru áberandi og í björtum lit þar sem sól skein í heiði. Hvað þær hétu er reyndar aukaatriði, það var sköpulag þeirra og litasamsetning sem skiptir mestu máli. Í þessari veiðiferð voru það þrjár flugur sem stóðu upp úr, allar með svipuðu litarhafti og sumir kunna að segja að þær séu sömu ættar; Gullbrá, Gullið og persónuleg samsuða mín sem er lítið annað en krókur, gult craftfur og slatti af gylltu gliti. Umfram allt voru þessar flugur ekki þyngdar því ég vildi ekki leyfa þeim að ráð dýptinni og þær urðu að geta dillað sér óhindrað í vatninu og sem fyrst því þær höfðu ekki nema þennan eina metra til að leika sér á. Stærð flugnanna var í meðallagi, hefðbundinn votflugukrókur #10 lýsir stærðinni e.t.v. best.

    Inndrátturinn var margbreytilegur og hann skipti mögulega mestu máli. Þar sem ég var tiltölulega snemma á ferðinni miðað við hitastig, þá byrjaði ég frekar rólega á minn mælikvarða og var strax í fiski. Um leið og sólin náði að hita yfirborð vatnsins að einhverju marki tóku lirfurnar við sér og það dró úr nartinu. Skipta um flugu? Nei, skerpa aðeins á inndrættinum, meiri hraða með stuttum pásum á milli og ég komst aftur í fisk. Drægi ský fyrir sólu, hægði ég aftur á inndrættinum en hélt mig við einhverja þessara þriggja flugna sem áður eru taldar. Ég sá ekki nokkra ástæðu til að breyta um flugufjölskyldu, þessar höfðu gefið og gáfu ef ég hafði vit á að færa fluguna til innan 1 metra frá yfirborðinu með því að hefja inndrátt fyrr eða bíða aðeins lengur og breyta um inndrátt.

    Veiðifélagi minn þennan dag var heldur seinni til að ná fyrsta fiski heldur en ég og þar skipti staðarval ekki máli að mínu viti, því um leið og hann skipti í yfir í sömu flugufjölskyldu og ég hafði valið, þá fóru þeir líka að taka á þeim bænum. Á þeim tíma sem við eyddum við vatnið settum við samtals í 25 fiska sem sumir hverjir fengu að koma með okkur til byggða á meðan aðrir héldu áfram að njóta þess að gúffa í sig fyrir veturinn, fita sig því það er jú það sem fiskurinn gerir síðla sumars. Lærdómur sem ég þykist hafa haft út úr þessari ferð eins og fleiri síðsumarsferðum er einfaldlega sá að það þarf ekki að hoppa öfganna á milli í flugnavali þó sumri sé farið að halla, breyttu úr af eigin vana og stilltu þig inn á lífríkið og hvar fiskurinn heldur sig, þá ertu í ágætis málum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Ofurkraftar

    13. október 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Sumir veiðimenn eru ofurmenni, það er ekki nokkur spurning. Eitt einkenna ofurmenna er að þeir öðlast ofurkrafta og það þarf ákveðið margar mínútur í hverri bíómynd áður en þeir læra að beita þessum ofurkröftum sínum á skynsamlegan hátt. Það eru nefnilega bara vondu karlarnir sem hamast endalaust við að brjóta allt og bramla með ofurkröftunum sínum í heilar 90 mínútur og öll vitum við hvernig fer fyrir vonda karlinum í lok myndarinnar.

    Þegar fiskur hefur tekið og viðureignin stendur sem hæst þá getur hann tekið upp á því að velta sér og þá er nú eins gott að ofurmennið á bakkanum hafi lært að hemja kraftana sína. Ég veit ekki til þess að þetta háttarlag eigi sér ákveðið heiti á íslensku, en enskumælandi hafa nefnt þetta Deathrole sem RÚV mundi væntanlega þýða sem Dauðarullan eða eitthvað ennþá verra ef um væri að ræða ofurhetjumynd, bara svo við höldum okkur við myndlíkinguna.

    Þegar fiskurinn tekur upp á þessum skolla, þá er eins gott að vera ekkert að taka of mikið á honum, gefðu honum frekar lausan tauminn heldur en hitt. Segjum sem svo að þú hefur tryggt fluguna í munnviki fiskins, heldur nokkur þétt við og þreytir hann og allt lítur ljómandi vel út, en þá … tekur hann upp á því að velta sér og í miðri veltunni (þegar hann snýr í raun á hvolf) er átakið allt í einu þannig að þú ert í raun að draga fluguna úr út munnvikinu á honum.

    Þegar þannig ber undir þarf ofurmennið á bakkanum að geta gefið eftir, leyft fiskinum að klára veltuna og taka þá á móti, ekki fyrr. Oftar en ekki hættir fiskurinn þá við að velta sér aftur og veiðimaðurinn getur haldið áfram að þreyta hann að landi.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Stutta strippið

    12. maí 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Mér finnst ekkert leiðinlegra að strippa skrautlega straumflugu heldur en næsta manni, í það minnsta flestum veiðimönnum. Jú, ég trúið því alveg að það séu til veiðimenn sem elska það eitt að draga fluguna alveg löturhægt, en sorrý, þið eruð ekki umfjöllunarefnið í þessari grein, eða hvað?

    Það mætti halda að ég hafi ekkert annað að gera en vafra um á netinu og lesa veiðiblogg, en það er ekki satt, ég les líka töluvert af greinum um vötn og dýralíf. Það var einmitt ein slík sem rifjaðist upp fyrir mér í sumar sem leið þegar ég óð yfir grynningar í vatni þar sem urmull af hornsílum syntu um. Dýpi vatnsins var ekki meira en svo að ég sá vel til botns og gat fylgst með atferli þeirra og í fyrstu koma það mér á óvart að þau voru ekkert svo stygg, syntu bara þarna á milli lappanna á mér og létu sér fátt um finnast. Annað slagið kom þó einhver styggð að þeim og þau tóku á sundsprett.

    Hornsíli

    Þegar ég horfði þarna á þau þá fór ég að líta í eigin barm. Jú, þarna voru festar nokkrar flugur sem gátu alveg átt við stærð og litarhaft þessara hornsíla en þegar mér varð litið á hendur mínar, þá skaut annarri hugsun niður í kollinn á mér. Það var þessi grein frá Kanada um atferli hornsíla sem ég las fyrir margt löngu síðan. Eflaust var margt merkilegt í þessari grein, en það sem ég man helst var að höfundur hennar fullyrti að sundsprettur hornsíla væri töluvert styttri heldur en veiðimenn virðast halda, sérstaklega þegar heitt er í veðri.

    Hornsílin sem ég fylgdist með voru hreint ekkert að taka löng sundtök, miklu frekar á rólegu dóli án sýnilegra kippa. Þegar styggð komst að þeim, hvort sem það var vegna mín eða einhvers annars, þá voru þetta stuttir kippir, ekki nema 2 til 5 sm í hvert skipti með miklu lengri pásum heldur ég hef vanið mig á að taka í inndrætti. Svo ég vísi nú aftur í þessa grein sem ég las, þá nefndi höfundur hennar mini-strip sem miklu vænlegri inndrátt heldur en þennan 1 – 2 feta sem margir nota. Það sem hann kallaði mini-strip var ekki nema 1 til 2 tommur, jafnvel styttra og með töluverðum pásum á milli.

    Það var raunar ekki fyrr en nokkru síðar að mér gafst færi á að prófa þetta stutta stripp og viti menn, það hljóp alveg ágætur 4 pundari á hjá mér eftir að ég hafði verið að hamast með mitt venjulega, lengra og hraðara stripp í þó nokkurn tíma án árangurs. Nú skal alveg ósagt látið hvort ég hafi einfaldlega verið heppinn eða stutta strippið hafi verið meira í ætt við það sem hornsílið ástundaði.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þungar púpur eða þyngri taum?

    28. apríl 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Allt frá því kúluhausar í yfirþyngd komu fram á sjónarsviðið, þá hefur maður ekkert endilega viljað snerta mikið á þungum taumum, kúlurnar hafa eiginlega séð um að koma flugunni niður fyrir mann. En með tíð og tíma hafa farið að renna á mann tvær, ef ekki þrjár grímur og maður fer að velta fyrir sér hvort þungar púpur séu endilega rétta svarið. Ég hef ekkert endilega komist að ákveðinni niðurstöðu um þetta, en það er ýmislegt sem ég hef velt fyrir mér um kosti og galla þyngri flugna.

    Eigum við ekki að byrja á því augljósa; þungar flugur eiga stundum erfitt með að hefja sig til flugs. Þó randaflugan sé sögð brjóta öll lögmál loftfræðinnar, á hreint og beint ekki að gera flogið með þennan bústna, loðna búk og litlu vængi, þá ná önnur lögmál yfir þungar flugur sem við framleiðum. Við beitum tækjum og tólum til að láta fluguna fljúga, hnýtum hana á taum sem tengdur er línu sem fær afl sitt úr stönginni sem við höldum á. Þannig komum við, með mis miklu átaki, þungum flugum út á vatnið þar sem þær sökkva. Auðvitað er þetta svolítið ýkt, það þarf sjaldnast mjög mikið afl til að koma þyngdri púpu út á vatnið. En þegar í vatnið er komið, þá tekur annað lögmál við. Hreyfing þungrar flugu er stirðbusalegri heldur en léttrar flugu, það gefur augaleið. Jafnvel þótt flugan sé tengd við flotlínu, þá er eigin þyngd hennar alltaf sú sama og sú þyngd dregur úr hreyfanleika hennar.

    Ef við setjum okkur í spor fisksins, þá horfir hann á skordýr sem svamlar um eða rís upp að yfirborðinu nokkuð átakalaust, svona yfirleitt. Mikið af þessum skordýrum sem hann á að venjast að séu á ferðinni, hafa safnað í smá loftbólu til að hjálpa sér við að rísa upp að yfirborðinu og þar af leiðandi er hreyfing dýrsins létt og leikandi, ekki þung og silaleg. Einfaldasta lausnin á þessum stirðbusahætti þungu flugunnar er að hafa hana léttari og hnýta hana á léttan taumaenda sem festur er á þungan eða þyngdan taum. Þetta er í raun þrautreynd aðferð sem fluguveiðimenn masteruðu hér á árum áður, áður en ofurþyngdar púpur tóku völdin, þ.e. að veiða með þungum taum eða taum sem hefur verið þyngdur með s.k. höglum til að koma honum niður. 10 – 20 sm taumaendi á slíkum taum nægir oftast til að leyfa flugunni að líða fram og til baka, upp og niður, létt og áreynslulaust.

    Þessar vangaveltur mínar eiga kannski helst við í vatnaveiði þar sem straumur er hvorki til trafala eða aðstoðar við hreyfingu púpunnar. Eftir sem áður eru þyngdar púpur eflaust besti kosturinn til að koma flugunni niður, fljótt og örugglega fyrir fiskinn í rennandi vatni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Taka sjóbbar ekki þurrflugu?

    12. apríl 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Hin síðari ár hef ég lítið farið í sjóbirting nema þá helst til að prófa einn og einn veiðistað og athuga hvort ég hafi eitthvað skipt um skoðun á því að láta niðurgöngufisk í friði. En á árum áður þótti það sjálfsögð björg að hausti að veiða spikfeitan urriða, hvort heldur staðbundinn fisk eða þann sem var að skila sér upp í árnar eftir sumardvöl í saltinu. Áður en einhver fer að missa sig, fussa og sveia og predika um veiða og sleppa, vernda birtinginn o.s.frv. þá skulum við hafa það á hreinu að á þessum tíma dagaði fiskur ekki uppi í frystikistum þorpsbúa og það var sá fiskur í ánni sem hún bar og það var nóg handa öllum. Veiðimenn þá, rétt eins og obbi veiðimanna í dag, voru ábyrgir og veiddu það eitt til matar sem fjölskyldan gat torgað. Veiða og sleppa var óþekkt, menn einfaldlega slepptu því að veiða ef fiskurinn var of smár eða lítið af honum.

    Fyrir einhverjum árum síðan varð mér hugsað til þessa tíma og orðað það í framhjá hlaupi við ágætan veiðimann hvaða flugur hann notaði í sjóbirtinginn. Jú, ég fékk greið svör um lit og lögun ýmissa straumflugna en svo gerði ég mig sekan um eitt allsherjar bull sem setti allt samtalið í hnút. Bullið kom fram í spurningunni um það hvort birtingurinn tæki ekki þurrflugu rétt eins og annar urriði. Ég sleppi því alveg að lýsa viðbrögðum viðmælanda míns, en það var nokkuð ljóst að ég var á einhverjum stórkostlegum villigötum, ef ekki hraðbraut til helvítis; Sjóbirtingur tekur ekki þurrflugu! 

    Seinna komast ég að því að þessi álitsgjafi minn hafði hreint ekki rétt fyrir sér, sjóbirtingur tekur þurrflugu ef hún er í boði. Það eru nokkrar kenningar uppi um það hvers vegna sjóbirtingur tekur þurrflugu rétt eftir að hann er kominn úr saltinu. Ein þeirra snýr að því að á meðan birtingurinn er í útvötnun, þ.e. að aðlaga sig ferskvatninu, þá sé fluga auðmelt miðað við margt annað æti og því sækir fiskurinn í hana. Önnur kenning sem ég heyrði snýr einfaldlega að því að ferskvatnið kveikir ákveðnar æskuminningar sjóbirtingsins þegar hann kemur til baka úr sjó. Sjóbirtingur er jú einfaldlega urriði sem eytt hefur fyrstu tveimur til fimm árum ævi sinnar í ferskvatni og þar étur hann jú flugu þegar hún er á boðstólum.

    Því miður virðist það vera sem svo að veiðimenn setji þurrfluguna allt of sjaldan undir þegar þeir eru í birtingi. Helst gerist þetta þegar ekkert hefur gefið, öll boxin prófuð og aðeins þurrfluguboxið eftir. Þær eru nokkrar sögurnar sem ég hef heyrt af slíkum tilfellum og margur maðurinn hefur gert glimrandi góða veiði í birtingi á þurrflugu, jafnvel í köldu veðri eða skoluðu vatni.

    Eins og annað flugnaval veiðimanna, þá eru þurrflugurnar misjafnar sem veiðimenn mæla með. Sumir telja klassískar flugur úr ranni Wulff vera þær bestu á meðan aðrir leita í framandi froðuflugur með lappir í allar áttir. Aðrir hafa nefnt til sögunnar klassískar þurrflugur eins og Muddler, en væntanlega snýst þetta töluvert um tilfinningu veiðimanna fyrir því sem gefur, trú þeirra á flugunni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Spænska rótin

    23. desember 2021
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Aðstæður til fluguveiði eru mismunandi og það upplifðu Spánverjar fljótlega þegar allir byrjuðu á því að prófa Pólsku, Tékknesku og Frönsku stuttlínu tæknina.

    Eins og fram hefur komið í þessum stuttu pistlum um mismunandi rætur Euro Nymphing, þá henta framangreindar uppsetningar á taum ekkert sérstaklega vel þegar vatnið er dýpra en 6 fet og rennur hægt. Þetta vissu veiðimenn á Spáni sem þekkja ljónstyggan fisk hálendisins á Spáni þar sem fjarlægð veiðimanns frá fiski þarf að vera u.þ.b. 30 fet ef hann ekki að styggjast. Ein leið til að vinna bug á þessu er að nota taum sem er 25 fet eða lengri, en þá reynir heldur betur á kasttæknina.

    Almennt eru Spænskir taumar nær 15 fetum, þessir ógnarlöngu 30 feta taumar eru frekar undantekning.

    ① eru 10 – 20 fet af 4X glæru taumaefni sem tengd eru flugulínunni.

    ② eru 2 – 3 fet af 5X glæru fluorocarbon taumaefni.

    ③ er 1 fet af 5X ljómandi / marglitu fluorocarbon taumaefni, tökuvarinn.

    ④ eru 2 – 3 fet af 5X glæru fluorocarbon taumaefni.

    Það sem vekur athygli við þennan taum er að hann er nánast í level frá byrjun til enda, þ.e. hann byrjar í 4X sverleika og enda í 5X. En þetta er vitaskuld aðeins ein útfærsla hans og það kæmi mér ekkert á óvart að útfærslurnar séu nærri eins margar og sprænurnar á Spáni eru, ef það segir einhverju eitthvað.

    Í ákveðinni útfærslu þessa taums sem ég rakst á var notaður kónískur taumur í hluta ① í mismunandi lengdum eftir því hver heildarlengd taumsins átti að vera. Fyrir 18 feta taum var byrjað á 9 feta kónískum 4X taum og fyrir 21 feta var byrjað á 15 feta kónískum af sama sverleika. Það fylgir sögunni að vilji menn veiða afleggjara á svona taum, þá sé farsælast að festa hann við samsetningu hluta ③ og ④ þannig að tökuvarinn sé því sem næst yfir ofan yfirborðið.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 6 … 39
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar