FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Litlar straumflugur

    17. nóvember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ég hef um árabil verið að nota litlar straumflugur í stærð #10 og #12 með, að því ég tel, bara alveg ágætis árangri og mér þykir alltaf jafn gaman að nota gamlar klassískar votflugur sem eru hnýttar á svipaða stærð eða jafnvel minni.

    Hér um árið gaf ég mér smá tíma til að horfa á veiðimann sem var að veiða með hefðbundinni straumflugu í stöðuvatni. Stærðin á flugunni var að því mér fannst umtalsverð og eftir á þykist ég sannfærður um að hún hafi verið hnýtt á legglangan krók #2. Ég var svo sem ekkert sérstaklega að velta mér upp úr stærðinni á flugunni, mér finnst hverjum manni frjálst að veiða á þá stærð á flugu sem hann kýs eða með hverju því agni sem hann kýs ef því er að skipta. Það sem ég var að velta fyrir mér á meðan ég fylgdist með þessum veiðimanni var aðferðin sem hann notaði við inndrátt og hvar hann lagði fluguna niður og hve lengi hann leyfði henni að sökkva og allt þar fram eftir götunum. Mér var fljótlega ljóst að hann veiddi þessa stóru straumflugu á nær alveg sama hátt og ég veiddi litla votflugu. Nú ætla ég ekkert að segja til um hvort hann gerði eitthvað rangt eða ég. Raunar getur alveg eins verið að báðir gerðum við eitthvað rétt, því það er ekkert rétt eða rangt í fluguveiði, svo lengi sem fiskurinn tekur.

    Ég þykist vita að stór fluga virki á fisk sem loforð um meiri mat heldur en lítil en reglulega dúkka upp fréttir af betri veiði þar sem litlum (mjög litlum) flugum er beitt. Hvað er þetta með litlu flugurnar? Ég hef minna en ekkert vit á laxveiði á flugu, þannig að ég get ekki svarað neinum þar um. Silungurinn aftur á móti hefur alveg sýnt mér að hann getur verið hvefsinn í grunnu og tæru vatni, styggist við minnstu hreyfingu í vatninu og tekur hreint ekki stórar flugur, víkur sér meira segja gjarnan undan þeim. Þá er um að gera að prófa minni flugur.

    Í mínu tilfelli er það þá yfirleitt votfluga eða lítil marabou fluga sem hnýtt er á stuttan krók #12 eða #14 og ég veiði hana eiginlega alveg nákvæmlega eins og ég væri með stærri straumflugu. Kosturinn við litla votflugu er að það er mun auðveldara að staðsetja hana, yfirleitt. Hún leggst gjarnan betur niður, jafnvel þar sem einhver straumur er, heldur en stór fluga og þegar fiskurinn er eitthvað stressaður þá er auðveldara að læðast að honum með lítilli flugu heldur en stórri.

    Ef einhver skyldi vera velta því fyrir sér hvaða votflugu ég noti undir svona kringumstæðum, þá er það Watson‘s Fancy, til vara Watson‘s Fancy og ef allt bregst, þá Dentist hnýttur eins og votfluga með fjaðurvæng eða lítill Black Ghost með sömu formúlu. Sem sagt, þrjár uppáhalds litasamsetningarnar mínar í straum- og votflugum. Og bara þannig að það sé á hreinu, það er alveg hægt að hnýta þessar litasamsetningar í marabou flugum til að fá dillandi smáflugu í vatni.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Gáran, vinur minn

    15. nóvember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Einhverra hluta vegna, þá finnst mér eins og það skipti miklu meira máli að læðast að fiski þegar hann er í rennandi vatni heldur en þegar hann er í stöðuvatni. Jú, ég geri mér alveg grein fyrir því að vera ekkert að vaða eins kúreki á sporastígvélum út í vatnið og stilla litagleðinni í hóf, en fyrir mér er fiskur í straum miklu styggari heldur en fiskur í kyrru vatni, kannski vegna þess að ég sé betur þegar þeir hrökklast undan mér þegar ég stend á árbakkanum.

    Kyrrt veður er ekkert sérlegur vinur minn, hvorki í flugukasti né veiðimennsku. Mér finnst til dæmis miklu auðveldara að kasta flugu þegar það er smá gola eða vindur heldur en stafalogn og ég er ekki einn um þessa upplifun (Muna: ég þarf að segja ykkur af stafalogni við tækifæri).

    Svo er annar kostur sem ég sé við smá golu eða vind, spegillinn á vatninu brotnar. Spegill á vatni er svolítið svipaður þeim sem við sjáum í CSI þáttunum í sjónvarpinu. Þetta er spegill séður úr annarri áttinni (okkar sem erum með hausinn fyrir ofan hann) en hann er gegnsær þeim sem eru undir honum, fiskinum. Þegar gáran leggst yfir vatnið, þá brotnar þessi spegill og fiskurinn sér alls ekki eins vel upp úr vatninu og við dettum út úr sjónsviði fisksins og getum fikrað okkur miklu nær honum heldur en ella.

    Þá er bara eftir að taka sporana undan kúrekastígvélunum eða naglana undan vöðluskónum og vaða varlega í áttina að honum.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Þrennt til að skoða

    10. nóvember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Sumt veit maður eða þykist vita þegar kemur að því að velja flugu á veiðistað. Hvort maður fer eftir því, er allt annað mál. Fyrir veiðiferðina er hægt að gaumgæfa í þaula allt þekkt skordýralíf í nágrenninu á pappír (eða á vefnum), kíkja í veiðibækur og vinsælar flugur sem skráðar eru víðsvegar og bera þetta allt saman við allar mögulegar flugur sem er að finna í boxunum. Hvaða pöddu hver fluga á að líkjast, á hvaða dýpi flugan veiðir best og allt þar fram eftir götunum.

    Þó maður nái að mastera þetta allt áður en maður fer í veiði, þá er eins líklegt að allt klikki og maður leiti í einhverjar öruggar flugur sem alltaf hafa gefið. Það geta verið nokkrar ástæður fyrir þessum þekkta flótta í öruggu flugurnar, en það gæti hjálpað að hafa þrennt í huga þegar maður er mættur á staðinn og er enn að setja saman. Allt þetta ætti að framkvæmast á meðan maður gerir ekki neitt.

    Þegar ég segi að gera ekkert, þá er það náttúrulega ekki alveg rétt, það sem ég á við er að láta enga handavinnu eða tiltekt trufla þig í 5 mínútur. Notaðu tímann til að horfa á vatnið, vatnsbakkana og settu þig síðan í stellingar að gerast skýjaglópur. Það sem þú sérð eða ekki á vatninu gefur þér vísbendingu um hvort fiskurinn sé í æti sem er á yfirborðinu, rétt undir því eða einhvers staðar dýpra.

    Það sem þú getur séð á vatnsbakkanum er mögulega fullvaxta fluga eða annað skordýr sem á ættir að rekja til vatnsins. Þarna hrapa ég stundum niður í ómælisdýpi flautaþyrilsinns og gleymi því að þetta fullvaxta skorýr á bakkanum var bara púpa eða lirfa í vatninu.

    Skýjaglópur

    Skýjaglópurinn sér oft ýmislegt annað en það sem jarðbundu verurnar gera. Skýjaslæður sem stefna hraðbyri fyrir eða frá sólu geta breytt veðrinu á næstu mínútum og þá getur allt annað verið komið upp á teninginn heldur en var á meðan við töldum 5 mínúturnar niður. Bíddu og endurtaktu fyrstu tvö atriðin þegar veður hefur skipast í lofti.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Dauðahald

    1. nóvember 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Það er alls ekki það sama að vera með dauðahald á línunni og geta haldið dauðahaldi í fiskinn. Dauðahald getur verið ákaflega dýrkeypt ef verðmæti er talið í fiskum.

    Þegar ég heyrði fyrst þennan frasa, þá var ég hreint ekki viss um hvað um væri verið að ræða. Hélt helst að einhver hefði dottið útí og hefði haldið dauðahaldi í línuna á meðan hann flaut niður einhverjar ógnvekjandi flúðir stórfljóts í gruggugu vatni. Þegar frásögninni vatt fram, þá varð mér ljóst að það var verið að tala um öruggt grip veiðimanns á línu, mjög öruggt grip.

    Dauðahaldið skiptist, að því er mér skilst, í tvær mismunandi syndir veiðimanns, þannig var frásögnin í það minnsta. Fyrst er að telja þá dauðsynd að veiðimaður bregði línunni um fingur sér á meðan hann rennir flugunni fyrir fisk. Mér hefur, satt best að segja aldrei dottið þetta í hug. Kannast að vísu við að halda nokkuð þétt við línuna, en aldrei hef ég brugðið henni um fingur eða hendina alla til að vera öruggur um að missa ekki af töku. Það þarf víst ekki að fara mörgum orðum um ókosti þessa, en ég ætla samt að gera það. Ef fiskur tekur þegar línan er föst fyrir, þá verður höggið væntanlega það sterkt að ekki verður fyrir neitt ráðið, ekkert svigrúm fyrir tilslakanir sem eru oftar en ekki nauðsynlegar þegar fiskur tekur.

    Síðari syndin snýst víst um eitthvað sem ég þekki alveg í æsingi augnabliksins þegar stærsti fiskur dagsins hefur tekið fluguna. Þá á ég það alveg til að setja fast í bremsu eða því sem næst þannig að bremsudiskurinn fer að hitna allverulega, ég segi ekki að hann verði rauðglóandi, en hann getur hitað samt verulega og þegar ákveðnu hitastigi er náð, þá situr allt fast og fiskurinn skyndilega farinn eftir einn hnykk.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Fagnaður verður að flasi

    20. október 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Stundum er fögnuðurinn svo mikill hjá manni að hann verður til þess að maður fær hann beint í flasið á sjálfum sér. Jú, enn einn orðaleikurinn og í þetta skiptið upp úr tveimur orðasamböndum; Ekki er flas til fagnaðar og Ganga beint í flasið á honum.

    Það er svo sem umdeilt hvort urriði sé í eðli sínu árásargjarn en eitt er víst, hann er óðalsfiskur og verndar sitt svæði með því að ráðast að aðsteðjandi ógn. Hitt er svo ekki alveg eins víst hvers vegna urriðinn á það til að synda í áttina að þér þegar hann hefur tekið fluguna þína, sem er víst raunin í meira en helmingi tilfella og þá getur fögnuður yfir töku snúist upp í flas á veiðimanni.

    Þegar svona ber undir, þá eru viðbrögð veiðimanna ekki öll á sama veg. Sumir keppast við að draga línuna inn þannig að ekki myndist of mikill slaki á henni, nokkuð sem reyndir urriðar hafa lært að er góð leið til að losa um fluguna, hrækja henni út úr sér og synda burt með sporðinn hálfann upp úr í líki ónefnds putta. Aðrir veiðimenn taka upp á því að vinda upp á sig, snúa stönginni aftur fyrir hnakka og reyna þannig að taka slakann af línunni. Þegar ég sá slíkar aðfarðir eitt sinn heyrðist afskaplega þurrt (svo þurrt að þerripappír hefði molnað) Good luck frá félaga hans á bakkanum.

    Af þessum tveimur kostum, þá er væntanlega farsælla að temja sér að draga línuna inn í snarhasti og halda þannig við fiskinn sem í ólund sinni stefnir beint á þig.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Spennan var gífurleg

    18. október 2022
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Spennan var gífurlega, ég varð ær, sungu þeir Halli og Laddi um árið og það var alveg eins og þeir væru forspáir um urriðaviðureign mína síðast liðið sumar að Fjallabaki. Ég breyttist að vísu ekki í kind, en ég missti mig alveg og kúlið fauk út í veður og vind.

    Ég hafði alveg tekið þetta eftir kúnstarinnar reglum frá töku og vel fram yfir miðja viðureign, þegar spennan bar mig ofuliði og ég fór að beyta allt of miklu afli á fiskinn sem var augljóslega sá stærsti sem ég hafði sett í yfir daginn. Ég man bara ekki alveg hvað það var sem gaf sig, annað en langlundargeð mitt, en það var annað hvort taumurinn eða krókurinn á flugunni. Hvort heldur sem var, þá fór fiskurinn eftir að ég hafði tekið of mikið á honum.

    Þetta er svo sem ekkert óvanlegt þegar maður á í baráttu við urriða, það er eins og þeir viti að þeir hafi lotið í lægra haldi nema þeim takist að láta reyna á veiðimanninn með því að draga viðureigninga á langinn með því að þumbast við. Sumir taka upp á því að fara til vinstri, þá til hægri, út og að landi, allt í kross til að tefja tímann. Aðrir taka upp á því að þyngjast skyndilega um nokkur kíló (örlítið ýkt) og sökkva til botns og skjóta þar rótum.

    Þegar þeir láta svona, ekki gefa kúlið eftir og ætla þér að taka fiskinn að landi á aflsmunum, það er allt eins líklegt að eitthvað annað gefi þá eftir sem var í góðu lagi þangað til. Andaðu með nefninu, haltu þínu striki og sýndu að þú ert meiri maður en fiskurinn.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 2 3 4 5 … 39
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar