Aðstæður til fluguveiði eru mismunandi og það upplifðu Spánverjar fljótlega þegar allir byrjuðu á því að prófa Pólsku, Tékknesku og Frönsku stuttlínu tæknina.
Eins og fram hefur komið í þessum stuttu pistlum um mismunandi rætur Euro Nymphing, þá henta framangreindar uppsetningar á taum ekkert sérstaklega vel þegar vatnið er dýpra en 6 fet og rennur hægt. Þetta vissu veiðimenn á Spáni sem þekkja ljónstyggan fisk hálendisins á Spáni þar sem fjarlægð veiðimanns frá fiski þarf að vera u.þ.b. 30 fet ef hann ekki að styggjast. Ein leið til að vinna bug á þessu er að nota taum sem er 25 fet eða lengri, en þá reynir heldur betur á kasttæknina.
Almennt eru Spænskir taumar nær 15 fetum, þessir ógnarlöngu 30 feta taumar eru frekar undantekning.
① eru 10 – 20 fet af 4X glæru taumaefni sem tengd eru flugulínunni.
② eru 2 – 3 fet af 5X glæru fluorocarbon taumaefni.
③ er 1 fet af 5X ljómandi / marglitu fluorocarbon taumaefni, tökuvarinn.
④ eru 2 – 3 fet af 5X glæru fluorocarbon taumaefni.
Það sem vekur athygli við þennan taum er að hann er nánast í level frá byrjun til enda, þ.e. hann byrjar í 4X sverleika og enda í 5X. En þetta er vitaskuld aðeins ein útfærsla hans og það kæmi mér ekkert á óvart að útfærslurnar séu nærri eins margar og sprænurnar á Spáni eru, ef það segir einhverju eitthvað.
Í ákveðinni útfærslu þessa taums sem ég rakst á var notaður kónískur taumur í hluta ① í mismunandi lengdum eftir því hver heildarlengd taumsins átti að vera. Fyrir 18 feta taum var byrjað á 9 feta kónískum 4X taum og fyrir 21 feta var byrjað á 15 feta kónískum af sama sverleika. Það fylgir sögunni að vilji menn veiða afleggjara á svona taum, þá sé farsælast að festa hann við samsetningu hluta ③ og ④ þannig að tökuvarinn sé því sem næst yfir ofan yfirborðið.
Senda ábendingu