
Alveg eins og það er til vinstri og hitt vinstri hjá sumum, þá er til svart og hitt svart hjá einstaka veiðimanni. Margur hefur gert góða veiði með hvítum Dog Nobbler að vori þegar honum er brugðið fyrir svangan urriða á björtum degi. Hjá mér hafa það verið þeir með silfruðu tinsel sem hafa gefið helst rétt fyrir ljósaskiptin eða síðla dags. Svart er til í ýmsum litum.
Svo eru það ítölsku græningjarnir, ólívugrænir Nobblerar. Einhverra hluta vegna verða þeir að vera vafðir með gul-brúnni náttúrlegri fjöður og með gyltu tinsel í skottinu, annars gefa þeir mér ekkert. Þessa nota ég þegar rökkrið hefur náð að læðast aftan að mér eða dumbungur og rigning vomir yfir.
Að lokum, þ.e. þegar veiðidagur er kominn að kveldi, þá færi ég mig aftur í upprunalega svarta litinn, þennan dökka og þá snýst tinselið aftur í silfrað.
Var einhver að tala um tiktúrur í fluguveiðinni?