Ég ætlaði svo sem að vera búinn að hnykkja á þessari grein í nokkurn tíma, en gleymdi því bara. Þannig var að veiðifélagi minn braut í sumar blað í sögu sinni sem veiðimanns. Hún setti sig all hressilega í spor silungsins og setti þurrflugu á bóla kaf í höndina á sjálfri sér. Agnhald og alles bara hvarf ofan í höndina.
Fluguna úr
Það getur verið erfitt að tryggja hnútinn á örlítilli þurrflugu án þess grípa þannig um hana að broddurinn standi ekki einhvers staðar að skinni og því fór sem fór og flugan stóð föst. Ekki var um það að ræða að stinga flugunni hringinn, þ.e. láta hana halda áfram og út með agnhaldið og klippa það af, þannig að taumaendi var klipptur til, þræddur í bugin á flugunni, fingri stutt á haus og kippt í; vola. Nei, konan fór ekki að vola, flugan small út og frúin gat haldið áfram að rífa upp bleikjur á þurrflugu eins og ekkert væri. Upprunulegu færslunar má finna hér ásamt ágætu myndbandi.
Ummæli
18.12.2014 – Þórunn Björk: Það var miklu verra að vera með fluguna í sér heldur en að kippa henni úr….. þarf að finna einhverja betri lausn á að herða hnútinn á pínulitlu þurrflugunni.
Hér á síðunni má eflaust finna einhverjar glaðbeittar yfirlýsingar um það að láta ekki vanan festa sig í sömu sporunum. Sumt af því getur eflaust flokkast sem réttlæting á eigin æðibunugangi eða óþolinmæði, en það má heldur ekki gleyma því að reynslan er formóðir vanans. Þegar maður er að koma í annað eða þriðja skiptið í ákveðið vatn, þá leitar maður ósjálfrátt í reynslu fyrri ferða(r) og gerir eitthvað svipað, þ.e. ef vel gekk í það skiptið.
Í sumar sem leið vorum við veiðifélagarnir á ferð uppi á heiðum í nánast sama veðri og á sama árstíma og fyrir tveimur árum síðan. Aðstæður voru sem sagt mjög sambærilegar, utan þess að við komum í þetta skiptið að vatninu þegar mikið klak var í gangi og töluverður hamagangur í bleikjunni á yfirborðinu þannig að þurrflugurnar fengu að njóta sín í þetta skiptið. En, þegar þurrflugan hafði sannað sig, héldum við á ‚staðinn okkar‘ við vatnið og svipuðumst eftir fiski. Jú, hann var þarna á sínum stað og alveg jafn djöfullegt að fá hann til töku. Kom þá að reynslunni; Watson‘s Fancy púpa með silfruðum kúluhaus. Þetta var flugan sem ég prófaði síðast og fékk fiskinn á botninum til að taka. Líf- og umhverfisleg áhrif höfðu ekkert að segja um þetta flugnaval, ég var á sínum tíma bara búinn að prófa flest allt úr boxinu án árangurs þegar kom að henni. Því var það að fyrsta fluga sem ég prófaði þarna í sumar var Watson‘s Fancy og ‚auðvitað‘ var tekið í fyrsta kasti og ekkert lát á tökum næstu tvo tímanna. Það var ekki fyrr en rót komst á fiskinn að við skiptum um flugur og náðum nokkrum til viðbótar á glannalega Nobblera.
Síðar um sumarið komum við aftur að þessu vatni og staðfestum enn eitt skiptið að reynslan af Watson‘s Fancy var ekkert eins- eða tvídæmi. Svona getur nú reynslan orðið að vana.
Eflaust hef ég ýjað að þessu atriði áður, en þetta er þá bara ein af þessum vísum sem má kveða oftar en einu sinni. Við veiðifélagarnir vorum að velta því fyrir okkur í sumar, hve orðspor vatna eða veiðistaða hefur mikið að segja þegar við veljum okkur stað. Hversu oft hefur maður, vegna neikvæðra frétta, látið undir höfuð leggjast að reyna staði?
Þannig var að á samfélagsmiðli nokkrum birtist falleg mynd af ákveðnum veiðistað og mönnum bent á að nú væri aðkoma að þessum stað fær öllum sem vildu. Áður hafði verið þar lélegur slóði sem við hjónin höfðum fikrað okkur á 4×4 bíl nokkrum sinnum og þótt í lagi, en ekki mikið meira en það. Þessar fréttir og fagrar lýsingar urðu til þess að við lögðum leið okkar á staðinn næstu helgi. Fallegur staður og nokkrir mjög veiðilegir staðir þar við en hingað til höfum við alltaf farið fisklaus heim af þessum slóðum.
Þegar við vorum að renna í hlað, mættum við nokkrum veiðimönnum sem voru nýbúnir að taka sig saman og aðspurðir fengum við þá kveðju að þarna væri enginn fiskur og ekkert hefði veiðst. Svo mörg voru þau orð, en áfram héldum við og væntanlega reyndum við fyrir okkur á sömu stöðum og þeir höfðu reynt og með sama árangri. Við vorum svo sem ekki með háar væntingar til þessa staðar, þá helst af eigin reynslu, en vitaskuld hafði kveðja forvera okkar einhver áhrif á mann. Eftir stendur að þessi veiðistaður er mikið stundaður, hann ber þess merki og mér þykir enn ólíklegt að veiðimenn fari ítrekað á sömu slóðir ef aldrei neitt fiskast. Ég ætla í það minnsta að leggja leið mína á þennan stað aftur á komandi sumri, sama hvað hver segir.
Svona til að hnýta endahnútinn á þessa grein, þá mættum við tveimur veiðimönnum rétt í þann mund að við vorum að taka okkur saman þennan dag. Vinsamlegri fyrirspurn um afla svöruðum við eins jákvætt og okkur var unnt og sögðumst ekki hafa orðið vör, en það væri örugglega fiskur þarna, rétt eins og í vatninu öllu að meira eða minna leiti. Vonandi hafa þessir veiðimenn verið heldur heppnari en við en eitt er víst, næst prófa ég síðar dags og þá mögulega á miðju sumri, það eru tímasetningarnar sem ég hef ekki enn reynt á þessum slóðum.
Yfirleitt er ég ekki mikið fyrir að mæla með notkun á plasti umfram það sem bráðnauðsynlegt er. Að halda bílnum þokkalega þrifalegum eftir veiðitúrinn er aftur á móti að mínu mati bráðnauðsynlegt. Það er fátt leiðinlegra heldur en staðin fiskilykt, sérstaklega þegar hún læðist aftan að manni úr skottinu.
Það er aðallega þrennt sem getur tekið upp á því að anga nokkuð hressilega í bílnum á heimleiðinni; háfurinn, vettlingarnir og fiskipokinn. Auðvitað reynir maður að skola þokkalega úr háfnum áður en honum er stungið í skottið á bílnum, sömu sögu er að segja um fiskinetið, en það er eiginlega alveg sama hvað maður skolar vel, lyktin fer oftast ekki við fyrsta skol. Svipaða sögu er hægt að segja um vettlingana, ef eitthvað drekkur í sig fiskilyktina þá eru það þeir.
Þá getur komið sér vel að vera með góðan plastpoka í bílnum, stinga öllu í hann áður en lagt er af stað heim og tryggja sæmilega lokun. Bara alls ekki gleyma að tæma pokann og skola innihaldið þegar heim er komið. Slím og roðleifar af fiski eru fljót að gerjast og ekki þarf að líða langur tími þar til allt er ónýtt. Ég hef haft þá reglu að nota sem minnst af kemískum efnum við þrif á veiðarfærum, heitt vatn í vaski og svo út á snúru til þurrks (það rignir jú aldrei á Íslandi) og þá er maður í góðum málum þegar næst er haldið til veiða.
Nú þegar veturinn er genginn í garð, þá horfir maður með söknuði til sumarsins sem leið. Einhverra hluta vegna er sumarið ein samfella blíðviðris í mínum huga og sjaldan jafn margir fiskar komið á land í eins góðu veðri. Nei, ég er ekki búsettur á norð-austurlandi og raunar fór ég ekkert norður yfir heiðar vegna annríkis hér fyrir sunnan og ekki austar en Klaustur.
En þar með er ekki sagt að allt sem ég upplifði s.l. sumar hafi verið mér byr í seglin. Nei, hreint ekki. Ég átti mínar fiskilausu stundir á meðan veiðifélagi minn setti í hvern fiskinn á fætur öðrum rétt við hlið mér. Ein slík stund kemur upp í huga mér; Langavatn í Veiðivötnum. Þarna stóðum við hjónin hlið við hlið í Langavatnskrika, bæði með stuttan bleikan nobble undir, hún með sægsökkvandi línu, ég með heldur hraðari. Ég tók svo sem fisk, en ég þurfti yfirleitt fimm köst áður en ég varð var, hún setti í fisk í hverju kasti. Þegar svo botninn datt endanlega úr veiðinni hjá mér, bauð frúin mér að reyna sína stöng og sinn stað. Þó það væru aðeins 4-5 metrar á milli okkar, lét ég til leiðast og setti mig bókstaflega í spor frúarinnar. Og viti menn, ekkert gerðist.
Í huga mér tók vísindaleg úttekt á aðstæðum og aðferðum við. Köstin okkar voru svipuð að lengd, stefnan sú sama, stóðum í sömu sporum og köstuðum til sömu áttar. Um mismun á búnaði var ekki að ræða þar sem ég var jú með hennar stöng, línu, taum og flugu. Hvað er þá eftir? Jú, inndrátturinn. Ég dró inn með mínum venjulega hætti sem hefur alveg dugað mér hingað til; miðlungs lengd með miðlungs hraða. Hún aftur á móti dró stutt, ótt og títt. Raunar má segja að á minn mælikvarða hafi hún verið að draga alveg brjálæðislega hratt.
Það er svo sem ekki hægt að segja að ég hafi misst svefn yfir þessari niðurstöðu minni, en mér var nokkuð oft hugsað til þessa þegar ég var á bleikjuslóð með bleikan nobbler undir það sem eftir lifði sumars. Svo kom aftur að því að ég fékk ekki fisk á meðan hún mokaði. Ég snéri mér örlítið undan og tók til við að herða töluvert á inndrættinum. Þegar ég var alveg við það að ná eigin þolmörkum var tekið með látum. Humm, jú kannski ég hafi alltaf dregið aðeins of hægt þegar bleikur er undir. Kannski má maður bara alls ekki gefa bleikjunni tíma til að virða þennan óskapnað fyrir sér sem bleikur nobbler er.
Inndráttur
Ummæli
18.11.2014 – Þórarinn (silungsveidi.is): Já, maður hefur nú verið þarna. Veiddi með mági mínum í Þingvallavatni úti í eyju í Vatnskotinu, á meðan ég fékk 4-5 fiska fékk hann 20 kíló! Hann er jú reyndar veiðikló en við vorum sem sagt hlið við hlið, með flotlínur, langan taum og svartar litlar flugur. Hef hugsað mikið um þetta og held að það hljóti í þessu tilfelli að vera mismunandi næmni og kannski sjötta skilningarvitið sem menn fá þegar þeir hafa veitt mikið. Hann hefur fundið tökurnar betur og fundið á sér hvenær hann ætti að reisa stöngina. Við höfum hugsanlega fengið jafn margar tökur en hann bara kippt í á réttum tíma.
Svar: Kannski er þetta einmitt það sem gerir stangveiðina svona skemmtilega og ekki hve síst að vera á tánum og fylgjst með öðrum, hvernig þeir bera sig að og hvað þeir gera.
Á sínum tíma sagði leiðbeinandinn við litla karate strákinn; Wax on, wax off en í þetta skiptið látum við vaxið liggja. Þegar hausta tekur, er lag að huga að græjunum eftir sumarið. Haustið er að mörgu leiti miklu betri tími til að standsetja græjurnar fyrir næsta sumar heldur en að vorið því þá er sprengurinn oft svo mikill að komast í fyrstu veiðina að menn gefa sér ekki tíma til að yfirfara græjurnar eins vel og menn ættu að gera.
Eitt af því sem veiðimenn sinna e.t.v. ekki sem skildi eru samsetningar stanganna. Með tíð og tíma víkka hólkarnir þannig að vatn og óhreinindi eiga greiðari leið inn að kjarna stangarinnar heldur en æskilegt er. Auðvitað ættu allir að gæta að samsetningunum á meðan veitt er, sumir segja á hverjum hálfum tíma í veiði, aðrir láta sér nægja að þrýsta stönginni saman í hvert skipti sem skipt er um flugu eða hugað að taum.
Þegar búið er að yfirfara stöngina; lykkjur og kork, er ekki út vegi að rjóða örlitlu vaxi á samsetningarnar. Venjulegt kertavax er alveg prýðilegt til þessara nota og það þarf alls ekki mikið, oft er minna betra. Vaxið þjónar tvíþættum tilgangi. Fyrir það fyrsta þéttir það samsetningu og svo kemur það í veg fyrir að stöngin ‚grói‘ saman eins og stundum vill gerast, vax á samsetningu hindrar þennan samgróning.