Alveg eins og það er til vinstri og hitt vinstri hjá sumum, þá er til svart og hitt svart hjá einstaka veiðimanni. Margur hefur gert góða veiði með hvítum Dog Nobbler að vori þegar honum er brugðið fyrir svangan urriða á björtum degi. Hjá mér hafa það verið þeir með silfruðu tinsel sem hafa gefið helst rétt fyrir ljósaskiptin eða síðla dags. Svart er til í ýmsum litum.
Svo eru það ítölsku græningjarnir, ólívugrænir Nobblerar. Einhverra hluta vegna verða þeir að vera vafðir með gul-brúnni náttúrlegri fjöður og með gyltu tinsel í skottinu, annars gefa þeir mér ekkert. Þessa nota ég þegar rökkrið hefur náð að læðast aftan að mér eða dumbungur og rigning vomir yfir.
Að lokum, þ.e. þegar veiðidagur er kominn að kveldi, þá færi ég mig aftur í upprunalega svarta litinn, þennan dökka og þá snýst tinselið aftur í silfrað.
Þegar veiðimenn eru spurðir hvaða flugur þeir noti að vori, eru svörin oftar en ekki ‚stór og svört‘. En af hverju? Jú, lirfur ýmissa skordýra sem orpið var síðasta haust hafa haft allan veturinn til að éta og fita sig í vötnum. Sumir segja í ró og næði á meðan fiskurinn hefur haldið sig til hlés og slakað á í köldu vatninu síðustu vikur og mánuði, en það er ekki endilega víst. Það er ekki alveg allur fiskur sem hefur verið í megrun í vetur, eins og ísdorgarar hafa verið að sanna síðustu vikur. Margur fiskurinn er feitur og pattaralegur allan veturinn og því hlýtur hann að vera í æti.
Svart er vissulega liturinn á fjölda lirfa, en aðrir litir koma einnig sterkir inn í flugunum. Rauðar, einar sér eða í bland við jarðarlitina eru einnig alveg inni. Blóðrauði, frostlögurinn í pöddunum, verður til staðar næstu vikurnar eða alveg þangað til vötnin hafa hitnað upp að 5°C. Í dýpri og kaldari vötnum er blóðrauðinn til staðar allan ársins hring og því gengur Blóðormurinn allt sumarið.
En hvað með aðra liti? Jú, það eru til fleiri afbrigði af svörtu.
Nú er tímabilið rétt handan við hornið og nokkra farið að klæja allóþyrmilega í kasthöndina. Sumir hafa æft hana síðustu vikur við hnýtingar og líklega liggja nokkrar þúsundi glansandi fínna flugna í boxum veiðimanna og bíða þess að fara í bað. Hér ætla ég að lauma inn smá játningu; ég er ekki búinn að hnýta eina einustu flugu fyrir sjálfan mig í allan vetur. Það eina sem ég hef hnýtt eru nokkrar hrognaflugur sem ég setti í um daginn fyrir kunningja minn og nágranna, Svarta Zulu. Í staðinn laumaði hann að mér þessum glæsilegu blendingjum.
Blendingjar úr smiðju Sigga Kr.
Ég verð nú að játa að mér fundust skiptin heldur ójöfn, nokkur hrogn í staðinn fyrir úrval glæsilegra marabou flugna. Það verður sko látið reyna á þessar í sumar, því get ég lofað. Það má lesa meira um þessar glæsiflugur og fleiri hér.
Þennan mánuðinn hafa nokkur stangveiðifélög skotið skjólshúsi yfir félagsmenn sína og boðið upp á kastkennslu sem vonandi sem flestir hafa nýtt sér. Sjálfur er ég utangarðs í félagsmálum og hef því ekki í eins mörg hús að venda með æfingar. Engu að síður getur maður gert ýmsar æfingar, svona heima við, einn sér eða í smærri hópum. Spottastangir eru fáanlegar víða og með þeim má gera kvöldfréttatíma RÚV miklu skemmtilegri, meira að segja notið þess að sitja fyrir framan beina útsendingu frá Alþingi. Svo má ekki gleyma bílskúrsæfingunni, Kartöflukastinu. En umfram allt, nú er tíminn til að æfa kasthöndina, annars er hætt við að fyrstu dagarnir í veiði verði frekar stirðir og þvingaðir.
Já, þar til fyrir skemmstu var ég eiginlega klár með nokkra punkta í kollinum fyrir vorveiði undir bestu kringumstæðum. Ég geri mér grein fyrir að margir norðan heiða eru ekkert sérstaklega komnir í gírinn fyrir vorið. Það hefur meira að segja slegið fyrir fréttum og athugasemdum af sót-svartri veiðispá fyrir komandi sumar. Ætli maður leyfi nú ekki vorinu aðeins að taka fyrstu skrefinn áður en maður slær vertíðina af.
Að vísu hefur veðrið hér sunnan heiða heldur tekið afturkipp og við fengið smá ábót á veturinn. Hvað um það, veturinn þarf alls ekki að fara illa með vötnin okkar, jafnvel langt fram eftir vori. Þó mörg þeirra vatna sem opna 1. apríl verði ísilögð að stórum hluta, þá þarf oft ekki nema smá vök til að kveikja í fiskinum. Við vitum að súrefni í vatni hefur mikið aðdráttarafl fyrir fiskinn í vötnunum. Það er þekkt trikk að renna flugu við eða í grennd við ísskörina að vori. Þarna lúrir fiskurinn í ýmsum erindum. En hvað er hann svo sem að gera þarna? Jú, að vori losna allskynns pöddur úr ísnum sem hafa frosið þar fastar á umliðnum vikum og þessar pöddur gerir fiskurinn sér að góðu. Þessu til viðbótar má nefna að þegar ísinn bráðnar losnar töluvert af súrefni út í vatnið og það líkar fiskinum vel. Fyrstu skordýrin laðast þar að auki að þessu súrefni og fyrstu sólargeislunum sem læðast niður í vatnið um vakirnar.
Eins og dægurskálið sagði um árið; Horfðu á björtu hliðarnar, heimurinn hann gæti verið verri. Það hýtur að vora á endanum.
Er virkilega hægt að segja að ‚heill sveipur af mat‘ sé á ferðinni? Jú, það er virkilega hægt og það er ekki langt þangað til að við getum orðið vitni að þessu. Á þeim stöðum sem mýflugan er mest áberandi í vötnunum okkar er lífríkið heldur í rauðari kantinum núna. Lirfur mýflugunnar halda sig sem fastast, í eiginlegri merkinu þess orðs, á botninum. Rauðar og áberandi eru þær eins og negldar niður á botninn en þess er ekki eins langt að bíða og menn gætu haldið að þær losi sig upp af botninum þegar þær taka út næsta síðustu umbreytingu sína, frá lirfu til púpu.
Það er síðan púpan sem brýst um á leið sinni upp að yfirborðinu þar sem hún tekur síðustu umbreytingu sína í flugu. Stök fluga æsir örugglega ekki stóran fisk til töku á leið sinni upp að yfirborðinu, en öðru máli gegnir þegar þær eru margar saman í hóp. En púpurnar taka alls ekki upp á því í hópum að losa sig af botninum og brjótast upp að yfirborðinu. Klak flugunnar er nokkuð dreift í vatninu, jafnvel innan ákveðinna staða í vatninu sem hlýna fyrr en aðrir. Þegar við verðum vör við flugu á yfirborðinu, svona í heilum sveipum og dökka flekki púpuhylkja við bakkana, þá er það straumurinn í vatninu sem hefur þjappað dreifðu klaki saman á einn stað eða í sveip á yfirborðinu. Það er undir þessum kringumstæðum að stóri fiskurinn tekur sig til og úðar í sig flugunni. Fram að þeim tíma á sá litli sviðið. Svei mér, mig dreymir heila sveipi af mat…..
Vá, þarf maður allt þetta var ég spurður þegar nýgræðingurinn kíkti í skottið á bílnum mínum um daginn. Ég verð nú eiginlega að játa að ég roðnaði, í það minnsta inni í mér, því ég hélt í einlægni að ég væri ekki þessi græjufíkill að útbúnaðurinn minn gæti kallast ‚allt þetta‘. Ég leit yfir dótið mitt og …… allt í lagi ég var með nokkra hluti sem ég þurfti ekki endilega á að halda. Það var kannski ofrausn að vera með öll þrjú geymsluboxin mín, litlu vestisboxin hefðu örugglega dugað. Svo var ég með stangarhaldarana, þeir hefðu mátt verða eftir, þetta var jú aðeins ferð í eitt ákveðið vatn og ekki langt á milli veiðistað. Veiðivestið varð ég hafa með, vind- og vatnshelda jakkann líka. Svona eftir á að hyggja var kannski ekki þörf á vöðlunum, við veiddum algjörlega frá bakka í þessari ferð. Fyrst veðurspáin gekk eftir var eiginlega óþarfi að taka með mér léttu stöngina, #7 var eina sem dugði í þessu bölvaða roki. Háfurinn minn var auðvitað með í för, hnífurinn líka og netapokinn. Og til að sóða ekki út allan bílinn var ég með gamla kubba-kæliboxið undir aflann. Fékk að vísu bara eina bröndu þennan dag sem rúmaðist í nestispoka nr.2, ekki sóðaskapur af henni.
Óskilamunur við Hítarvatn
Svo rifjaðist upp fyrir mér veiðiferðin sem ég fór um árið, næstum allslaus. Ég vaknaði snemma einn morguninn og ákvað að renna vestur á bóginn í blíðunni. Svo mikið var ég að flýta mér að eitt og annað gleymdist. Ég gleymdi t.d. veiðivestinu og þar með; taumaklippum, taumaefni, taumum og flugum. Ég greip að vísu létta og þyngri stöng, en aðeins hjólið á þá þyngri. Flest allt annað var ég með og til einhverrar lukku var geymsluboxið með straumflugunum í veiðitöskunni. Svo var ég auðvitað með nestið mitt, ekki gleymir maður nesti á leið í veiðiferð. Ekki leyst mér nú á blikuna þegar ég var komin á áfangastað, eina 140 km. að heiman. Ég rétt vogaði mér að píra augun á hjólið og vonaði heitt og innilega að ég hefði gleymt að taka tauminn og taumaefnið af línunni í lok síðustu ferðar. Fjúkk, það stóðst. Þar bjargaði letin mér og ég hafði til umráða rétt rúm 9 fet af taum og taumenda. Ekki var nú útlit fyrir að ég gæti skipt oft um flugu þennan daginn og viti menn, þetta dugði mér. Að vísu varð ég að veiða allt á straumflugu en mér tókst að landa tveimur bleikjum og sleppti tveimur öðrum til viðbótar. Já, það má komast af með aðeins minna af græjum en maður heldur.