Flýtileiðir

Áttu heima í Bónus?

Fæðuleit
Fæðuleit

Asnaleg spurning, auðvitað á engin heima í Bónus. Meira að segja starfsmennirnir fara oftast heim til sín, nema þá helst rétt fyrir verslanahelgina sem sumir kalla jól. En hvað er ég eiginlega að fara með þessu bulli? Jú, ég er að velta fyrir mér stórum muni á mönnum og fiskum.

Búseta mannfólksins ræðst oft af fjölskylduhögum. Á barneignaraldri viljum við vera sem næst leikskólanum, svo grunnskólanum en færum okkur síðan aðeins til í hverfinu þegar börnin vaxa úr grasi og nándin við uppeldisstofnanirnar skiptir minna máli. Síðan hefur það orðið tilhneiging okkar að hópast saman á stofnunum fyrir heldriborgara þegar aldurinn færist yfir. En sama hver búsetan er, þá höfum við haldið í þann sið forfeðra okkar að draga fæðuna í náttstað okkar og neyta hennar þar, svona að mestu leiti.

Laxfiskar velja sér aftur á móti búsvæði á allt öðrum forsendum. Þeir búa sjaldnast nálægt leikskólanum, raunar stinga þeir ungviðið snemma af á lífsleiðinni og vitja þess aldrei aftur. Laxinn ferðast síðan langar leiðir frá fæðu til leikskóla, eru meira að segja sagðir ekki éta neitt á leið sinni á milli staða. Samt sem áður heldur hann til á ákveðnum stöðum í ánum. Hann velur straumharða staði á meðan frænka hans, bleikjan velur sér lygnustu staðina og urriðinn svamlar þarna einhvers staðar á milli. Nú er ég auðvitað að bera saman atferli laxfiska í ám og lækjum, ekki vötnum.

Einfalda myndin er þannig að laxinn velur sér strauminn og hreyfir sig afskaplega lítið, bleikja hreyfir sig mest og enn og aftur er Meðal-Jónin okkar, urriðinn. Fræðingar sem fylgjast með atferli laxfiska skipta þessum tíma gjarnan í tvo fasa; fæðuleit þegar hann bara bíður eftir því að geta étið og fæðunám þegar hann er að éta. Þegar hlutfall tegunda innan hvors fasa er skoðaður, þá hafa rannsóknir sýnt að 11,7% laxa hreyfa sig í fæðuleit, 12,7% urriða og 27,1% bleikju. Þegar fiskurinn er síðan komin í fæðuna þá hreyfa aðeins um 3,3% laxa sig, 8,8% urriða og 14,9% bleikju. Heimild: Fæðuatferli og búsvæðaval laxfiska í ám, Stefán Ó. Steingrímsson & Tyler D. Tunney, Fiskeldis- og fiskalíffræðideild Háskólanum á Hólum.

En hvernig hjálpar þetta okkur við veiðarnar? Tja, þegar stórt er spurt verður oft lítið um svör, ekki nema þá fyrir það eitt að ef við finnum ekki nákvæmlega staðinn þar sem fiskurinn er að éta (fæðunám) þá er helst að finna bleikjuna á flakki þegar hún er að leita (fæðuleit). Ef við finnum aftur á móti þeirra Bónus, þá er eins gott að við getum lagt fluguna nokkuð nákvæmlega fyrir fiskinn því hann hreyfir sig miklu minna í æti heldur en þegar hann leitar.

Ummæli

06.12.2013 – Valdimar SæmundssonVill þetta segja að laxinn sé að éta í ánum og sé þessvegna að hreyfa sig í fæðuleit?

Svar: Já, ekki get ég lesið annað út úr þessari rannsókn. Að vísu gæti rannsóknin tekið til fiska á s.k. ‘niðurgöngu’ tímabili þó þess sé ekki sérstaklega getið. Svo má alltaf velta því fyrir sér hve fjarskyldur Atlantshafslaxinn sé Kyrrahafslaxinum sbr. grein á Deneki frá því í fyrra sem má skoða hér. Hvað sem því líður, þá vitum við að lax bregst við agni í ám á Íslandi rétt eins og annars staðar í heiminum. Hvort það sé eingöngu af eðlislægri grimmd eða því að hann éti nú bara þrátt fyrir allt í ám einhvern hluta uppgöngu, læt ég ósagt. Það hafa sagt mér veiðimenn að lax éti örugglega ekkert á hrygningartímanum, meltingarfæri hans séu hreint ekki neitt, neitt á þessum tíma. Síðan hafa aðrir sagt mér, í hálfum hljóðum að þeir hafi nú fundið ýmislegt í maga laxa úr Íslenskum ám og í meira magni en svo að það hafi ‘slæðst’ upp í hann á leiðinni.

Eitt svar við “Áttu heima í Bónus?”

  1. Valdimar Sæmundsson Avatar
    Valdimar Sæmundsson

    Vill þetta segja að laxinn sé að éta í ánum og sé þessvegna að hreyfa sig í fæðuleit?

    Líkar við

Senda ábendingu

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

Create a website or blog at WordPress.com