
Það eru alls ekki nýjar fréttir að fiskur sé í rólegri kantinum á vorin, en góð vísa…. of oft….. o.s.frv. Í púpuveiðinni hægjum við á okkur snemma vors og veiðum mjög rólega, næstum dautt. En hvað með viðbragðið okkar? Hvernig högum við okkur þegar svo fiskurinn tekur fluguna? Mér finnst raunar svo langt síðan að ég upplifði töku að ég er ekki viss um hvernig ég á að haga mér. Jú, ég get lesið aðeins um viðbragð og horft á fjölda veiðimynda þar sem menn virðast fá fisk á 2ja. mín. fresti, non-stop í 50 mín. en það er alls ekki víst að ég græði neitt á því.
Ég gæti líka lesið pistla og bækur manna eins og Kirk Deeter og Charlie Meyers þar sem hvatt er til þess að svara fiskinum formlega í viðbragðinu á vorin. Sem sagt; láttu eins og þú sért að taka upp símann þegar fiskurinn tekur. Notaðu sama viðbragð, afl og hraða þegar fiskur tekur að vori eins og þegar þú tekur upp símann. Eins og þeir félagar klykktu út með; Taktu upp símann og segðu halló við fleiri fiska.