Trúlega er mannskeppnan óútreiknanlegasta lífvera jarðar. Venjur og hefðir stjórna svo miklu í fari okkar. Þegar svo venjurnar festa sig í sessi þá verður til hefð sem flestum er alveg mein illa við að rjúfa. Ýmislegt í stangveiðinni á rætur að rekja til þessa háttarlags okkar og viðbragð við stökkvandi fiski er eitt af þessu.
Fyrir margt löngu var ég að velta fyrir mér hvað teldust ‚rétt‘ viðbrögð við fiski sem tekur upp á því að stökkva við töku. Nýleg ummæli við grein urðu síðan til þess að ég leitaði enn betur í sameigninni, veraldarvefnum og fann fullt af professional svörum til viðbótar því sem ég hafði pælt í sjálfur. Niðurstaðan er nokkuð ljós; ekki gera ekki neitt, veldu aðra hvora leiðina hér að neðan.

Gefðu línuna slaka segja sumir og meina þá að maður eigi að gefa fiskinum lausan tauminn. Eins og Hilmar segir í ummælum við Eftir töku, þá grípur eðlishvötin marga veiðimenn og þeir lækka stangarendann niður að vatninu og/eða losa línugripið alveg þannig að fiskurinn fái slaka. Helstu rökin fyrir þessu eru að fría tauminn og taumendann fyrir óþarfa álagi sem skapast stundum í stökkinu. Þetta eru góð og gild rök þegar menn setja í stærri fisk heldur en græjurnar frá A-Ö miðast við, en almennt er það nú svo að slitstyrkur taums og enda er nokkuð vel við vöxt hjá okkur. Ef fiskurinn tekur aftur á móti upp á því að hrista hausinn í stökkinu með góðan slaka á línunni eru mjög miklar líkur á því að flugan/öngullinn losni úr honum. Flest af því sem ég hef lesið eru ráð sem eru gefin þeim sem stunda veiðar á stærri og aflmeiri fiskum heldur en þeim sem finnast að öllu jöfnu í stöðuvötnum á Íslandi. Hvort þessi aðferð sé góð og gild í laxveiði veit ég ekki, þar skortir mig almenna þekkingu.

Notaðu tækifærið og dragðu inn eða hækkaðu stöngina enn meira, að því gefnu að þú hafir aðeins reist hana um 45° eins og nefnt er í Viðbragð. Hér er ekki verið að tala um eitthvert offors, brjálæði á hjólinu til að fá fiskinn til að skipta um stefnu í stökkinu, heldur það eitt að viðhalda svipaðri spennu í gegnum stökkið eins og þú hafði náð fyrir það. Hér má auðvitað ekki vera með bremsuna í botni ef fiskurinn skildi nú taka á rás eftir lendingu sem er ekki óalgengt. Bremsan á að vera hæfilega stillt eða jafnvel eilítið of slök, því það er betra að auka við heldur en fá kipp sem slítur taum eða hnút. Þetta er sú leið sem ég hef tamið mér í gegnum tíðina og ég er nokkuð viss um að ég hef ekki misst fleiri fiska í stökkinu heldur en næsti maður sem mögulega notar slöku leiðina, sem sagt mín hefð.
Vel að merkja, þegar ég sé að fiskurinn sem ég hef krækt í er nokkuð undir matstærð þá gef ég honum stundum lausan tauminn, lækka stöngina til að gefa honum slaka og svigrúm til að losa sig af. Oftar en ekki tekst þetta með ágætum og fiskurinn syndir burt, frelsinu feginn og án þess að ég hafi þreytt hann of mikið. Það sem einum dugar vel til að halda í fisk, reynist öðrum ágætlega til að sleppa honum.
Ummæli
01.09.2012 Urriði: Ég nenni ekki að standa í að halda svona úti sjálfur, þetta eru hvortsem er bara eintómar montsögur, nenni ekki að skrifa nema e-ð merkilegt hafi gerst. Svo er bara fínt að takmarka þetta við lesendahóp veidi.is, vil ekki að þetta svæði fái of mikla athygli. Mér er alveg sama um fjölda heimsókna og svoleiðis, er að þessu fyrir sjálfan mig og engan annan
31.08.2012 Urriði: Jæja, ég fór aftur að veiða í kvöld og er búinn að jafna mig (sjá hér ). Búinn að taka bloggið þitt aftur í sátt
Svar: Glæsilegt, til hamingju Urriði. Án þess að draga úr mikilvægi og skemmtigildi veida.is (þú átt reyndar flestar bestu frásagnirnar), þá finnst mér að nú sért þú kominn langt útfyrir spjallsíður í frásögnunum þínum, hvenær kemur þú þér upp bloggi, drengur? Þetta eru svo skemmtilegar og fræðandi greinar, að ég tali ekki um myndirnar að ég er viss um að fjöldi veiðimanna, ekki bara á Íslandi hefðu gaman að því að fylgjast með. Góð stikkorð á alþjóðlegri bloggsíðu og þú næðir örugglega til US, UK og Skandinavíu, meira að segja ég er með á 3.þús. reglulegar heimsóknir á þessu ári frá þessum löndum.
30.08.2012 Urriði: Ég var að enda við að missa flotta urriðahrygnu(2-3 pund) sem losnaði af í miðju stökki. Ég hélt strekktu og kenni þessum pistli alfarið um! (ath. að ef ég hefði gefið slaka og misst fiskinn þá hefði ég samt kennt þessum pistli um)
Svar: Æ, þetta var nú leitt að heyra. Huggun harmi gegn að nú hefurðu einhverjum um að kenna 🙂
21.08.2012 Hilmar: Þakka kærlega góð svör. Held ég þurfi að fara að prófa að halda aðeins við.
mbk, Hilmar
Senda ábendingu