Það hefur ekkert farið framhjá þeim sem séð hafa að ég er enginn kastsnillingur, en mér er svo sem ekki alls varnað heldur, held ég. Síðast þegar ég leitaði mér aðstoðar og fékk slatta af skömmum var mér bent á að kasta undir flatt, þ.e. kasta fram og til baka með stöngina í láréttu plani. Galdurinn við þessa æfingu er sá að horfi maður ofan á línubogann sem myndast í fram- og afturkastinu gerir maður sér betri grein fyrir því hvenær og hvernig kasthjólið myndast. Þegar maður hefur náð tökum á þessu kasti; lárétt, fram og til baka, þá má færa sig og kastið upp á skaftið þangað til maður er farinn að kasta nokkuð ‚eðlilega‘ með stöngina í lóðrétta. Til að auka enn meira á færnina má færa úr láréttu kasti frá hægri hlið, upp og yfir á þá vinstri þar til stöngin er aftur í láréttu plani.
Ef eitthvað hefur hjálpað mér að ná stjórn á stærð kasthjólsins, þá er það þessi æfing. En fyrr átti ég á dauða mínum von heldur en notað þetta kast í veiði. Jú, ég hef svo sem fært stöngina í lárétt plan til að ná undir vind en í sumar fannst mér ég endilega þurfa að ná kasti meðfram bakkanum mér á hægri hönd. Vandamálið var bara að ég eini staðurinn sem ég gat tyllt niður fæti á var smá bleðli á milli hárra steina sem gengu alveg fram í vatnið.

Undir þessum kringumstæðum kom sér vel að geta laumað stangarendanum út fyrir steinana og kastað með landi þangað sem ég taldi fiskinn vera. Það var að vísu enginn fiskur þarna þegar til kom, en ég var samt sem áður nokkuð sáttur við kastið og ekki síst að hafa munað eftir æfingunni.
Senda ábendingu