FOS
  • Færslur
  • Flugur
  • Grúsk
    • FiskurinnNokkrir punktar um hegðun fisksins sem við erum að eltast við.
    • GreinaskrifGreinar og fréttir sem komið hafa fram á hinum og þessum miðlum á liðnum árum.
    • GræjurNokkrar greinar um veiðistangir, hönnun þeirra og eiginleika.
    • HnútarNokkrir góðir hnútar
    • HnýtingarÝmislegt sem tengist veiðiflugum, hnýtingu þeirra og hönnun.
    • Hnýtingarefni
    • KannanirÝmsar kannanir sem FOS.IS hefur gert meðal lesenda sinna, niðurstöður þeirra og hugleiðingar út frá þeim.
    • KasttækniAlltaf gott að rifja upp kasttæknina.
    • Lífríkið
    • Línur og taumarÝmislegt gagnlegt sem lýtur að flugulínum og taumum.
    • MaturNokkrar uppskriftir og umfjöllun um þann mat sem má gera sér úr aflanum.
    • Veiðiferðir
    • Veiðitækni
    • ÞankarÝmsir þankar og hugleiðingar
    • ÆtiðAllt sem fiskurinn leggur sér til munns.
  • Vötnin
  • Myndir
  • Töflur
    • AFTM
    • Alfræði
    • Byrjendur
    • Festingar
    • Fiskurinn
    • Flóðatafla
    • Hlutföll
    • Krókar
    • Kúlur & keilur
    • Lög og reglur
    • Taumar og flugur
    • Þráður
  • Tenglar

  • Niðurlútur fiskur

    3. desember 2013
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Fiskur í hendi
    Fiskur í hendi

    Í fyrra smellti ég hér inn greinum um það hvernig væri best að bregðast við Eftir töku og hvað ef fiskurinn reyndist Stökkvari. Þessar pælingar mínar voru aðeins að blunda aftan til í hausnum á mér s.l. sumar og ég prófaði aðeins breytilegar aðferðir þegar ég hafði sett í fisk. Kannski missti ég nokkra í þessum tilraunum mínum en ég svo sem lifi það alveg af. Pælingar mínar í sumar snérust svolítið að því að reyna að lesa í hegðun fisksins eftir því hvernig ég héldi í við hann. Eitt af því sem ég þóttist komast að var að niðurlútur fiskur er hreint ekki svo niðurlútur. Héldi ég laust við án þess þó að gefa honum lausan tauminn voru miklu meiri líkur á að hann tæki rokur út og suður og viðureignin tæki, í það minnsta eins og mér fannst, lengri tíma. Tækist mér að halda svo stíft við að ég næði að halda haus fisksins einhverjum gráðum upp á við, þá tók viðureignin miklu skemmri tíma en ella. Með þetta í farteskinu fór ég á veraldarvefinn og leitaði að samsvörun og fann. Flott lesning fyrir þá sem vilja kynna sér málið er bókin A Fly Fisher‘s Reflection eftir John Goddard.

    Ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á að blanda mér í umræður um veiða/sleppa, nóg er komið og margt misjafnt hafa menn látið hafa eftir sér þar um. En vilji menn sleppa, þá er hin síðari aðferð hér að ofan væntanlega vænlegri, upp með hausinn og ljúka viðureigninni sem fyrst.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Högl

    30. nóvember 2013
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Högl
    Högl

    Hér áður fyrr beittu menn höglum á tauma til að sökkva flugum niður á æskilegt dýpi en þessi aðferð hefur vikið fyrir misþyngdum flugum í boxum veiðimanna hin síðari ár. Ég hef reyndar aldrei orðið þeirrar upplifunar aðnjótandi að sjá veiðimann beita höglum ‚live‘ en lesið því meira um þetta síðustu vikur og mánuði.

    Það er með þetta eins og flest annað að skoðanir manna eru töluvert skipta á ágæti og aðferðum við að veiða með höglum á taumi. Veikir tauminn, segja sumir og hnýta þá flugulausan afleggjara (droppper) á tauminn þar sem þeir raða höglum á eftir því sem þeir vilja sökkva betur. Þá rísa aðrir upp og segja að það henti illa því kastið verður þá að vera svo ávalt að nákvæmnin sé fyrir bí. Nei, nei segja enn aðrir og benda á að veltikastið sé tilvalið fyrir haglaköst á afleggjara, þá sé minni hætta á flækjum.

    Enn aðrir láta sig hafa það að nota sverari taum og smella höglunum beint á hann en gæta þess þá bara enn betur að hann særi ekki tauminn og þvertaka alveg fyrir að nota högl með rifflaðri rifu. Já, einmitt. Högl og högl eru ekki það sama. Sum eru með beinni skoru, önnur eru með rifflaðri og svo er það þetta með þyngdina. Fleiri og léttari eða færri og þyngri? Ég hef svo sem ekki hugmynd um hvað sé best en einhvern veginn segir fyrri reynsla mér að fjöldi hagla skiptir ekki svo rosalega miklu máli.

    Ég á svona skammtara með nokkrum þyngdum í, arfur frá því ég veiddi á flot og maðk, og mér sýnist í fljótu bragði að minnstu höglin hafi orðið svolítið afgangs eftir maðkaveiðina. Kannski maður prófi þetta næsta sumar með flugu, en hvar þá helst? Andstreymis, eins vel og mér hefur nú gengið þannig? Eða einfaldlega í vatnaveiðinni þar sem maður stillir fluguna af miðað við fæðudýpið? Ef maður kemst á annað borð upp á lagið með þetta, þá skilst mér að þetta virki alls staðar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Af hverju ekki fleyta henni?

    24. nóvember 2013
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Einn helsti kostur meðstreymisveiði er að það fyrsta sem silungurinn sér er flugan þín, hvorki taumurinn, línan né skuggi hennar. Annar kostur meðstreymis er að þú hefur miklu meira vald á hraða flugunnar heldur en andstreymis.

    Ókostir? Já, margir og þar á meðal að til þess að forðast að fiskurinn sjái þig verður þú að standa töluvert langt ofan hans og því ert þú með nokkuð langa línu á milli þín og fisksins. Ef hann skildi nú glepjast af flugunni og þú þarft að bregðast við, geta viðbrögðin orðið heldur silalegri því straumurinn tekur nokkuð vel í línuna og hægir á öllum viðbrögðum þínum.

    Svo er nú ekki auðvelt að stjórna því hvert flugan/línan fer þegar straumurinn hefur náð taki á henni, en þar kemur á móti að straumurinn ber nú yfirleitt eitthvað annað með sér heldur en flugulínu, nefnilega ætið sem fiskurinn er á eftir. Og til þess að flugan þín skeri sig eitthvað úr öllu öðru sem flýtur niður ánna getur verið gott að eiga nokkur trikk uppi í erminni. T.d. að hreyfa stangarendann til sitt hvorrar hliðar við strauminn. Vitandi það að fluga fylgir hreyfingum stangarinnar, ekki bara í lofti, þá færir flugan sig til sömu áttar og þú færir stangarendann og þannig fer flugan þín að skera sig aðeins úr öllu öðru sem flýtur þarna niður. Að vísu á þetta mest við um straum- og þurrflugur, síður um púpur og þyngdar flugur þar sem straumurinn hefur mikil áhrif á tauminn.

    Ef þú ert síðan komin með fluguna vel niður eftir strauminum, e.t.v. alveg niður í lygnu eða á breiðu þá getur verið ráð að draga aðeins inn, færa stöngina til gagnstæðrar áttar og gefa aftur laust. Flugan færir sig þannig á aðeins til á breiðunni. Umfram allt, leyfðu flugunni að fara lygnuna alveg á enda, fiskurinn leynist oft þar sem hún endar undan straumi, hann hefur þá allan þann tíma í heiminum sem þarf til að koma auga á ætið áður en hann lætur til skarar skríða. Svo má ekki gleyma því að urriðinn heldur sig oft í grennd við stóra steina á botninum og við gætum þurft að leggja fluguna beggja vegna við hann áður en fiskurinn tekur.

    Lækur hjalar....
    Lækur hjalar….

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Skynjar hann titring?

    21. nóvember 2013
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    Hávaðaseggur?
    Titrari?

    Það er engin vafi á því að fiskur skynjar titring og þrýstingsbreytingar miklu betur en við. Í roði fisksins á hliðum hans er rák sem hann notar til að skynja hreyfingu í vatninu og þrýstingsbreytingar. Svo næm er þessi hliðarrák fisksins að hún nemur hreyfingar annarra fiska og lífvera í allt að 100 m fjarlægð. Jamm, duglegustu kastarar eiga ekki einu sinni séns að felast ef þeir vaða ógætilega. Og svo megum við ekki vanmeta hvað bakkarnir geta borið mikinn titring með sér út í vatnið. Þótt okkur takist að felast á bak við stein svo hann sjái okkur nú örugglega ekki þá þurfum við ekki nema missa vatnsflöskuna í grjótið til að hann verði var við okkur. Ég tala nú ekki um ef menn fara í tiltekt á bakkanum eða hlaða vörður til að merkja góða veiðistaðinn.

    En hvað með bátaumferð? Verður fiskurinn ekki var við bölvaðan hávaðan í utanborðsmótornum? Nei, í raun ekki, en hann verður örugglega var við lélegar legur, brotin skrúfublöð og allan annan titring sem utanborðsmótorinn getur haft í för með sér. Rafmagns utanborðsmótorar voru ekki fundnir upp vegna orkusparnaðar eða umhverfisverndar, þeir eru einfaldlega hljóðlátari heldur en bensínbullurnar.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Róa sig

    18. nóvember 2013
    Veiðitækni

    Upp

    Forsíða

    Ég ætla rétt að vona að menn hafi upplifað það, annað hvort í stöðuvatni eða straum að sjá fiskinn á fullu í æti rétt innan seilingar. Uppitökur eða rót í æti á botninum, jafnvel í ölduróti þegar stendur upp á bakkann. Ég hef alltaf átt mjög erfitt með að standast freistinguna að láta vaða á vöðuna, jafnvel bara með fluguna sem er á án þess að gefa því minnsta gaum hverju fiskurinn er í hverju sinni. Það er bara eins og tækifærið gæti gufað upp áður en minnst varir og allur fiskur verði á bak og burt ef ég hinkra aðeins við. Ef þið hafið ekki lent í þessu, þá getið þið auðvitað hætt að lesa hérna og megið stimpla þessa grein sem enn eina játningu mína á eigin mistökum. Fyrir hina held ég áfram….

    Því er nú þannig farið að það eru minnstar líkur á að sjónarspilinu ljúki 1,2 & 3 þótt maður róar sig aðeins niður og skoðar aðstæður aðeins betur áður en maður lætur vaða. Annars vil ég helst ekki nota orðasambandið ‚láta vaða‘, það felur svolítið í sér æsing af óyfirlögðu ráði. Þegar ég læt nefnilega vaða, þá er það oftast beint á fiskinn eða vöðuna sem er væntanlega öruggasta leiðin til að sjónarspilinu ljúki einmitt 1,2 & 3. Í straumvatni segja spekingarnir manni að slaka á, koma sér niður fyrir sjónarspilið og kasta andstreymis, rétt til hliðar við fiskinn. Það er svo sem ekkert ósvipað sem maður gerir í vatnaveiðinni. Ekki kasta beint á fiskinn, veldu þér punkt nokkrum fetum til hliðar og reyndu að koma flugunni í fullri rósemd í sjónsvið fisksins. Og svo ein góð vísa í lokinn; byrjaðu að leggja fluguna á milli þín og fisksins, þá eru minni líkur á að hann styggist af línuskugga, hvað þá línuskelli ef æsingurinn er ekki alveg horfinn úr kasthendinni.

    Það er nú ekki hægt að æsa sig undir þessum kringumstæðum
    Það er nú ekki hægt að æsa sig undir þessum kringumstæðum

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
  • Hvað heyrir hann?

    30. október 2013
    Fiskurinn

    Upp

    Forsíða

    sm_heyrnHeyrir hann vel? Heyrir hann í mér? Spurningar um heyrn fiska eru margar og ekki alltaf auðvelt að gera sér grein fyrir því hvað, hvernig og hversu vel hann heyrir. Fiskar hafa innra og ytra eyra rétt eins og við mennirnir. Þar sem eðlisþyngd fiskjar er ekki ósvipuð vatninu sem þeir lifa í, streyma hljóðbylgjur í gegnum hold þeirra án þess að dofna neitt að ráði þar til þær skella á beinagarðinum sem tekur við hljóðinu og  ber það til eyrnanna. Þeir sem eru svo óheppnir að hafa upplifað beinbrot kannast e.t.v. við þetta óhugnanlega hljóð sem nístir merg og bein og kemur að innan þegar bein brotnar. Ég hef meira að segja upplifað snöggan smell, nánast eins og byssuskot sem ég trúði varla að menn í kringum mig hefðu ekki heyrt þegar hásin hrökk í sundur í fætinum á mér á gervigrasi um árið. Ég hélt fyrst að ég hefði sprengt tuðruna þegar ég sparkaði í hana, svo mikill var hvellurinn. En, nei. Það var bara ég sem heyrði þennan hvell og enginn kannaðist við að hafa sprengt pappírspoka við eyrun á mér.

    Beinagarður fiska flytur umhverfishljóð beina leið til haussins og þannig heyra þeir hljóð jafnvel betur innra með sér heldur en inn um ytri eyrun. Það er e.t.v. skýringin á því að silungurinn getur heyrt steinvölu skrapast í botni, já eða neglda vöðluskó í meira en km. fjarlægð. Nú kann einhver að segja að nú fari ég með fleipur, en ég hef þetta fyrir satt eftir að hafa lesið töluvert af greinum um heyrn fiska.

    Aftur á móti heyrir fiskurinn sára lítið af þeim hljóðum sem berast ofan vatnsborðs. Okkur er því alveg óhætt að raula á meðan við veiðum, sleppum bara öllum upphrópunum og gleðilátum þegar hann tekur. Við eigum það nefnilega til að hoppa af kæti og það nemur annað skynfæri fisksins; hliðarrákin.

    Höfundur:

    Kristján Friðriksson
«Fyrri síða
1 … 97 98 99 100 101 … 153
Næsta síða»

FOS

Allur réttur áskilinn – © 2025 – Kristján Friðriksson

  • Facebook
  • Vimeo
  • Issuu
  • YouTube
  • Instagram
  • Senda skilaboð
  • Áskrift í tölvupósti
 

    • Gerast áskrifandi Subscribed
      • FOS
      • Join 176 other subscribers
      • Already have a WordPress.com account? Log in now.
      • FOS
      • Gerast áskrifandi Subscribed
      • Skrá mig
      • Innskráning
      • Report this content
      • Skoða vef í lesara
      • Manage subscriptions
      • Collapse this bar